27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

1. mál, fjárlög 1985

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka hér til máls við þessa umr. enda gerði hæstv. fjmrh. glögga grein fyrir frv. eins og það var lagt fram hér á Alþingi í upphafi þings og þeim breyttu forsendum sem nú hafa verið kynntar í ítarlegri ræðu sinni hér áðan.

Í ræðum hv. þm. við þessa umr. hafa tiltölulega fá atriði komið fram sem gefa tilefni til athugasemda. Þar hefur fátt komið á óvart og gagnrýni hv. þm. stjórnarandstöðunnar hefur ekki verið markviss, enda frv. skýrt ítarlega, eins og ég þegar hef sagt, og vel lagt fyrir af hálfu hæstv. fjmrh. Þó eru örfá atriði sem mér hafa þótt þess efnis að ástæða sé til að ég segi hér fáein orð.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. fjmrh., Ragnar Arnalds sagði að fjárlagafrv. væri spegilmynd stjórnarstefnu. Þetta hefur oft verið sagt áður og er að vissu leyti rétt. Það er þó ekki nema hálfur sannleikur vegna þess að fjárlagafrv. hverju sinni verður að taka mið af þeim aðstæðum sem við er að etja í þjóðfélaginu. Við megum ekki gleyma því, þegar rætt er um fjárlagafrv. og fjármál ríkisins, að árið 1984 er þriðja árið í röð sem þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur dragast saman á Íslandi. Í lok þessa árs er talið að þjóðarframleiðsla hafi dregist saman á Íslandi sem nemur a.m.k. 12% á mann. Við slíkar aðstæður er ekki um það að ræða að hægt sé að fjalla um fjármál ríkissjóðs, leggja fram fjárlagafrv. og haga ríkisbúskapnum með sama hætti og verið hefði ef þessi samdráttur þjóðartekna og þjóðarframleiðslu hefði ekki sótt okkur Íslendinga heim. Það eru því gagnólík skilyrði nú til þess að reka ríkissjóð og til umsvifa í þjóðarbúskapnum og í ríkisrekstrinum en voru við upphaf þessa samdráttarskeiðs í þjóðartekjum okkar Íslendinga. Þetta veit auðvitað hv. þm. Ragnar Arnalds og hann hefði vel mátt geta þess í sinni ræðu hér áðan um leið og hann dró þar fram að frv. eins og það liggur fyrir væri spegilmynd stjórnarstefnu.

Stjórnarstefnan er auðvitað sú að leitast við að draga saman umsvif í ríkisrekstrinum, að draga saman þann hlut sem tekinn er af almenningi til þess að reka ríkissjóð og öll umsvif hans. Þetta er stjórnarstefnan. En hætt er við að hægt hefði verið að leggja fram fjárlagafrv. með öðru sniði og á ýmsan hátt á rýmri máta þar sem hægt væri að sinna betur ýmsum þörfum málum og framkvæmdum en nú er unnt ef þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hefðu haldist í því horfi sem var á árinu 1981, jafnvel árinu 1982 enda þótt það væri fyrsta árið í því samdráttarskeiði sem síðan hefur staðið.

Mér þótti rétt að koma þessu að og skal ekki fara lengra út í að rekja áhrif þessa samdráttarskeiðs á ríkisbúskapinn. Ég mun koma nánar að því þegar þetta mál kemur til 2. umr.

Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um að það væri stóralvarlegt að þrátt fyrir mikinn niðurskurð í ríkisframkvæmdum tækist samt ekki að leggja fram frv. sem væri rekstrarhallalaust. Þetta er vitaskuld alvarlegt mál, ég skal ekki leyna því. En hv. þm. talaði um að þetta væri þó nánast óþarfi vegna þess að felldir hefðu verið niður eða lækkaðir skattar á banka og atvinnufyrirtækin í landinu. Ég verð nú að segja að ég held að þessi liður hefði ekki hossað mjög hátt. Ef ég man rétt þá lækkuðu skattar á bankastofnanir um 60–70 millj. kr. Ég man þá rangt ef svo var ekki þegar skattskrár birtust á þessu ári að hækkun tekjuskatts á fyrirtæki í landinu hefði orðið meiri á milli áranna 1983 og 1984 en almennar verðlagshækkanir. Þannig að þó hv. þm. hafi talið hér vera mikið tilefni til þess að ná endum saman í ríkisbúskapnum þá hygg ég að það sem ég hef hér sagt séu staðreyndir málsins.

