19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það í sambandi við þetta frv. að mikla nauðsyn ber til þess að efla sjálfstæða rannsóknastofnun með starfsemi úti á landi og einnig þarf að gefa því meiri gaum og fylgja því fastar eftir en gert hefur verið að opinberar stofnanir verði staðsettar á öðrum stöðum en á stór-Reykjavíkursvæðinu. Fyrir utan það að hér er hreyft athyglisverðu og nauðsynlegu máli með hliðsjón af eflingu lífefnaiðnaðar hér á landi er áhersla lögð á að miðstöð slíkrar rannsóknastarfsemi verði á Akureyri, sem ég tel jákvætt, og er það ástæðan fyrir því að ég gerist meðflm. að þessu frv. Ég vil leggja áherslu á að sú þingnefnd sem fær málið til meðhöndlunar athugi þetta mál ofan í kjölinn og geri sér grein fyrir hvernig að þessu þýðingarmikla máli skuli staðið.

Ég vil í öðru lagi leggja áherslu á að Akureyri hefur frá fornu fari verið mikil menningar- og skólamiðstöð. Út af ummælum hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég jafnframt leggja áherslu á það að að minni hyggju er kannske brýnasta málið fyrir skólabæinn Akureyri um þessar mundir að efla verkmenntaskólann sem þar er verið að byggja og nauðsynlegt í tengslum við hann að stuðla að því að almenn iðnþróun geti gerst í tengslum við þann skóla, í nágrenni við hann verði skipulagt sérstakt svæði fyrir iðnfyrirtæki og með samstarfi þeirra fyrirtækja sem munu rísa við verkmenntaskólann, gagnkvæmum tengslum, takist að hrinda fram verulegri iðnþróun þar nyrðra, enda sýnir reynslan að annars staðar á landinu er ekki vænlegra að nýjar iðngreinar skjóti rótum.

Ég vil í þriðja lagi leggja áherslu á að flutningur till. af þessu tagi eða tal um lífefnaiðnað eða iðnþróun almennt þar nyrðra má ekki láta í gleymsku falla þá höfuðnauðsyn að myndarlegt fyrirtæki rísi hið skjótasta við Eyjafjörð sem geti orðið byggðarlögunum þar næg vítamínssprauta til þess að byggðir þar fari aftur vaxandi og meiri bjartsýni gæti þar en verið hefur um hríð. Ég hef orðið var við að ýmsir fulltrúar ýmissa stjórnmálaflokka telja sjálfsagt að stóriðjufyrirtæki rísi beggja vegna við Eyjafjörð, bæði á Húsavík og í Skagafirði, en á hinn bóginn virðast fulltrúar ýmissa flokka reyna að slá keilur með því að stinga Eyjafjörð svefnþorni í þeirri atvinnuuppbyggingu sem nú er hvað hröðust og mest á dagskrá. Ég vil þess vegna, um leið og ég legg áherslu á að þingnefnd taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, leggja áherslu á hitt, sem raunar kom fram í máli flm. hér áðan, að þetta frv. dregur ekki úr nauðsyn uppbyggingar á nýjum iðnaði, nýiðnaði, þar nyrðra og getur ekki orðið til þess að draga úr þeirri áherslu sem þm. Norðurl. e. hljóta að leggja á stóriðjuver við Eyjafjörð ef þeir vilja vera trúir því byggðarlagi sem þeir eru kjörnir á þing fyrir.