27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

1. mál, fjárlög 1985

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér í dag talað fyrir frv. til fjárlaga 1985 og gert ítarlega grein fyrir einstökum þáttum þess. Er því ekki þörf að fara mörgum orðum um einstaka þætti frv. Einnig hafa hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Norðurl. v. farið nánar út í marga liði frv. og svarað ýmsum ádeilum og fyrirspurnum sem hér hafa verið ræddar. Ég mun því stytta mál mitt að þessu sinni.

Einkenni fjárlagafrv. fyrir árið 1985, sem hér er til 1. umr. eru þau sömu og á nokkrum undanförnum árum, þ.e. samdráttur í þjóðarframleiðslu sem orðið hefur til mikilla efnahagsörðugleika í íslensku athafnalífi nú um sinn. Skuldir þjóðarinnar erlendis eru orðnar svo miklar að ekki er á bætandi. Eru þær nú rúmlega 60% af þjóðarframleiðslu sem er of mikið að flestra dómi og verður að stöðva skuldasöfnun þjóðarinnar ef ekki á illa að fara. Verður það ekki mögulegt nema með aukningu þjóðartekna eða minni eyðslu.

Nú hefur stjórn Steingríms Hermannssonar setið við völd um 18 mánaða skeið og var búin að ná ótrúlega góðum árangri á flestum sviðum efnahagslífsins og snúa vörn í sókn eins og stefnt var að með stjórnarmynduninni. Í upphafi stefnuyfirlýsingar ríkisstj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðinni er brýn nauðsyn að brjótast út úr vítahring verðbólgu til þess að unnt sé að tryggja grundvöll atvinnulífsins, koma í veg fyrir atvinnuleysi og draga úr skuldasöfnun við útlönd. Aðeins með víðtækum samstilltum aðgerðum, er taka til allra þátta hagkerfisins, er unnt að vinna bug á þeim þrengingum sem nú steðja að þjóðarbúskapnum og leggja grundvöll að framförum.“

Með þeim róttæku aðgerðum, sem stjórnin gerði strax í upphafi, tókst að afstýra atvinnuleysi og stöðvun atvinnuveganna þó að ástand þeirra hafi verið slíkt að allt var að stöðvast þegar stjórnin tók við. Verðbólgunni, sem komin var í 130 stig, hefur verið komið niður í 12–15 stig sem má teljast mjög góður árangur á ekki lengri tíma. Vextir hafa verið lækkaðir og stöðugleiki í efnahagslífinu stórum batnað. Má telja að allt annað útlit hafi verið fram að þessu í þróun efnahagsmála. Nú hefur aftur dregið blikur á loft eftir nýgerða kjarasamninga sem hækkuðu að krónutölu mun meira en stjórnarflokkarnir gerðu ráð fyrir í frv. til fjárlaga 1985 sem lagt var fram í upphafi þessa þings. Verður því við nýtt vandamál að eiga við afgreiðslu fjárlaga þar sem samþykktir kauptaxtar hafa nú þegar hækkað um 10–12% umfram það sem gert var ráð fyrir í frv. Óefað hefur þetta þau áhrif að verðbólgan mun hækka verulega á næstu mánuðum með þeim afleiðingum sem við þekkjum og verða til þess að veikja stöðuna í samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Verður því að leggja kapp á að koma festu og stöðugleika á stjórnarfarið á nýjan leik svo þjóðin njóti áfram trausts og góðra samskipta við önnur lönd.

Í fjárlagafrv., sem hér er til meðferðar, er gerð grein fyrir ástandi og horfum í ríkisfjármálum og það ber merki þeirra efnahagserfiðleika sem við er að eiga í þjóðarbúskap Íslendinga um þessar mundir, eins og ég hef áður sagt. Skv. þessu frv. verða útgjöld ríkisins 25.3 milljarðar sem er rösklega 29% af þjóðarframleiðslu og er það lægra hlutfall en verið hefur frá 1981. Kemur fram í þessu að aðhaldi er beitt í gerð frv. og reynt er að draga úr útgjöldum ríkisins þó erfitt sé þar sem stærstur hluti gjaldanna er bundinn með lögum, eða allt að 70– 75%. Er þetta líklega gert til þess að skapa meiri möguleika fyrir ýmiss konar atvinnurekstur í landinu, sem er nauðsynlegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki svo að ekki sé staðar numið í uppbyggingu atvinnulífsins. Þá hefur einnig verið tekið mið af því að fjárlög og ríkisfjármálin yfirleitt hefðu ekki þau áhrif að þensla muni aukast í þjóðfélaginu.

