28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir 2. minni hluta iðnn. sem hefur skilað áliti sínu á þskj. 196 eftir að iðnn. hv. Nd. hefur haft þetta mál til athugunar frá því að 1. umr. málsins fór hér fram í síðustu viku s.l. miðvikudag. Nefndin hefur þannig haft tæpa viku til starfa til að fara yfir þetta viðamikla mál sem hér liggur fyrir. Það verður að segjast að það er naumur tími miðað við umfang málsins og þau fjölmörgu álitaefni sem fyrir liggja og tengjast því frv. sem hér er til umr. og samningum sem því fylgja. Iðnn. reyndi þó að nýta þennan knappa tíma sem fyrir lá til þess að átta sig á ýmsum þeim þáttum málsins sem óljósir voru eftir meðferð Ed. á málinu og þau álit sem fram höfðu komið frá iðnn. Ed. Þau álitaefni sem þarna var um að ræða tengdust áframhaldandi öllum meginþáttum málsins, málsmeðferð, skattaþætti málsins, raforkuþætti málsins og hugmyndum um stækkun álversins í Straumsvík. Nefndin fékk að minni beiðni sérstaklega ýmsa aðila til viðtals og fékk álitsgerðir frá sérfræðingum, t.d. frá Landsvirkjun.

Þrátt fyrir þessa umr. og vinnu nefndarinnar, sem fram fór á fjórum nefndarfundum og milli funda, þá vantar enn verulega á það að lýst hafi verið inn í þetta mál sem skyldi. Ég hefði talið að iðnn. og þeir sem í henni sitja hefðu þurft mun rýmri tíma til sinna starfa og til að undirbúa sínar álitsgerðir í ljósi þess hve stórt og viðamikið þetta mál er og afgreiðsla þess hér á hv. Alþingi afdrifarík. En það var mjög fast eftir því leitað af hálfu hæstv. ríkisstj., hæstv. iðnrh. og talsmanna hans í nefndinni að frv. yrði afgreitt út úr nefnd á þeim tíma sem það nú er komið hér til hv. Nd. til 2. umr. Ég hef leitast við að taka tillit til þeirra óska, sem þarna komu fram um þetta efni, vegna þess að mér er óljúft að mál líti út með þeim hætti, eins og við vitum að reynt er að túlka það ef ekki er farið að vilja ríkisstj. nokkurn veginn hverju sinni við meðferð þess, að verið sé að tefja það að ástæðulausu. Og kannske ekki síst í ljósi þess að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. leggja málið hér fyrir þingið með þeim dæmalausa hætti, að þm. eru í því ljósi að á þá eru settar nokkurs konar dagsektir í sambandi við afgreiðslu þessa máls, svipað og tíðkað er í verksamningum við aðila þar sem sett eru tímamörk og farið er að reikna til baka hagnað verktakans eða setja á hann sérstakar sektir. Hv. þdm. er auðvitað kunnugt um hvað hér er við átt. Það eru þær 400 þús. kr. á dag sem hæstv. ráðh. og baklið hans telur og túlkar að sé hagnaður Landsvirkjunar af endurskoðuðum rafmagnssamningi.

Ég verð að segja það að frágangur þessa máls af hálfu samninganefndar ríkisins og ríkisstj. gagnvart Alusuisse að þessu leyti er einstakur. Hann er alveg einstakur. Þar við bætist svo að þegar hæstv. ráðh. leggur málið fyrir þingið tekur hann sérstaklega á þessu og vekur á þessu alveg sérstaka athygli til þess að sjálfsögðu að nota það sem þrýsting á þingið við afgreiðslu málsins.

Önnur atriði, sem tengjast meðferð málsins í hv. iðnn. þessarar deildar, snúa að upplýsingaöflun. Ég lagði fram um það ósk á fyrsta fundi nefndarinnar eftir að málinu var vísað til hennar að hv. iðnn. fengi í sínar hendur fundargerðir samninganefndar ríkisstj. við Alusuisse ásamt samþykktum minnisblöðum, sem þeim fundargerðum tengjast, á starfstíma nefndarinnar frá 14. júlí hygg ég að hún var skipuð 1983, þar til hún lauk störfum. Ég ítrekaði þessa beiðni á öllum nefndarfundum og síðast við hæstv. iðnrh., sem kom fyrir iðnn. í gær að minni beiðni, en niðurstaðan varð sú að þingnefndinni var neitað um þessi gögn. Henni var neitað um að fá gögn opinberrar stjórnskipaðrar nefndar sem á í samningum, viðamiklum og vandasömum samningum við erlendan aðila, stjórnskipaðrar nefndar þar sem stjórnarandstaðan í þinginu hefur ekki komið með neinum hætti að máli og verið haldið skipulega frá öllum upplýsingum um þetta mál á öllum undirbúningstíma þess. Það varpar nokkuð skýru ljósi á þetta mál, sem ég á eftir að rifja hér upp við þessa umr. í einstökum þáttum, að sú nefnd þingsins, sem um það fjallar og fær það til meðferðar, fær ekki aðstöðu til þess að átta sig á því með hvaða hætti samninganefnd ríkisins hefur haldið á þessu máli og hvernig það hefur þróast á einstökum stigum í viðræðum við gagnaðila.

Ég hlýt að geta þess sérstaklega, sem fram kom á fundi iðnn. í gær í tengslum við þetta atriði, að hæstv. iðnrh. flutti þá skýringu á fundi nefndarinnar, þegar hann hafnaði beiðni um það að þessi gögn kæmu fyrir, að þau væru nánast ekki fyrirliggjandi. Hann hafði snúið sér til formanns samninganefndarinnar, dr. Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra og stjórnarformanns Landsvirkjunar með meiru og fengið þær upplýsingar hjá formanni samninganefndarinnar, að fundargerðir væru nú bara alls ekki tilbúnar til framlags, það mundi taka mjög langan tíma að ganga frá þeim og samræma þær, það mundi taka mjög langan tíma, ótiltekinn af hálfu ráðh. Auk þess væri það álit lögfræðilegra ráðunauta að það væri nú ekkert gott, það væri ekki skynsamlegt, ég vil ekki staðhæfa hér beint orðalag af hálfu ráðh. um þetta efni, ég hef það ekki hér, en það væri ekki skynsamlegt að leyfa stjórnarandstöðunni á þessu stigi að gaumgæfa slík gögn, það gæti haft truflandi áhrif á gagnaðila málsins.

Það er nefnilega viðurkennt af talsmönnum stjórnarmeirihlutans í iðnn., eins og fram hefur komið við umr., að vissulega eru mjög stórir þættir samninga við Alusuisse ófrágengnir. En er ekki af þeim sökum meiri ástæða til þess fyrir Íslendinga og Alþingi Íslendinga að fara ofan í það hvernig sá samningur er tilkominn sem hér liggur fyrir í frv.-formi til þess að læra af vinnubrögðunum upp á framhaldið? En okkur er þetta meinað í þeirri nefnd þingsins, sem ætlað er að lýsa inn í þetta mál, og það með þessum dæmalausu rökum og fyrirslætti, skyldi maður halda, fyrirslætti, að fundargerðirnar séu bara alls ekki tilbúnar.

Ef málið liggur þannig fyrir og hefur þróast þannig að hæstv. ráðh. iðnaðarmála á Íslandi, ábyrgðarmaður þessa máls, hefur ekki fengið fundargerðir frá fundum sinnar samninganefndar stig af stigi eftir hvern fund, sem haldnir voru mánaðarlega eða annan hvern mánuð á því tímabili sem liggur að baki, í tíð þessarar ríkisstj., þá er nú kannske ekki von á góðu um samningsniðurstöðu. Og þá er kannske eðlilegt að hæstv. ráðh. verði fótaskortur öðru hvoru þegar hann er að svara til um þetta mál hér í þinginu, fsp. okkar þm. sem höfum verið að reyna að draga fram upplýsingar um þróun og gang málsins með því að beina fsp. til hæstv. ráðh. um einstaka þætti þess og gang þess.

