20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þdm. að láta sér ekki ofbjóða þó ég sé hér með allþykkan skjalabunka með mér. Til trausts og halds tók ég hér gömul Alþingistíðindi, þ. á m. sérprentun á frv. til l. um leiðréttingu orkuverðs til Íslenska álfélagsins upp á 360 bls., sem voru fskj. og rökstuðningur með frv.-gerð Alþb.-manna á sínum tíma í þessu máli. Geri ég þetta nú aðeins til að fá sögulega upprifjun en vík kannske örfáum orðum að því seinna.

En hv. 6. landsk. þm., Magnús H. Magnússon, lýsti afstöðu Alþfl., sem vissulega kemur mér á óvart og veldur mér vonbrigðum, en ekkert er um það að segja. Það er að vísu svo að flokkum hættir dálítið til sveiflu, mikillar sveiflu eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. En þegar maður rifjar það upp að hans flokkur ásamt mínum gerði á sínum tíma samninga til 25 ára án endurskoðunarákvæðis, þá verður mér dálítið um að heyra talsmenn Alþfl. gagnrýna sérstaklega endurskoðunarákvæði á fimm ára fresti, eins og nú er og biðja um verðtryggingarákvæði o.fl. Þetta munu hafa verið 2.5 mill sem þá var samið um. En þá lifðum við á allt öðrum tímum. Og ekki er ég hingað kominn til þess að gagnrýna þá samningsgerð á sínum tíma. Hún var áreiðanlega frumforsenda einhverrar mestu byltingar í orkumálum og með langmestu byltingum í orkumálum, og einnar mestu byltingar í atvinnumálum og atvinnusögu þessa lands á síðustu áratugum sem við höfum lifað. Á þessu er enginn vafi. Frumforsenda alls þess sem á eftir fór í beislun íslenskra fallvatna, sem er eins og ég segi — og Kvennalistinn þarf að fara að æfa sig á því — ein af undirstöðum þess að við getum búið betur um okkur í landinu en við gerum nú. Að hlusta á þessar blessaðar konur tala um ótímabærar virkjanir, þar sem þetta er augljóslega einn af hornsteinum þess að við getum búið hér við vaxandi hagsæld, er dapurlegt, ungar myndarkonur. En þær hafa kosið sér þessa afstöðu og er ekkert við því að segja að sjálfsögðu.

Ég ætla ekki að elta ólar við útreikninga og meðferð manna á tölum. En það er hreint og beint með ólíkindum að heyra þá talnaromsu sem menn hafa uppi og búa sér til í þessu máli, fram og aftur og út og suður, upplýsingar sem þeir gefa sér sjálfir og nefna jafnvel virðuleg fyrirtæki eins og Íslandsvirkjun sem heimild. Ég elti ekki ólar við þetta.

En það var eftir öðru að hv. 4. þm. Vesturl., frsm. 3. minni hl., hóf upp tölu um hækkun í hafi, 47.5 millj. dollara. Heyrði ég það ekki rétt? (SkA: Jú, jú.) Hjörleifur Guttormsson var með þessa tölu í fyrsta tilhlaupi. En í hverju endaði hann? Og vilja menn nú ekki reyna aðeins að fara með eigin tölur þannig að trúverðugt sé. Hann endaði í kröfunni 16.2 millj. dollara. Þessu getur Alþb. flett upp hjá sér. Það er vafalaust í þessum ógnardoðrant hér að sjá. Allt tilhlaupið endaði nefnilega þannig að þeir urðu að gefa eftir í kröfum sínum, Alþb.-menn.

Hitt er annað mál, virðulegi forseti, að ég hlýt mjög að draga við mig allar stórárásir eða stórþrætur nú, vegna þess að þetta mál snýr svo einkanlega að fyrrverandi iðnrh., hv. 5. þm. Austurl., að ég hlýt þess vegna að geyma mér að mestu allar frekari útlistanir nú eða þrætubókarlist um málið, vegna þess að ég geri mér vonir um það að hv. þm. verði mættur til leiks þegar þetta mál verður til meðferðar í Nd. þar sem hann á sæti. Því að ég þarf ekki að lýsa því fyrir þeim sem þekkja alla forsöguna að svo rækilegur málsvari hefur hann verið í málinu af hálfu síns flokks að það á ekki við að ég þæfi þetta mál um of, einnegin vegna þess hvernig stendur á um tíma, og menn hafa vikist vel undir það að við reynum að ljúka báðum síðari umr. þessa máls í hv. deild.

