27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

1. mál, fjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1985, þskj. 1.

Af ástæðum sem þingmönnum eru vel kunnar hefur nokkur dráttur orðið á því að unnt væri að mæla fyrir fjárlagafrv. fyrir 1985. Á þeim tíma sem upphaflega var ráðgert að flytja framsöguræðu fyrir frv. stóð yfir verkfall opinberra starfsmanna og þar sem útlit var fyrir að samningar við opinbera starfsmenn mundu raska þeim tekju- og útgjaldagrunni, sem frv. var byggt á, þótti eðlilegt að bíða með framsögu þar til samningar lægju fyrir og menn hefðu skýra mynd af áhrifum þeirra á ríkisbúskapinn. Einnig þótti eðlilegt, eftir að samningar lágu fyrir, að bíða með að gera grein fyrir fjárlagafrv. og breytingum á því þar til heildaraðgerðir ríkisstj. í kjölfar kjarasamninganna lægju fyrir. Þessar ráðstafanir hafa nú verið ákveðnar, eins og fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra s.l. fimmtudag. Á næstu dögum munu síðan koma til meðferðar Alþingis þau mál sem þessum aðgerðum tengjast og lagabreytinga þurfa við.

Í kjölfar þeirrar breytingar á gengi íslensku krónunnar sem óhjákvæmilegt var að gera og kom til framkvæmda í síðustu viku hefur ríkisstj. ákveðið ýmsar aðgerðir til að milda áhrif gengisfellingarinnar fyrir almenning. Þegar hefur verið greint frá verulegum hækkunum bóta almannatryggingakerfisins sem í nokkrum tilfellum eru umfram hinar almennu peningalaunahækkanir. Alls hækka tryggingabætur 1985 um rúmlega 100 millj. kr. umfram verðlagshækkanir. Einnig hefur verið ákveðið að greiðslur fyrir lyf og lækniskostnað hækki ekki á næsta ári. Þá hækka framlög til niðurgreiðslna til samræmis við áætlaðar verðlagsbreytingar, þannig að niðurgreiðslur á vöruverði verði á næsta ári sama hlutfall og ráð var fyrir gert í fjárlagafrv. Þá hefur, eins og ég hef áður skýrt frá, verið ákveðið að lækka tekjuskatt um 600 millj. kr. á næsta ári og mun sú lækkun koma til framkvæmda með þeim hætti að skattar allra gjaldenda lækka frá því sem verið hefði, en skattur hinna tekjulægstu og heimila með eina fyrirvinnu þó mest. Í frv. sem ég mun brátt mæla fyrir hér á Alþingi er gert ráð fyrir að skattþrep einstaklinga verði 20, 31 og 44% í stað 23, 32 og 45% í ár. Hámarksmismunur á sköttum hjóna eftir því hvort fyrirvinna er ein eða tvær mun minnka stórlega frá því sem verið hefur eða úr rúmlega 80 þús. kr. í rúmlega 56 þús. kr. Mun ég gera nánari grein fyrir þessari skattalækkun þegar ég mæli fyrir frv. um þau efni. Ég vil í þessu sambandi einnig minna á stjfrv. það sem ég lagði nýlega fram og gerir ráð fyrir skattfrelsi manna á fyrsta ári eftir að þeir láta af störfum. Mun sú ráðstöfun mjög milda og auðvelda þau viðbrigði er verða við starfslok hjá almennu launafólki.

Þær ráðstafanir til að létta undir með fólki með lækkun skatta sem ég hef rakið ættu að taka af öll tvímæli um það hver hugur minn og ríkisstj. er til lækkunar skatta. Ber að harma að ekki reyndist unnt að tengja þessar skattalækkanir kjarasamningunum fyrr á þessu hausti.

Þeir kjarasamningar sem knúðir voru fram í lok október setja um margt strik í reikning þess árangurs í efnahagsmálum sem náðst hafði frá því núverandi ríkisstj. tók við völdum í maí í fyrra. Búið var með margháttuðum ráðstöfunum að ná fram ótrúlega mikilli hjöðnun verðbólgu á þessum tíma og margt benti til þess að verðhækkanir á næsta ári gætu orðið innan við 10%. Samningarnir, sem gerðir voru, voru langt frá því að geta rúmast innan þessa ramma og því þarf engum að koma á óvart þótt verðbólga vaxi á ný næstu tvo ársfjórðunga eða svo. Hins vegar ætti að vera unnt að tryggja með þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur nú ákveðið og með mikilli aðhaldssemi í peningamálum og fjármálum ríkisins á næsta ári að verðbólgan eftir mitt næsta ár verði ekki meiri en hún var áður en kjarasamningarnir voru gerðir. Þá verður væntanlega unnt að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið við að reyna að koma verðbólgunni á það stig sem hún almennt er í okkar helstu viðskipta- og nágrannalöndum þannig að atvinnulífið og efnahagsstarfsemi í landinu geti búið við þann stöðugleika og það öryggi sem nauðsynlegt er til að geta skapað hér ný atvinnufyrirtæki og batnandi lífskjör. Vænti ég þess að aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar ríkisvaldsins taki höndum saman á næsta ári, reynslunni ríkari, til þess að tryggja raunhæfari kjarasamninga en nú voru gerðir.

Áður en ég sný mér að fjárlagafrv. sjálfu vil ég segja nokkur orð um starfsmannamál ríkisins sem voru mjög í sviðsljósinu í nýafstöðnu verkfalli BSRB.

Það er ekki síður þýðingarmikið fyrir ríkið sem atvinnurekanda en önnur atvinnufyrirtæki að hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem er sátt við vinnu sína og þann sem unnið er fyrir. Án þess getur ríkið sem atvinnurekandi ekki vænst þess að geta veitt þegnum sínum þá þjónustu sem því er ætlað og þeir eiga kröfu á.

Ég skal ekki verða langorður um framkvæmd verkfalls opinberra starfsmanna. En í ljósi þeirrar reynslu sem þá fékkst virðist óhjákvæmilegt að gera breytingu á þeim lögum sem um þessi mál gilda, m.a. til þess að komast hjá harkalegum deilum um valdsvið kjaradeilunefndar.

Þá tel ég líka nauðsynlegt að aðilar efli til muna samstarf sín í milli á samningstímanum og miðli upplýsingum hvor til annars. Þannig ætti aðilum að vera ljósari staða og viðhorf hvors aðila þegar að samningum kemur.

Þá hef ég óskað eftir því að kannað sé á hvern hátt koma megi á fastmótaðri stefnu í starfsmannahaldi hjá ríkinu þar sem m.a. yrði reynt að hafa skýrari afmörkun verka og ábyrgðar, bætta starfsaðstöðu og búnað, koma á hvetjandi vinnuumhverfi, auka endurmenntunarmöguleika starfsmanna og að starfsmenn ríkisins verði sér meira meðvitandi um vinnuframlag og vinnugæði. Þá tel ég ekki síður mikilvægt að reynt sé að skapa þau skilyrði að starfsmenn ríkisins geti átt þess kost að skipta tíðar um störf innan ríkiskerfisins, en með því ætti mönnum að vera meira í mun að sýna hæfni í störfum sínum.

Á hinum almenna vinnumarkaði hefur á síðustu árum verið innleitt svonefnt hvetjandi launakerfi. Spurningin er sú hvort ekki sé æskilegt að taka upp slíkt fyrirkomulag hjá ríkinu þar sem því verður við komið. Gæti þetta auðveldað ríkinu að halda í sinni þjónustu hæfu og góðu starfsfólki. Hins vegar er ljóst að ekki mun vera hægt að koma slíku fyrirkomulagi við í fjölmörgum störfum vegna þess að erfitt mun reynast að koma á mælingu vinnu og afkasta, en eigi að síður tel ég mikilvægt að þessi mál séu skoðuð og þá í samráði við stéttarfélög opinberra starfsmanna.