Ég gat um það við 1. umr. þessa máls hér í Nd. að hægt væri að finna þess mörg dæmi í þskj. á þessum tíma hvernig ráðh. hefur komið hér með staðhæfingar og yfirlýsingar, sem síðan hafa ekki staðist af hans hálfu, m.a. um það að hann muni upplýsa þetta mál út í hörgul, hvert smáatriði málsins, áður en það komi til afgreiðslu hér í þinginu og engu skyldi haldið leyndu þar að lútandi. Þetta kom efnislega fram hjá ráðh. í nóv. 1983 þegar bráðabirgðasamningur ríkisstj. var hér til umr. Þetta kom hér fram efnislega með ekki ólíkum hætti í maímánuði, 10. maí s.l. Og síðan kemur sú hrösun ráðh., sem honum varð á hér við umr. utan dagskrár 25. okt. s.l., þegar hann féll í þá gryfju að gefa Alþingi rangar upplýsingar vegna þess, sem ég vil telja, að hann var ekki upplýstur um málið. Hann áttaði sig annaðhvort ekki á fsp., sem hann hafði fengið sólarhring áður skriflega, eða, sem vel getur verið miðað við þessi dæmalausu vinnubrögð, að hann hafi bara ekki áttað sig á stórum þáttum málsins, sem búið var að ganga frá af hans samninganefnd, eins og um stórfelldar breytingar á skattareglum aðalsamnings.

Ætli þessi vinnubrögð, sem við höfum hér fyrir okkur, að fundargerðir funda viðræðunefndar íslensku ríkisstj. í þessu máli séu ófrágengnar, ætli þau stafi ekki af því að nefndin er svo fáliðuð og illa búið að henni? Það er stundum reynt að spara í nefndarstörfum ríkisins sem betur fer og réttmætt er. En við eftirgrennslan kemur í ljós að þannig er þessu ekki háttað um þessa nefnd. Hún hefur sérstakan ráðinn ritara og ég býst við að hann fái umbun síns erfiðis. Mér kæmi það ekkert á óvart þó að hann væri sæmilega haldinn. Hann heitir Garðar Ingvarsson og er deildarstjóri niðri í Seðlabankanum hjá Jóhannesi Nordal, alveg honum til hægri handar. En hann virðist ekki hafa komið því í verk fyrir nefndina að ganga frá gögnum og fundargerðum þannig að frambærilegt væri, ekki einu sinni fyrir hæstv. ráðh., því að hæstv. ráðh. greindi okkur frá því að hann hefði ekki þessar fundargerðir. Hann hefði svona einhverja minnispunkta, mest heima hjá sér, um þetta efni. En að í rn. iðnaðarmála lægju þessi mál skilmerkilega fyrir á máli, eins og það er kallað, það er víst ekki, því að það er langur tími þangað til sér í land með að búið verði að ganga frá þessum fundargerðum. Og þetta er mál sem hér á að fara að leita samþykkis Alþingis á.

Það gerðist síðan á fundi iðnn. í gær í þessu máli að stjórnarliðið í nefndinni skipti sér upp, gat ekki orðið samferða við afgreiðslu þessa stóra máls með sama hætti og við meðferð þess í Ed., þar sem fram kom meiri hl. stjórnarliðsmanna í iðnn. Ed., sem mælti með samþykkt málsins nánast athugasemdalaust, nema hvað dregið var um það gylltur rammi, geislabaugur í stuttu nál. stjórnarmeirihluta í Ed. En hvað gerist svo hér í nefnd þessarar deildar? Þá nær stjórnarliðið ekki saman um nál. og Framsfl. kýs að ganga hér fram með minnihlutaálit vegna þess að það er kominn í hann beygur. Það er kominn beygur í þinglið Framsfl. út af þessu máli við meðferð þess hér í þinginu. Eftir því sem lengur er lýst inn í þetta mál hér af Alþingi, þá fer meiri hrollur um þm. Framsfl. að ganga undir það jarðarmen sem íhaldið hefur reist því og ætlar að ganga hér undir.

Það er engin tilviljun að þessi hefur orðið þróun mála. Og ég veit ekki hvað hefði getað gerst ef ekki hefðu verið settar hér dagsektir á þm. framsóknar sem aðra þm. hér og þingdeildir hefðu getað tekið sér eðlilegan tíma til að lýsa inn í myrkvið þessa máls. Það hefði kannske einstaka þm. í þingliði Framsfl. opnað augun enn frekar því að lengi skal manninn reyna. En það er nú kannske bjartsýni að gera því skóna. Ég ætla ekki á þessu stigi máls að gera einstök atriði úr nál. 1. minni hl. hér að umræðuefni. Ég mun gera það síðar við umr. því að til þess er rík ástæða að lýsa inn í vesaldóminn, sem andar þar úr hverri málsgrein, og framsóknarmennskuna, framsóknarblæinn sem skín þar út úr hverri setningu. Ég bendi á það eitt nú að þeir bera fyrir sig hinn slæma aðalsamning 1966 sem skýringu á því að ekki hafi verið hægt að ná fram breytingum til bóta á því samkomulagi sem hér liggur fyrir og því verði nánast að ganga að því eins og það er og það þrátt fyrir það að þeir standa hér með Sjálfstfl. að breytingum á sama aðalsamningi í ýmsum liðum og greinum, en því miður til hins verra í margri grein. Þetta er aldeilis furðuleg röksemdafærsla sem kemur hér fram hjá 1. minni hl. þessa máls.

Ég hef sem einn af fjórum minni hl. iðnn., því að enginn meiri hl. er þar til á nál., lagt fram ýmis þau sjónarmið, sem ég taldi rétt að fram kæmu af minni hálfu við 2. umr. þessa máls hér í Nd. á þskj. 196. Ætla ég að víkja að einstökum þáttum, sem þar koma fram, en hlýt að bæta við nokkrum til upplýsingar m.a. fyrir hv. þd. því að hvorki voru tök né ástæða til þess að setja inn í nál. þau fjölmörgu atriði er tengjast þessu máli, og hefði ég þó með rýmri tíma séð til þess að fram kæmu í prentuðu formi til þd. mikilvæg málsgögn sem ég hef undir höndum og sumpart voru komin fram í iðnn. Ed. og tengjast þessu máli.

Ég vil hér í upphafi þess að gera grein fyrir áliti mínu rifja það upp, því að til þess er rík ástæða, að um þetta, um stöðu samninga við Alusuisse vegna álversins í Straumsvík, var hljótt hér á Alþingi Íslendinga lengst af, fram undir árslok 1980 þegar þetta mál var tekið upp af Alþb. með eftirminnilegum hætti í ríkisstj. og hér á Alþingi. Það voru ekki aðrir en talsmenn Alþb. sem ekki þreyttust á því á liðnum árum að minna á þá afarkosti sem okkur voru búnir með þeim samningi sem Alþingi samþykkti 1966 og sem endurskoðaður var 1975; ekki síst varðandi það atriði sem sneri að sölu raforkuverðs á gjafvirði til álversins.

Þann 9. des. 1980 samþykkti þáv. ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens till. frá mér sem iðnrh. um að teknar yrðu upp samningaviðræður um endurskoðun gildandi samninga milli Alusuisse og Íslands, ekki síst með hækkun raforkuverðsins í huga, og jafnframt að óska eftir því við Alusuisse að fyrirtækið gæfi skýringar á þeim mikla verðmismun sem tengist sölu á súráli frá Ástralíu til Íslands og hlaut heitið „hækkun í hafi“.

