27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

1. mál, fjárlög 1985

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil draga saman fáeina þætti sem ég tel vera megineinkenni þess fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir.

Í fyrsta lagi er stóralvarlegt að ríkissjóður er nú rekinn í vaxandi mæli á erlendum lánum. Skv. yfirliti sem birt er með fjárlagafrv. og er skv. framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er skuldaaukning ríkissjóðs í erlendum lánum á árinu 1985 áætluð um 3.4 milljarðar. Ráðh. lét þess einmitt getið í framsöguræðu sinni að sú framsetning, sem þarna væri valin, væri gleggri og skýrari en sú framsetning sem menn hefðu fylgt hingað til. Þetta svarar til þess að allt menntakerfið í landinu sé rekið á erlendum lánum, svo að menn hafi eitthvað til samanburðar, og slagar upp í það að vera jafnhá upphæð og allar tolltekjur ríkisins. Vaxtabyrðin af þessu er vitaskuld sífellt að þyngjast, og það gerði ráðh. einmitt að umtalsefni og sagði að mál væri að linnti. En skv. þessu sama yfirliti verður um mikla aukningu að ræða á erlendri skuldasöfnun ríkisins á milli áranna 1984 og 1985 svo að enn stefnir í meira óefni en fyrr.

Annar meginþáttur þessa frv. er framhald af þeirri stefnu að skerða hinn félagslega þátt. Það varðar skóla og heilsugæslu, það varðar dagvistun og það varðar Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þar er skerðingin um 60 millj. kr. Það varðar Framkvæmdasjóð aldraðra til þess að byggja elliheimili eða dvalarstaði fyrir gamalt fólk. Þar er óbreytt krónutala milli ára þrátt fyrir allar verðlagshækkanir. Og það varðar alla samhjálp. Í því sambandi getum við tekið sem dæmi, sem ráðh. gerði sérstaklega að umtalsefni áðan, að meiningin væri að verja 100 millj. kr. til að auka kaupmátt hjá elli- og örorkulífeyrisþegum umfram það sem hann hefði verið að undanförnu. Þetta er 4% aukning í kaupmætti. Þar er gert ráð fyrir því að umfram verðlagsþróun, umfram launaþróun aukist elli- og örorkulífeyrisbætur um 4%. Þetta er varla stórmannlegt eftir að búið er að skerða kaupmáttinn hjá þessu fólki um yfir 20%. Gamla fólkið verður lengi með þessu móti að vinna upp þá skerðingu sem gerð hefur verið í tíð núv. ríkisstj. og á seinasta ári hæstv. ríkisstj. Gunnars heitins Thoroddsens á kaupmætti þess.

Þriðja meginatriðið sem ég vil benda á er að sú tekjuskattslækkun, sem boðuð er, er öll tekin til baka í nýjum sköttum. Ég mun gera það að umtalsefni frekar hér á eftir.

Í fjórða lagi er ekki úr vegi að benda á að um leið og talað er um aðhald er það aðhald æðimisjafnt. Þegar kemur að yfirstjórninni, ráðuneytunum sjálfum, er hækkunin tvöföld, þreföld, jafnvel fjórföld á við hinar almennu verðhækkunarforsendur frv. Í iðnrn. er um tvöfalda hækkun að ræða, þ.e. 26%, meðan verðlagsforsendur töldust vera 13%, og í félmrn. er um þreföldun að ræða eða 37% hækkun. En forsrn. slær metið. Það er fjórfalt meiri hækkun á því að reka það rn. en almennar verðlagsforsendur gera ráð fyrir. Það er munur á Jóni og séra Jóni.

Ef við lítum þá fyrst á afkomu ársins 1984, sem bæði núv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh. gerðu að umtalsefni, þá má segja að það sé sama marki brennd útkoman fyrir árið 1984 og útkoman fyrir árið 1983, nefnilega því markinu að með því að það er viðskiptahalli hefur ríkið svo miklar tekjur af viðskiptahallanum að það tekst nokkurn veginn að jafna þær tölur sem menn hafa sett sér í upphafi, ná þeim jöfnuði sem menn þykjast vera að ná á pappírnum, þeim A-hluta jöfnuði sem menn hafa gjarnan gumað af, en sem virðist nú ekki eins merkilegur þegar litið er á það yfirlit sem hæstv. fjmrh. segir að gefi gleggri og skýrari mynd, þ.e. skv. framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er með þessum hætti sem tekist hefur að ná endunum saman skv. staflið A í fjárlögunum eða því sem næst að ná þeim saman, bæði í ráðherratíð Alberts Guðmundssonar og í ráðherratíð Ragnars Arnalds.