Hv. þm. Ragnar Arnalds og raunar fleiri hv. þm. hafa talað um að fjárlagafrv. fæli í sér mikinn niðurskurð til félagslegra málefna. Í öðru orðinu hafa aðrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar svarað þessu og sagt að vel hafi eftir atvikum verið gert við ýmsa liði á þessu sviði svo sem í málefnum fatlaðra. Ég vil aðeins ítreka það að enda þótt það sé rétt að t.a.m. Framkvæmdasjóður fatlaðra sé skorinn niður svo sem aðrir sjóðir í þessu frv., en það hefur orðið að gera vegna þess ástands sem við er að fást í fjármálum ríkisins, þá hefur þó t.a.m. liðurinn sem kallaður er málefni fatlaðra, undir félmrn., hækkað í frv. frá því sem fjárlög greina um 44,4% eða úr 150 millj. í 217 millj. kr. Hér er vissulega ekki dæmi um það að þetta frv. feli í sér sérstakan niðurskurð til félagslegra málefna, öðru nær. Þessi liður í útgjöldum ríkisins hefur í raun hækkað gífurlega á allra síðustu árum.

Ég tek undir það með hv. þm. Ragnari Arnalds og öðrum þeim sem hér hafa talað um að það væri sannarlega æskilegt ef tækist að ná saman fjárlögum ríkisins með þeim hætti að ekki yrði um rekstrarhalla að ræða á ríkisbúskapnum á næsta ári. En ég get ekki sagt um hvort það muni takast og raunar horfur á því, eins og þegar hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh., að halli verði á frv. sem nemur 300–500 millj. kr. eða eitthvað á því reki. Um það verður ekki sagt. Eftir er að fjalla um frv. af hálfu Alþingis.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði hallarekstur ríkissjóðs að umtalsefni. Hann sagði að í ljós kæmi að halli á frv. væri ekki 300–400 millj. eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt, heldur væri hann yfir 3 milljarða. Mér þótti hv. þm. fara með þessar tölur með þeim hætti að ætla mætti að það væri gert til þess að villa um fyrir fólki.

Fjárlagafrv. nú er sett upp með sambærilegum hætti í megindráttum eins og fjárlagafrv. undanfarinna ára. Í megindráttum er þetta svo þótt þar sé um nokkrar breytingar að ræða sem skýrðar voru í máli hæstv. fjmrh. Þær breytingar raska ekki meginniðurstöðum frv. Á hinn bóginn er sýnt í grg. frv. hvernig uppsetning fjárlagadæmisins yrði, þ.e. A-hluta ríkissjóðs, ef það væri gert samkvæmt framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hæstv. fjmrh. sagði í sínu máli að hann teldi það horfa til bóta að taka þessa nýju framsetningu upp. Ég er því raunar sammála. En það er ekki hægt að tala hér á þann máta að sú niðurstaða sem fæst með hinni nýju uppsetningu sé eitthvað sambærileg eða hægt sé að taka hana sem viðmiðun við það sem gerst hefur áður eftir eldri uppsetningu. Ég vil aðeins geta þess í sambandi við uppfærslu sem væri með sama hætti eins og gert er samkvæmt framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að þá koma inn í A-hluta ríkissjóðs nýir liðir. Þar kemur inn Tryggingastofnun ríkisins, þar koma inn endurlán ríkissjóðs og þar kemur inn Atvinnuleysistryggingasjóður. Allt hefur þetta í veigamiklum atriðum áhrif á heildarniðurstöðu A-hluta fjárlaga eftir hinni nýju uppsetningu. Og það er rétt að samkvæmt þeirri uppsetningu kæmi út halli sem næmi yfir 3 milljörðum kr. skv. frv. Þegar fjallað er um mál af þessu tagi þar sem sýnt er hvað kæmi út ef gerbreytt yrði uppsetningu fjárlaga þá er nauðsynlegt að um leið og það er tekið til umr. sé ekki lagt út af því á þann máta að allir haldi að um sé að ræða breytingar á milli ára í niðurstöðum ríkisbúskaparins, heldur sé það þá skýrt að um gerbreytta uppsetningu sé að ræða og halla sem skapist þá m.a. af því að nýir og veigamiklir liðir eru teknir inn.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um einstaka þætti ýmsa sem fram komu í máli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, 3. þm. Reykn. Hann talaði einnig með nokkuð frjálslegum hætti um að það væri sýnilegt að sú lækkun tekjuskatts sem boðuð er, 600 millj. kr., yrði öll tekin aftur og meira til með nýjum sköttum. Þetta fannst mér býsna frjálslega fram sett hjá hv. þm. Það er boðað að til að mæta tekjutapi ríkissjóðs af lækkun tekjuskatts um 600 millj. kr. verði aflað nýrra skatta upp á 320 millj. kr. 300 millj. kr., sem hv. þm. talaði um, eru fengnar þannig að þar er um að ræða endurmat á tekjuáætlun ríkissjóðs. Slíkt endurmat fer fram kannske oft á ári. Þetta endurmat felur m.a. í sér að gert er ráð fyrir að tekjur af rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins gefi nokkru meira fé í ríkissjóð en áður var talið. Ég tel að það sé alveg ný skilgreining, sem hv. þm. kom hér með, að þetta séu kallaðir skattar eða það sé verið að tala um nýjar skattaálögur. Ég tel sem sagt að þarna hafi verið farið nokkuð frjálslega að við túlkun á þessu máli og það sé gert til að leitast við að villa um fyrir mönnum. Það er hv. þm. ekki til sóma.

