22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Íslendingum er svo lýst nú um stundir að þeir séu hamingjusamir, trúaðir og bjartsýnir. Kannske kemur einhverjum þetta á óvart þegar haft er í huga að það er mjög til siðs að hafa uppi barlóm, einkum meðal stjórnmálamanna og fjölmiðla. Þeir telja gjarnan allt á niðurleið, enda ofbeldi og ófarir nánast það eina sem talið er fréttnæmt. Sem betur fer er nú komið í ljós að Íslendingar trúa blöðunum allra þjóða verst, enda vita þeir sem er að við megum teljast heppin miðað við flestar aðrar þjóðir heims. Við eigum nægilegt vatn, meiri mat en við getum torgað og erum laus við lögreglusveitir sem hundelta fólk. Við eigum auðvitað við okkar vanda að stríða, en Íslendingar vita sem er að þeir búa í gjöfulu landi.

Í Íslandsklukku Halldórs Laxness lýsir Jón Hreggviðsson fyrir frú Arneus á eftirfarandi hátt þeirri góðu eign, Íslandi, sem hann kveður Snæfríði Íslandssól eiga, en hún er sem tákn íslenskrar reisnar.

„Sagðirðu penínga, — hún á meiri penínga en nokkur kvenmaður í Danmörk, sagði Jón Hreggviðsson. Hún á alla penínga Íslands. Hún á silfur og gull framanúr öldum. Hún á öll höfuðból landsins og hjáleigurnar með, hvort sem henni tekst að stela þeim aftur frá kónginum eða ekki: skógarjarðir og laxár kona; rekajarðir þar sem ein júferta dugir til að byggja upp Konstantínópel ef maður ætti sög; flæðiengi og starmýrar; afrétti með fiskivötnum og beitilöndum uppí jökla; varpeyar útí hafsauga þar sem þú veður æðardúninn í hné kona; iðandi fuglabjörg þverhnípt í sjó þar sem heyra má glaðan sigmann bölva niðrá sextugu á jónsmessunótt. Og þó er þetta minnst af öllu sem hún á, og ég endist aldrei til að telja.“

Þannig sá bóndinn á Rein kosti landsins. Við sem nú lifum getum bætt við bústofni og nýrækt, vegum og brúm, húsum og bílum, skólum og sjúkrahúsum, leikhúsum og óperum að ógleymdri sjálfri lífsbjörginni, fiskinum í sjónum. Við eigum enn gull framan úr öldum og verk þeirra kynslóða sem á undan okkur hafa gengið. Við, sem erum aðeins 240 þús. manns, rétt á við eina meðalborg í Evrópu, ættum að vera komin þjóða lengst í að skapa réttlátt þjóðfélag. Tæplega nokkur þjóð í heimi á aðra eins möguleika til að vera fyrirmynd í viturlegri stjórn, réttlæti og friði við aðra menn vegna þess að við erum fá og við byggjum kostajörð. Ef þjóðartekjunum væri jafnt skipt gætu allir haft góð laun og gamla fólkið og öryrkjar búið við öryggi.

Ef störf kvenna væru metin að verðleikum mundi það gerbreyta öllu gildismati og útrýma kynjamisrétti á vinnumarkaðinum. Ef allir þeir, sem telja sig yfir það hafna að greiða sinn skerf til samfélagsins, gerðu fullnaðarskil væri hægt að búa enn betur að skólum, heilbrigðisþjónustu og húsnæði fólks og þá gætu allir valið um það í hvernig húsnæði þeir byggju. Ef því fé, sem varið er í bankamusteri, væri varið til dagvistunarstofnana væri börnunum vel borgið. Ef ytri tákn, eins og risavaxin flugstöð, væru látin lönd og leið væri hægt að bæta allar samgöngur. Ef olían væri seld á eðlilegu verði væri útgerðin ekki svo aðkreppt. Ef orka til stóriðju væri ekki seld undir kostnaðarverði gætu landsmenn allir setið við sama borð og hitað eða lýst híbýli sín án þess að það sligi heimilið. Ef ekki væri bruðlað og sóað gæti menningin blómstrað í nýsköpun og hugmyndaauðgi. Ef stjórnað væri viturlega og af réttlæti fengju sjónarmið kvenna að njóta sín og þær sætu jafnt á við karla alls staðar þar sem ákvarðanir eru teknar. Ef Íslendingar ættu frumkvæði að því að lýsa land sitt kjarnorkuvopnalaust og hafna öllum vígbúnaði og hernaðarlausnum yrði stigið skref í átt til friðar og afvopnunar. Ef það jafnrétti, sem Íslendingar vilja að ríki manna á meðal, væri til staðar liti samfélagið öðruvísi út. Kostir landsins væru þá nýttir í allra þágu.

En því miður. Jafnréttisþjóðfélagið á langt í land. Þrátt fyrir velferð og uppbyggingu á mörgum sviðum hafa stjórnvöld um áratuga skeið valið að viðhalda í megindráttum stefnu sem byggir á stjórn karla á nánast öllum sviðum. Launamisrétti, skattamisrétti og kynjamisrétti. Öllu þessu hefði verið hægt að útrýma fyrir löngu ef vilji hefði verið til þess.

Það hefur margur lagt mikið á sig í þágu betra þjóðfélags, t.d. kvennahreyfingin og verkalýðshreyfingin. En hér hafa peningaöflin löngum leikið lausum hala og fengið að skara eld að eigin köku í friði, aldrei þó í betri friði en síðustu 18 mánuði.

ríkisstj., sem nú situr og hefur í kvöld kynnt landsmönnum stefnu sína, trúir á frelsi — frelsi í bönkum, frelsi í verslun, frelsi í útvarpi og stóriðjufrelsi að ógleymdu frelsinu til að semja af sér. En þeir ríkisstjórnarmenn vita sem er að frelsinu eru takmörk sett. En þau takmörk ná skv. þeirra skilningi m.a. til kjarasamninga, verkfalla og húsnæðismála.

Já, það er einkennilegt, þetta frelsi. Verslunin og bankarnir fá að leika sér að vild, en landbúnaðurinn og útgerðin eru svipt nánast öllu frelsi og mega sæta skipunum, kvótakerfi og niðurskurði. Ekki ber ég á móti því að stjórnunar sé þörf í undirstöðuatvinnuvegunum. Það er bara skilgreining ríkisstj. á frelsinu sem hljómar undarlega í mínum eyrum.

Það er kátt í verslunar- og bankahöllunum þessa dagana, að ekki sé nú talað um álhöllina. En í kotum launafólks ríkir ekki mikil gleði eftir að árangur margra vikna baráttu fyrir bættum kjörum var hrifsaður aftur skv. skipun seðlabankastjóra. Sá maður leyfir sér að tala um nauðsyn gengisfellingar áður en fólk hefur svo mikið sem fengið þá launahækkun sem á að valda svo mikilli þenslu. Heldur fólk að það hafi verið BSRB-félagar sem hömstruðu gjaldeyri rétt fyrir gengisfellinguna? Heldur fólk að konurnar í Bæjarútgerðinni hafi hlaupið til og keypt vídeótæki? Nei, það eru þeir sem þegið hafa gjafir ríkisstj. á silfurbakka, verslunarálagninguna frjálsu, lækkun á lúxussköttum og launahækkanir hjá einkafyrirtækjum sem hafa bolmagn til að halda uppi óbreyttri veltu í þjóðfélaginu og stöðugum innflutningi.