21.11.1984
Neðri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 148 er flutt ríkisstjfrv. þar sem lagt er til að lögfest verði samkomulag er tekist hefur með ríkisstj. og Swiss Aluminium Ltd. um tilteknar breytingar á aðalsamningi þeirra frá 28. mars 1966, með síðari áorðnum breytingum frá 1969 og 1975, um álbræðsluna í Straumsvík, samfara breytingum á rafmagnssamningi milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins hf., er honum fylgir. Eru breytingar þessar settar fram í svonefndum þriðja viðauka við aðalsamninginn og er hann dagsettur 5. nóv. s.l., sem ég undirritaði f.h. ríkisstj. með fyrirvara um staðfestingu af hálfu hins háa Alþingis.

Viðauki þessi er lagður fram sem hluti af frv., en honum fylgja eftirtaldir viðaukar við fylgisamninga aðalsamningsins er gerðir voru samtímis og eru lagðir fram til upplýsingar sem fskj. með grg. þessari:

1. Þriðji viðauki við rafmagnssamning milli Landsvirkjunar og ÍSALs.

2. Þriðji viðauki við aðstoðarsamning — rekstur milli ÍSALs og Alusuisse.

3. Breyting á stofnsamningi og samþykktum fyrir Íslenska álfélagið hf.

Þá eru lagðir fram til upplýsingar sem fskj. með grg. þessari tveir samningar sem einnig voru undirritaðir hinn 5. nóv. s.l. jafnframt undirritun þriggja viðauka við aðalsamninginn.

1. sáttargerðarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. varðandi lausn deilumála milli aðilanna í framhaldi af því sem um var samið í því efni í 1. gr. bráðabirgðasamnings milli þeirra frá 23. sept. árið 1983.

2. Samkomulagsbréf milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium varðandi framhald viðræðna um tiltekin málefni samkv. öðrum greinum í nefndum bráðabirgðasamningi.

Efni þeirra samninga sem hér um ræðir er í þremur meginþáttum:

Í fyrsta lagi hefur náðst fullt samkomulag milli ríkisstj. og Alusuisse um lausn á öllum deilumálum þeirra vegna liðins tíma, og þá sérstaklega þeirra ágreiningsefna varðandi framleiðslugjald ÍSALs sem lögð voru fyrir dómnefndir lögfræðinga og skattasérfræðinga á s.l. vetri skv. ofangreindum bráðabirgðasamningi er kynntur var á Alþingi í okt. 1983. Felst samkomulag þetta í umræddum sáttargerðarsamningi en hefur verið staðfestur sem dómsátt fyrir dómnefndum þessum og mun taka gildi sem slíkur ef frv. þetta verður að lögum.

Í öðru lagi er samið um tilteknar breytingar á nokkrum ákvæðum aðalsamningsins um álbræðsluna sem gerðar eru í tengslum við sáttargerðarsamninginn. Varða nokkrar þeirra framleiðslugjald ÍSALs og fjalla um sum þeirra atriða sem urðu að deiluefni á liðnum tíma, en aðrar fjalla um eignaraðild að ÍSAL og er ætlað að gera Alusuisse kleift að framselja hluti í félaginu til dótturfélaga sinna í einkaeign og einnig til óskyldra aðila, sem svarar til allt að 50%. Eru þetta þær heimildir sem ráðgerðar voru samkv. mgr. 3.3 í bráðabirgðasamningnum frá í fyrra og er ætlað að greiða fyrir möguleikum á stækkun álbræðslunnar. samfara þessum atriðum er gerð breyting á ákvæðum í aðstoðarsamningi um rekstur milli ÍSALs og Alusuisse og á stofnsamningi og stofnsamþykktum ÍSALs.

Í þriðja lagi er samið um grundvallarbreytingar á ákvæðum rafmagnssamnings Landsvirkjunar og ÍSALs sem fela í sér endanlegt samkomulag um verðlag á orku til álbræðslunnar næstu 20 árin, þ.e. þau tæplega tíu ár sem eftir eru af yfirstandandi samningstímabili og næsta tíu ára tímabil þar á eftir. Jafnframt eru ákvæði um hversu með skuli fara, ef samningar verða framlengdir eftir þann tíma, þ.e. á síðara tíu ára viðbótartímabilinu sem til greina getur komið skv. núgildandi samningum. Í hinum nýju ákvæðum um orkuverð felst stórfelld breyting til hækkunar frá fyrra verði, auk þess sem tryggðir eru möguleikar til endurskoðunar á samningsskilmálum eftir breyttum aðstæðum í framtíðinni. Með þeim er að fullu lokið þeirri endurskoðun á rafmagnssamningnum sem að var stefnt með bráðabirgðasamningnum frá því í fyrra.

Auk þess er staðfest með ofangreindu samkomulagsbréfi að viðræðum verði haldið áfram milli aðila um önnur málefni, þ.e. fyrst og fremst um skattamál ÍSALs og möguleika á stækkun álbræðslunnar.

Við framlagningu samninganna á Alþingi er við það miðað að þeir hljóti sömu meðferð og var í upphafi um álsamningana frá 1966. Var aðalsamningurinn þá staðfestur með lögum nr. 76 það ár og honum veitt lagagildi, en aðrir samningar lagðir fram sem fskj. til kynningar. Þessi aðferð var einnig viðhöfð við gerð fyrsta viðauka við samninginn, sbr. lög nr. 19 frá 1970, er samið var um að flýta byggingu annars kerskála bræðslunnar og lengja hinn fyrsta, og annars viðauka við samninginn, sbr. lög nr. 42 frá 1976, er samið var um breytingar á reglum um framleiðslugjald ÍSALs, hækkað orkuverð fyrir rafmagn til álversins frá Landsvirkjun og heimild til stækkunar hjá ÍSAL.

Í samræmi við þetta og 51. gr. aðalsamningsins er hinn nýi þriðji viðauki við aðalsamninginn lagður fram til staðfestingar af hálfu Alþingis sem hluti af frv. þessu, en hinir samningarnir til kynningar. Jafnframt er gildistaka allra samninganna, þ. á m. sáttargerðarsamningsins, tengd gildistöku viðaukans við aðalsamninginn, þannig að þeir öðlist ekki gildi fyrr en frv. um staðfestingu hans er orðið að lögum. á meðan gilda ákvæði bráðabirgðasamningsins um orkuverð eins og verið hefur að undanförnu.