Ráðið er einfalt: Látum ríkissjóð taka lán erlendis til þess að jafna hallann hjá sjálfum sér. Búum þannig til viðskiptahalla sem verður til þess að jafna þann mun sem menn vilja svo gjarnan veifa að enginn sé, en er samt mjög mikill þegar betur er að gáð.

Ég kemst ekki hjá því að gera sérstaklega að umtalsefni hinar erlendu lántökur og það yfirlit sem yfir þær er gert og aðra þætti sem varða ríkissjóð í töflum sem fylgja þessu fjárlagafrv. og eru upp settar samkv. framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar sést að skv. fjárl. á árinu 1984 eru erlendar lántökur nettó 1950 milljarðar kr., en þær verði hvorki meira né minna en 3431 milljarður kr. skv. frv. fyrir 1985 — að vísu fyrir leiðréttingu sem svarar til um 100 millj. kr. samkv. nýjustu upplýsingum. Hækkun á erlendum lántökum til þess að reka ríkissjóð er þá 75.6% milli áranna 1984 og 85. Þetta er vissulega umhugsunarefni því að þessi fjárhæð er ekki svo lítil eins og ég gat um áðan. Hún svarar til þess sem kostar að reka allt menntakerfi Íslendinga, allt frá grunnskóla og upp í háskóla.

Í öðru yfirliti, sem birt er, kemur í ljós að þær tölur, sem íslenskir ráðamenn hafa notað varðandi umsvif ríkisins, eru allar meira og minna ómark. Þær eru ekki samanburðarhæfar við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Allt tal um að umsvif ríkisins hér séu svo og svo miklu minni en meðal erlendra þjóða er þess vegna ekki rétt. Þar skeikar um 10% að því er tekjuhliðina varðar og þar skeikar um 20% að því er gjaldahliðina varðar. Þessu hlýt ég að vekja athygli á vegna þess að þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir verðum við að vera með sambærilegar tölur.

Hæstv. fjmrh. gerði nokkuð að umtalsefni skattastefnu ríkisstj. Já, hver er hún? Því var heitið í upphafi, því var heitið þegar fjárlagafrv. var lagt fram, að frv. um skattstiga og skattvísitölu yrðu lögð fram við upphaf þings. Ekkert af þessum frv. höfum við séð enn þá. Það eina sem við höfum fengið að vita var upplýst hér í dag og í dag í fyrsta skipti, að jaðarprósentur skattstigans mundu breytast eilítið, mundu lækka um 3% í neðsta þrepi, um 1% í næstneðsta þrepi og um 1% í hinu efsta þrepinu. Þetta eru allar upplýsingarnar sem við fáum um framkvæmd þeirrar skattastefnu að lækka tekjuskattinn um 600 millj. kr. Þetta er heldur magurt. Að vísu segir ráðh. að jafnframt eigi að létta á þeim sem verst eru settir og þar sem ein fyrirvinna er. Þetta eru ágæt markmið, ég er sammála þeim, en mér finnst ríkisstj. hafa tekið sér nokkuð langan tíma til þess að ganga frá þessu frv. og að það sé orðið nokkuð langt í efndirnar á því að þessi frv. yrðu lögð fram við upphaf þings.

En þegar betur er að gáð kemur í ljós að sú lækkun sem á að eiga sér stað á tekjuskatti einstaklinga upp á 600 millj. kr. á að leiða til skattahækkunar annars staðar, tekjuaukningar ríkissjóðs annars staðar, sem er samkv. nýjustu upplýsingum hæstv. fjmrh. upp á 620 millj. kr. Þar af er upplýst að um 150 millj. komi með því að láta áfengi og tóbak hækka u.þ.b. 10% umfram það sem verðlagshækkanir verða. En hvað um afganginn? Hvað um hinar 470 milljónirnar? Hversu glöggar upplýsingar hefur þingið um það úr ræðu hæstv. ráðh. eða þeim upplýsingum sem hafa komið fram? Jú það er talað um að hugsanlega megi hækka ýmsa liði um upphæð sem svari til 150 millj. kr. Það eru alls konar gjöld, skráningargjöld, leyfisgjöld, væntanlega veðbókarvottorð og hvað þeir heita þessir fjölmörgu smáskattar sem eru hér og hvar notaðir sem tekjuliðir og eins og frumskógur í fjárlagafrv. Þessir liðir eiga allir að hækka, væntanlega um önnur 10% umfram verðlagshækkanir, og verða þá að gera það strax við upphaf ársins. Þetta tvennt svarar þó ekki til nema 300 millj. kr. Þá eru eftir 320 millj. kr. sem eru skattlagning sem engin einasta grein er fyrir gerð hér af hvaða tagi muni verða.

