21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Í umr. um kvótafrv., eins og það hefur verið kallað, í fyrra lýstum við Bandalagsmenn andstöðu okkar við þetta frv. með vissum rökum. Sú gagnrýni, sem við höfðum uppi, hefur í raun ekkert breyst. Við erum enn þá að tala um valdaafsal Alþingis, við erum enn þá að tala um blanka ávísun til handa sjútvrh. um stjórnun þessara mála. Við erum enn þá að tala um að enn hefur engin úrvinnsla á reynslu komið fram sem skilaði einhverjum upplýsingum í þessu máli eða skýrari línum. Það hefur enn engin tillaga komið fram í ljósi þessarar reynslu. Og það sem mikilvægast er, enn hefur ekki komið fram neitt markmið með þessari stjórnun fiskveiða. Við horfum ekki á neitt mat á árangri síðasta árs.

Þess vegna er það, sem aðallega vantar í þetta frv., í raun og veru pólitík. Þetta er tæki til að stjórna með. Kvóti eða ekki kvóti er í raun og veru ekki spurningin hérna, kvótinn er bara ákveðið tæki. Við verðum að spyrja okkur fyrst og fremst hver tilgangurinn er. T.d.: Hafa menn gert sér í hugarlund hversu mörg skip eigi að stöðvast á þeim tíma sem núna er gert ráð fyrir að þetta frv. gildi og þá hvaða skip eigi að stöðvast? Hafa menn gert sér grein fyrir því hve mörg fiskiðjuver eigi að stöðvast og þá hvaða fiskiðjuver eigi að stöðvast? Hafa menn gert sér grein fyrir því hvaða aðgerðir eigi þá að fylgja fyrir þá staði sem í hlut eiga? Eða á allt að vera með sama hætti áfram, reka á reiðanum í raun og veru eins og það hefur gert hingað til? Ég spyr vegna þess að annaðhvort er þessu frv. ætlað að hafa áhrif eða ekki á rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins er það sem öllu máli skiptir nú sem áður fyrr. Ef þetta frv. á ekki að hafa áhrif er alveg eins gott að láta það liggja, þá er það bara ónýtt, þá er það ekkert tæki. Ef þessu frv. aftur á móti er ætlað að hafa áhrif eigum við, sem hér sitjum, rétt á því að fá að vita hver áhrifin eiga að vera. Við eigum rétt á því að fá að vita hvaða pólitík við eigum í raun og veru í vændum, að hverju er stefnt. Það sem þá er næst uppi á teningnum er að gera verður áætlanir um aðgerðir, þ.e. hvernig eigi að bregðast við þessum áhrifum. Í heild finnst manni pólitík ríkisstj. í garð sjávarútvegsins vera með þeim hætti að það er eins og hún þori ekki að taka á málinu í heild, hugsanlega af ótta við það að flokkspólitískir skjólstæðingar hennar verði fyrir barðinu á öðrum lausnum.

Ég tel ekki að þetta frv. sé nein lausn. Eins og ég sagði áðan er þetta bara tæki og þetta tæki er meira að segja mjög vafasamt að því leyti að það er opið fyrir spillingu. Núv. sjútvrh. er traustvekjandi maður. En ég er hræddur um að hv. þm. Stefán Valgeirsson t.d. mundi ekki treysta þm. BJ fyrir þessu sama valdi sem hér er verið að afsala.

Það er út af fyrir sig erfitt að lýsa afstöðu sinni til þessa frv. sem slíks vegna þess að hér er eingöngu verið að leggja fram frv. um stjórntæki þar sem markmiðin eru ekki ljós. Maður getur ekki tekið afstöðu til markmiðanna án þess að fá upplýsingar um fyrirætlanir manna um áhrif þessa frv. í framtíðinni. Er meiningin að þetta frv. leiði til þess að skipum fækki, þ.e. sóknarþungi flotans minnki? Er það meiningin að úrvinnslustöðvum fækki þannig að nýting fjárfestingar verði betri í framtíðinni en hún er í dag? Eða er þessu frv. áframhaldandi ætlað einfaldlega, eins og á síðasta ári, að jafna út þeirri aðstöðu sem fyrir hendi er, annars vegar fiskistofnunum og hins vegar aðstöðunni til að nýta þessa fiskistofna í landi, með þeim afleiðingum sem við höfum fyrir augunum að málið í heild, þ.e. staða sjávarútvegsins hefur í raun og veru ekkert breyst? Hún hefur versnað eins og allir menn vita og ekkert fyrirsjáanlegt að þetta tæki frekar en eitthvert annað hafi áhrif til bóta.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að aðilar, sem núna starfa eftir þeim aðferðum sem þessi stjórnun fiskveiða gerir ráð fyrir, eru ekkert ýkja óánægðir með það vegna þess að þessi stjórnun kemur í veg fyrir að þeir bíti hver annan á barkann. Röksemdir fiskimanna fyrir ágæti kvótafrv. eru dálítið dapurlegar því að þeir segja sem svo: Ef þetta frv. væri ekki, ef ekki væri kvótastjórn, þá væri ég æðandi út um allan sjó, eyðandi veiðarfærum og olíu og árangurinn af mínum athöfnum og minni starfsemi yrði miklu minni en hann er í dag. Ég minni bara á orð hv. 6. landsk. þm. áðan sem lýsti nákvæmlega þessari afstöðu sjómanna til kvótastjórnunar.

Eins og ég sagði áðan er erfitt að segja að maður sé hreint og beint á móti þessu frv. sem slíku. En ég er á móti því og við Bandalagsmenn erum á móti þessu frv. ekki vegna þess sem í því stendur heldur vegna þess sem í það vantar. Á meðan engin markmiðasetning fylgir þessu frv. getum við ekki annað en verið á móti því.