Með grg. frv. fylgir umsögn forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaðar breytingar á rafmagnssamningi Landsvirkjunar. Síðan fylgir hinn íslenski texti hinna svonefndu fylgiviðauka með viðaukanum við aðalsamning, þ.e. viðaukans við rafmagnssamning, viðaukans við aðstoðarsamning og breyting á stofnsamningi og samþykktum fyrir Íslenska álfélagið hf. Þar á eftir fylgir hinn íslenski texti sáttagerðarsamningsins og að lokum er samkomulagsbréfið í íslenskri þýðingu.

Ég vil þá rekja aðdragandann að samkomulagi þessu. Samkomulagið milli ríkisstj. og Alusuisse um lausn deilumála og samningar þeir, sem nú liggja fyrir, eru árangur af því starfi sem unnið hefur verið á vegum ríkisstj. frá því á miðju sumri 1983, skömmu eftir að hún tók við völdum. Á þeim tíma höfðu ágreiningsmál út af skattlagningu ÍSALs varað í nær þrjú ár. Hafði fjmrn. endurákvarðað framleiðslugjald félagsins fyrir árin 1976–1980 og bætt við það viðurlögum, og jafnframt boðað lögtaksaðgerðir til að framfylgja greiðslukröfum á hendur félaginu. Til að áfrýja þeim vísaði Alusuisse málinu í alþjóðlegan gerðardóm á vegum ICSlD (International Center of Settlement of Investment Disputes) með bréfi dags. 29. apríl 1983. Hafði iðnrn. fallist á þá málsmeðferð fyrir sitt leyti með bréfi 9. maí 1983, enda var hún í samræmi við ákvæði samningsins um álbræðsluna.

Núv. ríkisstj. ákvað hins vegar að kanna möguleika á að taka málið öðrum tökum. Hinn 14. júní 1983 skipaði ég sérstaka nefnd, samninganefnd um stóriðju, sem m.a. var falið að hefja viðræður við Alusuisse með það fyrir augum að komist yrði að samkomulagi um meðferð deilumála fyrirtækisins og íslenska ríkisins og um að orkuverð yrði hækkað og viðræður hafnar milli aðila um endurskoðun gildandi samninga um rekstur álbræðslu Íslenska álfélagsins í Straumsvík.

Í nefndina voru skipaðir dr. Jóhannes Nordal, stjórnarformaður Landsvirkjunar, formaður, Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og dr. Gunnar G. Schram prófessor og núv. hv. þm. Með nefndinni hefur starfað Páll Flygenring ráðuneytisstjóri og Hjörtur Torfason hrl., lögfræðilegur ráðunautur iðnrn. í stóriðjumálum. Ritari nefndarinnar hefur verið Garðar Ingvarsson hagfræðingur.

Á fundum samninganefndarinnar með fulltrúum Alusuisse og ÍSALs þá um sumarið náðist samkomulag sem staðfest var af ríkisstj. og undirritað af mér í formi áðurgreinds bráðabirgðasamnings hinn 23. sept. 1983. Í þeim samningi var annars vegar kveðið á um aðferð til að leita skjótari lausnar á yfirstandandi deilum með því að leggja ágreiningsefni fyrir tvær sérstakar dómnefndir og hins vegar um að stofna til viðræðna um orkuverð og önnur málefni varðandi framtíðarstarfsemi álbræðslunnar í Straumsvík. Jafnframt var samið um verulega hækkun á orkuverði þann tíma sem viðræður um endurskoðun samninga stæðu yfir.

Strax eftir undirskrift bráðabirgðasamningsins var hafist handa um undirbúning frekari samningaviðræðna og komu samninganefndir aðilanna saman til fundar í lok okt. 1983, þar sem ákveðið var um fyrirkomulag viðræðnanna og skipun undirnefnda vegna nauðsynlegrar upplýsingaöflunar og undirbúningsstarfs fyrir hinar eiginlegu samningaviðræður. Þar var annars vegar um að ræða undirnefnd til að afla upplýsinga um orkukostnað áliðnaðar í Evrópu og Ameríku sem og samkeppnisstöðu álframleiðslu á Íslandi, og hins vegar undirnefnd sem ætlað var að fjalla um og gera athuganir á breyttu skattakerfi fyrir ÍSAL.

Að því er varðar samningaviðræður um endurskoðun orkuverðs hefur samninganefnd um stóriðju haft samráð við sérstaka stjórnarnefnd stjórnar Landsvirkjunar, sem skipuð var í lok okt. 1983 til þess að annast samningaviðræðurnar af hálfu Landsvirkjunar. Í nefnd þessari eiga sæti Baldvin Jónsson hrl., formaður, Birgir Ísl. Gunnarsson alþm. og Böðvar Bragason sýslumaður. Nefndin og fulltrúar hennar hafa tekið þátt í samningafundum samninganefndar um stóriðju þegar endurskoðun rafmagnssamningsins hefur verið á dagskrá. Í samræmi við ákvæði bráðabirgðasamningsins fór fram umfangsmikil gagnasöfnun á vegum nefndanna varðandi orkuverð og aðra samkeppnisaðstöðu álbræðslunnar í Straumsvík í samanburði við sambærileg fyrirtæki í Evrópu og Norður-Ameríku.

Fyrsti samningafundurinn eftir undirritun bráðabirgðasamningsins var haldinn í Reykjavík í ársbyrjun. Annar samningafundur var haldinn í byrjun febrúar og höfðu nefndarmenn þá skipulagt tíða fundi fram á vorið. Um þetta leyti forfallaðist einn af aðalsamningamönnum Alusuisse vegna veikinda og urðu aðilar sammála um að gera hlé á fundum meðan á því stóð. Var tíminn notaður til frekari vinnu að athugunum á samkeppnisstöðu álframleiðslu á Íslandi og öðrum tæknilegum þáttum málsins, sem reyndust tímafrekari en ætlað hafði verið.