Hæstv. fjmrh. hefur afneitað því að þetta yrði fólgið í hækkun söluskatts. Hann hefur þá væntanlega líka afneitað því að það yrði fólgið í því að það yrði víðtækari grunnur undir söluskattinum, eins og var nú ein setningin í grg. með þessu fjárlagafrv. Ég skil það svo að víðtækari grunnur undir söluskattinum þýði að undanþágum verði fækkað. Ef engin breyting á að eiga sér stað á söluskattinum er ekki heldur um það að ræða að undanþágum verði fækkað. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. svari því afdráttarlaust hvort innifalið í hans svari um að ekki verði um hækkun á söluskatti að ræða sé einnig að það verði ekki um að ræða víðtækari álagningargrunn, eins og það hét á skrifstofumáli því sem er í grg. þessa fjárlagafrv.

En skattlagning verður það. Í hvaða mynd vitum við ekki. Við Alþfl.-menn mundum ekki hafa á móti því að það yrði í sköttun á stóreignum. En þá vildum við verja því, a.m.k að verulegu leyti, til þess að bæta hlut húsnæðislánakerfisins til þess að sjá til þess að menn þyrftu ekki að bíða ár eða svo eftir því að þau lán fáist afgreidd sem þeim er lofað, eins og einmitt er tilfellið núna.

Annars er fróðlegt að skoða tekjuáætlun þessa frv. og hversu raunhæf hún muni vera. Það er gerð sérstök grein fyrir tekjuáætluninni í forsendum með þessu fjárlagafrv. Og það er ákaflega fróðlegt að sjá forsendurnar undir því að tekjur verði þær sem gert er ráð fyrir bæði að því er varðar eignarskatt og tekjuskatt. Þar segir að vegna áætlaðra eftirstöðva ógreiddra skatta í árslok 1984 að því er eignarskatt varðar er gert ráð fyrir að innheimta eignarskatts hækki meira en sem svarar álagningu milli ára. Hækkun álagningar milli ára á að vera 12.5%, en hækkun innheimtunnar á að vera 17% hjá einstaklingum og 21% hjá félögum. Og rökstuðningurinn er því sá að menn hafi staðið svo illa í skilum árið 1984 að þeir hljóti að standa langtum betur í skilum árið 1985.

Nú geta menn metið hvað valdi því að menn hafi staðið illa í skilum á árinu 1984. Það gæti t.d. verið léleg afkoma að því er einstaklinga varðar. Eftir því sem ríkisstj. hefur boðað verður nú lítill munur á kaupmætti launa hjá launþegum á árinu 1985 miðað við árið 1984 og varla svo að það svari til einhverra stórupphæða.

Af því er fyrirtækin varðar gæti verið að þetta væri vegna þess að fyrirtæki í undirstöðuatvinnugreininni, sjávarútvegi, hefðu barist í bökkum, hefðu ekki borgað skattana sína. Ég er hræddur um að nokkur dæmi séu um það. Er útlit fyrir það núna að í upphafi árs 1985 verði glimrandi afkoma í sjávarútveginum, þannig að þessi fyrirtæki rjúki til og borgi upp allar eftirstöðvar af sköttum sínum og skaffi þannig ríkissjóði stórkostlegar tekjur?

Alveg það sama, alveg sams konar röksemdafærsla, er uppi á teningnum þegar kemur að tekjuskattinum. Sú nettóálagning sem hér er um að ræða er sögð lækka um 20%, en tekjur ríkissjóðs vegna nettóálagningar upp á 20% lækka ekki nándar nærri svo mikið. Þær lækka bara um 11%. Og það er sama röksemdafærslan:

það voru svo lélegir greiðendur 1984 að þeir hljóta að verða góðir greiðendur 1985. Þetta er ákaflega merkileg röksemdafærsla og ég kemst ekki hjá því að biðja hæstv. fjmrh. um að gera eilítið nánari grein fyrir því hvernig á þessu standi, hvernig svona röksemdafærsla fái staðist, hvernig hann ætli að koma því til leiðar að menn verði svo langtum skilvísari á árinu 1985 en á árinu 1984 að ekki einungis borgi þeir hærra hlutfall af skatti sínum, heldur líka eftirstöðvarnar eins og hér er sagt.

Ég mun nú, herra forseti, víkja að fáeinum öðrum þáttum sem fram koma hér varðandi forsendur og tölur sem uppi eru í þessu fjárlagafrv.

