21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Kristín Ástgeirsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um sjávarútveginn almennt, en víkja síðan að frv. því sem hér er til umr. og greina frá afstöðu Samtaka um kvennalista til þess. Innan skamms er væntanleg á markað bók eftir Sigfús Jónsson landfræðing og núverandi sveitarstjóra á Skagaströnd. Þessi bók fjallar um sögu íslensks sjávarútvegs frá aldamótum og fram til þessa dags. Þar hefur höfundur dregið saman gífurlegt magn af upplýsingum um sjávarútveginn og þróun hans. Því nefni ég þetta að ég held að við getum margt lært af sögu fyrri áratuga, þeim mistökum sem gerð voru með stjórnlausum veiðum og gegndarlausum fjárfestingum í skipum og verksmiðjum, sem urðu svo verkefnalausar þegar allt hrundi vegna ofveiða.

Það má segja að hver áratugur hafi átt sitt töfraorð í sjávarútveginum allt frá aldamótum. Fyrst var það saltfiskurinn, þá síldin, þorskurinn, síldin aftur, loðnan og þorskurinn enn á ný. Menn voru nokkuð lengi að átta sig á því að auðlindum hafsins væru takmörk sett og síaukin afkastageta skipanna og vinnslunnar í landi hlyti fyrr eða síðar að fara yfir þau mörk sem fiskistofnarnir þyldu. Þær raddir heyrast þó enn sem segja sjóinn iðandi af lífi og tómt bull sem kemur frá fiskifræðingum. Það vill oft gleymast að fiskurinn, þessi undirstaða alls lífs á Íslandi, er líf sem getur af sér nýtt líf og eins og aðrir dýrastofnar þarf fiskurinn góðar aðstæður til að geta vaxið og fjölgað sér, ekki aðeins æti og sæmilegan sjávarhita heldur líka frið. Dýr sem eru hundelt og trufluð með sífelldu skaki og skruðningum eru varla vænleg til að verða að feitum og vænum þorskum, sérstaklega þegar uppáhaldsæti hans er mokað upp og sett í bræðslu. Ég vil með þessum orðum undirstrika að við þurfum að hugsa um fiskinn sem lífverur, ekki eins og járn eða guli sem grafið er upp. Umfram allt má ekki raska þeirri keðju sem líf sjávarins byggir á. Það er hið rétta jafnvægi sem nú ber að stefna að og stjórnun fiskveiðanna ber að taka mið af.

Það efast tæplega nokkur um það lengur að stjórnunar sé þörf til að koma í veg fyrir algert hrun og til þess að þeir bæir, sem byggja að mestu á sjávarútvegi, sitji nokkurn veginn við sama borð hin mögru ár sem við nú lifum. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr eru dagar hinnar frjálsu samkeppni á hafinu liðnir. Formennirnir, sem áður áttu sín skip eða hlut í skipi og kepptu um sæti aflakóngs, eru nú flestir orðnir launamenn hjá útgerðinni og verða að sætta sig við takmarkaðan afla. Hinir ungu og efnilegu menn, sem hv. 4. þm. Vestf. ber svo mjög fyrir brjósti, verða því að sætta sig við fyrirmæli stjórnvalda nema stjórnun fiskveiða komist í annarra hendur.

Það er svo annað mál hvernig stjórnunin á að fara fram, hve langt hún á að ganga og til hve langs tíma ákvarðanir eigi að taka. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnun fiskveiða sé nauðsynleg og að hún eigi að taka mið af hagsmunum allrar þjóðarinnar þegar leiðin er valin, ekki einstakra byggðarlaga eða landshluta. Kvótinn kemur niður á öllum, skrapdagakerfið líka. Við eigum í vanda, fiskistofnarnir eru í lægð og það er til umræðu hvaða kostur af mörgum vondum sé skástur.

Ég get skilið þá fulltrúa útgerðarinnar, t.d. á Vestfjörðum, sem kvarta sárlega undan kvótakerfinu af því að það kemur verr við þá en skrapdagakerfið. En ég minni á að í öðrum landshlutum, t.d. í Vestmannaeyjum, einni stærstu verstöð landsins, hefur kvótakerfið mælst sæmilega fyrir og menn sætta sig við sinn slaka hlut í von um betri tíð. Kvótakerfið var enda samþykkt á Fiskiþingi þrátt fyrir allt.

