20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég talaði við 1. umr. þessa máls og skal svo sem ekki endurtaka neitt af því hér. En það voru fáein orð sem hv. 3. þm. Norðurl. v. mælti hér áðan sem gáfu mér tilefni til að segja örfá orð. Hann talaði um að Alþfl. hefði á sínum tíma staðið að og borið ábyrgð á þeim samningum sem upphaflega voru gerðir. Það er auðvitað hárrétt. Og ég hygg að í ljósi síns tíma og þeirra aðstæðna sem þá voru, bæði í hinum alþjóðlegu gengismálum og einkum þó að því er varðaði alþjóðlegt orkuverð þá, hafi það verið góðir samningar. Þessa skoðun hef ég enn.

Hv. þm. vék síðan að því að við hefðum gagnrýnt vinnubrögð iðnrh. Alþb., hv. núverandi þm. Hjörleifs Guttormssonar. Það er alveg rétt. Og við gagnrýnum þau vinnubrögð enn. Þau voru hreint ekki til fyrirmyndar. Hv. þm. tók þannig til orða um þá sem væru andvígir þessum samningi að þeir hefðu skipað sér við hlið Alþb. Þetta er rangt. Þó svo að við Alþfl.-menn greiðum atkvæði gegn þessum samningi þá höfum við ekkert skipað okkur við hliðina á Alþb. í því máli. Fulltrúi Alþfl. í iðnn., hv. þm. Magnús H. Magnússon, skilaði sérstöku nál. Hitt er svo aftur hárrétt hjá hv. þm. að það hafa aðrir skipað sér við hlið Alþb. í þessu máli, Samtök um kvennalista, sem ævinlega sitja við hlið Alþb. í öllum málum og heyrir nú ekki til neinnar nýlundu hér á þingi að þarna verður ekki lengur skilið á milli með neinum hætti. Ég vildi bara að þetta kæmi hér skýrt fram.

Auðvitað er sá samningur sem lagður er hér fyrir nú til synjunar eða samþykktar ekki alvondur. Því höfum við ekki haldið fram. Við höfum hins vegar haldið því fram, og á því byggist okkar afstaða, að á honum séu mjög veigamiklir annmarkar í ýmsum greinum. Ég gerði grein fyrir því hér við 1. umr. málsins og það kemur einnig fram í nál. hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar. Þetta fannst mér rétt að láta koma hér fram.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, ítreka það sem hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði, að við munum ekki gera neitt til þess að tefja fyrir framgangi þessa máls hér. Það er lagt fyrir til synjunar eða samþykktar. Við höfum greint frá okkar afstöðu og við munum ekki tefja málið með neinum hætti. Það eru ekki eðlileg vinnubrögð að okkar mati.

Hins vegar skal ég svo að síðustu láta þess getið að ég mun ekki taka þátt í atkvgr. núna þar sem einn af hv. þm., stuðningsmönnum ríkisstj., fór þess á leit við mig að við létum jafnast. Hann þurfti að vera fjarverandi vegna fyrri skuldbindinga. Taldi ég eðlilegt og ekki ósanngjarnt að verða við þeim tilmælum eins og venja er hér í þingmannahópnum þegar þannig stendur á. Þetta vildi ég aðeins að lægi ljóst fyrir.