Hv. þm. ræddi hér um tvo liði er snerta landbrn. Ég vil aðeins minna á að þó að útflutningsbótaréttur kunni á þessu verðlagsári að vera í kringum 500 millj. króna, þá er það skoðun ríkisstj., svo sem birtist í þessu frv., að ekki sé ástæða til að hafa inni á fjárlögum hærri tölu en 380 millj. kr. Þetta er sem sagt skoðun ríkisstj. og ég hef ekkert út af fyrir sig við það að athuga. En þetta stafar vitaskuld af því að samdráttur hefur orðið í landbúnaðarframleiðslu og þörfin fyrir útflutningsbætur minnkar.

Það er auðvitað hótfyndni hjá hv. 3. þm. Reykn. að tala um gangstéttarhellur í þessu sambandi, þar sem hann spyr hvort þessar útflutningsbætur verði þá reiknaðar á gangstéttarhellur og loðdýr, eins og hann orðaði það, því að gangstéttarhellur hafa bændur nú alla jafna ekki framleitt og síst til útflutnings. Hins vegar hefur útflutningsbótaréttur verið reiknaður á loðdýraafurðir, þó þannig hygg ég að aukningu í þeirri grein hafi ekki verið að fullu fylgt eftir. Það er einnig svo í sambandi við útreikning á útflutningsbótarétti að þar hefur ekki verið tekið tillit til, þegar ég var kunnugastur þeim málum, aukningar í sambandi við hlunnindaafurðir, heldur hefur aðeins það magn sem áður hafði verið þar inni verið reiknað upp til verðlags.

Hv. þm. spurði um jarðeignir ríkisins og tekjur af jörðum. Ég er út af fyrir sig kunnugur því að á þeirri tíð sem ég var í landbrn. voru þessi mál öll tekin til endurskoðunar. Þau höfðu verið þar í hinum mesta ólestri vegna þess að hvorki voru ábúðarsamningar til né hafði leigugjald verið fært upp til verðlags jafnvel áratugum saman, og var örfáar krónur. Sú regla var tekin upp að eftirgjald eftir jarðir ríkisins skyldi vera 3% af fasteignamatsverði og eftir leigulóðir 2% af fasteignamatsverði, þannig að hv. þm. hefur þá um það þær tölur sem ég þekki réttastar.

Ég skal ekki fara út í fleiri atriði úr ræðu hv. 3. þm. Reykn. en fannst tilefni til að víkja þessum orðum að þessum örfáu atriðum.

Fjvn. hefur fjárlagafrv. nú til meðferðar og hefur haft að undanförnu. Hér er ekki að mínum dómi tilefni til þess að lýsa þeirri vinnu, það bíður betri tíma. En mig langar til að taka það fram vegna niðurlagsorða í ræðu hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar, þar sem hann ræddi um tiltekna liði fjárlagafrv. sem hann taldi að þyrftu lagfæringar við í meðförum Alþingis, að fjvn. hefur þetta mál vitaskuld nú til meðferðar. Þar höfum við hv. þm. Guðmundur Bjarnason gott samstarf um meðferð mála sem og meiri hl. n. og n. í heild. Ég fyrir mína parta tel ekki tilefni til að gefa neitt í skyn um niðurstöðu þess starfs fyrr en ákvörðun liggur fyrir við 2. umr. þessa máls.