Fjárlagagerðin hefur alltaf haft miklu hlutverki að gegna hvað varðar efnahagsstefnu þjóðarinnar og er svo enn, eins og fram kemur í þessu frv. Það, sem hefur valdið okkur mestum erfiðleikum og haft mikil áhrif á líf og starf þjóðarinnar á þessu ári og á tveimur undanförnum árum, er að þjóðarframleiðslan og þjóðartekjurnar hafa farið minnkandi ásamt þeirri miklu verðbólgu sem við bjuggum við þegar núv. stjórn tók við völdum.

Efnahagsmál hafa oftast reynst erfið viðfangs, en flestar ríkisstj. stefna að því að koma á og viðhalda efnahagslegu öryggi í þjóðfélaginu eins og núv. stjórn hefur lagt sig fram um að ná. En til þess að ná því þarf að halda uppi stöðugu atvinnulífi og auka framleiðni sem geti veitt okkur þau lífskjör sem eftir er leitað. Atvinnuvegir til lands og sjávar þurfa að skila þeim arði að hægt sé að byggja þá upp í samræmi við framfarir og þróun á hverjum tíma, þannig að þeir geti staðið undir efnahagslífi landsmanna og enginn maður má ganga atvinnulaus. Við þurfum að hagnýta alla möguleika til að auka þjóðarframleiðsluna svo að hún geti staðið undir þörfum okkar hverju sinni.

Efnahagslegt öryggi er mikilvægara en allt annað. Þær þjóðir, sem eyða í gáleysi meiru en aflað er til lengdar, missa efnahagslegt sjálfstæði sitt fyrr eða síðar. En sé tekið á tímabundnum erfiðleikum með samstilltu átaki og festu, þannig að allir leggi eitthvað af mörkum, er unnt að skapa góð skilyrði til sóknar í baráttu til að bæta lífskjörin. En eigi að takast að bæta kaupmáttinn verður aukin verðmætasköpun að koma til.

Núverandi ríkisstj. hefur beitt sér fyrir alhliða uppbyggingu og framförum á öllum sviðum þjóðlífsins. Stefna hennar hefur verið að koma efnahagsmálum þjóðarinnar til betri vegar og vinna að atvinnuöryggi og traustari atvinnuvegum. Allir landsmenn vita að tekist hefur að mestu leyti að halda fullri atvinnu í landinu þó að mikið atvinnuleysi hafi verið hjá nágrannaþjóðum okkar. Félagslegar og efnahagslegar framfarir hafa orðið miklar. Þær munu létta þá baráttu sem fram undan er til að tryggja áframhaldandi framfarir og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Með virkjun fallvatnanna og jarðhitans hafa skapast möguleikar á ýmiss konar iðnaði sem markvisst verður að auka á komandi árum til öryggis.fyrir íbúa landsins alls.

Ekki verður um það deilt að hinar miklu framfarir, sem orðið hafa í landinu á liðnum árum, eiga líka að stórum hluta rætur sínar að rekja til hinna félagslegu úrræða og umbóta sem samtök fólksins hafa beitt sér fyrir með undirbyggingu atvinnulífsins. Sennilega eru það fáar þjóðir sem meira hafa notað sér úrræði félagslegrar uppbyggingar til að leysa ýmsa mikilsverða þætti í búskap einstaklinga ásamt því að standa saman um mörg stór viðfangsefni sem orðið hafa til þess að treysta byggðina í landi okkar.

Auðlindir lands og sjávar eru miklar þó nokkuð hafi dregið úr sjávarafla nú um sinn. Okkur er nauðsynlegt að koma á góðu skipulagi á nýtingu fiskstofna við landið og að því hefur verið unnið af dugnaði í góðu samráði við sjómenn og útgerðarmenn jafnvel þó að þorskveiði hafi minnkað nálega um helming frá því sem hún var mest. Ég tel að skynsamleg vinnubrögð við nýtingu okkar innlendu auðlinda geti aukið svo þjóðarhag að ekki sé þörf að kvíða.

Sá atvinnuvegur, sem leggja þarf mikla rækt við í framtíðinni, er ýmiss konar iðnaður, stór og smár. Traustir atvinnuvegir í landinu eru forsenda öflugs atvinnulífs og batnandi lífskjara. Smáfyrirtæki ásamt meðalstórum hafa miklu hlutverki að gegna og viðfangsefnum þarf að fjölga og fjölbreytni að vaxa í þeim efnum. Dreifing þeirra um landið, hugvit og framtak fólksins þarf líka að koma til. Með rannsóknum og fræðslu, hagræðingu og góðri stjórn má auka afköst í mörgum iðngreinum og bæta nýjum við ásamt ýmiss konar hugvísindum. Að því er unnið af núverandi stjórn og stjórnarflokkum. Jafnframt verður að bæta lánakjör atvinnuveganna og beina fjármagni meira til þeirra.

