22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Umbrot og sundrung hafa öðru fremur einkennt íslenskt þjóðlíf undangengnar vikur eftir að innanlandsfriðnum var slitið í sundur í verkfallsátökum. Við slíkar aðstæður reynir meira á Alþingi og forustuhlutverk þess en í annan tíma. Ekkert er auðveldara en að hagnýta sér aðstæður sem þessar til þess að ala á sundurlyndi, kynda undir óánægju og auka á vonleysi manna. Gagnkvæmar ásakanir stjórnar og stjórnarandstöðu duga skammt til þess að móta farsæla framtíðar- og uppbyggingarstefnu og þétta raðir fólksins í landinu til þess að takast sameiginlega á við þau verkefni sem við blasa.

Ég ætla ekki í þessum umr. í þrætur um það sem liðið er. En eigi að síður er óhjákvæmilegt að draga upp í einföldum dráttum mynd af því sem gerst hefur.

Óðaverðbólgan hafði verið kveðin niður. Það hafði tekist að viðhalda jafnvægi milli verðlags og launa frá haustmánuðum síðasta árs fram á haustmánuði þessa árs. Í febrúarsamningunum náðist víðtæk samstaða við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í skatta- og tryggingamálum til þess að verja hagsmuni þeirra sem lakast eru settir. Allar aðstæður voru því fyrir hendi til þess að viðhalda jafnvægi og verja kaupmátt. Það hafði á sannast með hjöðnun verðbólgunnar að auðveldara var að verja kaupmáttinn en áður, enda varð meginhluti lífskjaraskerðingarinnar á þeim tíma sem verðbólgan tvöfaldaðist í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Á haustmánuðum átti þjóðin um tvo kosti að velja: annars vegar að leysa kjarasamninga með hefðbundnum hætti á þann veg að fjölga verðlausum verðbólgukrónum í launaumslögunum eða á hinn bóginn að finna nýjar leiðir þar sem því tvíþætta markmiði yrði náð að verja kaupmátt og viðhalda því efnahagslega jafnvægi sem náðst hafði. Til þess að brjótast fram með nýjum hætti gerði ég tillögur um það í fyrri hluta septembermánaðar að aðilum vinnumarkaðarins yrði boðið til þríhliða viðræðna með stjórnvöldum. Tilgangur þeirra yrði sá að finna farveg fyrir sameiginlega lausn á kjaradeilunum með víðtækum skattalækkunum. Í sjónvarpsviðtali af þessu tilefni gat ég þess að hin hefðbundna leið mundi einungis leiða til atvinnuleysis eða gengisfellingar. Þessi ummæli urðu tilefni til mikillar mótmælaöldu og gagnrýni er leiddi til þess að úr hömlu dróst að aðilar vinnumarkaðarins kæmu til viðræðna við stjórnvöld um þessi efni.

Þegar á reyndi kom í ljós að mjög almennur vilji var til þess að troða nýjar slóðir út úr þeim erfiðleikum sem við óneitanlega vorum í. Það var auðvitað enginn hægðarleikur að leysa málið með þessum hætti, en það var þó auðveldara og giftusamlegra en að fara hina gömlu verðbólguleið. Þrátt fyrir hin kröftugu mótmæli í upphafi varð niðurstaðan sú að forustumenn landssambandanna innan ASÍ sýndu að lokum mikinn áhuga til þess að takast á við kjarasamningana á þessum grundvelli. Einsýnt virðist að þjóðarsátt hefði tekist með þessum hætti ef Alþýðusambandið hefði haft aðstöðu til að móta og hafa forustu um lausn kjaradeilunnar. En því miður var þessi tilraun brotin á bak aftur á öðrum vettvangi. Þegar nýir kjarasamningar höfðu verið undirritaðir lýsti formaður Verkamannasambandsins yfir því að enn á ný hefðu verið gerðir verðbólgusamningar.

Þannig kom á daginn að þau aðvörunarorð sem ég mælti í septembermánuði voru ekki hótun, heldur kaldur veruleiki sem við verðum nú að horfast í augu við. Hjól tímans hefur þannig verið fært aftur á bak. En það er með öllu ástæðulaust að láta hugfallast. Við verðum að hefja baráttuna á nýjan leik og læra af þeirri dýrkeyptu reynslu sem fengist hefur síðustu vikur. Við þurfum nú að gera umbætur og kerfisbreytingar til þess að geta hagnýtt okkur tækniþróunina í sókn til bættra lífskjara. Þær ákvarðanir sem við tökum núna munu ráða úrslitum um það hvort þessi þjóð mætir nýrri öld með framförum og vaxandi hagsæld ellegar hvort við drögumst aftur úr öðrum þjóðum sem við viljum jafna okkur til.

