22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ræður nokkurra hv. stjórnarandstæðinga og fullyrðingar hér í kvöld gefa mér tilefni til að víkja sérstaklega að ástandi þjóðmála við síðustu alþingiskosningar sem fóru fram fyrir aðeins einu og hálfu ári. Okkur var þá öllum ljóst að við óvenjumikla örðugleika var að etja í íslensku þjóðlífi og um það efaðist enginn að grípa þyrfti til róttækra aðgerða ef ekki ætti illa að fara. Verðbólgan mældist þá 130% og ég skil mjög vel að hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, vilji gleyma því í dag. Viðskiptahallinn var á árinu 1982 kominn í 10% af þjóðarframleiðslu. Gengi íslensku krónunnar hafði verið fellt átta sinnum frá því í sept. 1978, auk gengissigs. Gengislækkunin þetta tímabil nam 87%. Þá var öllum ljóst að atvinnuvegir landsmanna höfðu verið reknir með miklum halla þrátt fyrir einstök aflabrögð á þessum árum. Fyrirsjáanleg var stöðvun fjölda atvinnufyrirtækja sem leitt hefði til atvinnuleysis.

Þeir sem gerst þekktu og tóku þátt í stjórn landsins mestan hluta þessa tímabils lýstu afrakstri starfa sinna með þeim hætti að hér hefði skapast neyðárástand. Alþb. birti tillögur sínar á þeim grundvelli og lagði fram neyðaráætlun til fjögurra ára. Þannig var ástandið að þeirra dómi. Þannig var ástandið að dómi hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnars Arnalds.

Þrátt fyrir hið hörmulega ástand sem ríkti hér við síðustu kosningar og þá skoðun sumra að fjögur ár þyrfti til að rétta þjóðarskútuna við hefur tekist á því 11/2 ári sem ríkisstj. hefur starfað að ná umtalsverðum árangri í efnahagsmálum. Í upphafi varð ríkisstj. að grípa til róttækra efnahagsráðastafana, sem fólu í sér viðurkenningu staðreynda, og rauf þann vítahring sem svo lengi hafði kynt undir báli verðbólgunnar. Meginsjónarmið ríkisstj. var að ná niður verðbólgunni og tryggja fulla atvinnu.

Auk nýsköpunar í atvinnulífinu lagði ríkisstj. áherslu á að bæta starfsskilyrði hinna hefðbundnu atvinnuvega og gera sérstakt átak í útflutningsmálum. Jafnframt var lögð áhersla á að hefja á ný uppbyggingu stóriðnaðar sem undir forustu Alþb. hafði verið bannfærður í fimm ár og með því verið komið í veg fyrir aukningu þjóðartekna. Jafnframt þessu voru og gerðar margs konar ráðstafanir til að tryggja hag þeirra sem lakast voru settir, m.a. ellilífeyrisþega og öryrkja og þeirra sem staðið hafa í húsbyggingum, og enn í dag hefur heilbrmrh. gert grein fyrir ákvörðun ríkisstj. þar sem tryggð er leiðrétting fyrir tryggingaþega, ekki aðeins miðað við það ástand sem er í dag, heldur aftur í tímann frá þeim tíma sem hv. þm. Svavar Gestsson var heilbrmrh.

Eitt af þýðingarmiklum atriðum í stefnu ríkisstj. hefur verið að draga úr hvers kyns hömlum og leitast við að skapa einstaklingum, atvinnufyrirtækjum og stofnunum aukið frelsi til ákvörðunartöku og athafna, öllum til hagsbóta, ekki hvað síst neytendum. Gerðar hafa verið breytingar í verðlagsmálum. Reynslan af því hefur fært okkur heim sanninn um það, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram, að frjáls verðmyndun skilar neytendum hagstæðara vöruverði. Á s.l. sumri var bönkum og sparisjóðum fengin í hendur ákvarðanataka í vaxtamálum. Nokkrir úr hópi hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa sérstaklega gagnrýnt þessar breytingar hér í kvöld. Þeir fullyrða að aukið frelsi viðskiptabanka og sparisjóða til að ákveða þann arð sem þessar stofnanir eru reiðubúnar að greiða sparifjáreigendum hafi leitt til vaxtahækkana sem ekki sé unnt að þola. Svo virðist sem þessir hv. alþm. séu nú búnir að gleyma sparifjáreigendunum, gamla fólkinu, börnunum, sem á liðnum árum hafa ekki fengið réttmætan arð af sparifénu sínu.

Þegar líða tók á þetta ár varð mönnum ljóst að aðgerðir ríkisstj. höfðu skilað umtalsverðum árangri og markmiðin í sjónmáli. Verðbólgan stefndi í 13% miðað við framfærsluvísitölu, viðskiptahallinn hafði minnkað um helming frá 1982, gengi íslensku krónunnar hafði verið stöðugt, staða ríkissjóðs fór batnandi, nafnvextir lækkuðu og í fyrsta sinn um langan tíma hlutu sparifjáreigendur raunvexti, verðlagsbreytingar urðu í samræmi við þróun kaupgjalds. Þrátt fyrir minnkandi afla hefur sjávarútvegurinn haft betri afkomu en á aflaárunum 1981 og 1982. Starfsskilyrði iðnaðar hafa ekki verið betri um langt árabil. Þetta gerðist þrátt fyrir minnkandi þjóðarframleiðslu þriðja árið í röð.

Þegar lagt var á brattann voru menn misjafnlega bjartsýnir, en árangurinn lét ekki á sér standa. Stjórnarflokkarnir gerðu því með sér samkomulag á haustmánuðum um áframhaldandi aðgerðir til þess að fylgja eftir þeim góða árangri sem náðst hafði. Við því hefði mátt búast að menn væru reiðubúnir að staldra aðeins við og leggja mat á stöðu mála, meta þann árangur sem kominn var í ljós, átta sig á því að ekki væri fyrir hendi aukin verðmætasköpun sem til skipta gæti komið. Stjórnarflokkarnir lögðu því áherslu á lausn kjarasamninga er grundvallaðist á tilfærslu tekna í þjóðfélaginu. Ríkisstj. var reiðubúin til verulegra skattalækkana sem stuðlað gætu að skynsamlegum launasamningum, sem kæmu þeim lægstu launuðu að sem mestu gagni. Slíkt samkomulag átti mikinn hljómgrunn á meðal landsmanna. Því miður varð niðurstaðan á annan veg og með afleiðingum sem allir gerðu sér grein fyrir fyrir fram.

Ríkisstj. mun bregðast við með nauðsynlegum ráðstöfunum sem tryggi að markmið stjórnarflokkanna í efnahagsmálum frá því í sept. nái fram þótt um nokkurn tíma beri okkur af leið.

Áherslu verður að leggja á nýsköpun í atvinnulífinu til aukningar þjóðartekna og er þar horft mjög til fiskiræktar. Án þess getum við ekki vænst þess að lífskjör okkar batni.

Góðir Íslendingar. Ég hef þá trú að fólk vilji að fenginni reynslu staldra við og horfast í augu við tímabundna erfiðleika, leggja grundvöll að bættum lífskjörum í framtíðinni á forsendu þeirrar stefnu sem ríkisstj. vinnur að og gerð hefur verið grein fyrir hér í kvöld, þannig að sú þjóðarsátt, sem formaður Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á, geti tekist. — Góða nótt.