15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi umr. hófst með fsp. til hæstv. fjmrh. Er hann í húsinu? Það er útilokað að ljúka umr. öðruvísi en hann sé í húsinu. (Forseti: Hæstv. ráðh. er í húsinu.)

Ég vil í tilefni af þessum umr. láta koma fram í fyrsta lagi af minni hálfu varðandi kennara: Ég treysti núv. menntmrh. og núv. ríkisstj. ekki til þess að láta fara fram endurmat á störfum kennara. Mér finnst hafa komið fram í máli hæstv. ráðh. og sérstaklega hæstv. fjmrh. þvílík vanþekking á störfum kennara að ég tel að það sé með öllu fráleitt að ætla þessum aðilum að hafa með það mál að gera.

Varðandi það mál sem ég fitjaði upp á hér og er hér til umr. þá er það þannig í pottinn búið að ríkisstj. hefur í heild samþykkt bréf til ráðuneytisstjóra um að það eigi að halda uppi persónulegri njósnastarfsemi um opinbera starfsmenn meðan verkfallið stendur yfir. Það á að skrifa niður það sem menn aðhafast í verkfallinu og í tengslum við verkfallið. Það kemur alveg skýrt fram. Og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. sem yfirmann dómsmála í þessu landi: Telur hann eðlilegt að persónulegar njósnir af þessu tagi fari fram? Í lögum eru til ákvæði til að vernda einstaklinga fyrir njósnum um persónuhagi og skoðanir fólks. Dómsmrh. er æðsti yfirmaður framkvæmdar þeirra laga. Telur hann eðlilegt að einstök rn. stundi skráningar á ávirðingum einstakra opinberra starfsmanna og yfirmenn opinberra stofnana geri það með þeim hætti sem hér er talað um? Ég tel að hér sé um að ræða svo alvarlegt tilræði við félagafrelsið í landinu að það sé með öllu óþolandi og þó að hæstv. fjmrh. lýsi því yfir að hann muni ekki draga bréf þetta til baka held ég að Alþingi hljóti að taka sérstaklega á þessu máli. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sem eru þau lög sem taka við um vinnudeilur í landinu þegar lögum um opinbera starfsmenn og verkfall þeirra sleppir, segir svo í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn, b. fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“

Hér er um að ræða lög nr. 80 frá 1938, nærri 50 ára gömul lög. Þau taka af öll tvímæli um að atvinnurekanda er bannað að hóta starfsmanni sínum með uppsögn meðan vinnudella stendur yfir. Það er tvímælalaust lagabrot að haga sér með þeim hætti sem fjmrh. gerir í þessu máli. Meðan verkalýðshreyfingin var að berjast fyrir réttindum sínum og félagsmanna sinna fyrir 50–60 árum reyndu atvinnurekendur aftur og aftur að beita pólitískum kúgunaraðgerðum til að halda aftur af verkafólki í réttmætum átökum þess. Nú hefur hæstv. fjmrh. íslensku ríkisstjórnarinnar árið 1984 beitt sér fyrir því að sent verði út bréf þar sem þessar deilur eru endurvaktar á ný og farið fram með hótunum gegn hinu almenna verkafólki í þessu landi.

Það hefur verið sagt í þessari deilu að það standi til að núv. ríkisstj. ætli að reyna að brjóta niður verkalýðshreyfinguna í þessu landi. Þetta bréf, sem er undirritað af Höskuldi Jónssyni og samþykkt af allri ríkisstj., staðfestir hvað ríkisstj. ætlar að gera í þessum efnum. Ég tel að hér sé um að ræða stórhættulegt fordæmi og það beri að mótmæla öllum slíkum vinnubrögðum mjög harðlega á hv. Alþingi.

Hæstv. fjmrh. gekk svo langt áðan að hann upplýsti að skráningar hafa átt sér stað og eru í gangi meðan verkfallið stendur yfir. Ég geri kröfu til þess hér og nú úr þessum ræðustól að hæstv. fjmrh. birti Alþingi þessar skráningar þegar í stað lið fyrir lið. Hér er ekki um að ræða einhverja sakleysislega annálaritun, eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson komst að orði hér áðan. Hér eru menn ekki að feta í fótspor Espólíns, eins og hæstv. forsrh. vildi láta málið líta út. Hér er verið að beita fantaskap í vinnudeilu, hóta fólki uppsögnum og fjárútlátum ef það ekki hagar sér eins og fjmrn. og yfirmönnum ríkisstofnana sýnist eðlilegt. Ég geri kröfu til þess að þessi gögn verði öll birt og ég vil gera kröfu til þess ekki einasta nú úr þessum ræðustól, heldur hér líka næstu daga og þá til ríkisstj. allrar.