Í maímánuði var aftur tekið til við eiginlegar samningaviðræður og í júní var kominn á þær verulegur skriður að því er tók til endurskoðunar orkuverðs. Hins vegar var þá jafnframt orðið ljóst að meðferð deilumála fyrir dómnefndum ætti enn langt í land. Sú skoðun kom fram hjá báðum aðilum að þetta gæti orðið verulegur hemill á framvindu samningaviðræðnanna og árangur af þeim, þannig að ástæða væri til að kanna hvort unnt væri að leysa deilumálin með öðrum hætti, þ.e. með sáttargerð. Á fundi samninganefndanna í Reykjavík í lok júlí var þetta tekið gagngert til umræðu samhliða öðrum málefnum sem fyrir fundinum lágu. Samkomulag náðist um að vinna að sáttargerð á grundvelli tiltekinna efnisatriða og yrði sáttargerðin liður í þeim heildarsamningum aðila sem að var stefnt með bráðabirgðasamningnum. Í samræmi við þetta var lögmönnum aðila falið að óska eftir því við dómnefndirnar tvær að frekari málsmeðferð hjá þeim yrði frestað meðan aðilar könnuðu til botns hvort ná mætti sáttum í málinu.

Á samningafundum í ágúst til október einbeittu aðilar sér að þessari könnun samtímis því að viðræðum um rafmagnssamninginn var haldið áfram.

Sá árangur hefur nú náðst að sáttargerðarsamningur hefur verið undirritaður. Jafnframt hefur tekist fullt samkomulag um endurskoðun rafmagnssamningsins, eins og að framan greinir. Aðrir þættir þeirrar endurskoðunar á samningum aðila, sem ákveðin var með bráðabirgðasamningnum, hafa allir verið til umfjöllunar á samningafundum það sem af er, þó ekki hafi verið unnt að leiða þá til lykta að svo stöddu. Hafa aðilar orðið sammála um að ganga endanlega frá þeim þáttum, sem meðferð er lokið á, bæði vegna mikilvægis þeirra sjálfra og svo hins, að bið eftir frekari viðræðum um aðra þætti mundi valda mjög verulegri seinkun á afgreiðslu þeirra og þá einnig nokkurri óvissu um afdrif málsins.

Með frv. þessu er leitað staðfestingar Alþingis á þeim niðurstöðum viðræðnanna sem þannig hafa náðst í þessum áfanga. Jafnframt verður viðræðum um aðra þætti haldið áfram eins og fyrr greinir.

Um starf dómnefndanna er þetta að segja: Í 1. kafla bráðabirgðasamningsins frá 23. sept. í fyrra var fjallað um lausn á deilu aðila út af framleiðslugjaldi ÍSALs, fyrir árin 1976–1980, sem upp kom í árslok 1980 og var komin í alþjóðlegan gerðardóm, eins og ég gat um áðan. Mátti við því búast, að sú meðferð málsins yrði flókin og langvinn þar sem deilan var margþætt og engin samstaða um meðferð hennar. M.a. var alls óvíst hvort unnt yrði að ljúka málinu í einni lotu, án þess að frávísunaratriði og deilur um málsmeðferð eða um einstaka þætti yrðu til að tefja fyrir framvindu þess í heild. Gæti deilan þannig staðið a.m.k. 2–3 ár og orðið kostnaðar- og fyrirhafnarsöm að því skapi.

Ekki var grundvöllur til að ná sáttum um málið haustið 1983, en hins vegar náðist samkomulag um að einfalda meðferð þess í verulegum mæli og gera hana hraðvirkari. Var aðferðin til þess einkum sú að skipa deiluefnum í tvo aðalflokka, sem hvor um sig yrði falinn sérstakri dómnefnd sérfræðinga til álitsgerðar eða úrskurðar sameiginlega. Loks yrði tölulegur útreikningur í málinu falinn þriðju dómnefndinni, sem mundi annast endurreikning framleiðslugjaldsins ef og eftir því sem við ætti í ljósi álitsgerða hinna nefndanna. Að sjálfsögðu var erfitt að fullyrða hversu langan tíma þessi málsmeðferð tæki, en samninganefndir aðila töldu ástæðu að ætla að niðurstöður aðalnefndanna tveggja gætu legið fyrir þegar um vorið 1984. Skyldi að því stefnt að svo yrði innan sex mánaða frá skipun þeirra.

Af dómnefndunum skyldi hin fyrsta skipuð þremur lögfræðingum, sérfróðum um samskipti af alþjóðlegum toga, og a.m.k. formaðurinn vera af hlutlausu þjóðerni. Þeirri nefnd var m.a. ætlað að skila álitsgerð um ágreiningsatriði í sambandi við verðlagningu á hráefnum frá Alusuisse til ÍSALs og beitingu hinnar umsömdu reglu um að fara eftir hlutlægum mælikvarða í viðskiptaháttum milli óskyldra aðila.

Aðilarnir skipuðu fulltrúa í þessa dómnefnd í okt. 1983. Alusuisse tilnefndi Leon Silverman, kunnan lögfræðing í New York. Ég tilnefndi Stanley S. Surrey, prófessor í skattarétti við lagadeild Harvard-háskóla. Þessir tveir dómnefndarmenn völdu síðan sameiginlega formann nefndarinnar, Philip Vineberg, lögmann í Montreal. Hann var skipaður í byrjun desembermánaðar 1983. Prófessor Surrey lést í lok ágústmánaðar s.l. Í hans stað tilnefndi ég Hugh Ault, prófessor í skattarétti við lagadeild Boston College, í dómnefndina. Þinghöldum dómnefndarinnar var valinn staður í New York.

Önnur dómnefndin skyldi skipuð þremur íslenskum skattasérfræðingum og skila áliti um tiltekin málefni, sem meira voru af bókhaldslegum toga, svo sem um afskriftareglur og meðferð á gengistöpum. Þessi dómnefnd var skipuð í okt. 1983. Þar sátu af hálfu ríkisstj. Ólafur Nílsson, löggiltur endurskoðandi, en af hálfu Alusuisse Sigurður Stefánsson, löggiltur endurskoðandi. Þeir tilnefndu með samkomulagi Guðmund Skaftason, hrl. og löggiltan endurskoðanda, sem formann dómnefndarinnar. Þinghöld þessarar nefndar voru ákveðin í Reykjavík.

Gert var ráð fyrir að þriðja dómnefndin yrði skipuð þegar hinar tvær hefðu lokið störfum. Áttu ríkisendurskoðandi og endurskoðendur ÍSALs að skipa dómnefnd þessa ásamt formanni sem aðilar kæmu sér saman um.

Til að annast flutning mála fyrir dómnefndum af Íslands hálfu skipaði ég þrjá talsmenn, þá Ragnar Aðalsteinsson hrl., Eirík Tómasson hrl. og Halldór J. Kristjánsson lögfræðing, deildarstjóra í iðnrn. Þessir lögfræðingar hafa farið sameiginlega með málin og haft um þau samráð við dr. Gunnar G. Schram alþm. og Hjört Torfason hæstaréttarlögmann vegna samninganefndar um stóriðju. Charles Lipton, lögmaður í New York, hefur verið lögfræðilegur ráðunautur vegna dómnefndarmálsins þar í borg.

Fyrsta þinghald dómnefndarinnar í Reykjavík fór fram í des. 1983. Málflutningur fyrir þessari nefnd var einfaldur að því leyti að ekki þurfti að koma til mikillar sjálfstæðrar gagnaöflunar með söfnun upplýsinga eða framburði vitna, þar sem málið snerist fyrst og fremst um útlistun og túlkun á samningslegum og bókhaldslegum atriðum og reglum á grundvelli upplýsinga sem þegar lágu fyrir í meginatriðum. Hins vegar fór verulegur tími í samningu og framlagningu þeirra greinargerða sem aðilar skiptust á.

Ekki tókst að ljúka málsmeðferð fyrir dómnefndinni vorið 1984, en hún var komin á lokastig í júlímánuði og fór þá fram munnlegur flutningur í málinu og það var lagt í úrskurð. Þó hafði Alusuisse gert kröfu um að úrskurður nefndarinnar um hluta af málinu yrði látinn bíða úrslita í hinu málinu, og var lagt á vald dómnefndarinnar sjálfrar að skera úr um það atriði.

Fyrsti fundur dómnefndarinnar í New York var haldinn í des. 1983 og í framhaldi af honum lögðu aðilar fram frumgreinargerðir. Fyrsta þinghald í málinu var síðan í febr. 1984. Þar var lagður grundvöllur að rekstri málsins og teknar ákvarðanir um réttarfarsatriði. Tvenn málflutningsþinghöld fóru fram, í lok apríl og lok júní, og gert var ráð fyrir frekara málflutningsþinghaldi um miðjan sept. Ljóst var þannig á miðju sumri að málið mundi enn taka verulegan tíma og jafnvel ná fram á árið 1985.

Þessi gangur málsins átti sér eðlilegar orsakir, þótt hann yrði þannig seinvirkari en aðilar höfðu búist við. M.a. kom í ljós að fram þyrfti að fara allumfangsmikil gagnasöfnun og yfirheyrsla á sérfróðum vitnum, jafnframt því sem taka þurfti tillit til þess, að hinir tilkvöddu dómnefndarmenn urðu að gegna starfi sínu við hlið annarra mikilvægra skyldustarfa, og varð því lengra en ella á milli þinghalda.

Ljóst er um dómnefndirnar að í þær völdust hinir mætustu menn, sem ríkisstj. hefur borið fyllsta traust til, og einnig hafa talsmenn ríkisstj. haldið vel á málum. Hefur sáttaleiðin ekki verið tekin af því að eitthvað hafi á skort í þessum efnum, heldur vegna þeirra kosta sem hún hefur fram yfir dómstólaleiðina. Enda þótt ákveðið hafi verið á sínum tíma að leggja deilumál aðila fyrir dómnefndir til álitsgerðar eða úrskurðar var það ekki fyrir þá sök, að þetta væri hin eina leið til að leysa úr málunum, heldur vegna hins, að ekki voru möguleikar að ná fullum sáttum eins og þá var statt. Hefur það verið eindregin skoðun þeirra, sem um málin hafa fjallað, að halda bæri á þeim eins og hverju öðru dómsmáli, þannig að ekki bæri að vísa á bug neinum raunhæfum möguleikum, er skapast kynnu til að leysa úr málinu með sátt á viðunandi grundvelli, heldur gæti slík sátt verið fullgild leið til að ljúka málinu, og málareksturinn sjálfur ein af leiðunum til að skapa grundvöll fyrir sáttinni.

Sáttargerð sú, er tekist hefur milli aðila með þessum samningi, er liður í hinum heildarlegu samningaviðræðum þeirra um þau málefni, sem um getur í bráðabirgðasamningnum og til þess ætluð að treysta grundvöllinn að sameiginlegum tengslum þeirra og vinsamlegum samskiptum í framtíðinni. Hún felur í sér lausn á öllum ágreiningsmálum þeirra í milli, sem gerð er án þess að tekin sé afstaða til einstakra mála aftur í tímann. Var það samdóma niðurstaða aðila að rétt væri að gera sáttina á þessum grundvelli, ef hún ætti að takast á annað borð.

Aðalefni sáttargerðarsamningsins er á þessa leið:

a) Ríkisstj. og Alusuisse samþykkja að ljúka deilum sín í milli varðandi framleiðslugjald ÍSALs með sátt fyrir dómnefndunum tveimur og að fella inn í þá sáttargerð allan ágreining sín í milli:

b) Ríkisstj. leysir Alusuisse og ÍSAL undan öllum framleiðslugjaldskröfum og öðrum kröfum vegna liðins tíma, og félögin falla að sínu leyti frá öllum kröfum sem um gæti verið að ræða af þeirra hálfu.

c) Alusuisse fellst á að ÍSAL greiði ríkisstj. 3 millj. Bandaríkjadala með lækkun á skattinneign ÍSALs hjá ríkissjóði skv. gildandi samningum.

d) Aðilar eru ásáttir um að gera tilteknar breytingar á ákvæðum gildandi aðalsamnings og annarra samninga, eins og að er vikið hér á eftir.

e) Tekið er fram að samningurinn feli ekki í sér neina viðurkenningu af hálfu aðila á neinni ábyrgð eða á gildi neinna krafna, staðhæfinga eða röksemda, sem farið hafa þeirra í milli.

f) samningurinn verður lagður fyrir dómnefndirnar í málum aðila og staðfestur þar sem dómsátt, með þeim fyrirvara að frv. þetta verði að lögum, sem fyrr segir. Á gildistökudegi hans falla allar kröfur fyrir dómnefndunum endanlega niður og málum þar talið endanlega lokið, auk þess sem ofangreint gerðardómsmál á vegum ICSID gerðardómsins er endanlega fellt niður.

Sáttargerðin er m.a. byggð á því viðhorfi, að deilur aðila hafi fyrst og fremst staðið um túlkun og framkvæmd á samningum aðilanna, en ekki um vanefnd á þeim, og feli í sér skoðanaágreining sem unnt eigi að vera að leysa með vinsamlegum hætti. Andófsmenn gegn álbræðslunni í Straumsvík hafa stundum hyllst til að lýsa ágreiningnum á þá leið, að Alusuisse hafi haft í frammi sviksamlegt athæfi gagnvart Íslendingum. Í þessu efni er aðstaðan hins vegar sú, að ríkisstjórn Íslands hefur aldrei sakað Alusuisse um sviksamlegt athæfi, eins og fram hefur komið í yfirlýsingum ráðherra í fyrri ríkisstjórnum, og í málarekstri fyrir dómnefndunum hefur aldrei komið til greina að hafa slíkar ásakanir í frammi.

Um þriðja viðauka við aðalsamninginn er þetta að segja:

Samningur þessi fjallar um nokkrar breytingar á aðalsamningnum frá 1966, sem áður hafði verið breytt 1969 og 1975. Er form hans með svipuðu sniði og áður hefur verið fylgt. Í inngangi er gerð stutt grein fyrir aðdraganda hans og í 1. gr. er fjallað um skýrgreiningar.

Í 2. gr. er að finna breytingar á tilteknum ákvæðum í VI. kafla aðalsamningsins um skatta og gjaldskyldu. Er þar tekið á nokkrum atriðum, sem orðið hafa að ágreiningsefni milli aðila, og þá með framtíðarlausn í huga, en ekki uppgjör vegna liðins tíma.

Í mgr. 2.01 er sett ný regla um afskriftir á mengunarvarnarbúnaði við núverandi kerskála álversins. Er búnaði þessum áætlaður sérstakur afskriftatími, eins og endurskoðendur ríkisstj. töldu eðlilegt, en hins vegar er hann hafður mun styttri en afskriftatími verksmiðjunnar, sem um var samið í öndverðu, og styðst það við eðlileg sjónarmið. Í mgr. 2.02 og á fylgiblaði er gerð töluleg grein fyrir stöðu þessara afskrifta.

Jafnframt er heimilað um gengistöp að byrjað sé að afskrifa þau á því ári er þau verða til og er það í samræmi við þau sjónarmið sem fylgt hefur verið eftir íslenskum skattalögum á síðari árum.

Í mgr. 2.03 er heimilað með breytingu á mgr. 27.03 að ÍSAL geti leiðrétt framlög í varasjóð innan hinna leyfilegu marka ef breyting eigi sér stað á þeim tekjum, sem skattur er reiknaður af, eftir að þær voru upphaflega taldar fram. Þessi regla er í fullu samræmi við þær reglur sem fylgt hefur verið við almenna skattlagningu fyrirtækja hér á landi.

Í mgr. 2.04 er gerð veruleg breyting á mgr. 29.0529.07, er fjalla um framtal og endurskoðun á tekjum ÍSALs. Er nú kveðið á um skyldubundna árlega endurskoðun á reikningum ÍSALs, í stað þess að hún var áður valkvæð og ekki framkvæmd reglulega. Af þessari breytingu leiðir að ekki á að þurfa að koma til afturvirkrar endurskoðunar á framleiðslugjaldinu, eins og um var að ræða vegna áranna 1976–1979, þegar árleg endurskoðun fór ekki fram. Er því einnig svo á kveðið, að afturvirkar aðgerðir af því tagi eigi ekki að koma til, þannig að ekki sé unnt að vefengja framleiðslugjald ÍSALs eftir á, nema endurskoðun hafi farið fram fyrir tilskilinn endurskoðunartíma.

Í mgr. 2.05 og 2.06 eru gerðar orðalagsbreytingar vegna tilfærslu ákvæða í mgr. 29.05 og 29.06.

Í mgr. 2.07 er samið um nýjan stofn skattainneignar ÍSALs samkvæmt mgr. 29.09 í aðalsamningnum, sem leiðir af hinni umsömdu lækkun inneignarinnar vegna ákvæða sáttargerðarsamningsins. Einnig er þar um samið að skuldajöfnuð vegna skattinneignarinnar skuli jafnan miða við 1. febr. árs hvers.

Í mgr. 2.08 er síðan kveðið svo á með breytingu á mgr. 33.01 í aðalsamningnum að ekki skuli lögð á viðurlög vegna framleiðslugjalds ÍSALs í sambandi við þá endurskoðun sem um ræðir í mgr. 29.06 og 29.07, þ.e. hina árlegu endurskoðun samkvæmt þeim greinum vegna ákvörðunar á nettótekjum félagsins. Hér er fyrst og fremst átt við að ekki komi til álita að beita viðurlögum hliðstæðum við þau, sem um ræðir í 106. gr. tekjuskattslaga, vegna galla eða vöntunar á framtali. Enda þótt þessi viðurlög séu talin eðlilegur þáttur í almennum tekjuskattslögum eiga þau ekki vel við um aðila eins og ÍSAL af ýmsum ástæðum, ekki síður eins og ákvæðum aðalsamningsins um greiðslu og uppgjör framleiðslugjaldsins verður nú breytt. — Mér virðist þessi setning ekki með öllu hnökralaus málfræðilega séð og mun ég athuga það síðar. — Í fyrsta lagi er framleiðslugjald ÍSALs ekki hreinn tekjuskattur og þannig ekki með öllu sambærilegt. Í öðru lagi er ÍSAL aðili, sem sætir sérstökum framtalsreglum og sérstakri endurskoðun, en venjuleg viðurlög eru ætluð til aðhalds gagnvart hinum ótiltekna hópi skattborgara þar sem útilokað er að skattyfirvöld geti endurskoðað hjá hverjum og einum. Og í þriðja lagi er m.a. á það að líta, að hin árlega athugun á nettótekjum ÍSALs er að verulegu leyti gerð til samanburðar og leiðréttingar á skatti, sem félagið er búið að greiða þegar athugun fer fram, en ekki til skattálagningar frá grunni. Má í því sambandi vísa til ákvæðanna um greiðslu skatts samkvæmt grunntaxta við útskipun áls og skatts samkvæmt leiðréttum taxta snemma á næsta ári, auk þess sem áður var nefnt um skuldajöfnuð vegna skattinneignar.