Ég vil þá fyrst gera að umtalsefni útflutningsbætur. Hér virðist vera á ferðinni mjög merkileg stefnubreyting hjá ríkisstj. Hæstv. fjmrh. lét þess getið að útflutningsbótaþörfin, eins og hún væri nefnd, væri um 450 millj. árið 1984, en hámarksgreiðslugeta var sett við 468 millj. eins og kunnugt er. En hann lét þess einnig getið að útflutningsbótaþörfin, eins og hún væri nú venjulega skilgreind, yrði 500 millj. á árinu 1985. Engu að síður er ekki gert ráð fyrir því að greidd verði hærri fjárhæð en 380 millj. kr. Þarna skeikar 120 millj. miðað við útflutningsbótaþörfina. Hér er greinilega verið að stíga skref í þá átt að komast út úr útflutningsbótakerfinu og það er vel, en ég hefði gjarnan viljað fá upplýst hjá hæstv. ráðh. hvernig eigi að framkvæma úthlutun á mismuninum, ef ég má orða það svo, hvernig eigi að jafna byrðunum af þessum 120 millj. sem þarna ber í milli — eða gerist þess engin þörf? Verður það ekki eitt af því sem ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir? Hefur ríkisstj. ekki hugsað út í það með hvaða hætti hún ætli að gera það, hvernig því eigi að jafna á bændur og sláturhús og mjólkurbú hér í landinu? Ég tel skipta verulegu máli hvernig því verður jafnað og að hve miklu leyti það verður borið af bændum eða af milliliðunum sem hafa verið að reisa hallir allt í kringum okkur. Ég óska eftir því að hæstv. ráðh. gefi glöggar upplýsingar um þetta.

Þetta atriði gefur tilefni til þess að gera sérstaklega að umræðuefni þau lagaákvæði sem gilda um hámark útflutningsbóta, en sem venjulega hefur verið talið sem útflutningsbótaþörf, og útreikning á því í gildandi lögum. Það er talað um 10% af allri landbúnaðarframleiðslu. Nú er það svo að hér eru komnar upp ýmsar búgreinar sem teljast nú stundum aukabúgreinar eða vaxtarbúgreinar og ganga undir margvíslegum fögrum nöfnum af því taginu. Það gæti vissulega verið aukabúgrein að steypa gangstéttarhellur ef það væri gert á bóndabýli. Fellur það undir landbúnaðarframleiðslu?

Það hefur verið talið að hlunnindi ýmiss konar féllu undir landbúnaðarframleiðslu, þ. á m. tekjur af laxveiðileyfum, æðardúnstekja og þar fram eftir götunum. Verða þá ekki líka skv. þessu hluti af landbúnaðarframleiðslunni, sem reikna á 10% af, allar þær nýju búgreinar sem við erum að koma upp vegna þess að við höfum ekki efni á að reka þær gömlu í eins ríkum mæli og raun ber vitni? Hvað um refarækt, minkarækt, laxarækt, silungsrækt. fiskirækt yfirleitt? Allt heyrir þetta undir landbrn. Er ekki tími til kominn að þingið taki nú á sig rögg og endurskoði þessi lög, setji bæði hámarksupphæð á komandi ár, ekki bara þetta eina ár. heldur í framhaldinu, og skilgreini með hvaða hætti eigi að reikna þessa upphæð, ef hún á að vera prósentutala af einhverri landbúnaðarframleiðslu, hver sú landbúnaðarframleiðsla er og hvort þar sé þá innifalið að steypa gangstéttarhellur, ef það er gert á bændabýli, eða fiskiræktin eða refræktin eða minkaræktin? Og í annan stað: Hvernig ætla menn að komast þann veg sem fara verður?

Auðvitað hefði Alþingi getað tekið á sig rögg langtum fyrr og tekið á þessum málum. Ég minni á að þegar á árinu 1980 flutti ég lagafrv. sem varðaði einmitt þessi atriði og Alþfl.-menn hafa áður flutt lagafrv. sem varða þau skilgreiningaratriði sem ég hef nú gert að umtalsefni.