Það hefur verið mikið rætt um dómsáttina. Ég rifjaði upp við 1. umr. málsins hvernig það mál allt var í pottinn búið. Ég vitnaði til bréfa frá endurskoðunarfyrirtækinu Coopers & Lybrand, sem menn eru nú allt í einu hættir að nefna en hv. 3. þm. Norðurl. v. margtók fram að væri mjög traust og virðulegt endurskoðunarfyrirtæki. Það fyrirtæki skrifaði okkur til á miðju sumri 1983, þar sem það hvatti eindregið til þess að reyna að þoka sér út úr málaferlunum og ná sáttum í málinu. Taldi það til þess margháttuð rök og mátti vera best kunnugt um það hvernig það mál allt var í pottinn búið.

Þetta var auðvitað ekki hægt að upplýsa meðan á allri þessari þrætu stóð því að þær röksemdir sem þar voru færðar fram hefðu auðvitað orðið málstað Alusuisse til góða. Niðurstöðu höfðum við náð. Og ég minni enn á meðmæli aðalráðgjafa fyrirrennara míns í dómsmeðferðinni fyrir alþjóðagerðardóminum í New York, Liptons. Hann skrifar einnig bréf, sem ég vitnaði til, þar sem hann lýsti yfir sinni afstöðu til þess að hann teldi þetta mjög vel viðunandi lausn sem við náðum með dómsáttinni sjálfri.

Menn verða svo að meta þetta að eigin vild og smekk. En að kalla það að ekki hafi náðst dómsígildi með sátt í úrslitum máls er gagnstætt öllu mínu áliti. Vegna þess að það eru auðvitað bestu úrslitin ef menn ná að sættast í máli þannig að báðir geti vel við unað.

Við höfum meðmæli hinna færustu manna og þeirra sem gerst til þekkja í málafærslu af þessu tagi og málsatvikum eins og Coopers & Lybrand hafði. Þess vegna var það að þegar ég sá eins og málum var þá komið hvernig mál stóðu þá var ég hiklaus í þeirri ákvörðun minni að gera þessa sátt, sem og varð til þess að við náðum fram hækkun orkuverðsins miklu fyrr en ella.

Menn þykjast vita um það, sem er gersamlega úr lausu lofti gripið, að við höfum verið komnir eitthvað nærri því að fá niðurstöðu í dómnefndunum. Því fór víðs fjarri. Ég er sannfærður um það að þeir höfðu alla tilburði til þess, lögmenn Alusuisse, að þæfa það mál um lengri, lengri tíma. Það sýndi sig að í dómnefndinni í New York höfðu þeir ekkert lipurlegri handatiltektir og voru ekkert léttari í vöfum í allri málafærslunni en maður gat búist við fyrir hinum alþjóðlega gerðardómi, þar sem menn höfðu áralanga reynslu af því að mál gátu tekið fjölda ára í meðferð. Og raunar er það líka upplýsandi að af öllum þeim ótal málum, sem sótt hafa verið og varin fyrir alþjóðagerðardómnum um slík fjárfestingarmál í New York, eru þau mál teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa komið til dómsniðurstöðu, því að yfirgnæfandi flest þeirra hafa hlotið sáttarniðurstöðuna.

Ég rifjaði upp hér við 1. umr. til hvers bráðabirgðasamningurinn frá 23. sept. í fyrra hefði leitt fyrir orkuneytendur í landinu. Ég held ég megi fullyrða að ég hafi rifjað það upp. Það hækkaði verðið úr 6.475 millum í 9.5 mill eins og menn þekkja. Það varð til þess að hægt var að halda orkuverðinu í landinu til neytenda í smásölunni óbreyttu. Frá 1. ágúst 1983 til 1. ágúst 1984 hafði raungildi orkunnar lækkað til neytandans um 15.8%. Við höfðum haft það að stefnumarki og miði, og höfðum leitað til þess raunar til Landsvirkjunar, að haldið yrði áfram á sömu braut miðað við þá hækkun sem nú fæst. Þetta hefði leitt til þess með sama áframhaldi og miðað við þær verðlagsforsendur sem við gáfum okkur þá að 1. ágúst 1985 hefði raungildi orkunnar lækkað um tæp 24% til neytenda.

Nú eru forsendur allar breyttar. En eftir sem áður mun ég beita mér fyrir því að hinn almenni neytandi í landinu, sér í lagi sá sem býr við hið sára og þunga orkuverð til hitunar híbýla sinna, fái notið þess sem þessi samningur gefur okkur í aðra hönd. Ég segi ekki að það séu nein rök fyrir því sem ég hef staðið fyrir nú, þó ég vitni til þeirra tillagna sem Alþb. átti í þessu máli fyrir rúmu 11/2 ári síðan, til þess frv. sem þeir Alþb.menn fluttu á Alþingi í lok þinghaldsins, í mars trúlega, 1983, eftir að hin mikla þræta hafði staðið um málsmeðferðina alla, þar sem Framsfl. snerist gegn samstarfsflokki sínum í þessu máli, og öllum er í fersku minni, líka þeim sem hér áttu ekki sæti, svo mikið tók undir í öllu þjóðfélaginu vegna þeirra átaka.