Þá má líka minna á skipulega nýtingu jarðefna sem nú er verið að flytja úr landi í vaxandi mæli. Komið hefur í ljós að þar sem menn sáu aðeins vikurhauga og brunasand liggja þýðingarmikil verðmæti sem við getum flutt úr landi fyrir verðmætan gjaldeyri og um leið aukið atvinnu í landinu. Við þurfum að halda áfram að jafna lífskjörin í landinu og nytja hæfilega auðlindir okkar svo að við getum lagt grundvöll að farsælu lífi þjóðarinnar í landinu.

Herra forseti. Þetta frv. fyrir árið 1985 mótast af því samkomulagi, sem stjórnarflokkarnir höfðu komið sér saman um í stórum dráttum í september í sumar, en nú verður að endurskoða og samræma breyttum aðstæðum og viðhorfum eins og fjmrh. hefur nú þegar gert grein fyrir og fer ég ekki nánar út í það. Markmið stjórnarflokkanna er að erlendar skuldir verði ekki hærri en 61% af þjóðarframleiðslu fyrir árið 1985. Verður því að fara sparlega með allt ráðstöfunarfé þjóðarinnar og nýta allar hugsanlegar leiðir sem mögulegar eru til að auka framleiðslu og framleiðni og koma á nýsköpun í atvinnulífinu. Gert er ráð fyrir að leggja 500 millj. a.m.k. til þessa þáttar.

Gallinn er bara sá að lögbundinn rekstur ríkisins tekur stöðugt meira til sín af því fjármagni sem til ráðstöfunar er, svo að draga verður úr fjármagni til uppbyggingar margra bráðnauðsynlegra framkvæmda að þessu sinni. Fram kemur að í frv. er lögð áhersla á að þó að dregið sé úr umsvifum er þess þó gætt svo sem auðið er að skerða ekki mikilsverða félagslega þjónustu. Jafnframt er leitast við svo sem kostur er að framfylgja þeirri áætlun sem gerð hefur verið um lánveitingar til húsbyggjenda og þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Sama má segja um vegaframkvæmdir. Reynt er að skerða sem minnst þá áætlun sem gerð var 1983 um framkvæmdir í vegamálum. Eru líkur til að framkvæmdir dragist ekki mikið saman þó að fjármagn hafi nokkuð minnkað þar sem aukin hagkvæmni með útboðum á stærri verkefnum hefur orðið til þess að hægt hefur verið að fá framkvæmdir í vegamálum víða um land unnar fyrir 40–50% minni fjárhæðir en áætlunin gerði ráð fyrir. Sama er ekki hægt að segja um framkvæmdir í öðrum samgöngumálum, svo sem flugvalla- og hafnamálum, sem eru í mjög mikilli þröng. Verði eitthvert svigrúm til lagfæringa á einstökum þáttum framkvæmda eru þessir liðir ofarlega á blaði.

Einnig eru fyrirsjáanlegir miklir erfiðleikar í að láta þær 100 millj., sem ætlaðar eru til grunnskólanna, ná til þeirra mörgu framkvæmda og stóru sem þar er unnið að. Auk þess hefur nýjum framkvæmdum ekki verið hleypt af stað á þessu ári. Hafa því skapast miklir erfiðleikar þar sem börnum hefur fjölgað og í raun er ekki hægt að stöðva þessar framkvæmdir annað árið í röð án þess að af hljótist vandræði á nokkrum stöðum í landinu.

Ég vil svo að lokum minna á þörfina fyrir lagfæringar á ýmsum smærri liðum í frv. sem erfitt er að afgreiða án þess að þeir séu samræmdir þeirri efnahagsþróun sem frv. gerir ráð fyrir ef tök eru á. Eins og oft áður er reynt að vinna svo að fjárlagagerðinni að hún sé sem raunhæfust og gefi sem gleggsta mynd af umfangi og starfsemi ríkisins ásamt því að vera sem öflugast hagstjórnartæki. Eina leiðin til að ráða við erfitt efnahagsástand er að viðurkenna staðreyndir í stað þess að vera með fullyrðingar gegn sérhverri viðleitni sem stjórnvöld sýna til aðhalds. Hin neikvæðu vinnubrögð stjórnarandstöðunnar nú eru aðeins til þess að veikja stöðu lands og þjóðar við erfiðar aðstæður. Þau einkennast af aðfinnslum og fullyrðingum sem ekki standast.

Í baráttunni við verðbólguna og viðskiptahallann verður að hafa taumhald á útgjöldum ríkisins svo sem framast er unnt. Nauðsynlegt er líka að fjárlagagerðin sé sem raunhæfust svo að ekki þurfi að víkja frá settum markmiðum. Með þessu frv. er stefnt að því að ná tökum á efnahagslífi landsmanna og fylgja eftir þeim árangri sem náðst hefur. Það er mikilvægur liður í því að ná því marki sem að er stefnt og verður að skoðast í ljósi þess mikla og sérstaka vanda sem nú er við að eiga í efnahagsmálum þjóðarinnar.