En eitt ætti mönnum að vera ljóst, að sú hefðbundna verkfallsbarátta sem nú tíðkast gefur ekki aðilum þær kjarabætur sem menn vonast eftir. Opinberir starfsmenn, sem þátt tóku í verkfallinu, verða lengi að vinna upp það tekjutap sem verkfallinu fylgdi og hæpið að það vinnist upp á samningstímanum. Tap þjóðarbúsins og óþægindi alls almennings er ómælt. Ég er þeirrar skoðunar að þeir kjarasamningar, sem knúðir voru fram á endanum, skili fólki í raun ekki meiru en því sem hægt hefði verið að semja um án átaka.

Fjárlagafrv. ríkisstj. og þjóðhagsáætlun voru byggð á samræmdum forsendum og var þar lögð til grundvallar sú stefna sem mörkuð er í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá 7. sept. s.l. Að undanförnu hefur verið unnið að mati á áhrifum breyttra launa-, verðlags- og gengisforsendna á fjárlagafrv. Sú endurskoðun leiðir eftirfarandi í ljós með hliðsjón af fyrirliggjandi fjárlagafrv.: Tekjur hækka um 13.2% og verða sem næst 24.99 milljarðar kr., gjöld hækka um 12.2% og verða nálægt 25.3 milljarðar kr.

Í þessu endurmati kemur fram að laun, rekstrargjöld almannatryggingabætur, vextir o.fl. hækka um 2200 millj. frá frumvarpinu, en að auki hefur verið ákveðið að hækka framlög til vegagerðar um 192 millj. og til húsnæðismála um 104 millj. kr. Vegna sérstakrar hækkunar lífeyrisbóta nú í nóvember þarf að áætla fyrir 100 millj. kr. 1985 og framlag vegna niðurgreiðslna hækkar jafnframt um 70 millj. kr., eins og ég hef þegar rakið. Þá munu almennar framkvæmdir einnig hækka nokkuð. Hefur í endurmatinu verið gert ráð fyrir 75 millj. kr. hækkun framlaga til almennra framkvæmda og mun fjvn. skipta því fé.

Á tekjuhlið frv. er gert ráð fyrir almennri tekjuhækkun ríkissjóðs vegna verðlags- og veltubreytinga að fjárhæð 2290 millj. kr. Gert er ráð fyrir 300 millj. kr. hækkun tekna af hagnaði ÁTVR og af vöxtum. Loks hefur ríkisstj. ákveðið sérstaka fjáröflun að fjárhæð allt að 320 millj. kr. sem kynnt verður síðar.

Endurskoðunin gefur því til kynna að rekstrarhalli ríkissjóðs nemi 300–400 millj. kr. og er það nokkur lækkun frá því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, en þar var hallinn áætlaður 531 millj. kr. Jafnframt leiða hinar breyttu verðlagshorfur til þess að afborganir af skuldum ríkissjóðs hækka um 125 millj. kr., en á móti er talið að innlend lánsfjáröflun hækki um 50 millj. kr. Niðurstaðan er því sú að unnt sé að lækka erlendar lántökur A-hluta ríkissjóðs frá því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir eða úr 1.3 milljarði í 1.1–1.2 milljarða kr.

Hér að framan hef ég greint í stuttu máli frá þeim breytingum sem verða á frv. því sem ég mæli hér fyrir og má rekja beint til breyttra efnahagsforsendna sem ekki voru fyrir séðar við samningu frv. Ljóst er að taka þarf þessar breytingar inn í meðferð Alþingis á frv. og sé ég ekki ástæðu til að fjalla um þær frekar að svo stöddu. Ég mun nú fjalla nokkuð um fjárlagafrv. eins og það var lagt fram í þingbyrjun.

Við ákvörðun launa-, verðlags- og gengisforsendna fyrir 1984 og 1985 byggði fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun á samræmdum forsendum. Áætlun um tekjur og gjöld byggði á þeirri forsendu að kaupmáttur ráðstöfunartekna héldist óbreyttur milli áranna 1984 og 1985.

Tekið var tillit til lækkunar tekjuskatts og reiknað með um 5% hækkun kauptaxta innan ársins 1985.

Í tekjuáætlun upphaflega frv. er reiknað með að viðskiptavelta 1985 aukist um 1–2% milli ára. Reiknað er með auknum innflutningi olíuvara um 2% að magni til og einnig er reiknað með verðhækkun olíu á erlendum mörkuðum. Öllum skatt- og tekjustofnum ríkissjóðs er haldið óbreyttum frá árinu 1984 nema tekjuskatti einstaklinga sem er 600 millj. kr. lægri vegna fyrirhugaðrar lækkunar tekjuskattsálagningar.

Gjaldahlið frv. einkennist af aðhaldssemi í fjárlögum. Leitast hefur verið við að meta rekstrarfjárveitingar sem raunhæfast. Markvisst hefur verið dregið úr framlögum til framkvæmdaverkefna og hvers konar starfsemi sem ríkissjóður er óbundinn af og eru margar stofnkostnaðarfjárveitingar óbreyttar að krónutölu eða lægri en í fjárlögum fyrir árið 1984.

Unnið hefur verið að endurskoðun á ýmsum þáttum, er varða ríkisreikning og fjárlög, með tilliti til framsetningar. Þessi endurskoðun hefur leitt til þess að nú er gerð nokkur breyting á framsetningu fjárlagafrv. Sams konar breyting verður gerð á framsetningu ríkisreiknings fyrir árið 1985 og þess gætt að framvegis verði fullt samræmi í tölusetningu stofnana og viðfangsefna í fjárlögum og ríkisreikningi.

Segja má að um þrjár meginbreytingar sé að ræða: Í fyrsta lagi verður tekinn upp nýr bókhaldslykill fyrir ríkissjóð og ríkisfyrirtæki. Byggir frv. á hinum nýja lykli og er ákveðið að bókhald allra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja fylgi hinum nýja bókhaldslykli frá ársbyrjun 1985.

Í öðru lagi verður tekið í notkun nýtt véltæki bókhalds- og áætlanakerfi hjá öllum A-hluta stofnunum á árinu 1985 og er með því stefnt að því að gera bókhaldið að virkara eftirlits- og stjórnunartæki. Aukin áhersla er lögð á umfjöllun fjárframlaga til viðfangsefna hjá stofnunum, en á móti fækkar gjaldategundum. Fjárveiting til einstakra viðfangsefna er því sýnd á undan skiptingu útgjalda á gjaldategundir.

Í þriðja lagi hefur verið tekin upp ný skilgreining á því sem telst til rekstrar-, viðhalds- og stofnkostnaðarverkefna. Minni háttar viðhald er nú fært með öðrum rekstrargjöldum, en meiri háttar viðhaldsverkefni eru sýnd sem sérstök viðfangsverkefni. Svipaður greinarmunur er gerður á fjárveitingum til stofnkostnaðar.

Að lokum er bryddað á þeirri nýjung í athugasemdum frv. að sýnd er framsetning fjárlaga 1984 og fjárlagafrv. 1985 miðað við þann uppgjörsmáta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur útbúið. Megintilgangur þess að færa ríkissjóð upp á þennan hátt er sá að geta séð hvar áherslur í tekjuöflun og útgjöldum til einstakra málaflokka liggja. Þá má enn fremur segja að framsetning á lánveitingum og lántökum ríkissjóðs verði bæði gleggri og skýrari en fram kemur í 1. gr. fjárl. Þá vil ég fjalla nokkuð um tekjur.

Áætlað er að heildarinnheimta tekna ríkissjóðs verði skv. frv. 21 981 millj. kr. á árinu 1985, samanborið við 19 512 millj. kr. í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 1984. Hækkun heildartekna ríkissjóðs 1985 nemur því 2 469 millj. eða 12.7% frá endurskoðaðri áætlun 1984. Mælikvarði á umsvif ríkisins er hlutfall tekna af þjóðarframleiðslu. Á þennan mælikvarða lækka tekjur hlutfallslega úr 29% 1984 í 28.5% skv. frv. fyrir 1985 og í um 28.8% skv. nýjustu áætlun. Með samanburði við fyrri ár kemur í ljós að á þessu ári eru innheimtar tekjur ríkissjóðs taldar hækka um 28.8% frá 1983, en næstu þrjú árin á undan hækkuðu tekjur ríkissjóðs um nálægt 60% að jafnaði.