Ég fór fáeinum orðum áðan um það hversu ríkissjóður væri rekinn með miklum halla og hvernig erlendar skuldir söfnuðust upp. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að það hefði reynst brösótt og erfitt að afla innlends lánsfjár. Og hver var höfuðskýringin? Höfuðskýringin var sú að ríkisstj. hafði sjálf skipt um stefnu í vaxtamálum. Hæstv. fjmrh. fór ekkert leynt með að það ástand sem ríkt hefði í vaxtamálum og það vaxtakapphlaup sem nú hefði verið uppi hefði þýtt að ríkissjóður hefði orðið af stórum fúlgum og gæti ekki selt skuldabréfin sín og gömlu spariskírteinin, þau væru innleyst í mjög ríkum mæli. Útstreymið hefði numið um 900 millj. kr. eða upp undir milljarði og þetta væri vegna þess að miðað við gildandi vaxtakjör hafi menn hlaupið til með spariskírteinin sín og heimtað að ríkissjóður greiddi þau, en yfirleitt ekki keypt nein í staðinn. Það var ekki nema von að hæstv. ráðh. hefði áhyggjur af þessari stöðu. Hann benti mönnum góðfúslega á að innlausn eldri skírteina gæti numið milljörðum, það væru nefnilega 3.8 milljarðar í svona spariskírteinum sem þegnar þessa lands gætu innleyst hvenær sem væri á næsta ári. Þeir hafa vaknað til vitundar um það, eigendur þessara skírteina. að miðað við þá stefnu sem ríki hefur í vaxtamálum og sem ríkisstj. hefur innleitt sé auðvitað ekkert vit í að eiga þessi skírteini. Ja. það er ekki nema von að hæstv. fjmrh. vari við.

Ein nýjung var þó fundin upp af hálfu ríkisins til þess að bjarga afkomu ríkissjóðs-nýjung sem var auglýst, nýjung sem var mikið talað um, nýjung sem átti að verða algjör kaflaskipti að því er ríkisfjármálin varðaði. Það voru ríkisvíxlarnir. Þá átti nú aldeilis að næla í peninga í ríkissjóð. Það átti að næla í 158 millj. kr. með þeim hætti. En það tókst ekki að selja ríkisvíxla nema fyrir 70 millj. kr. og þá reyndar með afarkjörum. Það má reyndar halda því fram að það vaxtastig sem ákvarðaðist hér í þjóðfélaginu í ýmiss konar innlendum viðskiptum hafi einmitt hæstv. fjmrh. ákveðið þegar hann gekk frá og gekk að tilboðum í sambandi við fyrsta útboðið á ríkisvíxlunum. Þá var í rauninni boðuð sú stefna fjmrn. að á skammtímaskuldbindingum skyldu vera u.þ.b. 26% vextir. Það var því ekki einungis sú ákvörðun, sem tekin var á miðju sumri af hálfu ríkisstj. eða 1. ágúst, ef ég man rétt, varðandi vaxtafrelsið og var kölluð tímamótaákvörðun, sem er sem ól um háls hæstv. fjmrh., heldur bjó hann til drjúgan hluta af ólinni sjálfur þegar hann ákvað að skammtímavextir á ríkisvíxlum skyldu vera um 26%. Þar var hann kominn í samkeppni við sjálfan sig og búinn að kippa stoðunum undan því að menn keyptu spariskírteinin í neinum verulegum mæli. Svona hafa mistökin rekið hvert annað í þessu kerfi ríkisstj.

Annað var það sem ríkisstj. boðaði af miklum þrótti. Það var að nú skyldu ríkisfyrirtæki seld. Þau skyldu seld í stórum stíl. Ég man ekki hvað þau áttu að vera mörg til að byrja með þegar hæstv. fjmrh. birti listann sinn, en mörg voru þau. Þau voru líklega einhvers staðar á bilinu 15–20, ef ég man rétt. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því, ef einkaaðilar geta rekið fyrirtæki sem ríkið er með og veitt sambærilega þjónustu, að þetta sé flutt yfir til einkaaðila úr hinum opinbera geira, en það er dálítið ankannalegt þegar þeir sem sérstaklega boða að ríkið eigi alls ekki að eiga í fyrirtækjum leggja fram fjárlög þar sem aftur og aftur er tekið fram að nú eigi ríkið að fá heimild til að kaupa hlutafé í hinu og þessu. Svo er einnig um þessi fjárlög. Enn er heimilað að kaupa hlutafé í steinullarverksmiðjunni, í hlutafélagi til eflingar iðnþróunar og í ýmsum fyrirtækjum skv. liðum 5, 6, 7 og 8 á bls. 232 í þeirri grg. sem fylgir þessu frv. Ég hef ekki á móti því að ríkið kaupi annað veifið hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum. En ég set þetta fram sem áminningu um að menn eru ekki eins galvaskir í málflutningi sínum um að ríkið megi alls ekki eiga í fyrirtækjum og ýmsir forsvarsmenn ríkisstj., og þó alveg sérstaklega hæstv. fjmrh., hafa verið að undanförnu.