Á hinn bóginn er þessu nýja ákvæði ekki ætlað að taka til þess, hvað gera ætti ef ÍSAL gerist sekt um sviksemi í framtali tekna, og í samningum aðila hefur aldrei komið til umræðu að slíkt atferli kæmi til greina. Í því tilviki væri komið út fyrir svið venjulegra viðurlaga og inn á svið refsinga og þær mundu þá fara eftir almennum hegningarlögum.

Í 3. gr. viðaukans er gerð breyting á ákvæðum mgr. 49.01 um gildistíma aðalsamningsins til samræmis við breytingu á 15. gr. rafmagnssamningsins, er um ræðir í grg. um hann. Er hún í því fólgin að ekki þurfi að taka endanlega ákvörðun um tíu ára framlengingu samninganna í síðara skiptið, sem hún kemur til greina, fyrr en sex mánuðum fyrir valdag, þ.e. eftir að fyrir liggur hvaða orkuverð muni eiga að gilda fyrir það tímabil.

Í 4. gr. viðaukans er gerð breyting á ákvæðum 22. gr. aðalsamningsins um hluti og hluthafa í ÍSAL. Í fyrsta lagi er Alusuisse heimilað að selja þriðja aðila allt að 50% af hlutafé ÍSALs í stað 49% áður og skilgreiningu samnings á „minnihluta hluthafa“ í mgr. 1.01 breytt í samræmi við í „samþykktan hluthafa“. Ráðstöfun af þessu tagi verður að öllu leyti háð samþykki ríkisstj., sem yrði frjálst að setja hvers konar skilyrði í því sambandi, eins og um ræðir nánar í mgr. 22.03.

Jafnframt er bætt við aðalsamninginn nýrri mgr. 22.04, þar sem Alusuisse er heimilað að framselja hlutabréf í ÍSAL til dótturfyrirtækja í einkaeign sinni, þ.e. til lögaðila, þar sem Alusuisse á 100% hlutafjár eða eignaraðild. Tekið er fram að Alusuisse ábyrgist réttar og skilvísar efndir slíks aðila á skuldbindingum gagnvart ríkisstj., Landsvirkjun og Hafnarfjarðarkaupstað, eftir því sem um er að ræða.

Þessi ákvæði 4. gr. eru sett í framhaldi af mgr. 3.3 í bráðabirgðasamningnum frá 1983. Jafnframt þeim er gert ráð fyrir breytingum ákvæðum í stofnsamningi og samþykktum ÍSALs á fskj. C með viðaukanum.

Í 5. og 6. gr. viðaukans er fjallað um tengsl hans við hina viðaukana og þá fylgisamninga aðalsamningsins, sem þeir breyta, svo og tengslin við gildandi aðalsamning. I mgr. 6.02 er svo fjallað um gildistöku viðaukans í samræmi við þau sjónarmið sem lýst var í upphafi.

Á fskj. B með viðaukanum við aðalsamning er gerð breyting á ákvæðum mgr. 2.03 í aðstoðarsamningi milli Alusuisse og ÍSALs, þar sem fjallað er um tæknilega aðstoð hins fyrrnefnda við innkaup á hráefnum og öðrum aðföngum handa hinu síðarnefnda. Hefur grein þessi verið mjög til umræðu í deilumálum aðila vegna ákvæða hennar þess efnis, að Alusuisse skuli jafnan leitast við að tryggja að ÍSAL geti fengið þessi aðföng með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru.

Með breytingu þessari er það gert ótvírætt, að umrædd ákvæði 2.03 um „bestu skilmála“ eigi við í þeim tilvikum, þegar Alusuisse veitir ÍSAL aðstoð sem ráðgjafi við innkaup hjá þriðja aðila, en ekki þegar það er sjálft að selja ÍSAL hráefni frá fyrirtækjum innan samsteypunnar. Frá sjónarmiði Alusuisse skiptir þessi túlkun ákvæðisins ekki aðeins máli gagnvart ríkisstj., heldur einnig gagnvart hugsanlegum samstarfsaðila í ÍSAL samkvæmt hinum nýju ákvæðum þar um, og hefur fyrirtækið því lagt áherslu á að fá aðstoðarsamningnum breytt að þessu leyti.

Eftir sem áður verður það mgr. 27.03 í aðalsamningnum, um hlutlægan mælikvarða á viðskiptaháttum milli óskyldra aðila, sem geymir aðalákvæðin um mat á viðskiptum Alusuisse og ÍSALs. Við það mat er það meginálitaefnið hvaða viðskipti óháðra aðila séu sambærileg við viðskiptin hjá ÍSAL, og á það álitaefni getur reynt með svipuðum hætti hvort sem aðstoðarsamningnum er breytt eða ekki. — Gert er annars ráð fyrir að reglur mgr. 27.03 verði meðal þeirra atriða, sem til umræðu komi í framhaldsviðræðum aðilanna um skattamál, sem hefjast á næstunni.

Í sérstakri umsögn forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, sem fylgir frv. sem fskj. nr. 1, er að finna lýsingu þriðja viðauka við rafmagnssamninginn, en meginatriði eru eftirfarandi.

1. Orkuverð verður í framtíðinni breytilegt þannig að grunnverð verður 15 mill á kwst. Verðið breytist í samræmi við vísitölu álverðs, þó þannig að orkuverðið verður aldrei undir 12.5 mill á kwst. og ekki yfir 18.5. Vísitalan er reiknuð út frá hreyfingum fjögurra álverða, sem nákvæmlega eru skilgreind í rafmagnssamningnum.

2. Ný grein kveður svo á um að á fimm ára fresti geti hvor aðili um sig óskað eftir endurskoðun á samningunum, ef átt hafa sér stað ófyrirsjáanlegar og óhagstæðar breytingar á aðstæðum, sem leiða til röskunar á jafnvægi samningsins og harðréttis — eins og það er nefnt — fyrir aðila.

3. Ef annar hvor aðilinn neitar að verða við ósk um viðræður um endurskoðun má skjóta slíkri neitun til úrskurðar gerðardóms, sem taka verður afstöðu til þess, hvort breyttar forsendur liggi fyrir þannig að aðilum beri að hefja viðræður um endurskoðun samningsins. Ef slíkar viðræður leiða ekki til niðurstöðu má einnig skjóta þeim ágreiningi til gerðardóms.

4. Hinar nýju breytingar á rafmagnssamningnum taka gildi um leið og þriðji viðauki við aðalsamning ríkisstj. og Alusuisse, þ.e. að fenginni staðfestingu Alþingis.