Eins og áður er komið fram er nú samkvæmt endurmati talið að tekjur ríkissjóðs geti orðið um 24.9 milljarðar kr. árið 1985 og er það um 27.6% hækkun frá áætlaðri útkomu 1984. Samkvæmt frv. eru óbeinir skattar tæplega 84% af heildartekjum ríkissjóðs en beinir skattar aðeins tæplega 13%. Arðgreiðslur og ýmsar tekjur eru rúm 3%.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 1985 skv. fjárlagafrv. eru áætluð 22 513 millj. kr. og er það 23.1% hækkun frá fjárlögum ársins 1984, en aðeins 15% hækkun frá áætlaðri útkomu gjalda 1984. Eins og ég hef áður að vikið er nú talið að gjöldin geti numið um 25.3 milljörðum kr. og hækka þau því um 27.6% frá áætlaðri útkomu 1984.

Útgjöldum ríkissjóðs hefur oft verið þröngur stakkur skorinn, en ef til vill sjaldan sem nú. Mörgum ráðherrum þykir án efa illa að sér vegið þar sem mörgum áhugaverðum verkefnum hefur verið hafnað. Oft hefur verið að því fundið hvað erfitt er að sveigja starfsemi stofnana til. Tel ég brýnt að athuga þetta mál gaumgæfilega.

Ég mun nú fjalla um veigamestu útgjaldaflokka frv. og fyrst og fremst um þau atriði sem fela í sér stefnubreytingu frá því sem gilti á síðasta ári. Að öðru leyti vísa ég til athugasemda með fjárlagafrv.

Að meginefni til er reiknað með því í frv. að til reksturs ríkisins, þ.e. greiðslu launa og rekstrargjalda, verði alls varið 8 396 millj. kr. og er það um 15.2% hærri fjárhæð en talið er að verði 1984. Sé verðbreyting sú milli ára, sem frv. byggir á, höfð til hliðsjónar má segja að umsvif ríkisins í beinum rekstri haldist lítt breytt frá árinu 1984.

Annar mjög veigamikill útgjaldaliður, sem vex uggvænlega, eru greiðslur vaxta og afborgana. Í greinargerð frv. er gefið yfirlit um skuldastöðu ríkissjóðs og þær kvaðir sem á ríkissjóði hvíla vegna fjármagnskostnaðar. Áætlaðir vextir og afborganir af umsömdum lánum A-hluta ríkissjóðs nema 2 884 millj. kr. í frv. Þar af eru vextir 1 183 millj. og afborganir 1 701 millj. kr. Að auki er áætlað fyrir 166 millj. kr. vegna yfirdráttarvaxta ríkissjóðs í Seðlabankanum sem stafa af árstíðabundnum sveiflum í tekjum og gjöldum. Vegna breytts gengis og verðlags á næsta ári hækka þessir liðir um tæpar 230 millj. kr.

Auk beinnar greiðslu vaxta og afborgana hefur verið dregið saman hvað það er raunverulega mikið sem greitt er í fjármagnsútgjöld hjá ríkisjóði. Ég nefni stærstu liði í þessu sambandi:

Orkusjóði hefur um árabil verið heimiluð lántaka til endurlána til jarðhitaleitar, sveitarafvæðingar og fleiri verkefna. Af þessum lánum mun ríkissjóður skv. frv. þurfa að greiða um 128 millj. kr. á næsta ári. Á Ríkisábyrgðasjóði hvíla verulegar skuldbindingar. Talið er að af þessum sökum þurfi ríkissjóður að greiða 134 millj. kr. á næsta ári. Þá má nefna lán Framleiðsluráðs landbúnaðarins, en árin 1981 og 1982 voru tekin erlend lán til að standa undir útflutningsuppbótum. Af þessum lánum þarf að greiða á næsta ári rúmar 80 millj. kr. Auk þessa eru nokkrir smærri liðir. Samtals nema útgjöld ríkissjóðs í frv. sem tengjast greiðslu fjármagnsútgjalda tæpum 3.3 milljörðum kr. eða tæpum 16% heildartekna ríkissjóðs. Hér er mál að linni. Ef til vill er það uggvænlegast að arðsemi sumra verkefna sem lán hafa verið tekin til er mjög vafasöm svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Um framlög til almannatrygginga er það að segja að útgjöld lífeyristrygginganna eru metin þannig að núverandi fyrirkomulag bótagreiðslna haldist óbreytt, en taki hækkun eins og við á um laun. Því til viðbótar kemur sú sérstaka hækkun bóta sem ég hef áður minnst á. Útgjöld sjúkrasamlaga hafa aukist mjög hröðum skrefum undanfarin ár. Einn liður í því efni eru lyf og læknishjálp, en veigamesti útgjaldaliður sjúkrasamlaga eru þó vistgjöld á sjúkrahúsum og sjúkrastofnunum. Til þessa liðar er áætlað í frv. að verja þurfi alls 1 075 millj. kr. og er þá eingöngu áætlað fyrir óbreyttri starfsemi og ekki gert ráð fyrir fjölgun sjúkrarúma í sjúkrahúsum sem eru í byggingu. Við endurmat gjalda hefur verið tekið tillit til sérstakrar hækkunar vegna 14% hækkunar tryggingabóta nú nýverið. Alls er talið að útgjöld til almannatrygginga þurfi að hækka um 950 millj. kr. frá því sem fram kemur í frv.

Stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að takmarka útgjöld ríkissjóðs til útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir. Miðað við það að útflutningsbótarétturinn 1984 verði um 450 millj. kr. er ekki ósennilegt að sambærileg tala fyrir 1985 yrði yfir 500 millj. kr. Miðað við gerðar samþykktir leggur ríkisstj. til að 380 millj. kr. að hámarki verði varið til útflutningsuppbóta árið 1985.

Niðurgreiðslur á rafhitun hafa farið þannig fram að greiðslur fara til RARIK og annarra orkusölufyrirtækja til þess að draga úr hækkun raforkutaxta til húshitunar. Ráðgert er að halda áfram á þessari braut 1985 og verja í þessu skyni 200 millj. kr. Auk þessa framlags hyggst ríkisstj. beita sér fyrir því að aflað verði 150 millj. kr. lántöku sem ætluð er til endurlána til húseigenda þar sem koma má við orkusparandi aðgerðum.

Þá vil ég geta framlaga og fjármála Lánasjóðs ísl. námsmanna, enda hafa þau borið töluvert á góma á þessu ári. Í fjárlögum 1984 og lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá því í maí s.l. var ákveðið 658 millj. kr. hámark á samanlagða lántöku og fjárveitingu til sjóðsins á þessu ári. Í frv. fyrir 1985 er samanlögð fjárveiting og lánsfjáröflun til sjóðsins alls 781 millj. kr. og hækkar því heildarfjáröflun til sjóðsins um 18.7% frá árinu í ár. Með þessari fjárveitingu kemur fram sú stefna að lánshlutfall haldist óbreytt frá því sem nú er eða 95% af umframfjárþörf svokallaðri. Einnig er ráðgert að víxillánum vegna haustlána fyrsta árs nema verði vísað til viðskiptabankanna eins og gert var í ár og gaf góða raun.

Þá vil ég sérstaklega nefna að í frv. eru gjaldfærðar 380 millj. kr. vegna endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að frá áramótum skuli þessi endurgreiðsla fara fram til þess að jafna aðstöðu atvinnugreinarinnar og greiða fyrir samkomulagi um hóflega fiskverðsákvörðun.

Mörgum þm. sem lesið hefur fjárlagafrv. þykir sjálfsagt knappt skammtað til framkvæmda. Þetta er að mörgu leyti rétt og ekki að ástæðulausu. Þó eru tveir málaflokkar framkvæmda sem taka til sín drjúgan skerf allra framlaga til framkvæmda. Það eru framlög til vegamála sem eru um 730 millj. kr. og til byggingarsjóðanna fara alls 800 millj. kr. Er þetta um helmingur alls framkvæmdafjár. Báðir þessir liðir hækka vegna endurmats, eins og ég hef þegar getið um. Ríkisstj. hefur sett þessi tvö málefni sem forgangsverkefni, enda skipta þau almenning í landinu meira máli en margt annað. Framlög til ýmissa annarra málefna, eins og skólabygginga, hafna og sjúkrahúsa, miðast við að standa við gerða verksamninga og halda áfram með byggingu þeirra húsa sem standa hálfbyggð.