Ég gerði hér áðan að umtalsefni lánsfjáröflun og skuldastöðu ríkissjóðs. Fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt í þessum efnum kemst ég ekki hjá því að benda alveg sérstaklega á eitt atriði sem fram kemur í grg. með frv. Á bls. 210 er sagt afar hæversklega:

„Þess er þá að geta að vegna mjög erfiðrar greiðslufjárstöðu ríkissjóðs síðari hluta árs 1983 var tekið 619.2 millj. kr. lán fyrir milligöngu Seðlabankans. Það lán er bundið við SDR og endurgreiðist á árunum 1985–1986. Eftir áramót 1983/1984 var síðan tekið annað sams konar lán til þess að standa reikningsskil á yfirdrætti ríkissjóðs í árslok 1983. Það lán er að fjárhæð 687 millj. kr. og á að endurgreiðast á árunum 1986– 1989.“

Hérna eru sem sagt tekin neyðarlán upp á 1.3 milljarða til þess að ríkissjóður geti staðið í skilum við skuldunauta sína. Þetta er eiginlega utan við allt sem menn hafa gert að umræðuefni hér varðandi afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs og þess vegna kemst ég ekki hjá því að gera það sérstaklega að umtalsefni.

Ég mun ekki, herra forseti, fara mörgum orðum um einstaka liði að því er varðar rekstur rn. En það er eitt atriði sem mér þykir þó ástæða til þess að leggja spurningu fyrir hæstv. ráðh. um. Í landbrn. er til liður sem heitir Jarðeignir ríkisins. Framlag ríkissjóðs verður 4 millj. 905 þús. kr., stendur í þessu fjárlagafrv. Látum það vera. En hvar eru tekjurnar af þessum jörðum? Ætli ríkið sé ekki stærsti jarðeigandi á Íslandi. Það á margar stórjarðir. Það á margar jarðir með miklum hlunnindum. Hverjar eru leigutekjurnar af þessum jörðum? Hrökkva leigutekjurnar af öllum þessum jörðum með öllum þessum hlunnindum fyrir launum eins starfsmanns í rn. sem hefur með þeim umsjón eða hrökkva þær fyrir framlagi ríkissjóðs upp á 4.9 millj. kr.? Hvað eru þessar tekjur miklar? Getur verið að ríkið reki eigur sínar með þeim hætti að tekjur, m.a. af ýmsum hlunnindum, sem leigjendur ríkisins hafa, séu margfaldar á við þá leigu sem ríkið tekur fyrir þessar jarðir? Ég hefði gjarnan viljað fá þetta upplýst hjá hæstv. ráðh. Og ef það skyldi nú vera svo að eitthvað af þessu tagi kæmi fyrir í ríkisgeiranum vildi ég gjarnan spyrja ráðh. hvort honum finnist ekki tími til kominn að menn skoði þessi mál svolítið nánar og aðgæti hvort leigutekjur ríkisins á jarðeignum þess séu með öllu eðlilegar. Hvort það geti ekki verið að þarna sé tekjupóstur sem hafi gleymst, hvort það geti ekki verið að ástæða sé til að endurskoða alla þessa leigusamninga og gera það á einu bretti. Það vantar nefnilega oft sporslur. Það gæti komið sér vel fyrir hæstv. ráðh. að nota þetta til að kítta upp í eitthvert gatið sem sjálfsagt kemur fram á þessu fjárlagafrv. og mætti verða til að lækka skattlagninguna á almenningi, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir, upp á 320 millj. af þeim 620 sem hugmyndin er að auka skattlagningu á almenningi í landinu um.

Við gerum það stundum að umtalsefni að afkoman sé léleg hjá okkur hérna á Íslandi og við spyrjum stundum: Hvernig stendur á því að lífskjörin eru svona léleg? Hæstv. fjmrh. gaf nú að hluta til svar við þeirri spurningu, bæði í því frv. sem hann hér flytur og í þeim upplýsingum sem hann gaf í ræðu sinni áðan. Tökum minnisvarðann yfir vitlausa fjárfestingu á Íslandi. Tökum Kröfluvirkjun. Í upplýsingum með frv. á bls. 207 er sagt að alls sé talið að vextir og afborganir áhvílandi lána nemi 498.5 millj. kr. á árinu 1985. Gengið er út frá því að fyrirtækið skili úr rekstri minnst 98.5 millj. til þessa, en að því verði jafnframt heimiluð lántaka að hámarki 400 millj. kr. Það skortir sem sagt 400 millj. kr. upp á að þetta fyrirtæki geti staðið undir vöxtum og afborgunum sem því ber að gera. Það er engin smáræðis upphæð sem hér er um að ræða. Ef ekki hefði verið lagt í Kröfluævintýrið ætti hæstv. ráðh. þarna 400 millj. kr. meira úr að moða á þessu ári. Hann hefði getað haft skattana 400 millj. kr. lægri bara út á þessa einu framkvæmd, þennan eina minnisvarða.

