21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

165. mál, sláturafurðir

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Við sveiflum okkur hér úr sjávarútvegi yfir í landbúnað. Það frv., sem hér liggur fyrir, er mjög eðlilegt í ljósi aðstæðna og fjallar um lausn á ákveðnum vandamálum sem ekki er nokkur leið önnur en að bregðast við. Enn þá einu sinni tengist það mál sem hér er á ferðinni fjárfestingarkostnaði og spurningum um þá hluti. Þessi fjárfestingarkostnaður kemur okkur við vegna þess að hann verður til að hluta til með opinberri aðstoð. Þar sem sú framleiðsla, sem hér um ræðir, er verðlögð af því opinbera, þ.e. ríkisvaldið er þátttakandi í verðlagningu framleiðslunnar, hlýtur ríkisvaldið um leið að verða og mega hafa skoðun á því hvernig stofnað sé til þeirra fjárfestinga sem hér um ræðir.

Eins og áður er gagnlegt að auglýsa hér eftir pólitík, þ.e. stefnumörkun. Hvað ætlast menn fyrir á næstu árum í þessum málum? Eða telja þeir þau komin í þann farveg sem leiði til endanlegrar lausnar? Er meiningin að slátrun verði sinnt hér í stórum og fáum sláturhúsum eftirleiðis eða litlum og mörgum? Ef sláturhúsin eru stór og fá má gera ráð fyrir því að þau séu nýtt nánast allt árið, öðruvísi á maður ekki von á því að menn séu að fara út í slík ævintýri. Ef þau eru mörg og lítil, er spurningin um það hvort nýtingartími þeirra er stuttur eða langur eða hvort hann er allt árið. Verð eða kostnaður þessarar fjárfestingar hlýtur þá að verða að vera í einhverju samræmi við það.

Ég vil benda á það, þó að það sé kannske ekki beinlínis mitt hlutverk, að erlendis hafa menn leyst þennan vanda, sem menn búa við með svipuðum hætti og við víða, með afskaplega ódýrum lausnum sem hafa gefið mjög góða raun, jafnvel í miklu heitara loftslagi en hér hjá okkur. Þetta er gert með færanlegum byggingum sem fyrir nokkrum árum eða áratug voru skírðar á íslensku „uppblásningar“, þ.e. hús sem eru blásin upp. Þau eru flytjanleg, það eina sem þarf að vera fyrir hendi eru ákveðnar lagnatengingar á þeim stað þar sem atvinnustarfsemin á að fara fram. Húsin eru flutt á staðinn og reist með þeim hætti að aðallega loftþrýstingur heldur þeim uppi. Loftþrýstingurinn leysir það vandamál að sýklavörn þarf nánast engin að vera í húsinu vegna yfirþrýstingsins sem inni er. Hann leysir líka það vandamál að halda þar inni þeim hita sem ákjósanlegur er hverju sinni. Þú getur nánast valið hvort þú vilt hafa þarna inni hitabeltishita eða heimskautafrost. Svona tæki — því að ég vil frekar líta á svona lagað sem tæki en byggingu — mætti hugsanlega nota í fleiri en einu sveitarfélagi þar sem sláturtíð er stutt.

Ég tek undir með hv. 2. þm. Austurl. - hann snerti hjartað í mér áðan þegar hann minntist á Fagurhólsmýri í Öræfum — að það er mjög gagnlegt fjárhagslega í litlum sveitarfélögum að hafa þarna tekjumöguleika. Þetta er ekki síðri félagslegur þáttur að ýmsu leyti. Ekki bara það að fólk kemur þarna saman heldur líka að sjónarmið vörugæða og vörueftirlits verða að nokkurs konar samábyrgð lítils hóps og leiða til hollrar samkeppni sem ég held að menn skyldu ekki forsóma.

Svo að ég hafi nú haft ástæðu til að koma hér upp þá lýsi ég því yfir að við munum styðja þetta frv. og teljum það eðlilegt. En eins og ég sagði áðan, æskilegt væri að fá að heyra, og það sem allra fyrst, skoðanir yfirvalda, ekki síst hæstv. ráðh. á því hvernig þessum málum á að vera háttað í framtíðinni ef ríkisvaldið á að hafa þar eins mikla hönd í bagga og það hefur í dag.