15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég mun fjalla hér um það umræðuefni sem vakið var máls á í upphafi þessara umr., enda lít ég svo á að hitt umræðuefnið sé í rauninni ekki komið á dagskrá (Forseti: Það er ekki dagskrá.) eða komið til umfjöllunar utan dagskrár.

Það var auðvitað ágætt að hæstv. fjmrh. skyldi biðja kennara afsökunar á því að hann hefði móðgað þá og góðra gjalda vert. En hitt er það að ekki vitum við hvaða ummæli hafa verið dregin til baka. Hafa þau ummæli verið dregin til baka að hér sé forréttindahópur á ferðinni? Ekki kom það skýrt fram. Hafa þau ummæli verið dregin til baka að þessi þjóðfélagshópur yrði að vera viðmiðunarhæfur við aðra í þjóðfélaginu? Ég gat ekki heyrt það á ræðu hæstv. fjmrh. Þvert á móti gerði hann að umræðuefni og tönnlaðist hér aftur á einhverjum 26–30 klst. sem mönnum bæri að hafa til viðmiðunar. Og þegar upplýst var að vinnuskylda væri 46 klst. eða svo sagði hann að það mál þyrfti nú reyndar að kanna. Þó er það svo að þessar síðastnefndu klst. eru það sem upp er talið í kjarasamningi kennara og liggur fyrir opinber blessun á. Þetta er það sem ríkið hefur sjálft samþykkt. Ég hélt að hæstv. ráðh. gæti viðurkennt það. En svo var ekki. Þetta þurfti að kanna nánar.

Hæstv. ráðh. gerði að umræðuefni að kennsluskylda á viku hjá kennurum hefði minnkað frá árinu 1975. Var það með andstöðu ríkisins sem sú kennsluskylda minnkaði? Var það vegna þess að kennarar vildu alls ekki frekar sjá launahækkun en styttingu kennsluskyldu á hverri viku? Var þetta eindregin krafa kennaranna og var þetta eitthvað sem ríkið varð því miður að kyngja? Ekki hefur það komið fram. Getur verið að kröfur til kennara hafi vaxið frá árinu 1975? Getur verið að eitthvað hafi breyst í þjóðfélaginu frá þessum tíma?

Hæstv. fjmrh. gerði því skóna að launakjör kennara væru léleg af því að það útskrifuðust svo margir kennarar. Samkvæmt þessu mætti álíta að það ætti sér stað opinbert uppboð einhvers staðar á kennurum þar sem þeir byðu hvern annan niður og ríkið hefði í raun og sannleika ekkert með það að gera hver kjör kennaranna væru, þeir væru svo fúsir til þess að komast í vinnu að þeim væri svo sem sama hver kjörin væru. Mér fannst þetta ekki lýsa hinum réttu viðhorfum eða skilningi á því starfi sem kennarar gegna í þessu þjóðfélagi og mikilvægi þess.

Hæstv. ráðh. talaði líka um að þjóðfélagið hefði ekki efni á að ráða allt þetta menntaða fólk til starfa. Þetta er allt annað umræðuefni og ég skal ekki fjalla um það. Ég ætla bara að segja eitt, að í þessum ummælum felst að Íslendingar séu of menntaðir. Hingað til höfum við talið það okkur til gildis að vera sæmilega menntaðir og mér er stórlega til efs að við séum eitthvað betur menntaðir en gerist og gengur meðal þjóða heims. Þetta held ég að sé sérstakt íhugunarefni þegar fram kemur staðhæfing af þessu tagi, en þetta er allt annað umræðuefni og ég skal ekki gera því frekari skil.

Það var einkennilegt í ræðu hæstv. menntmrh. að jafnframt því sem hann las upp hver vinnuskylda kennara væri, hvert vinnuálag þeirra væri, lét hann ekki í ljós neina skoðun á því hvort þetta væri eðlilegt eða rétt. Það væri fróðlegt að vita hver skoðun hæstv. menntmrh. er á því hvort hér sé um óeðlilega lítið vinnuframlag að ræða eða ekki. Það er enn þá frekar ástæða til þess að hæstv. menntmrh. geri grein fyrir því vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur virkilega gert því skóna að þetta vinnuframlag sé allt of, allt of lítið.

Hæstv. menntmrh. talaði um að fara þyrfti fram starfsmat á störfum kennara. Gott og vel. En það kom hvergi fram í orðum hæstv. menntmrh. hvort það væri vegna þess að kjörin væru of léleg hjá kennurum eða hvort þau væru bara allt í lagi. Hæstv. menntmrh. lét enga skoðun í ljós um það. Þó held ég, miðað við það hvernig þessi umræða hefur verið og hver aðdragandi hennar er og hvernig skoðun ríkisstj. hefur verið túlkuð af hæstv. fjmrh. í þessu efni hingað til, að það hefði verið fyllsta ástæða til þess að sá ráðh. sem hefur með menntun að gera léti í ljós skoðun sína á þessu efni. Undansláttur var því miður einkennið á ræðu hæstv. menntmrh.

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. talaði um að hann óskaði eftir því að menn kyntu ekki eldana með ummælum sínum hér í dag. Ég held að hæstv. menntmrh. hefði getað lægt þá öldu, sem risin er, ef hann hefði skýrt og skorinort skýrt frá því hver skoðun hans væri varðandi vinnuskylduna, hver skoðun hans væri varðandi starfsframlag kennara, hver skoðun hans væri varðandi kjör kennara. Þá hefði hæstv. menntmrh. komið þessum efnum til skila og lagt fram sitt til að lægja öldurnar. Sá undansláttur, sem hæstv. menntmrh. tíðkaði hér, varð ekki til þess að bæta það ástand sem uppi er í þjóðfélaginu. Þess vegna gleymdi hæstv. menntmrh. að lifa eftir þeirri bón sem hann bar hér fram.