En minnisvarðarnir eru fleiri, og hæstv. ráðh. gerði þá að umtalsefni. Ég vil gjarnan að það komist í Alþingistíðindi að þetta eru minnisvarðar yfir það hvers vegna lífskjör eru lakari á Íslandi en annars staðar, hvernig ríkið hefur lagt í ýmsar framkvæmdir sem ekki rísa undir sér. Hann minntist á Járnblendiverksmiðjuna, 1/2 milljarð sem ríkið yrði sjálfsagt að yfirtaka. Ef Landsvirkjun tæki nú við Kröflu yrði ríkið sjálfsagt að yfirtaka 11/2 milljarð. Byggðalínurnar hefðu þýtt yfirtöku á lánum upp á 1 milljarð. Jarðboranir ríkisins hefðu þýtt yfirtöku upp á 200 millj. Og svo er það líka komið á daginn, sem menn bjuggust alltaf við, að lán sem tekin voru vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins í sambandi við loðnudeild hans upp á 150 millj. yrði ríkið líka að borga. Við höfum hér fjölþætt kerfi. Við höfum vitlausar fjárfestingar ríkisins sem birtast í hærri skattlagningu þegnanna. Við höfum vitlausar ákvarðanir í framkvæmdum á vegum ríkisins. Og við höfum vitlausar ákvarðanir um framkvæmdir á vegum einkaaðila. Hvort tveggja birtist í rauninni í lélegri lífskjörum á Íslandi en ella vegna þess að það eru tekin erlend lán til að jafna þennan mun og hvort heldur það gerist vegna þess að ríkissjóður sé rekin á erlendum lánum eða vegna þess að lagt er í fjárfestingar á vegum einkaaðila eða annarra sem standa ekki undir sér og ríkið verður síðan að hlaupa undir bagga með, þá bitnar það á lífskjörunum. Þetta er sannleikurinn í þessu máli.

Herra forseti. Þegar þetta frv. var lagt fram voru höfð fögur orð og fyrirheit af hálfu hæstv. fjmrh. um hvernig við skyldum nú standa að vinnubrögðum núna. Ég kemst ekki hjá að minna á eilítið af því. Fyrirheitin voru fáein. Það var sagt að í þingbyrjun yrði lagt fram sérstakt lagafrv. með nánari útfærslu á skattbreytingunni varðandi lækkun á tekjuskatti. Þar var fyrsta loforðið. Þar var talað um það að skattvísitala yrði jafnframt kynnt í þingbyrjun. Þar var talað um í þriðja lagi að frv. um breytta skipan tollamála mundi koma fram á þessu þingi. Ekki sér enn fyrir því. Og loks var sagt að samhliða fjárlagafrv. yrði fjallað um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ekkert af þessu, sem hér var talið fram og lofað þegar fjárlagafrv. var lagt fram, hefur verið efnt enn þá. Verst af öllu er að þetta gerist ár eftir ár, að fjárlagafrv. kemur hér til umfjöllunar án þess að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé lögð fram samtímis. Og ég segi það vegna þess að það gerir allt yfirlit yfir ríkisfjármálin og stöðu þjóðarbúsins langtum erfiðara sé fjallað um þetta í pörtum og bútum eins og okkur er gert að gera.

Það er líka merkilegt að rifja upp niðurlagsorð inngangsins í grg. með þessu frv. Þar segir að það sé meginstefna ríkisstj. og veigamikill þáttur í efnahagsstefnunni að miða að því að draga úr erlendri skuldasöfnun. Þetta eru falleg orð, en þegar þau eru borin saman við þá niðurstöðu að erlendar skuldir, ekki einungis þjóðarinnar heldur ríkissjóðs sér í lagi, aukast ár frá ári, þá þykir mér málið orðið fullþversagnarkennt. Menn geta borið þessi orð saman við það sem kemur fram í yfirlitinu með frv. sem sýnir að aukning á erlendum skuldum hjá ríkinu á árinu 1985 skv. fyrirliggjandi frv. verði 3.3 milljarðar kr.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja öllu frekar um þetta.

Alvarlegasti þátturinn er sá að það er stórfelld skuldasöfnun hjá ríkissjóði, það er óvissa um innlenda lánsfjáröflun og erlend lán eru stórlega aukin frá ári til árs.

