26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um lögverndun á starfsheiti kennara. Mál þetta er flutt á þskj. 123. Ásamt mér eru flm. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Kristófer Már Kristinsson. Frv. þetta er í sjö greinum og koma efnisatriði þess fram í fyrstu fjórum greinunum svo og í ákvæði til bráðabirgða. Ég vil leyfa mér að vitna hér í þessar greinar með leyfi forseta:

„1. gr. Rétt til að bera starfsheitið kennari hefur sá einn sem fullnægir skilyrðum laga nr. 51/1978, um embættisgengi kennara og skólastjóra.

2. gr. Óheimilt er að ráða til kennslustarfa við skólastofnanir á vegum opinberra aðila aðra en þá sem réttindi hafa skv. 1. gr., með þeim undantekningum sem leiða af ákvæðum 3. gr.

3. gr. Takmarkað og/eða tímabundið leyfi til kennslustarfa má veita þeim sem eru í starfi þegar lög þessi öðlast gildi en uppfylla ekki skilyrði 1. gr.

4. gr. Sérstök nefnd, skipuð fulltrúum menntmrn. og stjórnar Bandalags kennarafélaga að jöfnu, skal veita umsögn um allar ráðningar skv. 2. gr. og leyfisveitingar skv. 3. gr.

Í 7. gr. frv. er m.a. gert ráð fyrir að úr gildi falli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 51/1978, um embættisgengi kennara og skólastjóra, og 3. málsl. 8. gr. sömu laga.

2. mgr. 7. gr. umræddra laga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sæki enginn um stöðu kennara sem fullnægir ákvæðum þessara laga um menntun og starfsreynslu er heimilt að setja í starfið mann sem hlutaðeigandi skólastjóri og skólanefnd telur hæfan.“

Og 3. málsl. 8. gr. hljóðar þannig: „Sæki enginn um stöðu skólastjóra sem fullnægir ákvæðum þessarar greinar varðandi menntun og starfsreynslu er heimilt að setja í starfið mann sem hlutaðeigandi skólanefnd telur hæfan.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að þessi ákvæði í lögunum um embættisgengi kennara og skólastjóra falli brott til samræmis við ákvæði þessa lagafrv. Síðan er sérstakt ákvæði til bráðabirgða í frv. svohljóðandi:

„Komi upp sú staða við skóla að enginn með tilskilin réttindi sæki um auglýsta stöðu getur skólanefnd sótt um leyfi til menntmrn. til þess að ráða starfsmenn til að sinna kennslustörfum til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Nefnd skv. 4. gr. skal einnig veita umsögn um ráðningu slíkra starfsmanna. Leitast skal við af hálfu ráðuneytis og skólanefndar að fækka slíkum undanþágum. Með það í huga skal endurmeta þetta ákvæði um heimild til að veita undanþágur ekki síðar en að þrem árum liðnum frá gildistöku laga þessara.“

Í grg. með frv. er að finna í senn lýsingu á aðdraganda þess að flm. leggja það hér fram og rökstuðning fyrir efnisatriðum frv. Markmiðið með flutningi frv. er að treysta stöðu kennara í landinu með því að lögvernda starfsheiti þeirra sem hafa full kennararéttindi og heimilt er að ráða til starfa hjá opinberum skólastofnunum jafnframt því sem veitt er eðlilegt svigrúm til aðlögunar og undanþágu tímabundið skv. 3. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða.

Það var í septembermánuði s.l. að Bandalag kennarafélaga, nýlega stofnað, snéri sér til þingflokka á Alþingi og kynnti fyrir þeim áhugamál sín og stefnumið.

Í bréfi þessu dags. 11. sept., var sérstök áhersla lögð á það baráttumál kennarastéttarinnar að kennarastarfið verði lögverndað og það gert óheimilt að ráða aðra til kennslustarfa en þá sem hafa aflað sér réttinda til starfsins.

Eftir að þetta erindi barst þingflokki Alþb. hóf ég vinnu til undirbúnings að þessu lagafrv. og tók síðan upp samvinnu við fulltrúa úr öðrum þingflokkum sem gerðust samstarfsmenn um þetta mál og ákváðu að flytja það hér með mér.