Umfram þetta tel ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um einstaka fjárveitingarliði. Þó vil ég geta þess að framlög til fjölmargra smærri liða hafa ýmist verið felld niður eða þau sameinuð í stærri óskipta liði sem fjvn. mun ugglaust þurfa að taka til umfjöllunar með öðrum málum. Það sem fyrir mér vakir með þessari ráðstöfun er ekki síst að gengið verði úr skugga um að hve miklu leyti þessi framlög eru nauðsynleg, en oft er hér um hreina smámuni að ræða.

Ég hef lagt alla áherslu á það við þá aðila, sem að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun vinna, að áætlunin verði lögð fram eins fljótt á eftir framlagningu fjárlagafrv. og kostur er. Aðstæður eru nú gjörbreyttar og hafa m.a. í för með sér að þau lánsfjáráætlunardrög sem fyrir lágu fyrr í haust þarf að endurskoða.

Á lánsfjáráætlun eru tvær hliðar, þ.e. ráðstöfun fjár til verklegra framkvæmda eða annarra þarfa ríkissjóðs, einnig fjárfestingarlánasjóða og einkaaðila og hins vegar lánsfjáröflun til þess að mæta fyrirhugaðri ráðstöfun.

Lánsfjáröflun til þess að standa undir ráðstöfun er nú ótryggari en oft áður. Í fjárlagafrv. er skýrt hvernig innlenda lánsfjáröflunin til ríkissjóðs bregst á þessu ári og að mikil óvissa ríki þar um á komandi ári.

Veigamesta uppspretta innlends lánsfjár er skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna. Þeir eru langstærsti aðili til fjárútvegana fyrir húsnæðislánakerfið.

Ég hef að undanförnu gengist fyrir fundum með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna með það í huga að koma fastari skipan á skuldabréfaviðskipti sjóðanna og hinna opinberu fjárfestingarlánasjóða. Mér virðist flestir þeirrar skoðunar að farsælast sé, ef unnt er, að staðið sé að þessum viðskiptum án lagaþvingana. Hitt er svo að sú óvissa sem ávallt ríkir um skuldabréfakaup þessi veldur einkum húsbyggingarsjóðunum miklum erfiðleikum.

Ríkissjóður hefur ekki fremur en aðrir farið varhluta af því mikla umróti sem verið hefur á fjármarkaðinum. Fjölbreytni í ávöxtunarkjörum sparifjár hefur m.a. valdið því að innlausn verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs hefur verið langt fram yfir það sem áætlað var á þessu ári. Á tímabilinu janúar-október hafa verið innleyst bréf fyrir alls 1369 millj. kr., en ný bréf og svokölluð skiptibréf hafa einungis verið seld fyrir 480 millj. kr.

Áætlun um sölu spariskírteina ríkissjóðs á árinu 1985 er nú mun hóflegri en hún var á þessu ári. Alls er talið í fjárlagafrv. að afla megi 550 millj. kr. með þessum hætti. Hitt er áhyggjuefni að innlausn eldri bréfa getur orðið svo milljörðum skiptir. Heildarinnlausnarverð útgefinna spariskírteina nam í lok september um 4.4 milljörðum kr. Þar af eru einungis um 600 millj. kr. kröfuhæfar eftir árslok 1985. Sú innlausn sem á ríkissjóð getur fallið fram til áramóta í ár og á næsta ári nemur því alls um 3.8 milljörðum kr. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir að til innlausnar spariskírteina komi 650 millj. kr., en það er sama fjárhæð og reiknað er með að innheimtist af spariskírteinafé sem endurlánað hefur verið. Hér ríkir mikil óvissa og augljóst að mikill vandi getur steðjað að ríkissjóði ef ekki kemst meira jafnvægi á fjármagnsmarkaðinn en nú er.

Ekki má skilja við lánsfjármálin án þess að fjalla um erlendu lántökurnar. Það er ljóst að erlendar skuldir þjóðarbúsins eru langt umfram það sem æskilegt getur talist. sérstaklega verður að draga úr erlendri lántöku til A-hluta ríkissjóðs, en í upphaflega frv. var ráðgert að afla rúmlega 1.3 milljarða kr. Samkv. því endurmati á stöðu ríkissjóðs sem gert hefur verið í framhaldi af breyttum forsendum launa og verðlags og skattaáformum eru nú horfur á að erlendar lántökur til A-hluta ríkissjóðs geti heldur lækkað og verði milli 1100 og 1200 millj. kr. 1985.

Þá er ekki síður nauðsynlegt, ef menn ætla að halda erlendum lántökum þjóðarbúsins innan ákveðinna marka, að horfið verði af þeirri braut að leysa sífellt rekstrarvanda atvinnuveganna og fjárþörf með erlendum lántökum. Á þessu ári hafa verið veittar viðbótarheimildir til erlendrar lántöku um 1 milljarð kr., þar af til sjávarútvegsins 800 millj. kr. Þessu til viðbótar er ljóst að erlendar lántökur er langlánanefnd veitir heimild fyrir munu nema eigi lægri fjárhæð en 1.5 milljarði kr. sem er um helmingi hærri fjárhæð en upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir.

Sé hugað að þeim áformum sem eru í sjónmáli um nýsköpun í íslensku atvinnulífi, þar með taldar stóriðjuframkvæmdir, er ljóst að þjóðin stendur frammi fyrir þeim staðreyndum að ekki er unnt að fjármagna þær nema að til komi erlendar lántökur í ríkum mæli. Þar sem erlendar lántökur á undanförnum árum eru nú taldar komnar að hættumörkum sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni virðist lítið svigrúm vera til þeirra áforma nema menn sætti sig við að erlenda skuldahlutfallið aukist á næstu árum frá því sem nú er. Afar brýnt er að það takmarkaða svigrúm sem er til erlendrar lántöku verði aðeins nýtt til arðbærra verkefna.

Eitt af meginmarkmiðum við gerð fjárlaga fyrir árið 1984 var að ríkisbúskapurinn yrði veigamikill þáttur í endurreisn efnahagsmála hér á landi. Ríkisfjármálin eru mikilvægur liður í almennri efnahagsstjórn og fjárlög ríkisins áhrifamikið hagstjórnartæki.

Afkomuhorfur A-hluta ríkissjóðs í árslok 1984 eru nú nokkuð betri en gert var ráð fyrir skv. fjárlögum. Í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir að greiðsluhalli A-hluta ríkissjóðs á rekstrargrunni yrði um 400 millj. kr., en nú er aftur á móti viðbúið að tekjur og gjöld standist svo til á í lok þessa árs.

Það sem mestu veldur um að nú horfir nokkru betur um hag ríkissjóðs er að útgjöld hans hafa ekki hækkað til jafns við almenna verðlagsbreytingu í landinu. Meðaltalshækkun framfærsluvísitölu milli áranna 1983 og 1984 er talin nema 29%. Áætlun um útgjöld A-hluta ríkissjóðs sýnir að þau muni hækka um 20% milli áranna 1983 og 1984. Á árinu 1984 hefur því tekist að leggja að baki áfanga á þeirri braut að draga úr ríkisumsvifum.

Áætlað er að tekjur A-hluta ríkissjóðs hækki frá árinu 1983 til jafns við hækkun framfærsluvísitölu eða um 29%. Þannig hefur tekist á þessu ári að halda jafnvægi í ríkisfjármálum og ná því markmiði að draga saman seglin í ríkisútgjöldum og þar með auka hlut atvinnulífsins og heimila í þjóðartekjum landsmanna.

Í umræðum hér á hv. Alþingi við afgreiðslu laga nr. 43/1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum á árinu 1984, gerði ég grein fyrir breyttum horfum um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Mun ég því nú einkum fjalla um þau atriði sem framvinda ríkisfjármála það sem af er árinu gefur tilefni til að verði á annan veg en áætlanir frá því í maí gerðu ráð fyrir.