Þeir fluttu frv. í Nd. hv. þm. Alþb. og Hjörleifur Guttormsson, hv. 5. þm. Austurl., í fararbroddi að sjálfsögðu. Hvað skyldi það frv. hafa innihaldið? Hverjar voru tillögur þeirra þá, fyrir rúmlega einu og hálfu ári, þar sem þeir höfðu nú jafnvel við orð að færa sig upp á skaftið og taka þetta fyrirtæki eignarnámi ef ekki vildi betur til.

Í 1. gr. segir: „Verð á raforku frá Landsvirkjun til Íslenska álfélagsins h.f. samkvæmt rafmagnssamningi dags. 28. júní 1966 með viðaukum dags. 28. okt. 1969 og 10. des. 1975 skal vera 12.5 mill.“ Kannast einhver við þessa tölu? (Gripið fram í: Lesa meira.) Ég á eftir að lesa meira. Það er ævinlega þannig að þegar maður tekur til við að ræða um málafærslu Alþb., og þarf nú ekki nema svona eitt og hálft eða tvö ár aftur í tímann, þá er allt sem þeir segja í dag pólitískt „boomerang“ á þá sjálfa miðað við það sem þeir héldu fram þá.

Nú held ég áfram, með leyfi virðulegs forseta.

Í 2. gr. þessa lagafrv. segir aðeins þetta: „Ákvæði í 13. gr. rafmagnssamningsins milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins hf. um orkuverð svo og önnur ákvæði í samningnum, sem fara í bága við ákvæði 1. gr. laganna, eru úr gildi numin.“ Það gefur auga leið og þarfnast ekki skýringar.

Síðan kemur 3. gr. og 4. gr. Nú byrjum við á 3. gr.: „Lög þessi falla úr gildi, þegar samningar hafa tekist milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um endurskoðun raforkuverðsákvæðis rafmagnssamningsins, sem að framan greinir.

Sú endurskoðun byggist á eftirfarandi:“ — Og nú eru þeir að semja við Alusuisse.

„a) Þeirri grundvallarstefnu, sem lögfest er í 11. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun að raforkuverð í samningum til langs tíma við stóriðjufyrirtæki megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið;

b) Raforkuverði því, sem álver annars staðar í heiminum greiða;

c) Framleiðslukostnaði raforku hér á landi; d) Heimsmarkaðsverði á áli.“

Nú nú, þetta er grunnurinn sem þeir ætla að semja um við Alusuisse. En ef það tekst nú ekki? Ef ekki tekst að semja við þrjótana á þessum grunni hvað ætlar Alþb. þá að gera? Það segir í 4. gr. hvað þá skuli til bragðs taka: „Fari svo, að ekki náist samningar um endurskoðun raforkuverðsákvæðis samkvæmt 3. gr. fyrir árslok 1983, skal stjórn Landsvirkjunar með stoð í þessum lögum ákvarða með gjaldskrá raforkuverðið til álversins í Straumsvík á bilinu 15–20 mill.“

Þetta ætluðu þeir að ákveða þegar þeir voru einráðir. Þegar öllu var lokið við Alusuisse, öllum tilraunum um samningsgerð á grundvellinum sem sagði í 3. gr., þá ætluðu þeir að taka einhliða ákvörðun um að raforkuverðið skyldi vera 15–20 mill. Var það hv. 3. þm. Norðurl. v. sem reiknaði út að 12.5 mill mundu verða orðin 4 mill eftir fimm ár eða þar um bil í þessum ruglingslegu, heimskulegu útreikningum sem enginn grundvöllur er fyrir eða botn í?

Menn kannast nú eitthvað við þessar tölur, 15–20 mill. Við erum með grunntöluna 15 í sérstakri formúlu sem er fyrir þessu og við náum fyrir þetta gamla álverð upp í 18.5. Hvar er svo verðtryggingin? Við hvað skyldi nú vera miðað þegar þeir eru orðnir einráðir? Þegar þeir eru að setja sér sjálfir lög um hvað skuli gilda. (Gripið fram í: Er ekki ákvæði til 20 ára?) Já, hvar ætli það sé nú? Hvar ætti séu endurskoðunarákvæðin í þessu líka? Við skulum lesa áfram. Ég er ekki kominn nema að því þar sem þeir hafa ákveðið að þegar þeir taka völdin og öllum samningum er slitið við Alusuisse, þá ætlar þeir að ákveða með lögum að verðið skuli vera 15–20 mill á kwst. „frá og með 1. jan. 1984 og breytist verðið eftir það í samræmi við breytingar á skráðu heimsmarkaðsverði á áli —.“ Hvers lags viðmiðun er þetta eiginlega? Er ekki verið að gagnrýna okkur fyrir það að hafa samið um formúlu sem tekur mið af fjórum tegundum álverðs, vestur í Bandaríkjunum hjá Alcoa, hjá Alcan, hjá Alusuisse og miðað við London Metals Exchange? Og svo heldur áfram: —„heimsmarkaðsverði á áli, eins og það er skilgreint í ákvæðum 20.02 í aðalsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. dags. 28. mars 1966“ með viðaukunum tveimur seinni.