Á mótunarstigi þessa máls var einnig haft sérstakt samráð við stjórn Bandalags kennarafélaga. Þangað snéri ég mér með bréfi þann 15. okt. og óskaði eftir umsögn um þau drög sem fyrir lágu. Stjórn Bandalags kennarafélaga svaraði með bréfi viku síðar, þann 22. okt., og gaf ýmsar ábendingar um þau drög sem höfðu verið kynnt því og í framhaldi af því voru gerðar breytingar á þeim frumvarpsdrögum sem fyrir lágu og þau felld í það form sem hér liggur fyrir. Ég vil ekki leyna því að Bandalag kennarafélaga hafði uppi óskir um það að ganga jafnvel enn lengra en gert er með frv. þessu varðandi lögfestingu á starfsheiti kennara og verndun á stöðu þeirra sem full réttindi hafa. Get ég þessu til áréttingar vitnað í bréf frá stjórn Bandalags kennarafélaga frá 22. okt. þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Markmið Bandalags kennarafélaga er að enginn stundi kennslu sem ekki hefur til þess tilskilin réttindi. Þess vegna er ekki talið rétt að í lögunum séu tíundaðar undanþáguheimildir af neinu tagi. Hins vegar gæti í bráðabirgðaákvæðum með ákveðinni tímasetningu komið fram hvernig bregðast skuli við þegar enginn með tilskilin réttindi sækir um auglýst starf. Bandalag kennarafélaga leggur á það höfuðáherslu að hafa úrskurðarvald þegar fjallað verður um slíkar undanþágur.“

Fleiri ábendingar komu fram í þessu erindi sem ég sé ekki ástæðu til að tíunda hér, enda var, eins og ég hef áður greint frá, tekið tillit til ýmissa af ábendingum stjórnar Bandalags kennarafélaga við mótun málsins.

Við flm. töldum hins vegar ekki rétt að ganga þannig fortakslaust til verka að ekki væri veitt svigrúm fyrir þá aðila sem nú stunda kennslustörf án þess að hafa til þess full réttindi. Því er hér að finna í 3. gr. ákvæði til þess að veita takmarkað og tímabundið leyfi til kennslustarfa þeim sem eru í starfi þegar lögin öðlast gildi en uppfylla ekki skilyrði 1. gr., auk þess sveigjanleika sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða. Það getur að sjálfsögðu ekki verið markmið löggjafans að standa þannig að máli að neyðarástand skapist við skólastofnanir í landinu vegna þess að ekki sé hægt að ráða til þeirra hæfa krafta með full réttindi. Því er eðlilegt að mati okkar flm. að veita þann aðlögunartíma og svigrúm sem fram kemur í þessu frv.

Meginrökin fyrir því að sett sé löggjöf af þessu tagi eru þau að styrkja þurfi stöðu skóla og fræðslustarfs í landinu með því að búa þannig að kennurum, sem hafa undirbúið sig undir starf sitt, að þeir leiti til starfa í skólum landsins og þannig fái skólakerfið notið krafta þeirra. Það ástand hefur skapast, og reyndar má líta nokkuð langt til baka, að í skólum landsins er við störf allverulegur fjöldi fólks sem ekki hefur lokið tilskildu námi og ekki fengið tilskilin kennsluréttindi. Það eru engar slíkar hindranir í vegi fyrir því að ráða slíka aðila til starfa að það hafi reist við því verulegar skorður. Þau ákvæði sem er að finna í þessu frv. eiga að sporna hér við þannig að því fólki, sem hefur búið sig undir kennarastarfið og aflað sér til þess fullra tilskilinna réttinda, sé tryggður forgangur til starfa og stefnt sé að því innan ekki langs tíma að eingöngu slíkir aðilar verði ráðnir til starfa í skólum landsins.

Það eru vissulega mörg fordæmi þess, og þeim hefur farið fjölgandi á undanförnum árum, að starfsréttindi einstakra starfshópa eða starfsstétta séu lögvernduð. Í grg. með frv. er vitnað til slíkra fordæma. Þau er að finna m.a. á heilsugæslusviðinu. Við minnumst einnig frv. til l. um bókasafnsfræðinga, sem er nýjasta dæmið af þessu tagi, en það var samþykkt sem lög á síðasta þingi.

Við höfum trú á því, þó að auðvitað sé alltaf álitamál hversu langt skuli ganga í þessum efnum, að lögfesting á starfsheiti kennara og réttindum þeirra til starfa með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir verði til þess að tryggja skólunum hæfari krafta og kennurum með full réttindi þann aðbúnað og launakjör að þeir kjósi að starfa í skólunum og leggi kennarastarfið fyrir sig til lengri tíma og geri það helst að sínu ævistarfi.

Reynslan hefur orðið sú á undanförnum árum, vegna þess hve mjög kjör kennara hafa versnað, að margir gamalreyndir kennarar hafa horfið frá kennslu. Nú er ástandið raunar þannig sem kunnugt er að um eða yfir 50% grunnskólakennara hafa veitt samtökum sínum heimild til að segja störfum þeirra lausum frá tilteknum tíma og 70% kennara á framhaldsskólastigi. Frestað hefur verið ákvörðun af hálfu kennara á grunnskólastigi og samtaka þeirra um það hvenær þessum uppsögnum yrði beitt og ákveðið nú nýverið að doka við og sjá hvort stjórnvöld í landinu sjá til þess að bæta aðstöðu og kjör kennara með þeim hætti sem vonir hafa verið gefnar um, m.a. af hæstv. menntmrh. á þessu þingi. Framhaldsskólakennarar hafa enn ekki tekið afstöðu til þess hvort uppsögnum verði beitt, eins og heimilda hefur verið aflað til, til þess að leggja áherslu á réttindabætur þeim til handa. En þessi mikla samstaða kennara í landinu á bak við kröfuna um bætt kjör og ákvörðun af þeirra hálfu að hætta í rauninni til starfi sínu með uppsögn með þeim hætti sem kynnt hefur verið segir sína sögu.

Það eru ekki aðeins launakjörin sem koma inn í þessa mynd, þó að þau vegi eðlilega þyngst, heldur aðrar starfsaðstæður kennara. Það er ekki nokkur vafi á því að á undanförnum árum hefur álag á kennara í starfi og kröfur, sem til þeirra eru gerðar, aukist mjög verulega og launakjörin í engu fylgt þar á eftir. Sama er uppi á teningnum þegar störf kennara eru borin saman við störf aðila sem starfa utan hins opinbera kerfis að margháttuðum störfum sem eru síst vandameiri eða ábyrgðarmeiri en kennarastarfið þar sem gjörólík kjör eru í boði. Nefnd eru dæmi um tvöföld launakjör sem kennurum bjóðast ef þeir leita til starfa utan skólanna og jafnvel þaðan af hærri upphæðir. Það þarf því engan að undra þótt megnrar óánægju gæti hjá kennurum, vaxandi óánægju miðað við það hvernig kjör þeirra eru og þá einnig með tilliti til vaxandi krafna sem til þeirra eru gerðar.

Það er ástæða til að vænta þess að á gildistíma þessara laga, ef frv. þetta verður afgreitt hér frá Alþingi, verði lögð áhersla á að þeir kennarar, sem ekki hafa lokið fullu kennsluréttindanámi, eigi kost á að bæta þar úr til þess að afla sér tilskilinna réttinda. Það var raunar gengið út frá því þegar sett voru lög nr. 51/1978, um embættisgengi kennara og skólastjóra, að sérstaklega yrði greitt fyrir því á vegum Kennaraháskóla Íslands að þeir gætu fullnægt þeim skilyrðum sem sett voru með þeim lögum. Við flm. þessa frv. ítrekum það að við slík ákvæði verði staðið en svo hefur ekki orðið í reynd á undanförnum árum. Aðgangur að námskeiðum á vegum Kennaraháskóla Íslands hefur verið takmarkaður, bæði vegna ónógra fjárveitinga og einnig hins, að námskeiðin hafa verið þannig upp byggð að kennslufræðilegur bakgrunnur hefur verið talinn nauðsynlegur til þess að kennarar hefðu not af þeim.

Það er tekið fram í grg. með þessu frv. að á grunnskólastigi séu það um 400 kennarar sem ekki hafa tilskilin réttindi eða 15% kennara á því skólastigi. Ástandið í þessum efnum er mjög misjafnt eftir landshlutum. Utan suðvesturhornsins er ástandið mun lakara en hér á Reykjavíkursvæðinu og segir það sína sögu. Það er því mikil nauðsyn að greiða sérstaklega fyrir því að kennarar á landsbyggðinni, sem vilja stunda kennslustörf og afla sér til þess fullra réttinda til frambúðar, eigi þess kost að bæta úr því sem á vantar að þeir hafi fyllstu réttindi.

Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð að í hópi starfandi kennara, sem ekki hafa aflað sér fyllstu kennsluréttinda, er að finna fjölda af ágætisfólki sem veldur sínu starfi vel. Hins vegar er full ástæða til að ætla að það væri enn betur í stakkinn búið til þess eftir að hafa aflað sér fullra réttinda.

Mér er um það kunnugt og það hefur reyndar komið hér fram á þinginu að hæstv. menntmrh. hefur haft áhuga á því að taka undir þau efni sem fram komu í erindi Bandalags kennarafélaga á sínum tíma. Þann sama dag sem frv. þetta var lagt hér fram í Nd. mun hafa verið sett á laggirnar sérstök nefnd með aðild Bandalags kennarafélaga til að undirbúa sérstakt stjfrv. um þessi efni. Ég fagna því auðvitað ef um þetta baráttumál kennarastéttarinnar og annarra sem unna menntun og skólastarfi í landinu getur tekist sem víðtækust samstaða hér á Alþingi. Ég á ekki von á því að aðrir aðilar sem færu ofan í saumana á þessu máli kæmust að mjög ólíkri niðurstöðu við þá sem fram kemur hér í þessu frv. Ég vænti því að frv. þetta verði til að greiða fyrir löggjöf um þessi efni. Ekki er ég heldur í vafa um það að slík lögverndun á starfsheiti kennaranna verði til þess að auka gæði skólastarfsins og tryggja þá undirstöðu sem mikilverðust er, þ.e. kennslukraftana, að þar fáist valinn maður í hvert sæti. Það er markmiðið með því frv. sem ég hef mælt hér fyrir.