15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Mér er næst skapi að þakka fyrir að fá að taka hér til máls því ég mun hafa orðið fyrst til að biðja um orðið eftir að svari menntmrh. lauk. (Forseti: Forseti sér ástæðu til að taka fram að þetta er ekki rétt með farið. Mælendaskrá forseta er alveg réttilega upp sett.) Ég hygg að hv. ritari viti þetta sem situr við hlið forseta.

Erindi mitt í ræðustól skal ekki verða langt. Ég tók það fram áðan að öll þessi umr. um störf kennara í þessu landi væri satt að segja kvalafull og sorglegt á hana að hlýða. Ég held að því styttri sem hún verði nú því betra. Það er hins vegar ástæða til að taka þau mál upp á hinu háa Alþingi seinna og af nokkru meira viti en nú hefur verið gert.

Ég vil þó nota tækifærið til að gleðjast yfir því sem hæstv. menntmrh. sagði um að hún væri hlynnt endurmati á störfum kennara. Ég vil minna á að á 104. löggjafarþingi, árið 1981, bar ég hér fram þáltill. um endurskoðun starfsmats fyrir ríkisstarfsmenn almennt og raunar starfsfólk ríkisbankanna. Sú þáltill. náði því miður ekki fram að ganga, en það gleður mig að sú hugarfarsbreyting hefur nú orðið í stjórnarherbúðunum að til standi að gera slíkt mat. Ég vil taka skýrt fram að ég tel að það endurmat þurfi að fara fram á störfum allra starfsmanna ríkisins og starfsfólks ríkisbankanna. Ég held að sá stóri hópur, sem stundar þjónustustörf fyrir ríkisins hönd, sé nokkuð undir þá sömu sök seldur nú að eiga erfitt um að sjá sér farborða.

Hér hafa komið fram hinar furðulegustu yfirlýsingar um tímafjölda og vinnuskyldur kennara. Hæstv. fjmrh. minntist á að frá árinu 1975 hefði vinnuskylda kennara farið minnkandi. Ekki sá hann neina skynsamlega skýringu á því. Það má upplýsa hann um að árið 1974 voru samþykkt lög um grunnskóla á hinu háa Alþingi. Það verður að teljast í hæsta máta eðlilegt að í kjölfar þess hafi verið endurskoðuð kennsla í landinu. Það gerist venjulega þegar stórir lagabálkar eru samþykktir um svo mikilvægan málaflokk sem kennslu barna í landinu að umtalsverðar breytingar verði á allri kennslutilhögun. Ég vildi minna hv. þingheim á þessa staðreynd.

Hv. þm. og félagi minn Hjörleifur Guttormsson hefur þegar sagt flest sem þarf að segja um fjölgun kennara og ástæðurnar til þess. En ég vil taka undir með honum að ekki er sæmandi að vera að eyða tíma þingsins í fullyrðingar um hluti sem eiga sér jafnaugljósar skýringar og þær að stór hópur kennara í landinu vinnur hálfs dags vinnu.

Almennt um færibandamat á vinnu kennara, sem hér hefur verið talað um, ofan á allt það sem aðrir þm. hafa sagt um það sem kennarar gera og eiga að gera samkv. grunnskólalögum, vil ég aðeins minna á að til þess að geta kennt eitthvað þurfa menn að kunna eitthvað. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að hæstv. fjmrh. haldi að menn fari í kennaraskóla og læri nokkrar bækur utan að og setjist svo í embætti og kenni þær svo lengi sem þeir stunda kennslu. Þannig fer kennsla ekki fram. Hún gerði það kannske einhvern tíma, en það er óskaplega langt síðan. Ég held að ég leyfi mér, úr því að ég hef fengið að segja hér nokkur orð, að lesa fyrir hæstv. fjmrh. það sem grunnskólalögin — það er ekki mjög löng lesning — gera kennurum landsins að inna af hendi. Það er ákaflega mikilvægt og skýrir nokkuð að vera kynni að kennarar þurfi stundum að fylgjast með því sem er að gerast í þjóðfélaginu, þeir þurfi stundum að lesa aðrar bækur en þeir lærðu í kennaraháskólanum í sinni tíð eða öðrum stofnunum sem þá kenndu kennurum. Ég held að það verði ekki lengur við það unað hér á hinu háa Alþingi að andleg vinna, ef svo má kalla, svo sem þær athafnir mannsins að mennta sig, séu gjörsamlega vanmetnar sem starf. Ég hygg að verulegur hluti frítíma kennara, a.m.k. góðra kennara sem taka starf sitt alvarlega, fari í vinnu, nefnilega það að mennta sig svo þeir hafi eitthvað að kenna. Þetta ætti að vera svo augljóst að það liggur við að maður fyrirverði sig að segja slíkt á hinu háa Alþingi.

