21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frv. skuli nú fram komið hér í þessari hv. deild endurskoðað, því að eins og hæstv. dómsmrh. rakti hér áðan var dómsmrh. lögð sú lagaskylda á herðar í þingbyrjun haustið 1981 að láta endurskoða þetta mál og leggja fram frv. þar að lútandi. Hér er því vel að verki staðið í hvívetna. Mig langar aðeins við þessa 1. umr. málsins að lýsa ánægju minni með það sem segir hér í aths. við frv., með leyfi virðulegs forseta:

„Lög nr. 63/1981 hafa verið í gildi í tæp tvö ár og því fengin nokkur reynsla af framkvæmd þeirra. Segja má að lögin hafi reynst vel í framkvæmd og hafa ekki komið fram stórvægilegir gallar á þeim.“

Mér finnst eðlilegt að þess sé getið við þessa umr. málsins að þegar lagafrv. um þetta efni var lagt hér fram á Alþingi á sínum tíma var því vísað til hv. allshn. þar sem við áttum raunar báðir sæti þá, sá sem þetta mælir og hæstv. núv. dómsmrh. Okkur leist ekkert á það frv. sem þá var lagt fram og um það var einhugur í nefndinni. Það varð því úr að nefndin fór þá leið að kveðja til sérfræðinga þá sem gerst þekktu til þessara mála. Var það einkum Þorkell Helgason stærðfræðingur, tölvuþekkingarmaður mikill. Lyktir urðu þær að hann var ráðinn í þjónustu allshn. til að endurvinna þetta frv. með okkur sem nefnd hafði samið. Nefndin hélt ekki færri en tólf fundi þar sem fjallað var um þetta mál og niðurstaðan varð sú að allt var frv. gert einfaldara og miklum mun skýrara.

Nú er þess auðvitað að gæta í þessu sambandi að hér erum við að ræða mál sem eru í eðli sínu mjög flókin. Og ekki aðeins það, heldur mál sem eru í eðli sínu ný Um þetta var engin löggjöf hér í landslögum áður. Í þriðja lagi kemur það til að öll taka þessi mál mjög örum breytingum. En mér þykir það næsta gott, hafandi haft nokkuð af þessu máli að segja sem formaður allshn. á sínum tíma og þakka líka að sjálfsögðu meðnm. mínum úr þessari deild, sem áttu ekki lítinn þátt í þessari vinnu, að hér hafi sæmilega vel til tekist. Mér sýnist það vera staðfest í aths. við þetta frv.

Ég mun eiga þess kost í nefnd að gera aths. við þær efnisbreytingar sem hér eru lagðar til og eru raunar ekki stórvægilegar og geri þær ekki að sérstöku umtalsefni hér. Hins vegar væri nokkur ástæða til að hafa aftur í þessu frv. einhvers konar ákvæði um endurskoðun að ákveðnum tíma liðnum vegna þess að þessi mál breytast svo ört, þróunin er svo hröð, eins og raunar kemur hér fram. En það er vissulega ánægjuefni að þessi löggjöf skuli hafa reynst eins bærilega og fram kemur hér í aths. og einnig kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh.