21.11.1984
Neðri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Forseti (Karvel Pálmason):

Út af orðum hæstv. iðnrh. um málsmeðferð nú við 1. umr. skal af hálfu forseta tekið fram að hann er allur af vilja gerður til þess að sú ósk hæstv. ráðh. megi verða að veruleika. En til þess þurfa fleiri að koma. Það eru tilmæli mín til þingflokka — ég held að þeir geti líka spilað stórt í þessu — hvort þeim mundi ekki nægja þingflokksfundatími til kl. hálfsex þannig að við gætum þá byrjað fund aftur hálfsex og til kl. sjö. Ég á ekki von á að menn verði andvígir því og vil hér með beina því til þingflokksformanna hvort þeir gætu hugsað sér að deildin fengi þó ekki væri nema hálftíma af þingflokksfundatíma í dag til að halda áfram umr. Mér þykir einsýnt að málið verður ekki útrætt á fundartíma deildarinnar, þannig að lengri tíma þarf, en þetta verður allt kannað.