Greiðsluafkoma A-hluta ríkissjóðs fyrstu níu mánuði þessa árs varð jákvæð um 350 millj. kr. Er það betri afkoma í samanburði við sama tímabil síðastliðið ár sem nemur 1.5 milljarði kr. Gjöld námu 14.5 milljörðum kr. og hafa hækkað frá árinu 1983 um 29%. Tekjur námu tæpum 14.9 milljörðum kr. og hafa hækkað um 42% frá árinu 1983. Greiðsluáætlanir þessa árs, sem byggðar voru á afkomuhorfum frá því í maí s.l., gerðu ráð fyrir að greiðsluhalli yrði hjá ríkissjóði að fjárhæð 1.0 milljarður kr. í septemberlok. Greidd gjöld voru samkvæmt áætlun, en hins vegar eru tekjur rúmlega 1.4 milljarði kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hækkun einstakra teknaliða frá áætlun sýna að gjöld af innflutningi ásamt veltusköttum innanlands gefa meiri tekjur en áformað var.

Staða lána- og viðskiptareikninga í septemberlok sýndu minna innstreymi en áætlað var, sem nemur um 150 millj. kr., sem skýrist af því að A-hluti ríkissjóðs tók ekki erlent lán, sem áformað var í septembermánuði, sem nam 200 millj. kr.

Afkomuhorfur í árslok eru nú metnar á þann veg að tekjur og gjöld verði á jöfnu í stað 400 millj. kr. halla samkvæmt fjárlögum og 1 milljarðs kr. samkvæmt maíáætlun. Heildartekjur eru nú áætlaðar 19.6 milljarðar kr. sem er hækkun frá fjárl. um 9%. Heildargjöld eru áætluð 19.6 milljarðar kr. eða sama fjárhæð og maíáætlun gerði ráð fyrir. Hækkun gjalda frá fjárlögum nemur um 7%.

Aukafjárveitingar til septemberloka, sem ég hef samþykkt og fjvn. og fulltrúum stjórnarandstöðu hafa verið kynntar, nema tæpum 250 millj. kr. og er það innan þeirra marka sem óvissum útgjöldum var áætlað í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum o.fl. frá því í maí s.l. Miðað við útgjaldaáætlanir ársins hafa gjöld hækkað frá fjárlögum um tæpa 1.3 milljarða kr. sem er 2/5 þess sem gjöld á árinu 1983 hækkuðu umfram fjárlög ársins 1983.

Þegar tekið hefur verið tillit til lána- og viðskiptareikninga nemur fjárþörf ríkissjóðs 1.4 milljarði kr. Er það um 130 millj. kr. lægri fjárhæð en gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins og tæpum 1 milljarði kr. lægri fjárhæð en í maíáætlun. Við fjárlagagerð var áætlað að ríkissjóður aflaði tæplega 1 milljarðs kr. af innlendu lánsfé, en erlend lántaka næmi um 600 millj. kr.

Horfur um innlenda fjáröflun til A-hluta ríkissjóðs benda til að aðeins sé hægt að afla 230 millj. kr. eða 715 millj. kr. lægri fjárhæð en fjárlög gerðu ráð fyrir. Það sem einkum hefur valdið því að innlend fjáröflun hefur farið úr böndunum er innlausn spariskírteina ríkissjóðs. Áætlað er nú að innlausn geti numið um 1,0 milljarði kr. í stað 170 millj. kr. í áætlun fjárlaga. Ástæðu þess að eigendur spariskírteina innleysa þau nú í ríkum mæli, þrátt fyrir að boðin hafa verið svonefnd skiptibréf sem bera yfir 8% raunvexti, má rekja til þeirra breytinga sem hafa orðið á innlendum fjármagnsmarkaði eftir að vextir voru gefnir frjálsir.

Vegna þess brests á innlendri fjáröflun sem nú er ljós mun ríkissjóður, þrátt fyrir áætlun um betri rekstrarafkomu, mæta minnkandi innlendri fjáröflun með erlendri lántöku. Hún er nú áætluð tæpir 1.2 milljarðar kr. sem er helmings hækkun frá áætlun fjárlaga, en tæpum 600 millj. kr. lægri fjárhæð en samkvæmt maíáætlun. Aukning erlendrar lántöku stafar öll af því að innlend fjáröflun hefur brugðist, eins og ég gat um áðan.

Þó svo að nokkuð betur horfi um afkomu A-hluta ríkissjóðs á þessu ári og að jöfnuður náist á rekstri A-hluta ríkissjóðs er fjárþörf allveruleg vegna afborgana lána. Þessar staðreyndir sýna að ekkert svigrúm er til að auka ríkisútgjöld, heldur þvert á móti, að áfram verður að vinna að víðtækri endurskoðun og umbótum í útgjöldum ríkisins af fullri festu á komandi árum.

Mun ég nú greina frá helstu niðurstöðum ríkisfjármála á árinu 1983 samkvæmt ríkisreikningi. Ríkisreikningur, A-hluti, fyrir árið 1983 hefur verið afhentur alþm. og jafnframt yfirskoðunarmönnum Alþingis til meðferðar. Ríkisreikningur fyrir B-hluta aðila verður afhentur alþm. mjög fljótlega. Ríkisreikningurinn mun síðar verða lagður fram til endanlegrar afgreiðslu Alþingis með athugasemdum yfirskoðunarmanna, ef einhverjar verða, svörum mínum og tillögum þeirra.

Árið 1983 varð A-hluta ríkissjóðs mjög óhagstætt. Á því ári komu mjög glöggt fram tvö megineinkenni ríkisfjármálanna. Hið fyrra er hve óbeinar tekjur ríkissjóðs eru háðar ytri aðstæðum í efnahagsmálum og hve áhrifa af breytingu þeirra gætir fljótt hjá ríkissjóði. Hið síðara er að útgjöld ríkissjóðs eru að mestu leyti bundin af ákvæðum laga, ásamt því að erfitt hefur reynst á skömmum tíma að draga úr eða breyta umfangi þeirrar þjónustu sem ríkið veitir þegnum þessa lands. Umskiptin sem urðu í efnahagsmálum þjóðarinnar á árinu 1983 leiddu til þess að tekjur ríkissjóðs urðu minni en almennar verðlagsbreytingar, en hins vegar hélst aukning útgjalda í hendur við þær.

Afkoma A-hluta ríkissjóðs skv. rekstrarreikningi fyrir árið 1983 varð neikvæð um 1.4 milljarð kr. Það er verri alkoma sem nemur 2.3 milljörðum kr. en 1982. Gjöld reyndust 17.7 milljarðar kr. sem er hækkun frá fyrra ári um 87%. Tekjur urðu 16.3 milljarðar kr. og hafa hækkað frá árinu 1982 um 58%.

Lántökur A-hluta ríkissjóðs til lengri tíma námu á árinu 1983 3.3 milljörðum kr., en endurlánað var af þeirri fjárhæð tæpar 700 millj. kr. Nettólántökur umfram veitt lán og afborganir á árinu 1983 námu 1.7 milljörðum kr.

Heildarskuldir A-hluta ríkissjóðs til lengri og skemmri tíma, að frádregnum skammtímakröfum og veittum lánum, nema í árslok 1983 5.2 milljörðum kr. og hafa aukist á árinu um 3.7 milljarða kr., þar af vegna endurmats á árinu að fjárhæð 2.0 milljarðar kr.

Hlutur innheimtra skatttekna sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu var á árinu 1983 28.6%, en 30.2% 1982 og 28.8% 1981. Hefur því skattheimta ríkisins lækkað milli áranna 1982 og 1983 um 1.6% af þjóðarframleiðslu.

Áður en ég læt lokið umfjöllun um afkomu ríkissjóðs á árinu 1983 mun ég gera stutta grein fyrir helstu niðurstöðum B-hluta ríkisreiknings svo og stöðu lánareikninga bæði er varðar A- og B-hluta ríkissjóðs.

