19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum og misserum hafa málefni líftækni eða lífefnaiðnaðar verið mjög til umræðu þegar rætt hefur verið um nýskipun atvinnulífs í landinu. Það er sjálfsagt að vonum því að hefðbundnir atvinnuvegir eiga við ýmiss konar erfiðleika að etja og þá er von að menn hyggi að því hvað framtíðin ber helst í skauti sér og reyni að finna leiðir til úrbóta og til að efla fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

Málefnum lífefnaiðnaðarins var líklega fyrst hreyft hér á Alþingi fyrir þremur eða fjórum árum er nokkrir þm. Framsfl. lögðu fram till. til þál. um lífefnaiðnað. Því miður varð minna úr framkvæmdum í framhaldi af samþykkt þeirrar till. en æskilegt hefði verið, en nú hefur þessi umræða vaknað aftur í þjóðfélaginu og er mikið rætt um þá framtíð sem lífefnaiðnaðurinn gæti átt og þá möguleika sem kunna að vera hér á Íslandi fyrir rannsóknir og úrvinnslu ýmiss konar á þessu sviði.

Ég held að mjög þýðingarmikið sé að okkur takist að samræma og sameina krafta allra þeirra rannsóknaraðila sem við höfum hér í landinu til að undirbúa vel þessa atvinnugrein því að ég þykist þess fullviss að hún eigi mikla framtíð fyrir sér.

Á fundum sem undirnefnd fjvn. Alþingis hélt með ýmsum rannsóknastofnunum atvinnuveganna síðari hluta sumars kom mjög skýrt fram hjá öllum að þeir bundu miklar vonir við þessa atvinnugrein og allir höfðu uppi hugmyndir um rannsóknir á þessu sviði og óskir um fjárveitingar til verkefnisins. Við nm., sem sátum á þessum viðræðufundum, lögðum á það áherslu að rannsóknastofnanir atvinnuveganna sameinuðu þar krafta sína og reynt yrði að gera átak sem skilaði verulega markvissri vinnu svo að það fjármagn sem varið yrði til þessara rannsókna nýttist sem best. Reyndar kom þar líka fram, sem einnig er getið í fskj. með þessu frv., að þá þegar hafði Rannsóknaráð ríkisins skipað starfshóp til að vinna að þessum verkefnum. Nú nýlega komu á fund fjvn. fulltrúar þriggja eða fjögurra stofnana, sem höfðu þá unnið gott starf til undirbúnings að þróunarverkefni, og báru upp óskir um fjárveitingar til að geta hrundið fram þeim rannsóknum og hugmyndum sem þeir voru með. Þar voru á ferðinni Iðntæknistofnun Íslands, Háskóli Íslands, Líffræðistofnun Háskólans og Raunvísindastofnun Háskólans, ef ég man rétt, svo og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Þá vil ég einnig minna á að í fyrirheitum ríkisstj. um verulegt fjármagn til þróunarverkefna á sviði nýsköpunar í atvinnulífinu er einmitt um það rætt að verja til ýmiss konar upplýsingastarfsemi og þróunarverkefna verulegu fjármagni. Rætt hefur verið um allt að 500 millj. kr. Auðvitað ætti lífefnaiðnaðurinn að fá verulegan skerf af því fjármagni til að undirbúa þessa framtíðaratvinnugrein. Við vitum að hér er um að ræða mikilvægar rannsóknir, en eru skammt á veg komnar. Hér er trúlega ekki um verkefni að ræða sem gerist á næstu mánuðum. Líklega er eðlilegra að hugsa í árum og svo mun sjálfsagt verða. Varðandi þetta frv., þegar við ræðum um að stofna sérstaka rannsóknastofu til að vinna að þessum verkefnum, vil ég leggja aftur og enn áherslu á að menn samræmi og sameini þá krafta sem kunna að vera fyrir í landinu.

Ég vil taka undir það, sem kemur fram í málflutningi flm. með frv. þessu, að vissulega er þörf á að dreifa þjónustustarfsemi í landinu víðar en gerst hefur að undanförnu. Nánast öll þjónustustarfsemi, hvort sem hún er á sviði rannsókna eða á öðrum sviðum, er hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á ekki eingöngu við um þetta tiltekna mál heldur almennt. Þar bera stjórnvöld undanfarinna ára sjálfsagt öll sameiginlega ábyrgð. Þó oft hafi verið um það rætt að þjónustu bæri að dreifa hefur minna orðið úr því, minna orðið um efndir, meira verið um orð. Ég legg því áherslu á að sú n. sem fær þetta mál til athugunar skoði sérstaklega hvort rétt sé og skynsamlegt að setja á fót slíka rannsóknastofu t.d. á Akureyri eins og hér er lagt til.

Að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um hvort setja bæri upp háskóla á Akureyri eða færa hluta af starfsemi Háskóla Íslands til Akureyrar. Ég held, og vil minna á það hér í þessum umræðum einnig, að það sé fyllilega þess virði að skoða það mál ítarlegar og ýmislegt fleira mætti hugsa um. Þetta frv. vekur okkur einmitt til umhugsunar um hvort ekki sé nú, og kannske aldrei fremur en nú, ástæða til að huga að einmitt þeim sjónarmiðum að dreifa þjónustu meira um landið en gert hefur verið.

Ég legg því til fyrir mína parta að iðnn. hugi vel að því, jafnframt því sem hún skoðar það mál ítarlega hvort stofna beri sérstaka rannsóknastofu á þessu sviði til samræmingar og til þess að sameina þá krafta sem við höfum á þessu sviði, hvort þessi starfsemi, ef af verður skuli hafa sitt aðsetur á Akureyri. Það kom einnig fram í umr. hér áðan að tækni er orðin svo mikil á ýmsum sviðum samskipta, s.s. fjarskipta ýmiss konar eins og upplýsingamiðlunar milli staða eftir ýmsum leiðum, að það ætti ekki að hamla hér eða torvelda. Ég hygg að það gefi einmitt tilefni til að athuga í nýju ljósi að setja stofnanir niður víðar um land en verið hefur á undanförnum árum.