5. Gildistími hins nýja orkuverðs er 20 ár, þ.e. frá því nú og þar til 35 ár eru liðin frá fyrsta afhendingardegi rafmagns, enda hafi aðalsamningurinn verið framlengdur frá 1994 til 2004. Að þeim tíma loknum getur hann framlengst um tíu ár til viðbótar ef aðalsamningurinn er þá framlengdur. Komi til slíkrar framlengingar skal samið um nýtt rafmagnsverð ef ósk kemur fram um það af hálfu annars hvors aðilans. Í samningunum er að finna ákvæði um viðmiðun við ákvörðun nýs rafmagnsverðs sem eru hagstæð Landsvirkjun. Fimm ára endurskoðunarreglan gildir einnig á þessum síðustu tíu árum samningsins.

Ég vil þá víkja aðeins að umsögn Landsvirkjunar um hinn nýja rafmagnssamning. Segir svo í þeirri umsögn, með leyfi forseta:

„Veigamesta breytingin á rafmagnssamningnum snertir orkuverðið, en hún felur í sér u.þ.b. tvö- til þreföldun á orkuverði frá ÍSAL sem Landsvirkjun bjó við áður en bráðabirgðasamningur ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse gekk í gildi hinn 23. sept. 1983. Til þess að lýsa því frekar hvaða áhrif þetta hefur á tekjur Landsvirkjunar er vísað til meðfylgjandi myndar, sem hér er birt og fylgir þessum upplýsingum, sem sýnir samanburð á orkuverði samkvæmt núverandi samningi og því orkuverði sem áætlað er að hinn nýi samningur færi Landsvirkjun. Samanburðurinn sýnir rauntölur frá ársbyrjun 1979 og áætlun um framtíðarorkuverð sem byggja á spám frá Chase Econometrics og sérfræðingunum James Kings og Robin Adams. Spáin, sem sýnd er á myndinni, er nokkurn veginn meðaltalið af áður greindum spám. Eins og lesa má af hinni meðfylgjandi mynd eru helstu niðurstöður þessar:

1. Viðbótartekjur Landsvirkjunar frá ÍSAL skv. nýja samningnum á tímabilinu 1985–1989 eða næstu fimm ár áætlast tæpar 2.100 millj. kr. á öllu tímabilinu eða um 415 millj. kr. að jafnaði.“

— Það skal fram tekið að þessir útreikningar eru byggðir á gengisskráningu sem er nú liðin saga, þannig að þessar tölur ber að umreikna, en ég tel að það skipti ekki máli. Öllum hv. þm. er fullkunnugt um þá atburði. Og þótt við nefnum hærri tölur núna eru þær ekki verðmætari.

2. „Viðbótartekjur Landsvirkjunar skv. nýja samningnum og bráðabirgðasamningnum áætlast u.þ.b. 2.230 millj. kr. fram til ársloka 1989.

3. Til þess að átta sig betur á þýðingu nýja samningsins hefur einnig verið reiknað út hvað hann hefði gefið í aðra hönd miðað við raunverulega þróun í verðlagningu á áli og sést þá að orkuverðið hefði sveiflast milli 12.5 og 16.5 milla á kwst. á tímabilinu 1979 fram til þessa dags.

Meðalorkuverð í Evrópu til álvera er nú talið á bilinu 14-15 Bandaríkjamill á kwst. og í Noregi er það nú um og innan við 9 Bandaríkjamill á kwst., en Noregur er einmitt það land sem Alusuisse hefur einna helst talið að ætti að miða við í samkeppnisaðstöðu ÍSALs. Orkuverð í Norður-Ameríku til álvera er töluvert hærra en í Evrópu eða um 20 mill á kwst., en nú á allra síðustu tímum hafa nokkur helstu raforkufyrirtæki þar boðið upp á verulega verðlækkun raforku, tímabundið, meðan áliðnaðurinn er í þeirri kreppu sem nú stendur yfir. Þá hafa sérfræðingar þeir, sem komið hafa við sögu við undirbúning samningaviðræðna við Alusuisse, komist að þeirri niðurstöðu að samkeppnisaðstaða ÍSALs væri með þeim hætti að orkuverð hér þyrfti að vera um 4 Bandaríkjamillum á kwst. lægra miðað við Evrópu og um 5 millum á kwst. lægra miðað við Norður-Ameríku til þess að ÍSAL stæði fjárhagslega jafnfætis sambærilegum bræðslum á þessum svæðum.

Hinn nýi samningur gerir einnig ráð fyrir því að aðilar hafi möguleika á að opna samninga á fimm ára fresti hvað varðar orkuverð og afhendingarskilmála. Er hér um nýmæli að ræða, þar sem ekkert slíkt ákvæði hefur áður verið fyrir hendi í rafmagnssamningi Landsvirkjunar og ÍSALs. Eru hin nýju ákvæði hér að lútandi mjög mikilvæg fyrir Landsvirkjun, þar sem þau veita fyrirtækinu æskilegan rétt til opnunar samninga ef tilteknar aðstæður eru fyrir hendi.

Upphaflegi rafmagnssamningurinn gerir ráð fyrir því að hann gildi í 25 ár, þ.e. til ársins 1994, en sé síðan tvívegis framlengdur um tíu ár í senn, þannig að hann fylgi hugsanlegum framlengingum ríkisstj. eða Alusuisse af því tagi í aðalsamningnum. Komi til slíkra framlenginga er heimilt að endurskoða rafmagnsverðið eftir ákveðnum reglum með hliðsjón af þróun álverðs í Noregi og heimsmarkaðsverði á áli. Í drögunum að þriðja viðauka rafmagnssamningsins er gert ráð fyrir 20 ára samningstíma með áðurnefndum ákvæðum varðandi breytingar á orkuverði á fimm ára fresti, svo og möguleika á tíu ára framlengingu á þann hátt sem greinir frá í lið 3 í grg. hér að framan. Komi til slíkrar framlengingar gilda þargreindar verðbreytingareglur, sem telja verður að séu Landsvirkjun hagstæðari en þær sem fyrir eru. Samkvæmt þriðja viðaukanum getur samningurinn skv. þessu gilt til 1. okt. árið 2004 eða til 1. okt. árið 2014, komi til umræddrar framlengingar, þ.e. jafnlengi og núverandi samningur getur gilt lengst.