Þegar hv. þingdeildarmenn taka afstöðu til þess máls sem hér er til umræðu hljóta þeir að meta hvernig kvótakerfið hefur komið út í heild, ekki hvernig það hefur snert Breiðfirðinga eða Vestfirðinga eingöngu. Það er auðvitað ekki hægt að taka stjórnina út úr öllu fiskveiðidæminu. Það verður að horfa á málið í heild. Með ýmsum aðgerðum má bera smyrsl á sárin og draga úr harmakveini útgerðarmanna. Ég vona að innan skamms liggi á borðum þm. heildaráætlun um ráðstafanir til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. Eða hvað líður aðgerðum til að draga úr olíukostnaði, milliliðakostnaði, flutningsgjöldum og orkukostnaði vinnslunnar? Og hvað um markaðsmálin?

Að mínum dómi ættu útsendarar útgerðarinnar að vera á þeysireið um Svíaveldi og Finnland til að rifja upp með þarlendum bragðgæði íslensku síldarinnar sem nú er aftur orðin fáanleg. Síldin var um aldir aðalfæða almennings á Norðurlöndum og er ein næringarríkasta og eggjahvítuauðugasta fæða sem til er. Það þarf nefnilega að undirbúa markaðinn áður en farið er að selja. En er það gert? Ég spyr.

Það sem meira er, það er ekki hægt að líta á sjávarútveginn án tengsla við annað atvinnulíf í landinu. Það eru flestir sammála um að sjávarútvegurinn muni áfram verða meginundirstaða hagsældar á Íslandi, en það verður að hyggja að því í tíma að hann á eftir að breytast. Með síaukinni tækni má gera ráð fyrir að störfum í sjávarútvegi fækki til muna í landi og þá má einnig gera því skóna að framtíðin liggi í frystiskipum þar sem aflinn er unninn um borð, enda er rekstur slíkra skipa mun hagkvæmari en annarra og aflinn verðmætari.

Íbúar sjávarplássanna eru því vanir að atvinnuástand sé sveiflukennt. Þar koma aflahrotur en síðan deyfð þess í milli þó svo að atvinna í fiskiðnaði sé reyndar mun stöðugri nú en hún var fyrir nokkrum áratugum. Tímabundið atvinnuleysi hefur verið að skjóta upp kolli æ oftar og æ víðar á undanförnum árum, m.a. vegna samdráttar í afla. Ef áframhaldandi samdráttur eða lægð verður í fiskveiðum og sjá má fram á æ færri störf í sjávarútvegi, hvað er þá til ráða? Hvaða atvinnu á að bjóða fólki út um land ef ekki á að stefna að því að byggð þéttist enn meir á suðvesturhorninu þar sem þjónustugreinarnar blómstra? Það strandar allt á uppbyggingu nýrra atvinnugreina, hvort sem sjávarútvegurinn rís upp að nýju eður ei.

Virðulegi forseti. Skal nú vikið að því frv. sem hér er til umr. Frv. gerir ráð fyrir því að vald hæstv. sjútvrh. til stjórnunar fiskveiða verði framlengt til þriggja ára. Á það geta Samtök um kvennalista ekki fallist. Annars vegar vegna þess að við teljum mjög óeðlilegt að leggja svo mikið vald í hendur ráðh. í svo langan tíma og hins vegar vegna þess að við teljum réttara að ákvarðanir um stjórnun fiskveiða séu teknar til eins árs í senn. Rökin sem mæla með eins árs stefnumótun eru m.a. þau að Hafrannsóknastofnun setur fram sínar tillögur um hámarksafla til eins árs í senn. Síðan kemur Fiskiþing og samþykkir sínar tillögur og ráðh. reynir að fara bil beggja, en það leiðir aftur af sér að Hafrannsóknastofnun þarf að reikna út frá nýjum forsendum næsta ár. Því er erfitt að sjá að um einhverja stefnumótun til margra ára verði að ræða hvað varðar aflamark. Það hlýtur því að teljast eðlilegt að stefna sé mótuð til eins árs í senn., Ég þykist vita að hæstv. sjútvrh. vilji gjarnan spara sér árlegar umr. í þinginu um stefnumörkun veiðanna, en þegar um svo mikilvægt mál er að ræða er eðlilegt að reynsla hvers árs sé vegin og metin.