Með þeim víðtæku athugunum, sem þar lágu að baki og þá höfðu farið fram á vegum iðnrn. og aukið var enn við til muna á árunum 1981–1983, var hnekkt þeirri blekkingu, sem Alusuisse hafði sett á svið með bókhaldskúnstum, að dótturfyrirtækið ÍSAL berðist í bökkum og álverið gæti ekki tekið á sig hærra raforkuverð eða auknar skattgreiðslur til íslenska ríkisins.

Á ýmsu hefur gengið um samningaumleitanir og viðræður við Alusuisse undanfarin nærfellt fjögur ár, en nú liggur fyrir Alþingi eftirtekjan af samningaviðræðum stjórnvalda við auðhringinn á þessu tímabili. Sjálfsagt er að fagna breytingum sem nást fram til umtalsverðra bóta á viðskiptum við hinn erlenda aðila. Þær leiðréttingar á raforkuverði sem fram koma skv. fyrirliggjandi frv. eru vissulega ávinningur sem eins og annað í þessu máli hefur náðst fram og sótt efnisleg rök í málatilbúnaði fyrri ríkisstj.

Þegar hins vegar er litið til fyrirliggjandi frv. um lagagildi þriðja viðaukasamnings um álbræðsluna í Straumsvík í heild verður að telja að miðað við sterka málefnastöðu Íslands megin sé eftirtekjan ótrúlega rýr í þeim samningi sem hér er leitað eftir að Alþingi staðfesti.

Ákvæði frv. og samninganna sem því fylgja eru í heild sinni óviðunandi og mörg ákvæði stórkostlega varhugaverð fyrir íslenska hagsmuni. Ég er því andvígur frv. og þingflokkur Alþb. og við leggjum til að það verði fellt.

Afleiðingarnar af viðræðum þeirrar samninganefndar sem ríkisstj. skipaði, án minnstu tengsla við stjórnarandstöðuna, í júní 1983 liggja hér fyrir, staðfestar af iðnrh. og ríkisstj. í heild. Þær birtast m.a. í eftirfarandi staðreyndum sem frv. þetta hefur að geyma:

Samið er til 20 ára um raforkuverð til álversins, sem er langt undir framleiðslukostnaði og án verðtrygginga, þannig að verðið rýrnar jafnt og þétt að raungildi á samningstímanum.

Endurskoðunarákvæði rafmagnssamningsins eru haldlítil og að líkindum verri en engin eins og um hnútana er búið.

Breytt er mörgum þýðingarmiklum skattaákvæðum gildandi samninga og öllum til hagsbóta fyrir Alusuisse á sama tíma og viðræður eru á byrjunarstigi um breytt skattkerfi fyrir ÍSAL.

Fallist er á kröfu Alusuisse um að mega framselja eigin dótturfélögum hlutafé í ÍSAL eða framselja til óskylds þriðja aðila 50% hlutafjárins, en það er auðhringnum mikið hagsmunaatriði.

Ríkisstj. veitir Alusuisse ótímabundið loforð um forgang að raforku til að stækka álverið um helming, ef saman gengur um raforkuverð og aðra skilmála, sem ekkert liggur fyrir um nú hverjir verða.

Fallið er frá kröfum íslenska ríkisins á hendur Alusuisse um viðbótarskatta vegna skattsvika ÍSALs, sem að mati alþjóðlegra endurskoðenda nema a.m.k. tæpum 60 millj. Bandaríkjadala eða um 2300 millj. ísl. kr., á árunum 1976–983, en skoðun máls varðandi þessi atriði tók aðeins til vissra þátta á fyrri hluta þessa tímabils 1976–1979.

Alusuisse er veitt fortakslaus syndakvittun gegn greiðslu 3 millj. Bandaríkjadala eða um 120 millj. ísl. kr., en það er í reynd viðurkenning auðhringsins á skattsvikum fyrri ára og tapaðri stöðu fyrir dómnefndum vegna „hækkunar í hafi“ og annarra vanefnda á samningi.

Þrátt fyrir ákvæði bráðabirgðasamnings aðila frá 23. sept. 1983 um að „ná endanlegu samkomulagi ekki síðar en 1. apríl 1984“ hefur Alusuisse tekist að undanskilja mikilvæga þætti, eins og breytt skattkerfi og stækkun álversins, og styrkja þannig enn frekar stöðu sína að fenginni sakaruppgjöf.

Þau atriði sem íslensk stjórnvöld geta talið til einhverra hagsbóta, þ.e. leiðrétting á raforkuverði og óbein viðurkenning á skattsvikum, hafa einvörðungu náðst fram vegna þeirrar sterku stöðu sem byggð var upp í tíð fyrri ríkisstj. en eru afar léttvæg miðað við ókost þessa frv.

Það segir sína sögu að Alþfl., sem stóð á sínum tíma að álsamningunum og varði þá lengst af, þar á meðal hv. núv. nýkjörinn formaður hans, sem lýsti því yfir í byrjun des. 1980 að álverið væri leiðarljós í atvinnulífi hérlendis, það væri nánast ástæðulaust að hreyfa nokkuð við raforkuverði því að það væri mjög nálægt sanngirnismörkum, þrátt fyrir þessa skoðun á fyrri árum hefur Alþfl. nú tekið eindregna afstöðu gegn þessu frv. í Ed. Alþingis, auk eindreginnar og einbeittrar afstöðu af hálfu fleiri þingflokka, svo sem Samtaka um kvennalista.

Öll meðferð málsins af hálfu núv. ríkisstj. er ámælisverð og Alþingi er nú stillt upp fyrir gerðum hlut með þeim þrýstingi sem ég hef getið um hér fyrr í máli mínu og beitt er til að þvinga málið hér í gegn án þess að ráðrúm sé til eðlilegrar þinglegrar meðferðar.

Frv. það sem hér er til umr. er niðurstaða af leynimakki ríkisstjórnarflokkanna og samninganefndar þeirra við Alusuisse. Það var ekki aðeins að stjórnarandstaðan væri útilokuð frá öllum samningaviðræðum, heldur fengu fjölmiðlar engar efnislegar upplýsingar neðan á þeim stóð og urðu að byggja á getgátum og brotum sem talsmenn ríkisstj. töldu sér henta að láta kvisast um gang samningaviðræðna.

Í tíð fyrri ríkisstj. áttu þingflokkar aðild að álviðræðunefnd sem fékk allar upplýsingar sem vörðuðu undirbúning og gang samningaviðræðna við Alusuisse. Þessi nefnd hélt 54 bókaða fundi á því 11/2 ári sem hún starfaði, eða þar til fulltrúi Framsfl., Guðmundur G. Þórarinsson, sagði sig úr nefndinni 7. des. 1982. Ég hef minnt á það við 1. umr. þessa máls og utandagskrárumr. 25. okt. s.l. að þingflokkur Sjálfstfl. sá til þess ástæðu, þrátt fyrir tilvist álviðræðunefndar og fulltrúa sem hann átti í henni, að mótmæla því sérstaklega bréflega 5. maí 1982 að ekki væru næg samráð höfð við Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu á þeim tíma. Orðaði hann það svo í bréfi sínu þá, með leyfi forseta:

„Forsenda þess að hægt sé að ná þjóðarsamstöðu í slíku máli er fullt samráð og samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um alla stefnumótun og um undirbúning og þátttöku í öllum viðræðufundum.“

Já, skjótt skipast veður í lofti, er hægt að segja um þessa álitsgerð og það sem síðar varð uppi á teningnum eftir að Sjálfstfl. fékk lyklavöldin í iðnrn. í maímánuði 1983, einu ári eftir að hv. núv. formaður þingflokksins afhenti mér persónulega þetta umgetna bréf hér í vistarverum Alþingis.

