22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. hefur frá upphafi valdaferils þessarar ríkisstj. haft það hlutskipti að boða þjóðinni og standa í forsvari fyrir leiftursókn íhaldsaflanna sem hann hafnaði sjálfur á árinu 1979. Þá sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

„Málsvarar sjálfstfl. geta engan veginn rökstutt að þessi mikli samdráttur, þessi mikla vaxtahækkun, verðlagsfrelsið, afnám allrar vísitölutengingar launa geti þýtt nokkuð annað en heiftarlega kreppu og gífurleg átök á vinnumarkaðinum.“

Og enn boðar hæstv. forsrh. áframhald þeirrar stefnu. Fullvíst má telja að harðnandi stéttaátök, kjaradeilur og réttmæt gremja fólks í garð stjórnvalda eigi rót sína að rekja til sívaxandi misréttis í eigna- og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Sá hluti þjóðarinnar sem minna hefur úr að spila og sem við þrengstan kost býr þarf enn að fórna meðan aðrir sleppa og njóta einnig þeirra forréttinda að skammta sér laun og ákveða sjálfir hvað þeir greiða til samneyslunnar. Meðan þeir verr settu færa þungbærar fórnir uppsker þessi forréttindastétt allan gróðann.

Látlaus tekjutilfærsla frá þeim.efnaminni til forréttindahópa og þeirra betur settu virðist ekki koma þessari ríkisstj. við. Ekki er að finna orð í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um þessi mál.

Ekkert virðist að í þjóðfélaginu þó gróði safnist á fárra manna hendur eða þótt tveir eða þrír tugir einstaklinga eigi eignir sem metnar eru á 600 millj. kr. og sumir þeirra skattlausir. Ríkisstj. lokar augum og eyrum fyrir gífurlegum skattsvikum sem þó má áætla að nemi a.m.k. 7–8 milljörðum eða þriðjungi af tekjum ríkissjóðs.

Framtaldar tekjur eru oft í hrópandi ósamræmi við lífskjörin. Ríkisstj. telur það ekkert mál og hefur ekkert við það að athuga þó að álagning skatta fyrir árið 1984 sýni að meðaltal atvinnutekna í launþegastétt var á árinu 1983 195 þús. kr., en meðaltal reiknaðra launa vegna eigin atvinnurekstrar hafi verið 116 þús. kr. eða að karlar í launþegastétt hafi haft skv. skattframtali að meðaltali 309 þús. kr. í tekjur á árinu 1983, meðan meðaltal launa í atvinnurekendastétt skv. skattskýrslum sýnir 157 þús. kr. árstekjur.

Þessi ríkisstj. hefur brugðist réttlætiskennd fólksins og troðið á sjálfsvirðingu þess. Þrátt fyrir langan vinnudag og tvær fyrirvinnur heimilisins á launafólk með lágar meðaltekjur varla fyrir brýnustu framfærslu heimilanna þó þjóðartekjur á mann á Íslandi séu með þeim hæstu sem þekkjast. Í sífellt auknum mæli þarf fólk sem vinnur fullan vinnudag að leita á náðir Félagsmálastofnunar til að eiga til hnífs og skeiðar. Nú er svo komið að 25% einstæðra foreldra í Reykjavík eða 700 einstæðir foreldrar þurfa árlega að leita sér fjárhagsaðstoðar eða fyrirgreiðslu hjá Félagsmálastofnun.

Ekki vantar að hæstv. forsrh. lofi vinnuframlag kvenna í þessari stefnuyfirlýsingu sinni. Aukning þjóðarframleiðslu og góð lífskjör segir forsrh. að byggist ekki síst á löngum vinnutíma og mikilli atvinnuþátttöku kvenna. Mikið rétt. En þessi orð þín, hæstv. forsrh., hljóta að hljóma biturlega í eyrum einstæðu móðurinnar, Sóknarkonunnar á spítalanum, Iðjukonunnar á saumastofunni, konunnar í versluninni, á skrifstofunni eða í bankanum og allra þeirra þúsunda kvenna sem hafa 14 þús. kr. sér til framfærslu á mánuði — eða bónuskonunnar í fiskvinnslunni sem slítur sér út fyrir aldur fram með vinnuþrælkun. Allar þessar konur spyrja þig og krefjast svara við því hvernig þú hafir ráðstafað þjóðarauðnum því þær þekkja af afspurn þau góðu lífskjör sem þú talar um.