1. gr. frv. skilgreinir hið margumrædda vald ráðh. og verður að segjast eins og er að slæmt er fordæmið og stór biti að kyngja í einu. Má þó vera að hann renni niður ef tíminn verður takmarkaður við eitt ár og að því tilskildu að þm. gefist kostur á að fylgjast vel með og að hæstv. sjútvrh. beiti sem mestum sveigjanleika og mýkt þegar hann veifar veldissprotanum. Meginniðurstaða mín er því sú, virðulegi forseti, að Kvennalistinn getur ekki stutt þetta frv. óbreytt, en leggur eindregið til að vald ráðh. verði bundið við eitt ár.

Að lokum þetta: Það dregur enginn í efa að útgerðin á við vanda að stríða, mismunandi mikinn eftir því hvar er á landinu og eftir því hvernig fyrirtækin eru rekin. Það vita allir sem það vilja vita að laun í fiskiðnaði eru allt of lág og þar viðgengst heilsuspillandi bónuskerfi sem bitnar hvað mest á þeim konum sem við fiskinn vinna. Það er brýnt að bæta stöðu sjávarútvegsins þannig að hann geti greitt sínu fólki mannsæmandi laun. En það vita líka allir sem til þekkja að þrátt fyrir kveinstafi er ekki allt sem sýnist. Þess eru dæmi að útgerðin haldi uppi lúxuslífi nokkurra fjölskyldna í útgerðarbæjum landsins og að rekstur heimila þessa fólks sé skrifaður hjá útgerðinni eða mötuneyti frystihússins.

Það er líka vitað að fyrirtækin eru mjög misjafnlega vel rekin. Fyrir fáeinum vikum lokuðu nokkur af stærstu fiskvinnslufyrirtækjunum í Vestmannaeyjum og stöðvuðu vinnsluna að sögn vegna rekstrarvanda og óhagstæðrar aflasamsetningar. Án þess að gera lítið úr vanda þessara fyrirtækja vil ég geta þess að það var altalað í bænum að það væru fyrst og fremst tvö fyrirtæki sem ættu í vanda, hin stæðu nokkuð vel. Samstaða útgerðarmanna krafðist þess að allir lokuðu. Útgerðarmenn sögðust sitja uppi með óseljanlegan ufsa og karfa sem reyndar er nýbúið að selja. En meðan allt var lokað og konurnar sendar heim — ég endurtek, konurnar — sigldu skipin og seldu erlendis. M.a. seldi eitt þeirra 100 tonn af þorski. Því var ekki hampað í fréttum að eitt hinna stóru fyrirtækja lokaði alls ekki, enda staðan sæmileg á þeim bæ.

Því rek ég þessa sögu að það er margt sem þarf að athuga áður en vandi sjávarútvegsins verður endanlega skilgreindur. Því miður hættir mörgum sjómönnum og útgerðarmönnum til að einblína um of á eigin hag, stundarhag, en huga of lítið að framtíðinni. Það sést m.a. á fullyrðingum þeirra um spriklandi líf í sjónum. Maður sér fyrir sér að svo þröngt sé orðið um þorskinn að hann stökkvi upp úr sjónum eins og frændi hans laxinn. Þá má minna á fréttir um smáfiskadráp og það sem kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. um að menn köstuðu undirmálsfiski. Slíkt grefur að sjálfsögðu undan aflasæld komandi ára.

Loks má geta þess hvernig stöðugt er alið á tortryggni í garð vísindamanna. Með fullri virðingu fyrir sjómönnum og störfum þeirra, sem við vissulega lifum á, vil ég segja að betra er að fara hægt í sakirnar og veiða minna, taka mögru árunum með stóískri ró en njóta þess því betur þegar góðu árin koma, hvort sem það verður eftir þrjú ár, fimm eða sjö eins og hjá Faraó konungi forðum. Framtíð komandi kynslóða er í húfi. Það ber að skila þeim öruggri afkomu, golþorski á hvers manns disk.