22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar um festu og aðhald í fjármálum og aðhald í erlendri lántöku hefur annað komið á daginn. Nú stendur ríkisstj. stefnulaus frammi fyrir alþjóð og kennir launþegum um hvernig komið er. Launþegar, öryrkjar, ellilífeyrisþegar sýndu þolinmæði og fórnfýsi í 16 mánuði frammi fyrir kjaraskerðingunni sem núverandi stjórn lét verða sitt fyrsta verk á stjórnarferli sínum. Samt hafði stjórnin hvorki dug né þor til þess að nýta sér það svigrúm til þess að ráðast að rótum verðbólguvandans, sem er brenglað stjórnkerfi og óarðbærar fjárfestingar. Ekki veitti hún heldur fjármagn til nýrra atvinnutækifæra né efldi hún menntunar- og rannsóknastarfsemi sem er þó undirstaða nýsköpunar í atvinnulífinu.

Eftir síðustu kjarasamninga var eilítil bjartsýni meðal launþega um að sú kjarabarátta sem þeir lögðu út í leiddi til lítils háttar leiðréttingar. Þessi vonarneisti var slökktur í einu vetfangi með hröðu gengissigi og síðan gengisfellingu. Þá er loksins í ljós komin pennastriksaðferð ríkisstj. Nú er það ekki pennastrikið yfir skuldir útgerðar, eins og hæstv. fjmrh. boðaði hér á s.l. vetri. Nei, nú er pennastrikið yfir kjarasamninga.

Hvað verður um hag húsbyggjenda sem nú þegar eru að sligast undan lánabyrði? Lán hækka langt umfram kaupmátt, sem veldur því að þrátt fyrir óhóflegt vinnuálag og hlaup á milli bankastofnana nást endar ekki saman. Þrátt fyrir samviskusemi, dugnað og þrotlausa baráttu við afborganir og vexti sjá fjölskyldur ekki út úr skuldasúpunni.

Ekki léttir byggingarlánasjóður ríkisins róður húsbyggjenda eða húskaupenda. Nú vantar 300 millj. í Byggingarsjóð ríkisins til þess að honum sé kleift að standa við lánsloforð. Þeir sem áttu að fá lán sín í september og treystu á loforð hæstv. ríkisstj. hafa ekki séð krónu enn og eru svörin sem fást að jafnvel sé von á peningum í desember.

Nei, það virðist ekki skipta miklu máli hjá núv. stjórnvöldum hvort hagur heimila og fjölskyldna er góður eða slæmur. Það virðist ekki skipta þau miklu máli hvort almennir launþegar, öryrkjar eða ellilífeyrisþegar eiga ofan í sig eða á, hvað þá heldur að þeir þurfi þak yfir höfuðið. Nei, meðaltalsútreikningar frá Þjóðhagsstofnun segja þeim það, sem vilja fá að heyra, að ástandið sé ekki svo slæmt þrátt fyrir að staðreyndir tali öðru máli.

Ekki líða þó allir fjárskort til framkvæmda. Það sést á seðlabankamusterinu margumtalaða og höll Mjólkursamsölunnar, svo að ekki sé minnst á flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem fær á næsta ári jafnmikið framlag og fer til byggingar á grunnskólamannvirkjum og kennarabústöðum á öllu landinu.

Ekki má gleyma olíufélögunum sem etja nú kappi sín á milli um veglegri og dýrari útsölustaði um allt land og fara svo fram á 20–30% hækkun á olíu og bensíni.

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða landsmönnum upp á í okkar samfélagi. Það er ekki hægt að segja endalaust: Það eru engir peningar til, því fólk hefur augu og eyru og það þarf ekki að láta segja sér hve ójöfnuðurinn er orðinn gífurlegur og fer vaxandi með degi hverjum.

Spyrja má að gefnu tilefni: Hvað verður um hagnað Seðlabankans þegar hann er búinn að byggja? Á sama tíma og stjórnvöld geta aðeins séð af 30 millj. kr. til uppbyggingar dagvistunarstofnana veita þau bönkunum verulegan skattaafslátt. Tekjutap ríkissjóðs vegna skattaafsláttar á bindiskyldu innlána nemur 75 millj. kr. á næsta ári. Auk þess hafa fleiri skattar verið lækkaðir á bönkum sem nemur tugum milljóna.