Með hliðsjón af framangreindu er það álit okkar“, segir forstjóri Landsvirkjunar, „að samkomulag það sem lögð hafa verið drög að um breytingar á rafmagnssamningi Landsvirkjunar og ÍSALs sé Landsvirkjun mjög í vil og fyrirtækinu til verulegra hagsbóta.“

Ég mun nú stytta mál mitt í þessari grg., en vil aðeins stikla á höfuðatriðum hinna nýju samninga:

1. Gerð er sátt sem tekur til allra deilumála vegna liðins tíma.

2. Sáttin er heildarlausn og felur ekki í sér tilraun til að gera upp í einstökum málum eða fá annan aðila til að viðurkenna ábyrgð eða gildi röksemda hins.

3. Ríkisstj. leysir Alusuisse og ÍSAL undan öllum kröfum vegna liðins tíma og félögin aftur á móti leysa ríkisstj. undan hugsanlegum kröfum.

4. ÍSAL greiðir ríkisstj. 3 millj. dollara í sáttafé. skattinneign lækkar úr 7 081 071 dollar í 4 081 071 dollar.

5. Sáttargerðarsamningurinn er staðfestur fyrir dómnefndum sem dómsátt, að vísu háð samþykki hins háa Alþingis, eins og margsinnis hefur verið tekið fram.

6. Sáttargerðarsamningurinn er tengdur breytingum á aðalsamningi.

7. Settar eru nokkrar nýjar skattareglur í aðalsamning:

a. sett er ný afskriftaregla um mengunarvarnabúnað.

b. Byrja má að afskrifa gengistöp á sama ári.

c. ÍSAL má breyta framlagi í varasjóð ef framtölum er breytt.

d. Ákveðið er að endurskoðun hjá ÍSAL fari fram árlega en sé óbreytt að öðru leyti. Ekki má vefengja framleiðslugjald ÍSALs eftir á nema endurskoðað hafi verið.

e. Ákveðinn er nýr höfuðstóll skattinneignar vegna lækkunar skattinneignar. Leyst er úr ágreiningi um reikning á vöxtum af skattinneign, þ.e. miðað er við 1. febr., en þar hafði Alusuisse haldið sér við 1. maí.

f. Tekin eru af tvímæli um að ekki sé unnt að beita ÍSAL venjulegum skattaviðurlögum eins og ég vék hér að áðan.

8. Alusuisse er heimilað að selja allt að 50% hlutafjár í ÍSAL að áskildu samþykki ríkisstj.

9. Alusuisse er heimilað að selja hlutabréf í ÍSAL til dótturfélaga sinna í einkaeign og verður þá að ábyrgjast efndir af þeirra hálfu.

10. Gerð er breyting á gr. 2.03 í aðstoðarsamningi þess efnis að ákvæði um að reyna að tryggja bestu skilmála gildi í viðskiptum við þriðja aðila.

11. Samið er um nýtt orkuverð á bilinu 12.5–18.5 mill í stað 6.4–7.5 milla eftir fyrra samningi og 9.5 milla eftir bráðabirgðasamningnum frá liðnu ári. Orkuverð er miðað við álverð innan þessara marka eftir fjórum mismunandi mælikvörðum.

12. Heimilt skuli vera að endurskoða orkuverð og aðra skilmála á fimm ára fresti ef um breyttar aðstæður er að ræða.

13. Hið nýja orkuverð gildir til 1. okt. 2004, í tæp tuttugu ár, að áskildri margnefndri endurskoðun. 14. Ef samningar eru framlengdir um tíu ár eftir 1. okt. 2004 verður samið um nýtt orkuverð.

Ég hef þá lokið að flytja framsögu mína fyrir þessu mikilsverða máli. Ég vil hér koma á framfæri þakklæti mínu sérstöku til nefndarmanna í samninganefnd um stóriðju, þeirra Jóhannesar Nordals, hv. þm. Gunnars G. Schram og Guðmundar G. Þórarinssonar verkfræðings. Þeir hafa unnið frábært starf að mínum dómi. Ég held þó að á engan sé hallað þó ég taki sérstaklega fram að formaðurinn, Jóhannes Nordal, hefur gegnt lykilhlutverki í þessum viðræðum og frammistaða hans og framlag til þessarar samningsgerðar verður seint að verðleikum metið. Ég vil enn fremur nefna til menn eins og Hjört Torfason, sem er lögfræðilegur ráðunautur iðnrn. í stóriðjumálum og Garðar Ingvarsson hagfræðing.

Herra forseti. Ég legg til að þegar 1. umr. um mál þetta lýkur í hv. Nd. verði því vísað til 2. umr. og hv. iðnn. Það var við tilmælum mínum orðið, að nefndir í báðum hv. deildum störfuðu sameiginlega að vinnslu þessa máls, og vænti ég að það komi neðrideildarnefndinni — og veit með vissu — til góða þegar hún tekur nú til við þetta mál. Ég hef sagt — og endurtek það hér — að þótt málið sé brýnt og fjármunir í húfi vil ég engum ónauðsynlegum þrýstingi beita eða ákefð að málið nái fram að ganga öðruvísi en allir aðilar megi vel við una og að menn taki sér þann tíma sem þeim sýnist eðlilegur og nauðsynlegur. Á morgun er hálfur mánuður liðinn síðan framsaga var flutt fyrir málinu í hv. Ed., þannig að ærinn tími hefur gefist til að ígrunda málið, en allt að einu kann iðnn. Nd. enn að þurfa að glugga í ýmis skjöl og leita sér fleiri upplýsinga og er ekkert við því að segja. Ég legg áherslu á, herra forseti, ef þess er nokkur kostur, að mál þetta nái til n. í dag, en ég get auðvitað ekkert um það sagt hvort þess er kostur. Vil ég þó biðja hæstv. forseta að athuga hvort færi gefst á því að nýta tímann t.a.m. milli 6 og 7 til umr., en það verður þá að arka að auðnu hvernig til tekst. Ég vildi aðeins með þessum orðum koma á framfæri tilmælum mínum um að málinu verði flýtt sem kostur er, en endurtek að hv. þm. verða að fá lágmarkstíma til að kynna sér allt málið. Það vill nú svo vel til að einstaka málsmetandi manni er málið mjög vel kunnugt, þannig að það kann líka að stytta tíma í meðferð málsins. En þetta eru sem sagt tilmæli mín til viðbótar við þá till. sem ég gerði um vísun málsins til 2. umr. og iðnn.