Í öðru lagi eru umsvif ríkisins vanmetin. Hér kemur fram að þau hafa verið vanmetin árum saman, miðað við hvernig þau eru metin í öðrum löndum, og nemur það um 10%.

Þriðja einkenni frv. er framhald á þeim niðurskurði sem uppi var hafður á síðasta ári á félagslegum þáttum og það gildir jafnt hvort um er að ræða sjóði til styrktar lömuðum og fötluðum eða öldruðum eða verklegar framkvæmdir sem snúa að menntamálum eða heilbrigðismálum.

Í fjórða lagi er lækkun tekjuskattsins tekin til baka í öðrum sköttum.

En það er eitt atriði, sem varðar hinn félagslega þátt, sem ég hlýt þó að spyrja hæstv. ráðh. sérstaklega um hér og nú. Það eru gjöldin sem taka á fyrir lækna- og lyfjaþjónustu. Í forsendum fjárlagafrv. er sagt að þessi gjöld muni hækka hlutfallslega með verðlagi. Nú segir hæstv. ráðh. að þau hækki ekki. Hvað er rétt í þessum efnum? Verða þau óbreytt í krónutölu eða verða þau (Gripið fram í. ) það ekki? Hvergi hefur verið gerð grein fyrir því að hér væri um einhvern peningamismun að ræða, sem þyrfti að mæta, og þess vegna er spurningin borin fram hæstv. ráðh. Það er verulegur mismunur á því hvort þau hækka með verðlagi eða hvort þau standa í stað að krónutölu og menn geta haldið því fram að hvort um sig sé ekki hækkun vegna þess að hækkun með verðlagi sé að standa í stað eins og allt er í pott búið á Íslandi. En í forsendum fyrir hinu upprunalega fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að það fylgi verðlagi. Það hefur ekkert komið fram í krónum og aurum um það að þær forsendur hafi breyst. Hæstv. ráðh. gat þess sérstaklega að 100 millj. væru til þess að mæta hækkun á elli- og örorkulífeyri sem næmi 4% svo að þar fauk það og ekki hefur það farið í þennan lið. Þess vegna þarf þetta að liggja skýrt fyrir.

Að endingu þetta: Allar hugmyndir um að það sé jöfnuður í ríkisfjármálum, allt tal um það, eru út í hött. Það sýnir það yfirlit sem fylgir þessu fjárlagafrv. og ég hef gert hér að umtalsefni. Ef það væri jöfnuður væri ekki svona mikil erlend lántaka. Þetta eru þeir þættir sem ég geri sérstakar aths. við að því er varðar efnisinnihald frv. En það er ástæða til að rekja líka í fáeinum orðum hvað ekki er gert sem hefði átt að gera. Það er látið ógert að fara ofan í hvern lið og athuga hvort gera megi hlutina með betri hætti, að ganga úr skugga um hvort atriði sem vikið er að geti verið í höndum annarra sem inni þá jafnvel af hendi. Það er líka látið vera að taka ákvörðun um að byggja hæfilega stórt í staðinn fyrir að byggja of stórt og hætta öllum íburði en byggja látlaust þannig að það svari tilgangi sínum. Og það er ekki heldur tekið á því, sem hefur verið einkenni fjárlagafrv., að hafa hæfilega stóra áfanga. Það er sífellt verið að búta svo smátt í verklegum framkvæmdum að helmingurinn af kostnaðinum fer í að flytja tækin á milli verka. á því er ekki tekið. Og það er ekki heldur tekið á gjaldafrumskóginum eða á tollafrumskóginum. Það er ekki heldur tekið á því að bankarnir eigi að borga langtum lægri skatt á árinu 1985 en 1984. Þetta hefði nú verið ástæða til að skoða sérstaklega. Og það er ekki heldur tekið á því að herða skattaeftirlit sem gæti skilað miklu. Það er ekki heldur tekið á því að stokka upp söluskattskerfið sem hefði getað skilað miklu. Á stóreignaskatt er ekki minnst. Hann hefði líka getað skilað verulegu og verið mjög réttlátur. Óréttlætið heldur áfram. Ellilífeyrisþegar og örorkulífeyris mega hins vegar vænta þess að fá 4% til baka af þeim 20 sem búið er að skerða kaupmátt þeirra um. Það er nú allt réttlæti þessarar ríkisstj.

Herra forseti. Með þeim orðum um misréttið í þjóðfélaginu og skerf ríkisstj., 4% skerf ríkisstj., til þess að draga úr misréttinu sem eitt af því sem sé boðskapur þessa frv. mun ég ljúka máli mínu.