20.11.1984
Sameinað þing: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

Umræður utan dagskrár

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jóni B. Hannibalssyni, nýráðnum skipstjóra á mb. Alþýðuflokki, var mikið niðri fyrir, skiljanlega. Það er út af fyrir sig ekki undrunarefni að hv. þm. kjósi að greina frá nýjum veiðarfærum Alþfl., en tilefnið er óskynsamlegt, a.m.k. tillitslaust við þingið, það mál sem hér er til umræðu og þennan fund. Ég mun hins vegar reyna að fara að tilmælum forseta og stytta mál mitt svo sem unnt er.

Vegna gengisfellingar hæstv. ríkisstj. vil ég taka fram eftirfarandi: Þessi gengisfelling er ódrengileg aðgerð. Henni er ætlað það eitt að ónýta nýgerða kjarasamninga og dylja skipbrot ríkisstj. Það er skoðun mín að drengilegra hefði verið að afnema samningsréttinn með lögum strax í haust. Hér skal ítrekuð sú skoðun að 15 þús. kr. mánaðarlaun eru ekki lág laun. 15 þús. kr. mánaðarlaun eru engin laun. 25 þús. kr. laun eru hins vegar lág laun. Ríkisstj. bar að leita færra leiða til að koma til móts við brýnar þarfir launþega í landinu með því að stíga út úr þeim sporvagni eymdarinnar sem á sér ekki aðra áfanga en að krukka í kaupið og fella gengið. Þessu ráðþroti ríkisstj. er stefnt gegn þjóðinni.

En ég spyr: Hvað er verið að laga eða hvern er verið að blekkja? Hverjar eru pólitískar forsendur aðgerða af þessu tagi? Rétt væri að spyrja t.d. hæstv. forsrh.: Hver voru gjaldeyriskaup ríkissjóðs s.l. föstudag? Það er ljóst að þessi gengisfelling eins og aðrar er að þeim hluta þjóðinni að kenna að hún kýs andlausa kontórista til að stjórna landinu. Orsakanna er ekki að leita í verkföllum og nýgerðum kjarasamningum, heldur í pólitísku náttúruleysi manna sem hugsa eins og bókhaldarar. Á þessu verður engin breyting fyrr en fólkið í þessu landi kýs svo.

Herra forseti. Það kom fram í blöðum fyrir helgina að skuldir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar næmu 1 milljarði kr. Sjálfsagt hefur hæstv. iðnrh. sent þeim heillaskeyti með hamingjuóskum með 1200 millj. sem þeir skulda að öllum líkindum í dag. Sama gildir um útgerðina í landinu, Landsvirkjun og ríkissjóð sjálfan. Það hlýtur þó að vera þjóðinni og launþegum öllum töluverð huggun og von að fyrir dyrum standi svokallaðar hliðarráðstafanir og mildandi aðgerðir þar sem hagur hinna verst settu — þ.e. þjóðarinnar allrar — verður settur á oddinn.

BJ hafnar þeirri pólitísku eymdarheimspeki sem liggur að baki aðgerðum af þessu tagi. Gengisfelling sem pólitískt stjórntæki er ónýt og þessi þjóð hlýtur að eiga betri og hæfari stjórnmálamenn skilið.