Sem sagt, þarna var viðmiðunin og öll tryggingin þeirra, heimsmarkaðsverð á áli, eins og það var skilgreint í gamla samningnum milli Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands. Og svo er ekkert meira, — annað en það að lögin öðlist gildi. Hér er m. ö. o. það sein þeir lögðu til að gert yrði í málinu þegar þeir væru búnir að taka lögin í sínar hendur, búnir að slíta öllum samningum við Alusuisse, og einráðir. Þá var þetta óskaniðurstaðan þeirra í samningum, í því sem skyldi gilda fyrir þessi efni. Ég þarf engu við þetta að bæta. En ég sá mér ekki annars kost en benda á þetta eftir þá gagnrýni sem fram hefur komið frá talsmönnum Alþb. einkum og sér í lagi. Ég get nú ekkert verið að eiga orðastað við Kvennalistann, sem eru aftaníossur Alþb. í öllum málum svo að hvergi kemst hnífur á milli, og er eins og ég sagði hálfdapurlegt til þess að vita með svo myndarlegt fólk. Ég varð þess vegna að rifja þetta upp, sem sýnir eitt með öðru hvernig menn sveiflast til í afstöðu sinni, eftir því hvernig þeim finnst byrinn blása þá og þá.

Ég vísa því með öllu á bug að hér hafi menn dregið af sér við að ná þeim haldbestu samningum fyrir Íslands hönd sem hugsanlegt var í stöðunni. Ég hef engar áhyggjur af því að sagan dæmi mig fyrir það að hafa fyrirgert rétti og hagsmunum Íslands. Það geri ég ekki. Ég vísa til þess sem þeir segja sem gerst til þekkja í þessu, sérfræðingar og fyrirsvarsmenn Landsvirkjunar, sem meta það verð sem við höfum náð nú til stórfelldra hagsbóta fyrir Landsvirkjun, og þar með auðvitað þjóðina í heild vegna þess að Íslandsvirkjun er þar á ferðinni.

Ég minnist þess allt í einu að í lokin þarf ég að bæta við svari við spurningu sem hv. 3. þm. Norðurl. v. varpaði fram, um áframhaldandi samningsgerð við Alusuisse vegna stækkunar álverksmiðjunnar um 50% og um skattamálin. Engar ákvarðanir hafa auðvitað verið teknar enn þá um orkuverð fyrir nýja álverksmiðju eða viðbótina. Við erum ekki komnir að niðurstöðu um hvaða tölur við eigum að nefna í því sambandi. Menn hafa nefnt tölurnar 18–20 mill en mjög er erfitt, sem allir skilja ef þeir vilja, að hafa uppi umræður á almannafæri eða í heyranda hljóði um slík mál vegna viðsemjendanna. Um þetta get ég ekki dæmt enn. Vegna byggingar nýrrar álverksmiðju eða viðbótar við álverksmiðjuna verður engin kröfugerð send fyrr en menn eru orðnir á eitt sáttir um það hvernig hún eigi að hljóða. Við vitum hins vegar, og höfum gert upp hug okkar um það, að það verður hærra en fyrir þessa gömlu verksmiðju, einnig vegna tækninýjunga sem álverksmiðjur eru núna búnar en hinar eldri ekki.

Ég veit að það er ótalmargt annað sem ástæða hefði verið til að víkja að hér. En ef þess er kostur, sem ég veit nú ekkert hvort er, að ljúka þessum tveim umr. eins og menn hafa haft í orði, þá vil ég leggja mitt af mörkum til þess að svo verði. Það kann að vera að eitthvað í máli mínu egni til þess að stjórnarandstæðingar sjái ástæðu til að lengja þessar umr. En ég vil aðeins nota tækifærið til þess að víkja þakklæti mínu til iðnn. hv. deildar og raunar beggja nefndanna, sem unnu saman, og til þeirra sem þar í fyrirsvari stóðu fyrir ágætlega unnið verk og vandað að því er mér virðist. Og sérstaklega fagna ég því ef þeim sem stjórna hefur tekist að gera stjórnarandstöðunni til hæfis, eins og mér skildist á frsm. 3. minni hl., hv. 4. þm. Vesturl.