21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

165. mál, sláturafurðir

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég þakka undirtektir þeirra ræðumanna sem hér hafa tekið til máls um þetta frv. og ýmsar þær ábendingar sem þeir hafa sett fram í tengslum við þetta mál. En það eru örfá atriði sem ég vildi víkja að. Það er þá fyrst spurning hv. 2. þm. Austurl. um vanda þessara tveggja húsa. Það kom kannske ekki nægilega skýrt fram í máli mínu að Framkvæmdastofnun var beðin um að gera úttekt á því máli nú í sumar eða haust. Ég hef ekki enn þá fengið skýrslu þar um og skal ekki segja hvað út úr henni kemur. En ég átti við þau einnig þegar ég ræddi um það að með skipulagsbreytingum á þessum málum væri e.t.v. hægt að styrkja eitthvað aðstöðu þeirra.

Hér hefur verið talað nokkuð um fjárfestingu og yfirfjárfestingu. Ég vék að því að þegar sláturhúsin voru í uppbyggingu, þau sem nú eru til, meiri hluti nýrri húsanna, var sauðfé í landinu að fjölga heldur og komst upp í allt að 900 þús. vetrarfóðraðar kindur. Menn miða alltaf fjárfestingu við það ástand sem er og þær horfur sem menn telja líklegar miðað við reynslu liðins tíma.

Það er vissulega rétt, sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv., að áhrif ríkisvaldsins á þetta voru æði mikil og þá kannske sérstaklega vegna þeirrar ákvörðunar sem viðreisnarstjórnin tók árið 1960 með ábyrgð útflutningsbóta. Sú ábyrgð skapaði grundvöll fyrir miklu meiri sauðfjárrækt í landinu en ella hefði verið, sérstaklega vegna þess að á þeim árum, 1960–1970, gat það verð, sem við fengum fyrir útflutt dilkakjöt, verið mjög nálægt því sem skráð innanlandsverð var. Ef það náðist ekki alveg þurfti þar mjög litlu við að bæta til þess að 10% verðtrygging nægði á gríðarmikið magn. Við þessa ákvörðun, sem ríkisvaldið hafði tekið, gátu bændur því reiknað með mjög mikilli framleiðslu. Þetta voru þær aðstæður sem við bjuggum við þegar hin svokallaða sláturhúsaáætlun var gerð og eftir henni farið.

Ég held að við megum, hvað sem líður stærð húsanna, samt þakka fyrir að þessar byggingar eru komnar svo víða því að þær skapa þó möguleika til að þessi nauðsynlega starfsemi fari fram og jafnframt er fjármagnskostnaðurinn hjá flestum þeirra orðinn tiltölulega lítill. Núna er aðeins í byggingu eitt nýtt stórt sláturhús. Kemur það í staðinn fyrir tvö önnur, sem eru orðin mjög gömul, ég veit ekki hvað margra áratuga gömul. Allir sem í þau koma hljóta að undrast að slík starfsemi skuli geta farið fram við slíkar aðstæður og efast ekki um nauðsyn þess að þar sé úr bætt.

En ég held að við hljótum við stefnumótun að miða við það að nýta þá fjárfestingu sem núna er fyrir hendi. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að við þær aðstæður sem núna eru sé ekki eðlilegt að leggja út í mikla nýja fjárfestingu á þessum sviðum heldur að halda í horfinu með því sem við höfum.

Hins vegar get ég ekki fallist á þá hugmynd, sem kom fram hjá 8. þm. Reykv., að ef við hefðum bara nógu fá sláturhús væri hægt að slátra í þeim allt árið. Ég hélt að flestir þekktu nú það vel til að þeir vissu að sauðfé verður að slátra á ákveðnum árstíma. Það þýðir ekkert að breyta því með því að fækka húsum og keyra lengri leiðir. Málið er því miður ekki svo einfalt útlausnar.

Ég tel það mjög athyglisvert sem hv. 4. þm. Norðurl. v. drap hér á, að nota þessi hús til fiskiræktar. Hann minntist á fiskiræktina og mér skilst að hans fyrirtæki hafi reyndar þegar nýtt þessi hús að einhverju leyti til slátrunar á fiskinum eða frágangs á honum. Þegar þessi ræktun vex skapast því kannske grundvöllur til að lengja nýtingu húsanna til slátrunar fyrir utan þann tíma sem slátrun sauðfjár fer fram.

En með samdrætti húsa og betri hagnýtingu kemur inn þessi félagslegi þáttur og atvinnuþáttur sem hér var vikið að á undan. Það er vandi að velja á milli atvinnusjónarmiða fámennra byggðarlaga og hagkvæmnissjónarmiða sem sýndu fram á að með færri og stærri einingum væri hægt að koma við einhverjum sparnaði. Þetta sama gildir einnig um kjötvinnslu. Við þurfum vissulega á því að halda að efla hér kjötvinnslu. Aðstæðurnar krefjast þess að varan sé sífellt betur unnin. En þá er spurning um hagkvæmni hennar. Er hægt að reka fullkomna og nýtísku kjötvinnslu í mjög smáum einingum fjarri markaði? Eða er ódýrara og hagkvæmara að hafa hana nálægt markaðinum og á færri stöðum? Þarna verður að velja á milli og þá er spurningin hverjir eigi að bera þann kostnað. Eiga neytendur að gera það með því að greiða heldur hærra verð fyrir þetta eða eiga bændur að taka það á sig með því að fá lægra verð fyrir sína vöru? Þarna hljótum við að reyna að rata þá leið sem okkur sýnist hagkvæmust og skynsamlegust og aðstæður krefjast á hverjum stað.