21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

159. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi urðu miklar umr. um húsnæðismál hér í hv. deild, en þó enn meiri í Nd. vegna þess að okkur gafst nú ekki langur tími til að fjalla um þau stóru og viðamiklu mál hér, og var nokkur fljótaskrift á þeirri afgreiðslu svo ekki sé meira sagt. Það er kannske dæmigert um afgreiðslu á málum sem ekki eiga að vera þannig að önnur þd. sé með þau mestallan veturinn án alls samráðs við hina deildina, en síðan eigi önnur hvor deildin, hvor sem það er nú, ég tala nú ekki um ef það er Ed. sem á eftir að fjalla um þau, þá skuli hún hafa svo knappan tíma sem við höfðum í þessum málum í fyrra.

Það er kannske ekki ástæða til að tíunda það sem ég sagði þá í þeim umr., en á örfá atriði er rétt að benda. Ég hlýt auðvitað að styðja þetta frv. svo sjálfsagt sem það er gagnvart því að þessi liður laganna verði útvíkkaður á þann veg sem þarna er lagt til. Hins vegar fer með þessa framkvæmd að sjálfsögðu eftir þeim áherslum sem stjórnvöld eru með hverju sinni á hinum ýmsu þáttum húsnæðiskerfisins og reyndar á því hvert fjármagnið í þjóðfélaginu á að renna. Þrátt fyrir stórar yfirlýsingar í þeim efnum er það auðvitað alveg ljóst að áherslan er ekki á þessum málum í dag.

Það er vitanlega rétt, og kannske meginatriði þessa máls sem kom fram í máli hv. flm., að það er félagslega kerfið sem er eitt fært um að bjarga vissum hópum í þessu landi varðandi húsnæðismál. Það er eina lausnin sem þetta fólk á, það er alveg augljóst. Um það þekkir maður allt of mörg dæmi. Ég tek undir þá upptalningu sem hv. flm. hafði á þeim hópum.

Ég man eftir því að í ítarlegri till., sem ég flutti ásamt Vilborgu Harðardóttur á sínum tíma um úrlausnir í húsnæðismálum, komum við mjög inn á áhersluna á það að eiga jafnan möguleika á því að leigja og eiga íbúð. Ég man eftir því að einu viðbrögðin við þeirri tillögu voru neikvæð. Þá var reyndar bent á að í gangi væri áætlun um leigu- og söluíbúðir sveitarfélaga. Þar kæmi þetta inn í og þyrfti ekki frekar að athuga.

Vissulega var talsvert gert í sambandi við byggingu á leigu- og söluíbúðum sveitarfélaga og sveitarfélögin höfðu talsverðan áhuga á að ná í lán til þess arna. En þar sem ég þekki til fór það svo að innan skamms tíma voru svo til allar íbúðirnar seldar. Menn höfðu þá aðeins í huga að það þyrfti að útvega kennara, að það þyrfti að hafa lausa íbúð fyrir þá eða kannske væntanlegan sveitarstjóra. Því var kannske ein íbúð skilin eftir, jafnvel af 16–20 íbúðum sem byggðar voru. Og meðan þannig er að þessu staðið er ekki von að vel fari, því að á öllum þessum stöðum, sem ég þekki til eða nefni sérstaklega í þessu tilfelli, var eftirspurn eftir leiguhúsnæði mjög mikil allan tímann meðan verið var að selja þessar íbúðir.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að sveitarfélögin höfðu lítið bolmagn til að ráða við þetta. Þar sem leigt var, eða a.m.k. þekki ég það frá einu sveitarfélagi, fóru þeir þá leið að láta fólkið standa undir því með í raun og veru óhóflegri leigu til að halda þessum íbúðum í leigu.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess, því hér var verið að ræða um þá þörf sem hér er, að ég var einmitt í morgun að ræða við tvo forsvarsmenn verkamannabústaða hér á höfuðborgarsvæðinu og við fulltrúa tveggja félagsmálastofnana á sama svæði. Það voru ófagrar lýsingar sem mér voru gefnar þar og komu mjög heim og saman við þær upplýsingar og tölur sem hv. flm. nefndi. Ég heyrði t.d. á þeim sem núna standa í því að ætla að fara að úthluta verkamannabústöðum í Kópavogi að þeir eru í algjörri hönk, svo notað sé algengt orð, varðandi það hvernig með eigi að fara og úr eigi að velja, svo margir verðugir eru þar sem vonlaust er að veita nokkra úrlausn. Þrátt fyrir þá miklu uppbyggingu sem hefur orðið hér í Reykjavík á síðustu árum hefur vandinn engu að síður í litlu minnkað, enda fólksflæðið hingað aukist aftur í seinni tíð.

Ég vil hins vegar fullyrða að því miður sé það svo, að sérstaklega á þessu svæði sé ekki nægilegt eftirlit með því hvernig þessum íbúðum er ráðstafað. Það er auðvitað rangt í þingræðu að vera að nefna dæmi sem maður hefur haft fyrir augunum. Ég get samt ekki stillt mig um að nefna dæmi um tvær íbúðir í sama stigaganginum hér í verkamannabústöðum sem var úthlutað til mjög þurfandi aðila á sínum tíma, þar sem hagir gerbreyttust svo að hinir sömu aðilar gátu reist sér ágæt hús og leigja svo út á okurkjörum þessar sömu framkvæmdanefndaríbúðir. Það er auðvitað engin leið annað en að nefna svona dæmi sem maður hefur beinlínis fyrir augunum.

Ég held að það sé full ástæða til þess og ég hef komið því á framfæri við þá sem þessum málum stjórna að mjög brýn nauðsyn væri að gera virkilega úttekt á því hvernig um þessar íbúðir hefur farið og hverjir eru í þeim í dag. Ég veit að þarna er um viðkvæmt mál að ræða og vandmeðfarið. En ég held að misnotkun sé í mörgum tilfellum allt of mikil til þess að menn geti lokað augunum fyrir því.

Ég dreg ekkert úr því að einstæðir foreldrar séu gífurlega illa settir. Ég nefni það t.d. að einstæð móðir var að ræða við mig núna í hádeginu og segja mér frá þeim vítahring sem hún væri í. Henni gengur heldur illa að sannfæra úthlutunarnefnd verkamannabústaða um að hún hafi greiðslugetu til að standa við sinn hluta sem hún á að greiða í sambandi við íbúð, sem sé 20%, og þarf nú enginn að vera undrandi á því. Hins vegar upplýsti hún mig um það að hún borgaði nú í húsaleigu með öllu og öllu um 15 þús. kr. á mánuði. Og 15 þús. kr. á mánuði eða 180 þús. á ári er bara talsverð greiðslugeta til þess að komast inn í litla íbúð í verkamannabústöðunum. En hana er auðvitað ekkert auðvelt að sanna. Til þess að ná því marki þarf hún að fá bankalán - og því miður nýtt bankalán, því að til þess að greiða fyrirframleigu þurfti hún auðvitað bankalán áður. Vítahringurinn var alger. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta dæmi, en önnur álíka fær maður inn á borð sín ég vil segja í hverri viku, svo ekki sé meira sagt, fregnir af fólki sem þannig er ástatt um.

Ég skal ekki lengja þetta mál en segja það aðeins að lokum að í hópum fatlaðra sérstaklega er ástandið núna hreint skelfilegt. Hjá Öryrkjabandalaginu fékk ég þær upplýsingar núna að ásókn þar og vandræði fólks væru meiri en nokkru sinni fyrr. Auðvitað vitum við af hverju það stafar. Það stafar auðvitað af því að greiðslugeta þessa fólks er miklu lakari en áður. Menn verða auðvitað að gæta þess að möguleikar þessa fólks til að eignast íbúðir eru hverfandi. Lífeyrisréttindi þess eru yfirleitt engin, þessara illa settu í þessum efnum. Þeir hafa aldrei áunnið sér nein lífeyrisréttindi eða þá svo takmörkuð að þaðan er engrar aðstoðar að vænta. Og jafnvel þó þetta fólk gæti fengið lán þá er auðvitað vonlaust að það gæti staðið við skuldbindingar af þeim lánum. Ég vil því ítreka það, jafnframt því sem ég styð þetta mál og tek undir þetta með einstæðu foreldrana, að við þurfum að huga alveg sérstaklega að húsnæðismálum fatlaðra, þ.e. þeirra sem verst eru fatlaðir, og gera þar stórátak í rauninni. En þar gildir auðvitað hið sama og varðandi málið í heild. Ef áherslan á hinu félagslega kerfi er í raun og veru engin, eins og manni sýnist að nú sé stefnt að, þá er engra úrbóta og enn síður átaka að vænta.