Það er hins vegar vert að minna á það hér enn að það fór fljótlega að bera á því eftir að álviðræðunefndin var skipuð að Alusuisse leitaðist markvisst við að sundra henni, þessum samstöðuvettvangi þingsins og stjórnvalda þáverandi, m.a. í febr. 1982 þegar auðhringurinn aflýsti fyrirvaralaust og einhliða viðræðufundi við nefndina, en sú viðleitni Alusuisse hlaut þá þegar óvæntan stuðning frá fulltrúa Framsfl. í nefndinni.

Haustið 1982 fluttu þm. Sjálfstfl. tillögur hér á Alþingi um nýja viðræðunefnd við Alusuisse til að „Alþingi taki í taumana“, eins og það var orðað, „og veiti forustu í þeim viðræðum sem nú hafa farið út um þúfur við Alusuisse“. Skömmu fyrir þinglausnir í mars 1983 sameinuðust fulltrúar þriggja flokka í atvmn. Sþ. um að afgreiða till. Sjálfstfl. um viðræðunefnd við Alusuisse út úr nefndinni og var sá tillöguflutningur túlkaður af flm. sem vantraust á undirritaðan sem iðnrh. Um leið var tekið undir ýmsa þætti af óskalista auðhringsins, m.a. um stækkun álversins og nýjan hluthafa í ÍSAL.

Með flutningi þessarar þáltill. hér á Alþingi hafði skapast samstaða Sjálfstfl. og Framsfl. um álmálið fyrir alþingiskosningarnar í apríl 1983 á grundvelli sem Alusuisse hafði rekið áróður fyrir til að skapa sér auðveldari samningsaðstöðu. Á talsmönnum þessara flokka mátti helst skilja að þreföldun raforkuverðsins lægi á borðinu strax og skipt hefði verið um forustu í iðnrn.

Slíkir samningar reyndust hins vegar torsóttari en nýir valdhafar höfðu haldið fram og Alusuisse hagnýtti sér stöðuna, sem upp var komin, til hins ýtrasta með þeim árangri sem hér liggur fyrir í fyrirliggjandi frv.

Í stað skjótrar heildarlausnar á málinu varð ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að láta sér nægja bráðabirgðasamning í sept. 1983 þar sem Alusuisse réð mestu um rammann sem dreginn var um framhaldið. Sverrir Hermannsson, hæstv. iðnrh., lýsti þessum bráðabirgðasamningi hins vegar sem „ótrúlegu afreki“.

Með þessum bráðabirgðasamningi náði Alusuisse m.a. fram eftirtöldu:

Að kippa skattadeilumálunum út úr gerðardómsmeðferð og koma þeim í flókið dómnefndarkerfi.

Að fá samþykkta viðmiðun um frambúðarraforkuverð þar sem tekið skyldi mið af samkeppnisstöðu ÍSALs og orkukostnaði áliðnaðar í Evrópu og Ameríku, en hvergi var minnst á framleiðslukostnað raforku á Íslandi.

Að fá yfirlýsingu um gagnkvæman áhuga um stækkun álversins þannig að afkastageta þess yrði tvöfölduð í tveimur áföngum.

Að fá samþykki ríkisstj. fyrir að Alusuisse megi framselja hlutabréf sín í ÍSAL til eins eða fleiri dótturfélaga og allt að 50% af hlutafjáreign til óskylds þriðja aðila.

Þessi bráðabirgðasamningur, sem ekki var lagður fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar heldur aðeins í formi skýrslu frá hæstv. iðnrh. til kynningar, gerði ráð fyrir „endanlegu samkomulagi eigi síðar en 1. apríl 1984“, einnig um endurskoðað skattkerfi og fleiri ákvæði.

Hvergi var í þessum bráðabirgðasamningi getið um tengsl milli skattadeilumálanna og endurskoðunar á frambúðarsamningum, enda virðist svo sem ríkisstj. hafi talið sér trú um að sú leið, sem Alusuisse gerði till. um og á var fallist, með sérfræðinganefndum í stað samningsbundins gerðardóms, yrði skjótvirk og tæki aðeins fáa mánuði.

Markmið Alusuisse voru frá upphafi allt önnur, m.a. þau:

Að knýja fram sakaruppgjöf í skattdeilunni og forða þannig auðhringnum frá áfellisdómi vegna „hækkunar í hafi“.

Að kljúfa málið upp í marga þætti og tefla af hörku um hvern þeirra.

Að tefja samninga enn frekar og hagnýta sér stöðuna gagnvart svokölluðum „annars konar heiðursmönnum“, eins og dr. Müller kallaði hina nýja valdhafa á Íslandi, sem nú sátu í ríkisstj. og höfðu komið sér í erfiða samningsstöðu gagnvart auðhringnum.

Þessum markmiðum sínum hefur auðhringurinn nú náð fram með auðveldari hætti en nokkurn gat órað fyrir. Alþingi stendur frammi fyrir bindandi samningi, sem það getur aðeins samþykkt eða synjað eins og ríkisstj. leggur málið hér fyrir, og settar eru eins konar dagsektir á alþm. við meðferð málsins hér í þinginu. Alusuisse hefur fengið sig hvítþvegið af öllum ávirðingum í samskiptum við Íslendinga til þessa dags án þess að heildstætt samkomulag liggi fyrir um efni bráðabirgðasamningsins frá haustinu 1983, m.a. er eftir að ganga frá stórum þætti eins og nýju skattkerfi og ósamið er um skilmála varðandi stækkun álversins í Straumsvík.

Sú staðreynd, að Alusuisse hefur með svo afgerandi hætti tekist að skipta upp samningamálum gagnvart ríkisstj., er alvarlegasta og augljósasta brotalömin á samningsstöðu Íslands. Þegar svo í ljós kemur innihald þess hluta pakkans, sem hér er afhjúpaður með þessu frv., blasir við árangur auðhringsins af viðleitni sinni til að deila og drottna í íslensku efnahags- og stjórnmálalíf á undanförnum árum.

Þegar ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens samþykkti kröfu um endurskoðun álsamninganna í des. 1980 hafði hún í höndum sannanir á hendur Alusuisse um kerfisbundið yfirverð á súráli sem auðhringurinn „hækkaði í hafi“ á leiðinni frá Gove í Ástralíu til Straumsvíkur. Mismunurinn á fob-verði súrálsfarmanna út úr Ástralíu og inn til Íslands nam hvorki meira né minna en 47,5 millj. Bandaríkjadala eða nær 2000 millj. ísl. kr. á árunum 1975–1980.

Í framhaldi af þessu voru gerðar sérstakar úttektir á yfirverði á aðföngum til álversins, svo sem súráli og rafskautum, fyrir tímabilið 1975–1981 sem reyndist nema að mati endurskoðendanna Coopers & Lybrand 31,4 millj. Bandaríkjadala. Þetta var varfærið mat og ýmsir sérfræðingar, sem iðnrn. leitaði til, reiddu fram hærri tölur.

Á grundvelli þessarar endurskoðunar endurákvarðaði fjmrn. framleiðslugjald ÍSALs þann 10. febr. 1983 og skuldfærði fyrirtækið alls um 6,6 millj. dollara vegna áranna 1976–1980. Með viðurlögum nam þessi krafa á ÍSAL um það bil 10,4 millj. Bandaríkjadollara vorið 1983 sem á núverandi gengi mundi svara til á fimmta hundrað milljóna ísl. kr. Þá ákvað Alusuisse að nota sér ákvæði aðalsamnings frá 1966 og vísa málinu í alþjóð-' legan gerðardóm eftir að send hafði verið innheimtukrafa á fyrirtækið og það átti ekki annarra kosta völ en að borga eða hagnýta sér ákvæði samninga um gerðardóm. Iðnrn. féllst á þá málsmeðferð fyrir sitt leyti með bréfi 9. maí 1983 og var málsundirbúningur hafinn vegna gerðardómsmálsins áður en ríkisstjórnarskiptin urðu 26. maí 1983.