Það er í ljósi þessarar ábyrgðar sem við og aðilar vinnumarkaðarins eigum að ráðast til atlögu við viðfangsefnin. Við úrlausn vandamála dagsins verðum við að hafa hugfast að við erum að skapa framtíð þessarar þjóðar.

Í kjölfar þeirra kjarasamninga, sem gerðir hafa verið, hækka bætur almannatrygginga til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á launatekjum, þannig að lífeyrisþegar dragast í engu aftur úr þeirri almennu launaþróun sem átt hefur sér stað. Um leið verður ýtt í framkvæmd fyrsta áfanga lækkunar tekjuskatts af almennum launatekjum. Loks verðum við nú þegar að hefja undirbúning fyrir endurnýjun kjarasamninga á næsta ári. Fyrir þá sök er brýnt að leita á ný að lausn til þjóðarsáttar í þríhliða viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Við eigum ekki að kasta þeirri hugmynd frá okkur þótt hún hafi ekki náð fram að ganga að sinni. Þvert á móti tel ég brýnna en nokkru sinni fyrr að stofnað verði til slíkra viðræðna því að viðreisn atvinnuvega og lífskjara hefst ekki í innanlandsófriði, heldur með sáttum milli stétta og byggðarlaga.

Viðræður af þessu tagi geta enn byggt á því að verja kaupmátt með lækkun skatta eða aðflutningsgjalda og aðhaldssamri gengisstefnu er haldið gæti niðri verðlagi m.a. á opinberri þjónustu og ýmsum lífsnauðsynjum. Endurskipulagning húsnæðislánakerfisins gæti einnig orðið veigamikill þáttur í þessum viðræðum.

Alþb. hefur nú forustu um að ala á þeirri sundrung og úlfúð sem óneitanlega greip um sig í hinum hatrömmu vinnudeilum. Ugglaust ræður það mestu um óábyrga afstöðu Alþb. að þau öfgaöfl, sem um nokkurt skeið hafa starfað utan þess, eru nú á ný að verða þar ráðandi afl. Kvennalistinn er eins og angi af Alþb., enda greiða fulltrúar hans aldrei atkvæði á annan veg á Alþingi en móðurskipið. Nýkjörinn formaður Alþfl. hefur í kastþröng valið þann kost að skríða undir regnhlíf gömlu félaganna í Alþb. með þær þverstæðukenndu yfirlýsingar á vörunum að þannig ætli hann að ná fylgi frá Sjálfstfl.

Það er meginstefið í gagnrýni þessara svokölluðu alþýðuflokka að mikil tilfærsla á fjármunum hafi átt sér stað í þjóðfélaginu frá launafólki til atvinnufyrirtækja. Sannleikurinn er sá að báðir aðilar, atvinnufyrirtækin og launafólkið, hafa orðið fyrir áföllum vegna minnkandi þjóðartekna. Hagtölur sýna að hlutdeild launa í verðmætasköpun þjóðfélagsins er nú talsvert meiri en árið 1980, en nokkru lægri en síðustu tvö árin. Fátt bendir því til þess að þessar fullyrðingar stjórnarandstöðunnar hafi við rök að styðjast. En ég tel að það gæti verið rétt, í því skyni að treysta heilbrigða samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu og til þess að stuðla að málefnalegum umræðum að sett verði niður nefnd þessara aðila, og hugsanlega einnig með þátttöku aðila vinnumarkaðarins, er hefði það verkefni að gera ítarlega úttekt á tekjuskiptingu og hlutdeild launa í verðmætasköpun og þjóðartekjum. Sú vinna gæti komið að gagni fyrir endurnýjun kjarasamninga á næsta ári. Ég mun beita mér fyrir því að þetta verði gert og stjórnarandstaðan fái aðild þar að.