Afkoma fyrirtækja og sjóða í B-hluta ríkisreiknings sýnir að rekstrarjöfnuður var hagstæður um 2.2 milljarða kr. sem er 1.6 milljarði betri afkoma en á árinu 1982. Heildartekjur námu 2.3 milljörðum kr. sem er hækkun frá árinu 1982 um 94%. Gjöld námu 18.1 milljarði kr. og hafa hækkað frá fyrra ári um 84%. Hafa ber í huga við mat á afkomu B-hluta fyrirtækja að framlög frá A-hluta, sem færð eru til tekna, nema á árinu 1983 6.5 milljörðum kr. Þegar tekið hefur verið tillit til tekna og gjalda, sem tengjast framlögum A-hluta til B-hluta aðila, er afkoma annarra þátta jákvæð um 506 millj. kr.

Heildarskuldir ríkissjóðs í A- og B-hluta eftir endurmat voru í árslok 1983 33.6 milljarðar kr. og jukust á árinu um 15.5 milljarða kr. Innlend lán námu 11.3 milljörðum kr. eða tæpum 34% af heildarskuldum ríkisins. Erlend lán voru 22.3 milljarðar kr. og hækkuðu á árinu um 88%. Af heildarskuldum hafa 14.9 milljarðar kr. verið endurlánaðar eða sem svarar 44% af heildarskuldum. Nettóstaða lána hjá A- og B-hluta aðilum nemur 18.7 milljörðum kr. og hefur hækkað frá árinu 1982 um 8.5 milljarða kr. Nettóstaða lánareikninga A- og B-hluta ríkissjóðs í árslok 1983 sýnir að skuldir þessara aðila nema um helmingi af heildartekjum þeirra á árinu 1983.

Þess hefur gætt í æ ríkara mæli á undanförnum árum að leitað hefur verið eftir ríkisábyrgðum. Er nú svo komið að heildarfjárhæð ríkisábyrgða nam í árslok 1983 10.4 milljörðum kr. Í lögum um ríkisábyrgðir er kveðið svo á að ríkissjóði sé ekki heimil ábyrgðarskuldbinding nema hún sé veitt í lögum. Ég tel að oft hafi það gerst að Alþingi veiti ríkisábyrgðir, sem hefði alls ekki átt að gera, svo og að Alþingi hafi valið þá leið að veita ríkisábyrgð í stað þess að taka afstöðu til viðkomandi máls, þannig að lagt væri raunhæft mat á það hvort viðkomandi ríkisábyrgð væri ekki í reynd ígildi fjárveitingar. Þær meginreglur sem fara skal eftir er að gera á svipaðar kröfur til þeirra er ríkisábyrgðar eiga að njóta og gerðar yrðu til sömu aðila væri um lánveitingar að ræða. Það er algjörlega ófært að litið sé á ríkisábyrgðir sem fjárveitingarígildi.

Greiðslur sem falla á Ríkisábyrgðasjóð vegna ríkisábyrgða hafa farið stöðugt vaxandi undanfarin ár og voru á árinu 1983 meiri en nokkru sinni fyrr. Á árinu 1983 námu greiddar ríkisábyrgðir 193 millj. kr., en á móti komu endurgreiðslur ríkisábyrgða sem fallið höfðu á sjóðinn að fjárhæð 91 millj. kr. Þannig urðu útgreiðslur Ríkisábyrgðasjóðs um 102 millj. kr. Á árinu 1982 nam sambærileg fjárhæð 22 millj. kr. Greiðslur Ríkisábyrgðasjóðs í ár eru áætlaðar um 100 millj. kr. Á næsta ári er gert ráð fyrir útgreiðslum á bilinu 100 til 150 millj. kr.

Á vegum fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunar og Seðlabankans, sem fer með framkvæmd ríkisábyrgða, hefur verið og er unnið að athugun þessara mála, sem m.a. felur í sér að flokka skuldbindingar í áhættuflokka, en þannig er hægt að gera sér betur grein fyrir hugsanlegum áföllum Ríkisábyrgðasjóðs til nokkurra ára í senn. Þá verður enn fremur gerð athugun á því hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum eða reglugerðum til að tryggja betur framkvæmd þessara mála. Vænti ég niðurstöðu og tillögugerðar til úrbóta á næstunni.

Þá er ekki síður sú staðreynd áhyggjuefni þeirra sem fara með ríkisfjármálin að A-hluti ríkissjóðs hefur yfirtekið lán sem tekin hafa verið af aðilum í B-hluta fjárlaga og áttu að fást endurgreidd af þjónustutekjum. Hér er fyrst og fremst um að ræða lántökur vegna framkvæmda sem tengjast orkuiðnaðinum svo og fyrirtækjum með meirihlutaeignaraðild ríkisins. Ætla má að hér geti verið um að ræða lántökur sem nema allt að 3.5 milljörðum kr.

Hér má nefna að þegar Landsvirkjun yfirtók byggðalínur varð ríkissjóður að yfirtaka lán, sem ekki fengust endurgreidd í sölu þeirra mannvirkja, er nema um 1.0 milljarði kr. Þá hefur ríkissjóður tekið til sín hluthafalán sem veitt hafa verið til Járnblendifélagsins hf. og nema þau um 500 millj. kr. Að undanförnu hafa farið fram viðræður við Landsvirkjun um yfirtöku fyrirtækisins á Kröfluvirkjun. Ætla má að ríkissjóður muni þurfa að yfirtaka lán, sem tekin hafa verið vegna Kröfluvirkjunar, sem geta numið um 1.5 milljörðum kr., sem ekki fæst í söluvirði virkjunarinnar. á árinu 1982 tók verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins lán í sambandi við loðnuverðsákvarðanir. Lán þetta er fallið í gjalddaga og nemur það um 150 millj. kr. sem ríkissjóður verður að greiða. Að lokum má nefna að lántökur sem jarðvarmaveitur og Jarðboranir ríkisins hafa tekið á undanförnum árum og nemur um 200 millj. kr. eru að meginhluta í vanskilum og ekki séð að þessar stofnanir muni geta staðið í skilum á lánum þessum á næstu árum. Afborganir og vaxtagreiðslur vegna þessara lána nema á bilinu 400–500 millj. kr. á árinu 1985. Ef þessi mál þróast áfram á þann veg sem verið hefur má gera ráð fyrir að innan fárra ára hrökkvi skatttekjur ríkisins vart til að mæta greiðslum vegna afborgana og vaxta af lántökum liðinna ára.

Herra forseti. Nú mun ég víkja almennt að tekjuöflunar- og útgjaldamálum ríkissjóðs.

Þegar þjóðartekjur fara minnkandi eða vöxtur þeirra staðnar verða ráðstöfunartekjur almennings ekki auknar nema með því að draga úr opinberum umsvifum og skattheimtu ríkisins. Í samræmi við þessi sjónarmið er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir nokkrum samdrætti í raungildi ríkissjóðstekna á næsta ári.

Önnur meginstefna í skattamálum sem felst í frv. þessu er minnkandi hlutdeild beinna skatta í heildartekjum ríkissjóðs. Ég vil því gera tekjuskattslækkunina að sérstöku umtalsefni hér ásamt þeirri endurskipulagningu á skattkerfi óbeinna skatta sem óhjákvæmileg er eigi þeir til frambúðar að geta gegnt hlutverki sem meginstoðir skattheimtu ríkisins.

Á s.l. vori var samþykkt hér í þinginu þáltill. um að fela fjmrh. að gera tillögur um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum. Þegar í vor lét ég hefja vinnu við undirbúning tillögugerðar um þetta efni. Varð það niðurstaðan að stefna að niðurfellingu tekjuskatts af almennum launatekjum í þremur áföngum og skyldi fyrsti áfanginn nema um 600 millj. kr. og koma til framkvæmda á næsta ári. Er þetta staðfest í samkomulagi stjórnarflokkanna frá 7. sept. s.l.