Það má virða hæstv. ríkisstj. það til vorkunnar að hún virðist ekki hafa stjórn á efnahagsmálum hér á landi, heldur eru það seðlabankastjórinn og forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar sem í raun og veru stjórna. Ríkisstj. fellst aðeins á þeirra tillögur.

Í stefnuræðu hæstv. forsrh. fyrir rúmu ári segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„stjórn landsmála felst ekki eingöngu í því að beita þeim tækjum sem stjórnvöld ráða yfir á líðandi stundu, heldur einnig í því að bæta sjálft stjórn- og hagkerfið. Því ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir umtalsverðum breytingum í stjórnkerfinu.“

Þetta eru fögur fyrirheit, en fátt er um efndir. Ef eitthvað er þá er það útþensla í stjórnkerfinu. Og ráðuneytin gefa sér vel á garða, eins og kemur fram í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Þar hækkar framlag til yfirstjórnar forsrn. um 54% á milli ára og hæstv. fjmrh. lætur sitt ekki eftir liggja og fjölgar stöðugildum í sínu rn. um fimm.

Í sömu ræðu sagði hæstv. ráðh.:

„Vextir verða lækkaðir eins hratt og hjöðnun verðbólgu leyfir og ættu því að vera komnir niður undir 10% í lok næsta árs.“

Þetta áform rann út í sandinn, eins og allir vita, og það löngu áður en kjarasamningar voru gerðir.

Einnig talaði hæstv. ráðh. um gengismál í fyrrnefndri ræðu. Hann sagði:

„Í l. lið, um efnahagsmál, í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. segir: „Festa verði sköpuð með raunhæfri gengisstefnu, sem ásamt aðhaldssamri fjármála- og peningastefnu myndi umgjörð ákvarðana í efnahagslífinu.“

Í samræmi við þetta stefnir ríkisstj. að sem mestri festu í gengismálunum á næsta ári. Seðlabankinn mun halda gengi krónunnar sem stöðugustu á næsta ári, innan markanna 5% til hvorrar áttar, eftir því sem nánar verður ákveðið.“

Síðan sagði hæstv. ráðh.:

„Ég vil nota tækifærið og vísa algerlega á bug fullyrðingu þess efnis að gengisfelling verði á næsta ári. Það er alrangt.“

Dæmi svo hver fyrir sig hvort mark sé takandi á stefnuyfirlýsingum hæstv. ríkisstj.

Mér er spurn: Hvar er lýðræðið í þessu landi? Hver kaus yfir sig núv. ríkisstj., ríkisstj. sem nú þegar hefur tvívegis gert tilraun til að moða saman stjórnarstefnu á rúmu ári, ríkisstj. sem situr nú stefnulaus og biður landsmenn að bíða og sjá hvort ekki finnist einhver lausn á efnahagsvandanum? Hæstv. ríkisstj. er kannske að bíða eftir að gullskipið finnist á Skeiðarársandi til þess að leysa útgerðarvandann. Ekki leysti gengisfellingin þann vanda. Hún ein og sér olli 800–1000 millj. kr. hækkun á lánum útgerðarinnar.

Það er nákvæmlega sama hver af kerfisflokkunum situr við stjórnvölinn. Þeir hafa hvorki bolmagn né getu til þess að stokka upp í kerfinu. Því þá mun hrikta í innviðum flokkanna. Það er því ekki ástæðulaust að BJ var stofnað til höfuðs flokkakerfinu. Það stoðaði lítið að skipta um formenn, því að meira þarf en breyttar umbúðir á sama pakka til að innihaldið skáni.

Herra forseti. Ágætu áheyrendur. Þessu verður ekki breytt fyrr en til valda koma stjórnmálamenn sem ekki eru flæktir í þetta kerfi. Það er ekki hæstv. ríkisstj. sem hefur stjórn á kerfinu, heldur er það kerfið sem hefur stjórn á ríkisstjórninni. — Góðar stundir.