26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð vegna þess máls sem hér er til umr.

Strax í haust hafði skólamálahópur Samtaka um kvennalista ákveðið í samvinnu við þm. samtakanna að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um fyrirætlanir hennar varðandi lögverndun á starfsheiti kennara. Bæði er að þetta er einlægt baráttumál þeirra kennara sem sitja í áðurnefndum skólamálahópi og jafnframt er það brýnt réttindamál allra kennara, enda er lögverndun kennarastarfsins eitt af þeim fjórum meginmarkmiðum sem tilgreind eru fyrir hið nýstofnaða Bandalag kennarafélaga. Jafnframt var á fulltrúaþingi Kennarasambands Íslands á s.l. vori gerð eftirfarandi samþykkt sem ég vil lesa með leyfi forseta:

„Þriðja þing Kennarasambands Íslands samþykkir að fela stjórn sambandsins að hefja nú þegar viðræður við menntmrn. um undirbúning frv. til l. er verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi um lögverndun starfsheitis grunnskólakennara.“

Frv. hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar og annarra varð tilbúið eftir að ég hafði lagt fsp. um sama efni fram á þinginu og beið eftir svari ráðh. Fannst okkur þm. Kvennalista rétt að heyra svar ráðh. við fsp. minni áður en við flyttum frv. um sama mál, en áform Samtaka um kvennalista voru að heyra skoðun hæstv. ráðh. og fyrirætlan í þessum efnum en leggja síðan fram frv. til l. um sama efni ef þurfa þætti. Um efnisatriði þessa máls vísa ég að öðru leyti til framsögu minnar þegar ég bar fram fsp.

Af svari hæstv. ráðh. mátti ráða að hún ætlaði að sinna þessu máli. Og það sem meira er, því er ætlað að verða tilbúið til flutnings mjög fljótt. En ég vil vitna til orða hæstv. ráðh. við fsp. minni í Sþ. þann 23. okt. s.l. Þá sagði ráðh.:

„Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. spyr: Er hafinn undirbúningur að frv. til l. um lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara?

Svarið er já. Nú fyrir u.þ.b. þremur vikum kom formaður Kennarasambands Íslands að máli við mig og ræddi m.a. þetta atriði og ég tjáði mig fúsa til þess að vinna að slíku lagafrv. og vinna að framgangi þess, hafði enda hugleitt það mál allmikið. Nú nýlega hefur rn. farið þess á leit við Bandalag kennarafélaga að það tilnefni þrjá menn í nefnd til að undirbúa ásamt starfsmönnum rn. frv. til l. um lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Vænti ég þess að það líði ekki mjög margir dagar áður en slíkt frv. verður tilbúið.“

Það er augljóst af fsp. minni, svörum hæstv. ráðh. og flutningi þessa frv. hv. 5. þm. Austurl. o.fl., ásamt og með þeim viðhorfum annarra þm. sem komið hafa fram í umr. hér á Alþingi um málefni kennara, að mikill áhugi er fyrir því hér á þinginu að mál þetta nái fram að ganga. Það er því von mín að þeirri undirbúningsvinnu sem ráðh. hefur þegar sett á laggirnar verði senn lokið og vildi ég beina fsp. til hæstv. ráðh. um það hvað því máli liði.