Áður en ég les, hæstv. fjmrh., um hlutverk og verkefni grunnskólakennara vil ég mælast til þess að ríkisstj. ræði það hver markar stefnu í menntamálum. Með allri virðingu fyrir röggsamlegri stjórn fjármála í landinu almennt hefur ríkisstj. hingað til skipt með sér verkum á þann veg að einstakir ráðh. hafa með stjórn ákveðinna málaflokka að gera. Hingað til hef ég ekki skilið það svo að fjmrh. eigi að stjórna öllum málaflokkum í landinu. Ég vil því minna hæstv. menntmrh. á að halda fast um það, sem ég hygg að henni hafi verið falið, að marka stefnu í kennslumálum þjóðarinnar og sjá um að þar sé farið að lögum. Þetta ættu ekki nokkrum þm. að þykja merkileg sannindi, en nú er svo komið málum að menn neyðast til að minna á þetta.

Það kom réttilega fram áðan að kröfur til kennslu hafa stóraukist og þáttur skólans og dagheimila reyndar líka hefur orðið sífellt stærri í uppeldi barnanna. Það leiðir af sjálfu sér að þegar þjóðfélagið kallar báða foreldra til starfa utan heimilis leggst þessi vinna að meira eða minna leyti og í sívaxandi mæli á kennara, fóstrur og þá sem börnin annast meðan foreldrarnir eru að vinna. Við skyldum því ætla að það væri vilji stjórnvalda og það væri svar þjóðfélagsins fyrir þær kröfur sem þeir gera til foreldra á vinnumarkaðnum að efla og bæta á allan máta þau starfsskilyrði sem það fólk býr við sem er búið að taka að sér meira eða minna að ala upp börnin okkar. En það er nú öðru nær samkv. þeim umr. sem hér hafa farið fram. Svo virðist sem nú skuli rannsakað hvort kennarar og fóstrur og aðrir slíkir sitji í ákveðnum stól og horfi á börnin ákveðinn tíma á dag því að því aðeins verði þeir taldir rækja störf sín. Ég skal ekki orðlengja þetta. Auðvitað er langt fyrir neðan virðingu hins háa Alþingis að sitja undir umr. af þessu tagi. Ég vona að við þurfum ekki að upplifa það alveg í bráð, en bið menn, einkum og sér í lagi innan ríkisstj., að koma í veg fyrir að umr. sem þessar eigi sér stað.

Það var eitt atriði sem ég ætlaði enn að minna hæstv. fjmrh. á. Hann talaði um öll þessi ósköp af kennurum, sem eru að kenna börnum landsins, og að þeir væru kannske ekki allir nauðsynlegir því að fleira þurfi að gera en að setja alla til mennta. Einhvern veginn á þann hátt skildi ég annars fremur óljósa ræðu hans. Þar talaði hæstv. ráðh. á nákvæmlega sama hátt um grunnskólann og framhaldsskóla. Ég veit ekki hvort minna þarf hv. þm. á að allir Íslendingar fara í grunnskóla samkv. lögum og eiga að vera það. Því miður er það svo, og á það vil ég minna hæstv. menntmrh. og mun raunar bera fram tillögu þess efnis innan tíðar, að mjög vantar á að þau börn sem sérkennslu þurfa fái notið hennar eins og lög gera ráð fyrir. En hiklaust eiga öll íslensk börn að fara í grunnskóla. Það er því líka litli maðurinn fjármálaráðherrans sem nýtur kennslu kennara, þeir sem stunda þau störf sem ráðh. talaði svo fallega um fyrir nokkrum dögum, erfiðisvinnumenn, sjómenn, verkamenn. Það vill nefnilega svo til að grunnskólalögin eru m.a. til þess gerð að einmitt þetta fólk fái alla þá kennslu sem grunnskólanám veitir. Og það hefur verið yfirlýst stefna Alþingis að því menntaðri sem allir Íslendingar eru því betra. Það er því ekki, eins og fjmrh. virðist óttast, verið að reka alla Íslendinga í háskóla með grunnskólalögunum. Það er verið að undirbúa þá til þess að vera virkar, lifandi og starfsamar manneskjur í landinu hvað sem þeir annars kunna að fást við í lífinu. Grunnskólalögin gera kennurum líka skylt að efla þroska sérhvers nemanda, gera hann að hæfum einstaklingi til að búa í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta eru ekki litlar kröfur. Ég er ansi hrædd um að þetta verði ekki gert í einhverri afmarkaðri mínútuvinnu eins og hér hefur verið talað um.

Ég er kannske að lengja þessa sorglegu umræðu meira en efni standa til. Það varð ekki hjá því komist, og ber að fagna því að hv. fyrirspyrjandi bar þetta mál upp hér, að þingið svaraði því hvort það leggur blessun sína á þær dæmalausu yfirlýsingar sem héðan hafa komið um störf þeirrar stéttar sem að meira eða minna leyti elur upp börnin okkar. En ég vænti þess að næst þegar við ræðum stefnur í menntamálum hér á hinu háa Alþingi verði það gert með meiri myndarskap og meiri reisn.