Mér segir svo hugur um að margir yfirmenn ríkisstofnana muni ekki verða ýkjaviljugir við að framkvæma þetta endemis bréf fjmrn. Það kann að fara svo að þessi aðgerð, sem hér er um að ræða á vegum fjmrh. strandi víða á viljaleysi þeirra. En allt um það er ástæða til að gera kröfu til þess hér og nú að þessi gögn verði birt. Og það er hægt að hafa umr. um þessi mál utan dagskrár oftar en í dag ef þörf krefur.

Hæstv. forsrh. sagði áðan, og ætlaði að reyna að afsaka sig með því, að ríkisstj. í heild mundi fjalla um þetta mál og stefna samtökum fremur en einstaklingum. Hvaða lögskýring er nú þetta? Hvaða grein ætli það sé sem hæstv. forsrh. er að bera þarna fyrir sig? Í lögum um verkföll opinberra starfsmanna, nr. 29/1976, segir svo í 17. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Aðilar kjarasamnings bera fébótaábyrgð á samningsrofum þeim sem þeir sjálfir eða lögmætir fulltrúar þeirra gerast sekir um í störfum sínum fyrir þá. Á samningsrofum einstakra félagsmanna bera heildarsamtök eða einstök félög því aðeins ábyrgð að þeim verði gefin sök á samningsrofinu.“

Í þessum lögum er alveg ljóst að gert er ráð fyrir þeim möguleika að hérna séu báðar leiðirnar farnar, bæði að félögunum og að einstaklingunum. Hæstv. fjmrh. ætlar sér að stefna einstaklingunum. Hann ætlar að skrifa nöfn þeirra niður á svartan lista og síðan á að stefna þeim eftir vinnudeiluna. En hæstv. forsrh. þykist ætla að stefna félögunum. Það væri fróðlegt að vita hver stefnir hverjum og hvernig þegar upp er staðið í þessari deilu.

Hæstv. forsrh. hafði það eins og venjulega þegar hann er kominn í hnút og nefndi þá sögn sem hann hefur oftast nefnt frá því að hann tók við embætti forsrh. Íslands. Hann sagði: ég harma, ég harma. Það væri fróðlegt ef þjóðfélagsfræðingar tækju sér fyrir hendur að telja hversu oft núv. forsrh. landsins hefur þurft að „harma“ frá því að hann tók við sem forsrh. Ýmist hefur hann harmað afleiðingar stefnu sinnar í heilu lagi eða þá að hann hefur harmað embættisafglöp einstakra ráðh. Í þessu tilviki hefur hann séð sérstaka ástæðu til að harma að það bréf hefur verið sent út sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir hér áðan að hann og ríkisstj. bæru fulla ábyrgð á.

Ég endurtek, herra forseti, að ég geri kröfu til þess að birt verði hér á hv. Alþingi þau gögn sem koma í framhaldi af bréfi fjmrn. frá 8. okt. Ég skora enn fremur á hæstv. fjmrh. enn og aftur að draga þetta bréf til baka. Ég spyr hann: Telur hann að þetta bréf hafi orðið til þess að greiða fyrir samningum í þessari deilu? Telur hann að bréf og vinnubrögð af þessu tagi hafi flýtt fyrir lausn á verkfalli opinberra starfsmanna eða til hvers í ósköpunum eru menn að senda frá sér pappíra af þessum toga? Er ríkisstj. þeirrar skoðunar að þetta greiði fyrir deilunni? Er hæstv. félmrh., sem er yfirmaður félagsdóms, þeirrar skoðunar að hér sé löglega að verki farið þrátt fyrir skýlaus ákvæði í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur um að hegðan af þessu tagi sé stranglega bönnuð?

Herra forseti. Vinnubrögð ríkisstj. í deilu opinberra starfsmanna hafa svo að segja á hverjum einasta degi orðið til þess að spilla fyrir og eyðileggja möguleika á eðlilegu samningsandrúmslofti. Aftur og aftur hafa ráðherrarnir komið hér upp í stólinn með áskorun um að opinberir starfsmenn og aðrir reyni nú að stuðla að friði og samningum. Aftur og aftur eru þeir staðnir að því að senda frá sér plögg sem sýna embættisafglöp eins og það plagg sem ég hef hér gert að umtalsefni. Það er þess vegna ljóst að takist einhvern tíma að leysa deilu opinberra starfsmanna tekst það ekki vegna vinnubragða ráðh., heldur þrátt fyrir núv. ríkisstj.