Þessar konur spyrja og bíða svars: Er það okkar hlutskipti að byggja upp þjóðarauðinn, en annarra að njóta hans? Líka má spyrja: Veit hæstv. forsrh. sem talar um góð lífskjör að 8200 aldraðir eða 40% 67 ára og eldri á Íslandi hafa einungis sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga? Veit hæstv. heilbrmrh. að 1900 öryrkjar eða 59% allra þeirra sem fá örorkulífeyri hafa einungis sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga?

Ríkisstj. veit það varla því hún taldi helst þangað að leita þegar hún skattlagði sjúka um 210 millj. á ári fyrir lyfja- og læknisþjónustu á sama tíma og fyrirtæki og fjármagnseigendur fengu skattfríðindi svo að hundruðum milljóna skipti. Hæstv. heilbrmrh. veit það heldur ekki því hann talar bara um áróður þegar 15 félagasamtök sjúkra og aldraðra í landinu benda honum á að afleiðingar sjúklingaskattsins séu skelfilegar, greiðslugetu sjúklinga ofboðið og heilsu þeirra og afkomu stefnt í voða.

Fatlaðir hafa einnig fengið kalda kveðju frá þessari ríkisstj. því sjóðir þeirra eru skertir um 60 millj. kr. milli ára og aðför stjórnvalda á undanförnum fjórum árum að þessum sjóði fatlaðra er með endemum því hann hefur verið skertur um 200–300 millj. kr.

Banka skortir ekki fé til að reisa bankaútibú á hverju horni, né Seðlabanka til að byggja Mammonsmusteri. Samt sjá stjórnvöld ástæðu til að veita bönkum skattfríðindi á sama tíma og fjórða hver króna er hirt úr launaumslagi ungu hjónanna sem koma að lokuðum dyrum glæstra bankastofnana þegar þau leita fyrirgreiðslu til að eiga fyrir víxlinum sem fallinn er í bankanum á hinu horninu. Sjálfsvirðing þeirra er fótum troðin. Ungu hjónin eru bæði bitur og reið því að þrátt fyrir langan vinnudag beggja eiga þau ekki fyrir framfærslu heimilanna né 25 þús. kr. afborgun og vöxtum sem mánaðarlega falla vegna íbúðakaupa.

Vaxtafrelsi, sem formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson gladdist svo yfir á haustdögum og líkti við efnahagsundur, hefur breyst í vaxtaokur og eykur enn á fjárhagsörðugleika þessara ungu hjóna, enda viðurkennir forsrh. í þessari stefnuyfirlýsingu að hann og Þorsteinn Pálsson hafi gert skyssu því að þar er vaxtaokrinu samfara vaxtafrelsinu lýst sem þrándi í götu framfara.

Góðir Íslendingar. Alþfl. vill breyta því þjóðfélagi sem ekki getur greitt vinnandi fólki mannsæmandi laun eða tryggt afkomuöryggi aldraðra og fatlaðra í þjóðfélaginu. Alþfl. krefst breytinga á þeirri stjórnarstefnu sem umsvifalaust hirðir aftur kjarabætur launafólks. Alþfl. hefur lagt fram ítarlegar tillögur á Alþingi um það grundvallaratriði að koma á meiri jöfnuði í eigna- og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu sem er forsenda þess að ná þjóðarsáttum um nýjar leiðir til bættra lífskjara. Þm. flokksins hafa einnig lagt fram frumvarp um endurmenntun vegna tæknivæðingar sem er ein helsta forsenda nýsköpunar atvinnulífsins og miðar að því að tryggja atvinnuöryggi launafólks og framfærslueyri meðan á endurmenntunarnámi stendur. Spurningin stendur ekki um það hvort þjóðin hafi efni á því, heldur snýst hún um það hvort við höfum efni á því að gera það ekki.

Alþfl. hefur einnig lagt til á Alþingi að endurmat fari fram á störfum og launakjörum láglaunahópanna í þjóðfélaginu, að lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks verði tryggð og starfsreynsla þeirra metin á vinnumarkaðinum, að jöfnuð verði skattbyrði hjóna, hvort sem annar maki eða báðir vinna fyrir tekjum heimilisins, að stórfelld lækkun verði á lyfja- og lækniskostnaði sjúkra í þjóðfélaginu, að ítarleg úttekt verði gerð á fjárhagsstöðu og framfærslukostnaði aldraðra og að átak verði gert í vistunarmálum þeirra þar sem nú ríkir neyðarástand.

Góðir hlustendur. Ríkisstjórn sem stjórnað hefur gegn réttlætisvitund þjóðarinnar og setur auðgildið ofar manngildinu á að fara frá því að hún á ekkert erindi við fólkið í landinu. —

Góðar stundir.