Því er við að bæta að við endurskoðun Coopers & Lybrands á ársreikningum ÍSALs fyrir 1982 og 1983 kom í ljós að fyrirtækið var enn með yfirverð á aðföngum, vanreiknað verð á seldu áli og of háar afskriftir. Heildarleiðrétting vegna ársreiknings 1982 nam samtals um 13,1 millj. skv. upplýsingum núv. hæstv. iðnrh. og vegna 1983 9,6 millj. Bandaríkjadala. Þótt leiðréttingar þessar leiddu ekki til hækkaðra skatta þessi ár vegna taprekstrar ÍSALs sem nam t.d. 11,5 millj. dollara skv. ársreikningum fyrir árið 1981, er ljóst að bókfærð skuldasöfnun og uppsafnaðar vaxtagreiðslur geta haft áhrif á afkomu ÍSALs og þar með á skattgreiðslur ÍSALs á komandi árum. Bókfærð skuldasöfnun ÍSALs ásamt lágu hlutfalli eigin fjármagns Alusuisse í þessu fyrirtæki sínu (17,6% árið 1981) hefur einmitt leitt til hárra vaxtagreiðslna á liðnum árum, langt umfram það sem tíðkanlegt er almennt í hliðstæðum álverum, og þannig hefur Alusuisse m.a. reynt að draga úr skattgreiðslum fyrirtækisins.

Þegar litið er á leiðréttingar Coopers & Lybrands á bókhaldi ÍSALs öll umrædd ár, 1975–1983, kemur í ljós að þær nema samtals 58,5 millj. Bandaríkjadala, eða um 2300 millj. ísl. kr. skv. núverandi gengi. Og ég tek það fram, vegna þess að það er rík ástæða að alþm. átti sig á því, að hér er ekki aðeins varfærið mat á ferðinni heldur er aðeins um að ræða skoðun á hluta máls á árunum 1975–1979, þ.e. yfirverði á aðföngum en ekki verði á seldu áli, afskriftaþáttum og öðrum þáttum sem koma inn við endurskoðun ársreikninga ef hún er framkvæmd. Það má því segja að þær tölur sem hér eru nefndar séu aðeins toppurinn af ísjaka. Þær sýna aðferðina og það eru talnagildi sem fram eru reidd af aðilum sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.

Þessi endurskoðun og leiðréttingar á bókhaldi álversins í Straumsvík hafa auk skattakröfu íslenska ríkisins leitt í ljós allt aðra og betri afkomu ÍSALs um 10 ára skeið en eigandi fyrirtækisins, Alusuisse, hefur viljað láta koma fram og þó er hægt að fullyrða að mat endurskoðendanna er mjög varfærnislegt, m.a. um yfirverð á aðföngum.

Með þessu hafa íslensk stjórnvöld jafnframt rennt styrkum stoðum undir kröfur sínar um stórhækkaðar greiðslur fyrir raforku frá ÍSAL þó að þau rök hafi ekki verið hagnýtt sem skyldi við fyrirliggjandi breytingar á rafmagnssamningi.

Hin umfangsmikla athugun á fjárreiðum ÍSALs, samningunum við Alusuisse og stöðu áliðnaðar almennt hér á landi, sem iðnrn. beitti sér fyrir á árunum 1979 1983, var lykillinn að því að knýja fram endurskoðun álsamninganna. Niðurstaða þessara athugana og sterk staða fyrir dómnefndum, þangað sem aðilar höfðu vísað skattadeilunum, gat allt fram á síðasta haust skapað viðspyrnu til að ná hagstæðum samningum við Alusuisse ef núv. ríkisstj. hefði haldið rétt á málum.

Veikleikinn í málsmeðferð núv. ríkisstj. var m.a. í því fólginn að þau pólitísku öfl, sem að henni stóðu, höfðu ætíð reynt að gera litið úr skattsvikum og bókhaldsbrellum Alusuisse. Áhrifamiklir innlendir aðilar töluðu tíðum um ofsóknir undirritaðs á hendur auðhringnum, eins og það er kallað, og óréttmætar ásakanir um „sviksamlegt athæfi“ þegar um var að ræða af hálfu iðnrn. á þeim tíma eðlilega hagsmunagæslu fyrir hönd íslenska ríkisins. Það kom þessum öflum á óvart þegar „hækkun í hafi“ lá skjalfest fyrir dómnefndum og Island reyndist hafa afar sterka stöðu í skattdeilunni þrátt fyrir málsmeðferð skv. bráðabirgðasamningi. Við þessar aðstæður, sem lágu fyrir á miðju sumri 1984, lokkaði Alusuisse samninganefnd íslensku ríkisstj. inn á spor „réttarsáttar“ og sakaruppgjafar í skattadeilunni gegn greiðslu 3 millj. Bandaríkjadala og nokkurrar leiðréttingar á raforkuverði til ÍSALs umfram það sem Alusuisse hafði sýnt lit á fram að þeim tíma.

Jafnframt tókst Alusuisse að knýja fram margháttaðar breytingar á gildandi skattreglum, sem allar voru auðhringnum til stórfelldra hagsbóta, á sama tíma og eftir voru skildir samningar um breytt skattkerfi.

Í rafmagnssamningnum tókst Alusuisse að halda leiðréttingu í algeru lágmarki, bæði umsömdu viðmiðunarverði og ekki síður verðtryggingu og endurskoðunarákvæðum.

Þegar litið er yfir fyrirliggjandi frv. með breytingum á aðalsamningi og fylgisamningi og svokallaðri „sáttargjörð“ verður ekki hjá því komist að álykta að heildarsýn og samhæfingu hafi vantað við samningsgerðina af Íslands hálfu. Inn í þetta kemur einnig leyndin og pukrið við samningsgerðina og það pólitíska hugleysi sem einkennt hefur samskipti núverandi ráðamanna íslenskra og Alusuisse um langt skeið.

Það er ekki aðeins að málsmeðferð og upplýsingum væri haldið leyndum fyrir stjórnarandstöðunni fram á síðustu stund, heldur var aðeins örfáum mönnum í stuðningsliði ríkisstj. leyft að fylgjast með gangi viðræðna. Iðnrh. virðist heldur ekki hafa sett sig nema mjög takmarkað inn í málavöxtu á hverjum tíma, ef marka má mótsagnakenndar og sumpart rangar yfirlýsingar hans í fjölmiðlum og á Alþingi. Við þessar aðstæður var þess kannske ekki að vænta að betur tækist til en raun ber vitni. Alusuisse hefur enn einu sinni tekist að hlunnfara Íslendinga í samningum og Alþingi er ætlað að skrifa upp á niðurstöðuna með líkum hætti og eftir endurskoðun samninganna 1975. Staðan er þess vegna að því leyti lakari nú en þá að ólokið er mikilsverðum samningsþáttum og óvissan þannig enn meiri um heildarniðurstöðu.

