21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

159. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 164 leyfi ég mér að leggja til svohljóðandi breytingu á lögum nr. 60 1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins:

„Við c-lið 33. gr. bætist: svo og aðra þá sem þurfa á leiguhúsnæði að halda eða vilja leigja.“

Með frv. þessu er lagt til að fleirum en námsmönnum, öldruðum og öryrkjum verði gefinn kostur á að taka á leigu húsnæði, sem byggt er sem leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga, ríkisins eða félagasamtaka og nýtur lána úr Byggingarsjóði verkamanna til félagslegra íbúða.

Sú skilgreining sem núgildandi lög kveða á um varðandi byggingu leiguhúsnæðis er ákaflega þröng og undarleg í svo ungum lögum miðað við það ástand sem ríkir á leigumarkaði, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Það er gengið úf frá því að það séu mjög afmarkaðir hópar fólks sem þurfi á leiguhúsnæði að halda, enda takmarka lögin byggingu slíks húsnæðis.

Eins og nú háttar er það ekki fýsilegur kostur fyrir þá sem hafa fjármagn milli handa að beina því í fasteignakaup eða byggingu húsnæðis til leigu vegna mikils kostnaðar, enda vita þeir sem til þekkja á leigumarkaði að æ fleiri keppa um æ færri íbúðir, þ.e. leiguíbúðir.

Þeir sem sækjast eftir leiguhúsnæði eru ekki eingöngu námsmenn, aldraðir og öryrkjar, heldur fjölmennur hópur. T.d. einstæðir foreldrar, fólk sem er nýkomið heim úr námi, fólk sem flytur í bæinn, hver sem sá bær er, og allir þeir sem gjarnan vilja leigja. Þótt það kunni að hljóma undarlega í eyrum sumra þá eru þeir til og eru nokkuð margir sem gjarnan vilja leigja. Hins vegar hefur ástandið í húsnæðismálum verið með þeim hætti að fólk hefur neyðst til að hella sér út í íbúðarkaup nauðugt viljugt. Mér er kunnugt um Íslendinga búsetta erlendis, á Norðurlöndunum og reyndar víðar, sem ekki treysta sér til að flytja heim vegna þess ástands sem hér ríkir í húsnæðismálum. Þá eru ónefndir þeir sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa undir háum útborgunum, miklum fjármagnskostnaði og afborgunum.

Hæstv. félmrh. sagði eitthvað á þá leið í útvarpsþætti í fyrra, í þann mund sem umr. um húsnæðismál stóðu sem hæst, að Íslendingar væru nú einu sinni þannig gerðir að þeir vildu eiga sitt eigið húsnæði. Ég er algjörlega á öndverðum meiði og tel að eðlishvatir og eignarþrá skipti litlu máli. Það er fyrst og fremst stefna hvers tíma sem ræður því hvers konar húsnæði er í boði og hver það á. Um margra áratuga skeið hefur sú stefna verið ríkjandi hér á landi að hverjum og einum bæri að eiga sitt eigið húsnæði. Það hefur kostað margan manninn mikla vinnu, nánast þrældóm að uppfylla þessa kröfu og ekki um annað að velja. Það hefur þó aðeins örlað á breytingum undanfarin ár með eflingu verkamannabústaðanna, þ.e. þeir sem eiga þeirra kost búa við mun skárri kjör en gerast á almennum markaði.

Það verður þó ekki annað séð en að verkamannabústaðirnir eigi heldur í vök að verjast nú um stundir, enda tekst engan veginn að svara þörfinni. Síðast þegar íbúðir voru auglýstar til sölu bárust 900 umsóknir en aðeins 300 fengu úrlausn sinna mála. Um byggingu leiguhúsnæðis hefur tæplega verið að ræða um margra ára skeið, enda er svo komið að algjört neyðarástand ríkir á leigumarkaði og birtist það í okurleigu, yfirboðum og skuldasöfnun leigjenda sem verða að leita í annarra vasa til að standa undir fyrirframgreiðslum og hárri mánaðarleigu. Við þessu ástandi ber að bregðast, virðulegi forseti, og það verður best gert með því að stuðla að byggingu leiguhúsnæðis, einkum á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka, sem standi opið öllum þeim sem þurfa á leiguhúsnæði að halda.

Jafnframt því frv. sem hér er til umr. hef ég lagt fram þáltill. á þskj. 165 þar sem lagt er til að 200 millj. verði varið til byggingar leiguhúsnæðis. Sú upphæð dugir þó hvergi nærri til að bæta úr brýnni þörf, en er þó skref í rétta átt. Þegar hvort tveggja leggst saman, fjármagn og heimild í lögum um að allir sem þurfa eigi kost á leiguhúsnæði, ætti það að virka sem hvatning sveitarfélögum og félagasamtökum að hefjast handa. Er þess að vænta að á fáum árum takist að draga verulega úr þeirri spennu sem nú ríkir á leigumarkaðnum, nái frv. þetta og þáltill. fram að ganga.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, benda á að hér er um mikið hagsmunamál að ræða, ekki síst fyrir þær konur sem fylla láglaunahópa þessa lands, einkum og sér í lagi þær konur sem búa einar með börnum sínum. Það er okkur síst til sóma hvernig búið er að börnum í þessu þjóðfélagi, en þó tekur steininn úr þegar mæður þurfa að flytja jafnvel oft á ári vegna þess að leigusamningur rennur út. Börnin þurfa þá að skipta um skóla, jafnvel dagheimili og eru rifin upp með rótum hvað eftir annað. Það er því ekki um það eitt að ræða að fólk geti skapað sér sitt eigið heimili og búið þar sæmilega öruggt, heldur er um framtíð margra barna að tefla. Því betur sem börnum líður í æsku, því meiri líkur eru á að þau verði hamingjusamir einstaklingar er þau vaxa upp. Það verður best tryggt með því að búa þeim öruggt skjól.

Það er nú einu sinni svo í okkar þjóðfélagi að mörg börn fæðast utan hjónabands og hefur svo lengi verið. Hjónaskilnuðum fjölgar af ýmsum ástæðum og það er margt sem veldur því að heimilum fjölgar þar sem aðeins einn fullorðinn einstaklingur stendur fyrir búi. Það munu vera um 40% heimila í Reykjavík þar sem þannig háttar. Það er þessi hópur svo og allt láglaunafólk þessa lands sem á erfitt með að finna leið sér til bjargar í frumskógi húsnæðiskerfisins. Því er í frv. þessu lagt til að ný leið verði rudd gegnum myrkviðinn og sú stefna tekin upp að stuðla markvisst að byggingu leiguhúsnæðis. Það mun vonandi verða til þess að auka möguleika fólks til að velja um það í hvers konar húsnæði það býr, hver svo sem eigandinn er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.