En við skulum ekki loka augunum fyrir því að það hefur átt sér stað tekjutilfærsla. Þessi tekjutilfærsla er ekki frá launafólki til innlendra fjármagnseigenda. Hún er frá íslensku launafólki og hún er frá íslenskum atvinnufyrirtækjum til erlendra fjármagnseigenda. Sú skuldasöfnunarstefna sem Alþb. stóð fyrir og boðar enn hefur leitt til þess að vaxtagreiðslur þjóðarinnar til útlendinga í hlutfalli af atvinnutekjum hafa tvöfaldast frá árinu 1978. Þessi skuldasöfnun hefur ekki leitt til aukins hagvaxtar, þvert á móti. Frá árinu 1972 hafa þessar vaxtagreiðslur til útlendinga fimmfaldast. Það þýðir 3000 millj. kr. tilfærslu til útlendinga. Það er af þessari braut, sem Alþb. markaði í upphafi, sem íslenska þjóðin þarf nú að hverfa.

Við þurfum nú að setja okkur markmið um aukinn ha vöxt. Við getum ekki sætt okkur við að þjóðartekjur á Íslandi minnki ár frá ári meðan aðrar þjóðir sækja fram á við. Við þurfum því í þröngri stöðu að skapa svigrúm til aukinnar arðsamrar atvinnuuppbyggingar um land allt. Um þetta markmið kunna menn að vera sammála en greina á um leiðir. Alþb. boðar nú sem fyrr allsherjarskipulagsstjórn í atvinnumálum. Öll framþróun og nýsköpun á að vera að opinberri forskrift. Sjálfstfl. stendur gegn þessum gömlu úreltu sósíalísku kreddukenningum. Hitt er nær nútíðinni að byggja hér upp á grundvelli félagslegs markaðsbúskapar. Við viljum m. ö. o. láta atvinnulífið standa á eigin fótum og hafa aðstöðu til þess. Atvinnufyrirtækin eiga ekki að vera á félagslegu framfæri undir ríkisskipulagi. Reynslan sýnir okkur að aukið sjálfstæði atvinnuveganna hefur hvarvetna leitt til mestra framfara og alhliða uppbyggingar. Á hinn bóginn viljum við nota afrakstur þessa skipulags til þess að byggja upp velferðarkerfið sem auðvitað er forsenda þess að við getum lifað sáttir, Íslendingar, sem ein sameinuð þjóð í þessu landi.

Í atvinnumálum stöndum við sannarlega frammi fyrir miklum vanda. Í rótleysi verðbólgutímans gátum við ekki tryggt að fjárfestingarfjármagnið skilaði þeirri ávöxtun sem nauðsynleg er til að standa undir batnandi lífskjörum. Því er brýnt að þær umfangsmiklu kerfisbreytingar í fjárfestingarmálum, sjóðakerfi og bankamálum, sem samkomulag varð um milli stjórnarflokkanna í haust, verði sem fyrst að veruleika. Við verðum að aðlaga stjórnkerfið og fjármagnskerfið að kröfum nýs tíma — kröfum um mikla arðsemi, aukinn hagvöxt og bætt lífskjör fólksins í landinu.

Engum blandast hugur um að brýnustu úrlausnarefnin í atvinnumálum eru nú í sjávarútvegi. Með öllu var útilokað að leysa allan rekstrarvanda sjávarútvegsins með gengisbreytingu. Þar þurfa því enn að koma til margháttaðar aðgerðir, bæði af opinberri hálfu og fyrirtækjanna sjálfra. Þótt við ætlum að sækja fram með nýjungar á ýmsum sviðum í atvinnumálum verður sjávarútvegurinn enn um ókomna tíð meginuppistaða gjaldeyrisöflunar landsmanna og atvinnu landsbyggðarfólksins. Þess er að vænta að samkomulag sem náðst hefur um endurskipulagningu í landbúnaðarmálum eigi eftir að treysta þá mikilvægu atvinnugrein og um leið að skapa sættir á milli framleiðenda og neytenda, enda er nú höfuðmál að ljúka því stríði sem of lengi hefur staðið um landbúnaðinn. Við þessar aðstæður hafa iðnaður og verslun og margs konar þjónusta verið í framfarasókn þrátt fyrir hrakspár.

