28.11.1984
Efri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég hef skrifað undir nál. þar sem lagt er til að þetta frv. verði samþ., en ég skrifaði undir það með fyrirvara. Ég viðurkenni þau rök sem hv. frsm. flutti um að nauðsynlegt væri að breyta fiskverði vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu, þ.e. bæði vegna samninga sem gerðir hafa verið við launafólk og ekki síður og jafnvel frekar vegna þeirrar efnahagsþróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum, þ.e. frá því að síðasta fiskverð var ákveðið. Byggist minn fyrirvari að hluta á því að ég tel að sá þáttur sé ekki síðri en sá sem hér er aðallega undirstrikaður í athugasemdum með frv. í sambandi við þá launasamninga sem gerðir hafa verið. Einnig tel ég að sá tími sem fiskverðið skuli gilda sé of langur. Ég tel að allar ástæður í þjóðfélaginu séu þannig. Rekstrarafkoma útgerðar er þannig og það eru litlar líkur fyrir því að fiskverði verði breytt á þann máta nú á næstu dögum að standi undir útgerðarkostnaði og undir launum á komandi vertíð eða þegar fram líður á vertíðina. Minn fyrirvari er því fyrst og fremst gerður vegna þess að ég lít svo á að það hefði átt að vera styttra tímabil og í öðru lagi að þessi breyting sé til komin af fleiri orsökum en þeim að gerðir hafa verið nýir kjarasamningar í landinu.

Ég viðurkenni að nauðsynlegt sé að gera þetta frv. sem fyrst að lögum og mun standa að því hér í deildinni í dag ef virðulegur forseti getur komið því þannig fyrir að málið verði afgreitt héðan úr deildinni með afbrigðum. Greinilegt er að nauðsynlegt er fyrir aðila að ganga út frá ákveðnu fiskverði strax um næstu helgi þannig að uppgjör liðins mánaðar geti átt sér stað á fyrstu dögum næsta mánaðar.