Þegar litið er á tekjuskattinn hættir mönnum við að skoða einungis þann hluta hans er skilar nettótekjum í ríkissjóð og draga þær ályktanir af þeirri skoðun að niðurfelling skattsins í heild ætti að vera tiltölulega auðveld þar sem hlutur nettótekjuskatts sé hlutfallslega lítill í heildartekjum ríkissjóðs. Þannig er nú áætlað að innheimtur tekjuskattur einstaklinga 1984 nemi u.þ.b. 1.7 milljarði kr. og verði nálægt 9% af heildartekjum ríkissjóðs. Innheimtur nettótekjuskattur til ríkisins gefur þó alls ekki rétta mynd af mikilvægi tekjuskattsins í heild þar sem allverulegum hluta álagðs tekjuskatts er varið til greiðslu á álögðum útsvörum þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu eða til útborgunar á barnabótum til lágtekjufólks, og er óhugsandi að afnema þetta tekjujöfnunarkerfi, án þess að annað komi í staðinn. Miðað við núverandi aðstæður sýnist því ekki raunhæft að afnema tekjuskatt einstaklinga með öllu og tel ég að stefna beri að því að í framtíðinni dugi álagður tekjuskattur á hina tekjuhærri a.m.k. til útborgunar á persónuafslætti og barnabótum vegna þeirra sem lakar eru settir. Tilraunir hafa sýnt að hækkun skattfrelsismarka í tekjuskatti næst best með því að lækka skatthlutfall í neðsta þrepi skattstigans. Er nú á lokastigi í fjmrn. gerð frv, sem breytir álagningarkerfi tekjuskattslaga í þessa átt og er þess að vænta að það verði lagt fram nú alveg á næstu dögum. Mun ég geyma frekari umfjöllun um þetta málefni til umræðna um það frv.

Tvær meginstoðir óbeinna skatta ríkissjóðs eru söluskatturinn og aðflutningsgjöldin. Núverandi lagaákvæði um þessi efni eiga það sammerkt að vera úrelt og erfið í framkvæmd. Í fjmrn. hafa því verið undirbúin frv. til laga um heildarendurskoðun á þessum tekjustofnum og er þess að vænta að þau verði lögð fyrir Alþingi á næstunni. Hér á ég annars vegar við frv. til l. um virðisaukaskatt, sem endurflutt verður nær óbreytt frá því frv. sem lagt var fram á síðasta þingi, og hins vegar frv. til tollalaga sem ætlað er að koma í stað núgildandi ákvæða laga um tollskrá, laga um tollheimtu og tolleftirlit og laga um tollvörugeymslur.

Eftir áratugalangar umræður og skýrsluskrif hér á landi um upptöku virðisaukaskatts var málinu loks komið á vettvang Alþingis er ég lagði á síðasta þingi fram viðamikið frv. um það ásamt ítarlegri greinargerð. Var það von mín að frv. hlyti rækilega umfjöllun í þinginu, enda hljóta tillögur um meginbreytingar á langstærsta tekjustofni ríkisins að teljast meðal mikilvægustu viðfangsefna Alþingis. Því miður dagaði málið uppi á síðasta þingi án þess að línur skýrðust um afstöðu þm. til þess. Það er einlæg von mín að endurfluttu virðisaukaskattsfrumvarpi verði ekki tekið með sama tómlæti á þessu þingi og raunin varð í fyrra. Í þessu efni er mál til komið að afstaða verði tekin af eða á um hvort neysluskattsinnheimta hér á landi skuli byggð á virðisaukaskattsgrunni.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. hef ég látið vinna að gerð frv. til tollalaga um breytta skipan tollamála þar sem jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna hefur verið höfð að leiðarljósi, jafnframt því sem gert hefur verið ráð fyrir einföldun og hagræðingu í framkvæmd þeirra mála. Það er von mín að hægt verði innan tíðar að leggja þetta frv. fram hér á hv. Alþingi. Mér er ljóst að hér er um viðamikið mál að ræða og því nauðsynlegt að þm. geti sem fyrst fengið frv. til athugunar. Hitt er jafnljóst að ekki verður öllu lengur búið við það ástand sem skapast hefur í tollamálum á undanförnum árum með handahófskenndum breytingum á tollskrárlögum og öðrum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs. Þegar þar að kemur vænti ég því fulltingis þm. við afgreiðslu jafnsjálfsagðs máls og hér er á ferðinni.

Þótt fyrirhugaðar breytingar á tollalögum muni hafa í för með sér umtalsverðar tollalækkanir og niðurfellingu ýmissa annarra gjalda er ekki gert ráð fyrir að þær hafi áhrif á heildartekjur ríkissjóðs. Mun samhliða frv. til tollalaga verða flutt frv. til l. um vörugjald til tekjuöflunar að því marki sem ekki reynist unnt að mæta tollalækkunum með niðurskurði útgjalda.

Jafnframt því sem unnið hefur verið að undanförnu að endurskoðun tollskrárlaga svo og reglna um tollmeðferð á vörum hafa ýmis önnur mál varðandi tollheimtu og tolleftirlit verið til athugunar. Á s.l. vori skipaði ég nefnd til að gera tillögur um endurbætur á þjónustu og verkefnum tollstjóraembættisins í Reykjavík. Nefndin lauk störfum í ágúst s.l. og skilaði þá skýrslu um störf sín þar sem hún gerir tillögur um ýmsar breytingar á skipulagi og starfsháttum við embættið. Hafa nú þegar að tilhlutan tollstjórans í Reykjavík komið til framkvæmda fyrstu tillögur nefndarinnar um einfaldari og hraðari tollafgreiðsluhætti sem ég vona að eigi eftir að skila viðskiptamönnum embættisins bættri þjónustu og leiða til hagræðis og sparnaðar jafnt fyrir innflytjendur sem ríkissjóð. Aðrar tillögur nefndarinnar eru nú til nánari athugunar í fjmrn.

Varðandi tekjuöflunarmál ríkisins vil ég að lokum fara nokkrum orðum um hert skatteftirlit og aðgerðir til að bæta skattskil.

Á síðasta þingi voru samþykktar tvær þáltill. varðandi þetta málefni, önnur um úttekt á umfangi skattsvika en hin um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Í samræmi við fyrri ályktunina hef ég þegar skipað fimm manna starfshóp til að gera grein fyrir þeim atriðum varðandi umfang skattsvika sem þál. fjallaði um. Er þess að vænta að hann skili niðurstöðum á fyrri hluta næsta árs. Slík könnun verður án efa fróðleg en meira máli skiptir þó að hrinda í framkvæmd raunhæfum aðgerðum til herts skatteftirlits. Í því skyni voru á s.l. vori veittar 20 nýjar stöðuheimildir á skattstofunum og hjá skattrannsóknarstjóra. Er þessum skattrannsóknarmönnum einungis ætlað að sinna eftirlitsstörfum og starfa mestmegnis við heimsóknir til fyrirtækja. Mun skattrannsóknarstjóri sjá um þjálfun þeirra og verkefnaval og fylgjast með árangri af eftirlitinu. Fjölgun skatteftirlitsmanna og aukin tækni við val verkefna mun skila árangri í bættri skattheimtu þó að ég vari menn við að búast við of skjótum umskiptum í þessum efnum þar eð slík mál taka alltaf nokkurn tíma. Hitt tel ég jafnljóst, að í gott horf komast þessi mál aldrei nema hugarfarsbreyting verði hjá þjóðinni í þessum efnum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er kveðið svo á að draga skuli úr ríkisumsvifum. Ég hef ekki farið dult með það viðhorf mitt að draga beri úr ríkisumsvifum í þjóðarbúskapnum og að ríkið sé ekki að vasast í verkefnum sem einstaklingar eða félög þeirra geta sinnt.

Um árangur af þeirri viðleitni að draga úr ríkisumsvifum er það að segja að á árinu 1983 var hlutur ríkisins í þjóðarframleiðslunni 30.7%. Í ár er gert ráð fyrir að hlutfall ríkisins nemi 29.4% og samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1985 mun hlutur ríkisins enn lækka í 29.2%. Í fjárhæðum talið er hér um að ræða um 1.3 milljarða kr. sem ríkið tekur minna til sín í ár en á árinu 1983 þrátt fyrir að þjóðarframleiðsla dragist saman milli áranna.