Máttur þjóðarinnar til nýsköpunar í atvinnumálum er ekki síst fólginn í menntun hennar. Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við stöndum að öflugu skólastarfi og leggjum rækt við alhliða rannsóknir. Í þessum efnum hafa miklar breytingar átt sér stað. Við þurfum auðvitað að huga að því hvort í öllum greinum hafi verið stefnt í rétta átt. Brýnt er að aðlaga menntakerfið sem mest má verða að þörfum atvinnulífsins. Tæknibyltingin, skólarnir og atvinnulífið eiga að vera og þurfa að verða ein samrofa heild. Þá verðum við að huga að því að breyttir þjóðlífshættir kalla á endurskipulagningu skólastarfsins með tilliti til hagsmuna heimilanna. Samfelldur skóladagur og sveigjanlegur vinnutími eru kröfur nútíma lifnaðarhátta. Til kennara eru og verða gerðar miklar kröfur. Það er auðvitað ekki óeðlilegt að kjör þeirra séu metin í samræmi við það og þær margháttuðu skipulagsbreytingar sem íslenskt skólakerfi þarf nú vafalaust að ganga í gegnum.

Þessar umræður tengjast og nýjum viðfangsefnum sem við getum ekki lokað augunum fyrir og lúta að stöðu kvenna á vinnumarkaði og heimilum. Við þurfum í skattalegum efnum að koma á meiri jöfnuði milli þeirra sem starfa innan veggja heimilisins og hinna sem vinna úti í atvinnulífinu. Um leið getum við horft á það gerast að tiltekin störf verði kvennastörf og almennt verr borguð en önnur. Gegn þessari þróun þarf að snúast með ýmsum hætti og löggjafinn þarf að sjá svo um að kynferði manna hvorki ívilni né hamli þeim við starfsval. Öll helgast þessi verkefni af hræringum sem eru að gerast í heiminum umhverfis okkur. Ísland er sannarlega eyja í Norður-Atlantshafi, en Íslendingar verða aldrei aftur eyland í samfélagi þjóðanna.

Á þeim tíma sem Sjálfstfl. hefur farið með stjórn utanríkismála, nú í annað sinn frá því að flokkurinn hafði forustu um það 1949 að landið gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, hefur enginn þurft að fara í grafgötur um stefnu þjóðarinnar í utanríkis- og öryggismálum. Þá barðist Sjálfstfl. fyrir því að Íslendingar yrðu þátttakendur í samstarfi vestrænna þjóða í hinum víðtækasta skilningi og um varnarmál sérstaklega. Nú er það stefna Sjálfstfl. að Íslendingar verði eins virkir í þessu samstarfi og verða má, axli sjálfir meira af þeirri ábyrgð sem því fylgir að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð.

Verulegar umræður hafa orðið um stríð og frið á Vesturlöndum undanfarin ár. Þær hafa nú breytt um svip. Af því má í stuttu máli draga einn lærdóm. Enn einu sinni hefur verið staðfest að stefna þeirra sem vilja treysta sameiginlega varðstöðu lýðræðisríkjanna nýtur meira fylgis en hinna sem telja friðkaup við einræðisríki sósíalista besta kostinn. Svokallaðar friðarhreyfingar ala á stríðsótta á meðan við tölum um leiðir til að varðveita friðinn. Áróðursstríð af þessu tagi heldur áfram, en mestu máli skiptir að tapa ekki áttum. Við höfnum hlutleysi milli einræðis og lýðræðis, milli mannréttinda og frelsis.

Án frelsis og öryggis getur þjóðin ekki gengið til daglegra starfa og notið sín í samskiptum við aðrar þjóðir, hvort heldur er í menningarlegum efnum eða viðskiptalegum. Einnig á þeim sviðum alþjóðlegra samskipta þurfum við að vera virkir. Við verðum að laða fram bestu krafta á meðal þjóðarinnar og styrkja þá í harðri samkeppni við aðrar þjóðir, setja markið hátt að þessu leyti, ekki síður en að gera kröfur um sömu lífskjör og þær þjóðir sem næst okkur standa. Alþjóðleg upplýsingabylting, bættar samgöngur og aukin ferðalög eiga eftir að tengja okkur umheiminum enn frekar en áður. Til að njóta okkar í auknu návígi við aðrar þjóðir verðum við að hlúa sem best að því sem skapar okkur sérstöðu sem þjóð í sögunni, í ljóðinu, í tungunni og upprunanum, þeirri arfleif sem okkur var trúað fyrir og við megum ekki glata.