Ég vil nefna það hér í sambandi við það sem rakið hefur verið um „hækkun í hafi“ og skattadeiluna við Alusuisse að það eru fleiri en Íslendingar sem höfðu áhuga á því máli svo sem eðlilegt var. Það var m.a. tekið fyrir af sérstakri þingnefnd ástralska þingsins á árinu 1981 og sú þingnefnd skilaði sérstöku áliti, sem ég hef undir höndum en verkefni hennar var að fara yfir mál sem tengjast náttúruauðlindum Ástralíu. Skýrsla hennar til ástralska þingsins ber á ensku heitið „The Development of the Bauxit Alumina and Aluminium Industries“, þ.e. þróun bauxits, súráls og áliðnaðar, og er gefin út í Canberra 1981. Þar er fjallað um fjölmarga þætti sem varða áliðnaðinn frá upphafi til lokastigs og þar er vikið að „hækkun í hafi“ með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Annað dæmi“, þeir hafa verið að rekja dæmi um svokallað „transfer pricing“, bókhaldsbrellur fjölþjóðafyrirtækja, „annað dæmi er um tvö dótturfyrirtæki Alusuisse, Swiss Aluminium Australia, sem á 70% í Gove Joint Venture, og ÍSAL sem er álbræðsla á Íslandi. Látið hefur verið að því liggja að verð á súráli frá Gove hafi „hækkað í hafi“ áður en það kom til Íslands og farmgjöld hafi verið handfjölluð í meðferð með það fyrir augum að lækka skattlagðar tekjur bæði í Ástralíu og á Íslandi. Mál þetta er nú í rannsókn hjá skattstofu Ástralíu og íslenskum skattyfirvöldum. Eftir þeim heimildum sem nefndin hefur aðgang að virðist svo sem verðlagning súráls í viðskiptum milli Ástralíu og Íslands hafi farið fram í þeim tilgangi að hækka tekjur móðurfélagsins á kostnað skatta og annarra gjalda, bæði í Ástralíu og á Íslandi.“

Þetta er bein þýðing úr kafla þar sem vikið er að þessu máli í þessari skýrslu áströlsku þingmannanefndarinnar, en hún segir að frekari umsögn um málið ætti að réttu að bíða þar til rannsókn sé lokið.

Ég held að það sé fróðlegt fyrir hv. þd. að átta sig á því að við erum ekki einir í heiminum að þessu leyti og það er þýðingarmikið að íslensk stjórnvöld leiti samstarfs við erlenda aðila, erlend ríki, sem verða fyrir barðinu á brellum fjölþjóðafyrirtækja, til þess að fá bandamenn. Og það var vissulega reynt að gera á þeim tíma sem ég var iðnrh., m.a. með tengslum við áströlsk stjórnvöld á þeim tíma í sambandi við upplýsingu um hækkun í hafi.

Ég vil þá, herra forseti, víkja að helstu atriðum sem varða fjóra meginþætti málsins nánar, þ.e. sáttargerðarsamninginn, skattamálið, rafmagnssamninginn og fyrirheitin um stækkun álversins.

Sáttargerðarsamningurinn svokallaði, sem birtur er á fskj. V með frv. og undirritaður af iðnrh. og forstjórum Alusuisse, er lögfræðileg útfærsla á þeim ásetningi aðila, eins og það heitir, „að binda enda á allan ágreining sín á milli og ná fullum og endanlegum sáttum um allar kröfur er uppi voru hafðar fyrir dómnefndunum, og um allar aðrar kröfur varðandi framleiðslugjald ÍSALs, vegna áranna 1976 til og með 1983, ásamt nokkrum öðrum kröfum... “

Samkvæmt þessum samningi er Alusuisse veitt syndakvittun vegna skattsvika ÍSALs og vantalins hagnaðar að upphæð 58.5 millj. Bandaríkjadala samkvæmt varlegu mati endurskoðenda á umræddu tímabili gegn greiðslu 3 millj. Bandaríkjadala sem komi til lækkunar á skattinneign Alusuisse hjá ríkissjóði. Vísað er til breytinga á aðalsamningi skv. fylgiskjali A og breytinga á aðstoðarsamningi — rekstri samkvæmt fylgiskjali B og tekið fram að hvorki tilvist né efni þessara breytinga „felur í sér“, eins og það heitir orðrétt, „viðurkenningu af hálfu hvors aðila um sig að hann hafi brotið í bága við neitt ákvæði aðalsamningsins eða aðstoðarsamnings —reksturs eða haldið fram neinni rangri túlkun á neinu þeirra ákvæða aðalsamningsins eða aðstoðarsamningsins — reksturs sem breyting tekur til“.

Frá syndakvittuninni er afar vandlega gengið í texta sáttargerðarsamningsins, m.a. með svofelldu orðalagi á bls. 49 í frv.:

Ríkisstj. samþykkir að leysa Alusuisse og ÍSAL, og leysir þau hér með, frá öllum kröfum hverju nafni sem nefnast, að lögum, eðli máls eða í öðru tilliti, þar á meðal öllum kröfum þegar gerðum fyrir dómnefndum, án þess að tæmandi sé talið, sem ríkisstjórnin hefur nokkru sinni átt, á nú, eða getur hér eftir átt eða mundi eiga gegn Alusuisse eða ÍSAL af hvaða atvikum eða orsökum sem er, sem nú eru fyrir hendi eða hafa gerst fram á þann dag, sem greinir hér í upphafi, að undanskildum sérhverjum kröfum sem ríkisstjórnin kann að eiga í tengslum við framleiðslugjaldskyldu ÍSALs fyrir árið 1984“.

Öllu rækilegar gat Alusuisse ekki bundið endana í þessari sáttargjörð og eru þó ýmis atriði ótalin í þessum gjörningi þar sem raunverulega er kveðið fastar að orði. Í 9. lið þessa samnings segir:

„Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans.“

Þrátt fyrir þetta ákvæði var blekið varla þornað af undirskriftum frá 5. nóvember s.l. þegar framkvæmdastjóri ÍSALs, Ragnar S. Halldórsson, bauð starfsmönnum ÍSALs til veislu í tilefni þess að framleitt var milljónasta áltonnið í álverinu í Straumsvík þann 7. nóv. s.l. og hafði m.a. þennan boðskap að flytja í ávarpi samkvæmt endursögn Morgunblaðsins 16. nóv. 1984, með leyfi forseta:

„Svo skemmtilega vill til að einmitt í dag lagði Sverrir Hermannsson iðnrh. samkomulagið fyrir Alþingi. Með því er endir bundinn á þær deilur sem fyrrverandi iðnrh. hóf á ofanverðum vetri 1980. Í fjölmiðlum hefur ranglega verið skýrt frá því að ÍSAL greiði skaðabætur að upphæð 3 millj. dollara. Hið rétta er að skattinneign ÍSALs hjá ríkissjóði verður lækkuð um 3 millj. dollara. sem samsvara vöxtum af inneigninni frá 1975, þegar síðast var samið. Þetta var samþykkt með tilliti til þess mikla kostnaðar sem áframhaldandi málaferli hefðu haft í för með sér og vegna þess, sem skiptir miklu máli, að leyfi hefur fengist til stækkunar, að nánari skilyrðum uppfylltum. Ríkisstj. hefur jafnframt lýst yfir að Alusuisse og ÍSAL hafa ekki í neinu brotið gegn fyrri samningum, þar eð ágreiningurinn var um skilning á samningsákvæðum.“

Þetta er tilvitnun í orð Ragnars S. Halldórssonar framkvæmdastjóra ÍSALs í Straumsvík, starfsmanns Alusuisse, og ekki verður séð annað en hér sé verið að skýra og túlka innihald nýgerðra samninga af hans hálfu, væntanlega fyrir hönd fyrirtækisins. Það er ekki vitað að forstjórinn hafi haft sérstaki samráð við hæstv. núverandi iðnrh. um þessa túlkun á sáttum sem þarna er til vitnað. En menn geta svo velt því fyrir sér hvort líklegt sé að fyrirtæki eins og Alusuisse reiði fram 120 millj. íslenskra kr. fyrir hönd síns dótturfyrirtækis telji það sig hafa hreinan skjöld.