Þegar litið er til meginútgjaldaþátta ríkisfjármála fer um helmingur útgjaldanna til verkefna sem ríkið sjálft stjórnar. Hinn helmingurinn fer annars vegar til aðila utan ríkisgeirans, sem veita þjónustu með þátttöku ríkisins í hluta kostnaðarins, og hins vegar er tilflutningur á fjármunum til einstaklinga og fyrirtækja og til áhrifa á framleiðslu- og verðmyndunarkerfi í landinu.

Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi geri sér betur grein fyrir hve fjölmargar lagasetningar, sem afgreiðslu fá hér á hinu háa Alþingi, auka útgjöld ríkisins í bráð og lengd. Í öðru lagi er mikilvægt að starfsemi ríkisins geti aðlagað sig að breyttum þörfum og nýjum möguleikum til úrlausnar þeim markmiðum sem henni er gert að uppfylla án aukins tilkostnaðar. Hér er ekki hvað þýðingarminnst að stjórnendur og starfsmenn leggi fram hugmyndir sem leiða til bættrar þjónustu með minni tilkostnaði. Í því sambandi skiptir miklu að starfsmenn ríkisins séu sér meðvitandi um hlutverk sitt og hvaða þjónustu þeim er falið að veita þegnunum. Tel ég að gera þurfi stórátak í því að veita starfsmönnum ríkisins aukna fræðslu og leiðbeiningu í þessum málum. Ég er fullviss um að slík fræðsla muni skila sér í betra starfi starfsmanna og þar með betri þjónustu ríkisins. Sama gildir um þá þjónustu sem ríkið tekur þátt í að greiða, en framkvæmd er af öðrum aðilum í þjóðfélaginu.

Ríkisstj. einsetti sér í upphafi síns ferils að stuðla að hagræðingu og endurskoðun á ýmsum þáttum í stjórnkerfinu. Eins og þm. þekkja hefur nokkuð verið unnið að og rætt um endurskoðun á stjórnkerfinu, skiptingu verkefna milli rn., tengsl löggjafans og framkvæmdavaldsins og samskipti ríkis og sveitarfélaga. ÖII eru þessi mál margslungin og tekur tíma að hrinda í framkvæmd.

Annar þáttur, sem markvisst hefur verið starfað að á undanförnum mánuðum, er ýmiss konar hagræðing í opinberum rekstri og endurskoðun á vinnubrögðum í stjórnkerfinu. Hrundið hefur verið af stað athugun á fjárlagagerð og vinnubrögðum þar að lútandi.

Af stofnunum fjmrn. hef ég beitt mér fyrir endurskoðun á starfsemi tollstjóraembættisins, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og Innkaupastofnunar ríkisins, þ.m.t. framkvæmdadeild. Nefndir þær sem gerðu athugun á tollstjóraembættinu og ÁTVR hafa skilað til mín áliti og í framhaldi þar af hafa ýmsar umbætur þegar komist á hjá tollstjóraembættinu, eins og ég hef áður nefnt, og aðrar eru í vinnslu. Verðlagning á útsöluvörum ÁTVR hefur verið tekin til gagngerrar endurskoðunar og birgðamál stofnunarinnar eru til athugunar. Nefnd sú sem vinnur að endurskoðun á starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins og framkvæmdadeildar hefur enn ekki skilað endanlegu áliti, en það verður mjög bráðlega.

Í samvinnu iðnrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur að undanförnu verið unnið að athugun á starfsemi Orkustofnunar, Sementsverksmiðju, Rafmagnseftirlits ríkisins og fleiri stofnana sem undir iðnrh. heyra.

Þá er unnið að endurskoðun á skipulagi félmrn. sem félmrh. hefur beitt sér fyrir.

Á vegum samgrh. eru nú til athugunar ýmsir þættir í rekstri og starfsemi Hafnamálastofnunar.

Þá er ekki síður mikilvægt að stöðugt sé lagt mat á nauðsyn ríkisframlaga til framleiðslu og verðmyndunarkerfis landsins. Það er einkum á sviði landbúnaðarmála sem hlutur ríkisins er umtalsverður. Í því samkomulagi sem stjórnarflokkarnir hafa gert með sér er tekist á við þessi mál á þann veg að á næstu árum munu ríkisframlög lækka til þessara verkefna.

Loks vil ég nefna nauðsyn þess að áfram sé leitað leiða til að færa verkefni frá ríkinu til annarra aðila í þjóðfélaginu sem talið er að geti veitt betri og ódýrari þjónustu en ríkið gerir. Í þessu sambandi hefur verið horft til sveitarfélaganna í landinu sem aðila er ættu og gætu tekið að sér aukin verkefni frá ríkinu. Í fjölmörg ár hafa þessi mál verið til umfjöllunar, en því miður hefur lítill sem enginn árangur orðið. Tel ég mjög mikilvægt að niðurstöður fáist sem fyrst í þessum málum. Ef það kemur í ljós að ekki er fyrir hendi grundvöllur til þessa verkefnaflutnings verður að gera gleggri skil á rekstri og fjárhagsábyrgð aðila, þannig að hvor aðili um sig hafi þá alfarið full yfirráð yfir viðkomandi starfsemi og geti hagað henni eftir efnum og ástæðum á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég er nú kominn að lokum þessarar ræðu.

Sá árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum frá því að núverandi ríkisstj. tók við völdum er áfangi á langri og erfiðri leið. Vandinn, sem við Íslendingar eigum við að glíma í efnahagsmálum um þessar mundir, er ekki síst afleiðing þeirrar minnkunar þjóðartekna sem við höfum orðið fyrir undanfarin þrjú ár. Vandinn birtist nú einkum í viðskiptahalla við útlönd og aukningu erlendra skulda þjóðarbúsins, verðbólgu sem magnast mun á næstu mánuðum, en þó vonandi tímabundið, og miklum rekstrar- og fjárhagsvanda í sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Ljóst er að meðan ekki er sigrast á viðskiptahalla og verðbólgu er atvinnuástand ótryggt. Því er nauðsynlegt að þau stefnumið, sem ríkisstj. hefur sett sér í stjórnun fjármála og peningamála, nái fram að ganga. Í því ljósi verður að skoða það fjárlagafrv. fyrir árið 1985 sem nú hefur verið lagt fram.

Við Íslendingar erum ekki einir þjóða sem átt hafa í erfiðleikum með að vinna bug á viðskiptahalla og verðbólgu. Fjölmörgum þjóðum heims hefur með ströngum aðgerðum í efnahagsmálum tekist að rétta við efnahag sinn, draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, en samfara þeim aðgerðum hefur komi til mikið og vaxandi atvinnuleysi. Því böli höfum við Íslendingar komist hjá og allt verður gert til að svo verði áfram. Það er einnig reynsla ýmissa okkar nágrannaþjóða að þar sem illa gengur að ná tökum á verðbólgunni hefur hagvöxtur verið lítill eða enginn. Það skulum við Íslendingar einnig hafa í huga.

Það er mikilvægt að gætt sé hófs í útgjöldum ríkisins og í skattlagningu þegnanna. Það getur ekki verið rétt leið til að leysa vandamál að beina ríkiskerfinu að því með auknum ríkisútgjöldum. Þessar staðreyndir hafa mörgum þjóðum orðið ljósar og því hafa menn einbeitt sér að því að draga úr ríkisumsvifum. Það verður að leita annarra hagkvæmari og ódýrari leiða en sífelldri beitingu ríkisútgjalda til að fullnægja óskum manna. Þá er ekki heldur hægt að ganga út frá því að unnt sé að mæta auknum útgjöldum ríkisins með auknum sköttum. Þvert á móti hafa þær staðreyndir komið í ljós að háir skattar draga úr vilja manna til að starfa og grafa undan heilbrigðum fjárhag atvinnulífsins.

Þessara staðreynda verða menn að taka tillit til við mótun efnahagsstefnu hér á landi og fjármál ríkisins eru ekki undanskilin. Það fjárlagafrv. sem hér er lagt fram hefur m.a. mótast af þessu.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjvn.