21.11.1984
Efri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

159. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að íbúðarhúsamál skuli koma hér á dagskrá þrátt fyrir það að leiguhúsnæði sé angi af stærri heild. Sú skylda hvílir á stjórnvöldum hverju sinni að sjá til þess að hver þjóðfélagsþegn eigi þess kost að hafa yfirráð yfir húsnæði fyrir sig og sína fjölskyldu, hvort sem það er gert með því að auka húsnæðismálalán til leigu- eða eignaríbúða. Ég tel að það þurfi að fara báðar þessar leiðir því að það er alltaf stór hópur fólks sem hvorki hefur áhuga né getu til þess að eignast eigið húsnæði.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hvað varðar öryrkja og einstæða foreldra, en vil aðeins benda á ástandið eins og það er í dag. Ég sakna þess að hæstv. félmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur því að nýjar upplýsingar sem ég hef frá húsnæðismálalánasjóðunum eru þær að þeir sem eru að byggja sína fyrstu íbúð og áttu að fá lán í september hafa ekki fengið neitt enn. Þau einu svör sem þeir fá eru að peningar komi hugsanlega í desember. Þetta skýtur skökku við þær upplýsingar sem félmrh. gaf hér á dögunum sem svar við fsp. frá mér í Sþ. Nú er mér tjáð að það vanti 300 millj. til að standa við þau lánsloforð sem gefin hafa verið á þessu ári. Þessa dagana er því fjöldi fólks að hlaupa á milli bankastofnana og krjúpa í auðmýkt og biðja bankastjórana um að framlengja lán vegna dr'attar á greiðslum sem þeir bjuggust við að vera búnir að fá í hendurnar.

Ég mun því styðja þetta mál. Og reyndar var á s.l. ári gerð brtt. við frv. sem þá var til umr. um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem var mjög í þessa veru en náði ekki fram að ganga.