Ég vík þá að aðstoðarsamningi um rekstur og þeim ákvæðum sem þar að lúta, því að þar er sannarlega sérstakt mál á ferðinni. Auk ákvæða um seilingarverð, svo nefnt „arm’s length dealings“ á enskunni við útreikning á nettóhagnaði ÍSALs skv. grein 27.03 í aðalsamningi er kveðið enn skýrar á um skyldur Alusuisse í þessu efni gagnvart ÍSAL í aðstoðarsamningi um rekstur sem er fylgisamningur með aðalsamningi og með lagagildi eins og aðalsamningurinn. Þar segir í grein 2.03 um rekstur ÍSALs:

„Alusuisse mun veita ÍSAL, að beiðni þess, ráðleggingar og aðstoð á sviðum fjárhagsmála og stjórnsýslu, og miðla þannig reynslu þeirri, sem það öðlast við rekstur á þeim stöðum öðrum, sem um getur í málsgrein 2.01, sem hér segir: ... Tækni- og stjórnsýsluaðstoð í sambandi við útvegun hráefna og innkaupa ÍSALs, og skal aðstoð veitt með þjónustu tækni- og stjórnsýsludeilda Alusuisse í Sviss eða annars staðar. Í þessu skyni mun Alusuisse færa sér í nyt viðskiptasambönd sín og tengsl við þá aðila, sem kunna að hafa á boðstólum hráefni og vistir, aðstoða ÍSAL, eftir því sem við á, í samningaumleitunum þess og á þann hátt og sérhvern annan, sem tiltækur kann að vera, leitast við að tryggja ÍSAL áframhaldandi og jafnt framboð á hráefnum með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru.“

Þessi ákvæði þýða í raun að Alusuisse skuldbindur sig af skattaástæðum til að útvega ÍSAL aðföng á besta fáanlega verði og að hreinan hagnað ÍSALs skuli reikna út á grundvelli seilingarverðs milli óskyldra aðila. Fyrir þessa þjónustu er Alusuisse áskilin sérstök þóknun sem nemur 2.2% af veltu ÍSALs og er fyrirtækinu heimilt að draga þá upphæð frá hagnaði fyrir skatta.

Hér er um að ræða ákvæði sem Jóhann heitinn Hafstein sem iðnrh. vitnaði til í framsöguræðu sinni fyrir álsamningunum 1966, en á síðustu árum hafa staðið um þau harðar deilur milli Alusuisse og íslenskra stjórnvalda í tengslum við skattsvik ÍSALs.

Við umræður utan dagskrár í Sþ. 25. okt. s.l. um ný samningsdrög við Alusuisse lagði undirritaður nokkrar spurningar fyrir Sverri Hermannsson, hæstv. iðnrh. Af því tilefni sagði iðnrh. í umr. þann dag:

„Síðan kemur fjórða spurning:

„Hefur í núverandi samningsdrögum við Alusuisse verið gefinn einhver ádráttur um breytta túlkun á ákvæðum núgildandi samninga að því er skattareglur snertir, t.d. ákvæði núgildandi aðstoðarsamnings um að Alusuisse sjái ÍSAL fyrir aðföngum á bestu fáanlegum kjörum?“ „Svarið er nei,“ sagði ráðh.

Þegar frv. síðan var lagt fyrir Alþingi 7. nóv. s.l. kom í ljós að ráðh. hafði farið með staðlausa starfi varðandi skattareglur, sem breytt er í veigamiklum atriðum með breytingum á aðalsamningi, og sérstök breyting er gerð á tilvitnuðu ákvæði aðstoðarsamnings um rekstur. Um breytinguna, sem er að finna á fskj. B með frv., segir svo í athugasemdum um lagafrv.:

„Með breytingu þessari er það gert ótvírætt að umrædd ákvæði 2.03 (c), um „bestu skilmála“ eigi við í þeim tilvikum þegar Alusuisse veitir ÍSAL aðstoð sem ráðgjafi við innkaup hjá þriðja aðila, en ekki þegar það er sjálft að selja ÍSAL hráefni frá fyrirtækjum innan samsteypunnar. Frá sjónarmiði Alusuisse skiptir þessi túlkun ákvæðisins ekki aðeins máli gagnvart ríkisstj., heldur einnig gagnvart hugsanlegum samstarfsaðila í ÍSAL skv. hinum nýju ákvæðum þar um, og hefur fyrirtækið því lagt áherslu á að fá aðstoðarsamningnum breytt að þessu sinni.“

Þessi breyting er þeim mun afdrifaríkari sem um sáralítil kaup er að ræða á hráefnum til ÍSALs frá þriðja aðila, þ.e. öðrum en Alusuisse. Hér er því verið að leysa auðhringinn undan þungri fjárhagslegri skuldbindingu og nánast verið að lögheimila yfirverð eða „transfer pricing“ á aðföngum til álversins.

Þegar undirritaður innti hæstv. iðnrh. eftir því við 1. umr. um málið hér í Nd. 21. nóv. s.l. hverju þetta sætti í ljósi staðhæfinga hans í Sþ. 25. okt. s.l. svaraði ráðh. m.a. með þessum orðum, með leyfi forseta:

„En það er eitt atriði í máli hv. 5. þm. Austurl. sem ég get auðvitað ekki látið liggja í þagnargildi, heldur óska eftir því að það atriði verði sérstaklega rannsakað af iðnn., og það eru fullyrðingar hans og áburður um að ég hafi vísvitandi farið með rangt mál í svörum mínum við fsp. frá honum sem hann varpaði fram í utandagskrárumr. hinn 25. oki. s.l. En þar var 4. spurning í fyrirspurnalista hans á þessa leið:

„Hefur í núverandi samningsdrögum við Alusuisse verið gefinn einhver ádráttur um breytta túlkun á ákvæðum núgildandi samninga hvað skattareglur snertir, t.d. ákvæða aðstoðarsamnings um að Alusuisse sjái ÍSAL fyrir aðföngum á bestu fáanlegum kjörum?

Ég svaraði þessu neitandi. Það hafði engin breyting verið lögð fram við aðstoðarsamninginn 25. oki. Ég bið hv. þm. að nótera það hjá sér hvort það hafi ekki fyrst komið fram aðfaranótt hins 3. nóv. að breyting væri gerð á aðstoðarsamningi um þetta efni. Þetta er það fyrsta og ég óska eftir því sérstaklega að nefndin kalli Hjört Torfason hrl. á sinn fund til þess að útskýra þessi ákvæði nákvæmlega vegna þess að auðvitað get ég ekki stundinni lengur legið undir áburði um það að ég hafi farið með rangt mál. Og ég bið nú hv. þdm. að hugleiða hvernig það má vera að ég hefði hagað mér þannig vísvitandi hafandi það alveg fyrir augum að slík sviksemi í orðum og athöfnum mundi upp koma á borð manna innan tíðar þar sem ég átti það auðvitað fyrir höndum að leggja alla samningsgerðina fyrir hið háa Alþingi.

Ég vil enn fremur minna á“, segir ráðh. „að þessi breyting á aðstoðarsamningnum er málsútlistun og skilningur, lagaleg túlkun okkar lögfræðinga á umræddu ákvæði í aðalsamningi, 27.03, og ég ítreka og endurtek: Það er túlkun Hjartar Torfasonar og lögfræðilegra ráðunauta okkar á ákvæðinu í aðalsamningi sem þarna er tekið fram í breytingunni á aðstoðarsamningnum. Þess vegna er það heldur ekki breyting á honum, sem þarna er komin fram, heldur lagaleg útlistun okkar manna — um þetta var þrætt af miklum móð á sínum tíma — og skilningur á þessari grein. Með þessari breytingu, sem ekki er efnisbreyting, er það gert ótvírætt að umrætt ákvæði 2.03 (c), um bestu skilmála, eigi við í þeim tilvikum þegar Alusuisse veitir ÍSAL aðstoð sem ráðgjafi við innkaup hjá þriðja aðila, en ekki þegar það er sjálft að selja ÍSAL hráefni frá fyrirtækjum innan samsteypunnar. Gamla aðalsamninginn skilja okkar lögfræðiráðunautar og túlka á þessa vísu. Þetta er auðvitað ekki breyting, heldur útlistun, tekin af tvímæli. En ég endurtek: Þetta var ekki þegar ég svaraði hv. þm.“ Gripið var hér fram í: Hver fór fram á breytinguna á þessu, hæstv. ráðh.? — Hann heldur áfram, ráðh.:

„Ég fer fram á að nefndin rannsaki þetta mál gaumgæfilega og fái þær upplýsingar og kalli á samninganefndarmennina, að vísu á einn hv. þm. sæti í þeirri nefnd, formanninn og Hjört Torfason.“

Í iðnn. Nd. var leitast við að komast til botns í þessu furðulega máli og skyggnast bak við staðhæfingar iðnrh. um að hér sé á ferðinni „málsútlistun og skilningur, lagaleg túlkun okkar lögfræðinga á umræddu ákvæði í aðalsamningi 27.03“ og enn fremur þar sem ráðh. segir: „Þetta er auðvitað ekki breyting, heldur útlistun, tekin af tvímæli.“

Á fundi iðnn. Nd. komu m.a. Jóhannes Nordal, formaður samninganefndar ríkisstj., Hjörtur Torfason lögmaður og Sverrir Hermannsson iðnrh. Af svörum þeirra við fsp. í n. virðist atburðarásin í þessu afdrifaríka máli hafa verið þessi:

Á fundum samninganefnda aðila í júlímánuði 1984 var sáttargjörð til umræðu til lausnar á deilum aðila í tengslum við heildarsamkomulag, m.a. um breytt skattkerfi og raforkuverð. Inn í þá mynd tefldi Alusuisse kröfu sinni um að verða leyst undan skilmálum samninga um „bestu skilmála“ varðandi aðföng til ÍSALs. Rætt var um að taka það ákvæði inn í tengslum við breytingu á aðalsamningi. Í sept. s.l. varð að ráði að undanskilja samninga um breytingu á skattkerfi og hverfa þar með frá því að ná heildarsamkomulagi. Iðnrh. hæstv. kvaðst hafa lifað í þeirri trú að þar með væri kröfunni um breytingu á ákvæðinu um „bestu skilmála“ ýtt út af samningsborðinu um sinn, og ofangreindir viðmælendur staðhæfa að sú krafa hafi ekki verið inni í þeim samningsdrögum sem samninganefndir gengu frá 9. okt. s.l. og kynnt voru í þingflokkum framsóknar- og s;álfstæðismanna, svo og í ríkisstj.

Ég hef þegar rakið það að hæstv. ráðh. synjaði beiðni minni um að fram yrðu lagðar í iðnn. fundargerðir og samþykkt minnisblöð frá fundum samninganefndar ríkisins við Alusuisse. Á grundvelli slíkra gagna var því ekki unnt að fá skorið úr um þróun mála í samningaviðræðunum.

Eftir að samningsdrög voru frágengin 9. okt. s.l. af hálfu samninganefndar ríkisins áttu lögfræðingar aðallega eftir að fjalla um orðalag í ýmsum greinum. Hjörtur Torfason, lögfræðilegur ráðunautur iðnrh., fór þeirra erinda til New York um mánaðamót okt.–nóv. s.l. til fundar við lögmenn Alusuisse. Á fundi 3. nóv., tveimur dögum áður en samningana átti að undirrita í Zürich, reisir Alusuisse enn á ný kröfuna um breytingu á aðstoðarsamningi um rekstur og gerir hana að úrslitakröfu, ef ganga eigi frá sáttargjörð og öðrum atriðum samkomulagsins frá 9. okt. Um þetta mál stóð þóf í símtölum umræddan dag, 3. nóv., en ráðh. ætlaði að halda utan daginn eftir að því er ég hef skilið. Að lokum gerði Hjörtur Torfason tillögu um það til ráðh. í símtali kl. 01.30, að ég hygg, aðfaranótt 4. nóv. að íslenskum tíma að fallist yrði á kröfu Alusuisse með því orðalagi sem er að finna í frv. Féllst ráðh. á það á elleftu stundu fremur en láta brjóta á þessu atriði. Þannig hafði Alusuisse sitt fram með gamalkunnugri samningatækni sem íslensk stjórnvöld ættu sannarlega að vera farin að átta sig á.

Aðspurður sagðist iðnrh. telja þetta „stóra veikingu á þessum ákvæðum“ gildandi samninga, og greinir hann þar að því er virðist á við suma ráðgjafa sína.

Um aðrar breytingar á skattareglum hafði iðnrh. það helst að segja í iðnn. að þær hefðu allar verið lengi inni í myndinni og hann hefði ekki haft aðstöðu til að fara nákvæmlega ofan í þær sakir áður en hann svaraði fsp. minni um „ádrátt um breytingar á skattareglum“ neitandi í Sþ. þann 25. okt. s.l.

Þó að telja megi breytinguna á aðstoðarsamningi um rekstur afdrifaríkustu breytinguna varðandi skattamálefni ÍSALs skv. þessu frv. vega nokkur önnur atriði einnig þungt í þessu samhengi. Þeim voru gerð ítarleg skil í nál. hv. þm. Skúla Alexanderssonar í Ed. á þskj. 176. Verða hér aðeins rifjuð upp aðalatriði og bent á líklegar afleiðingar þessara breytinga varðandi skattlagningu ÍSALs.

Það er þá fyrst um fyrningar. Í aðalsamningi um álverið í Straumsvík er einvörðungu kveðið á um 15 ára afskriftatíma, en eftir að Alusuisse loksins kom upp mengunarvarnabúnaði hjá ÍSAL eftir mikið þref við stjórnvöld hefur auðhringurinn gert kröfu til að afskrifa þennan búnað á átta árum í stað 15 ára. Þetta skiptir nokkrum milljónum dollara á ári, með samsvarandi tekjutapi fyrir ríkissjóð í sköttum, a.m.k. tímabundið. Skv. frv. er fallist á ofangreinda kröfu Alusuisse. Að mati ríkisendurskoðunar er hér um tekjutap eða tilfærslu að ræða sem reiknuð á leiðréttan grundvöll ársreikninga ÍSALs fyrir 1980 svarar til um 900 þús. Bandaríkjadölum eða 35 millj. ísl. kr.

Í öðru lagi eru það varasjóðir og viðurlög. Skv. grein 2.03 í frv. er látið undan kröfu Alusuisse um fullt frelsi varðandi varasjóð upp að 20% markinu, svipað og hjá íslenskum félögum. Að mati ríkisendurskoðunar hefði slík heimild þýtt um 1 millj. Bandaríkjadala eða 40 millj. íslenskra kr. lægri skatta ÍSALs á árinu 1980, að teknu tilliti til leiðréttinga Coopers & Lybrands. Þetta endurspeglar því líkleg áhrif á reikningsárið þegar um einhvern teljandi hagnað er að ræða hjá ÍSAL.

Þá felur greinin það einnig í sér að ÍSAL verður eini skattþeginn hérlendis sem ekki skal sæta viðurlögum vegna óframtalins og ógreidds framleiðslugjalds.

Varðandi endurskoðun ársreikninga er skv. grein 2.04 í frv. enn látið undan kröfum Alusuisse og reynt með afdráttarlausu orðalagi að taka fyrir það að íslensk skattyfirvöld geti leiðrétt ársreikninga ÍSALs hvað skattbyrði snertir aftur í tímann. Þar segir m.a.:

„Hafi endurskoðuninni ekki verið þannig lokið og niðurstöður hennar þannig kynntar ÍSAL er ekki unnt að vefengja framleiðslugjaldsskyldu ÍSALs fyrir umrætt ár eftir 1. sept. á endurreikningsárinu.“

Með slíku ákvæði væri fullvalda ríki að afsala sér mikilvægum rétti sem felst í skattamatinu.

Þá er það skuldajöfnum við skattinneign. Í grein 2.07 í frv. er enn látið undan kröfum Alusuisse og afturkallað með lögum bréf fjmrh. frá 10. febr. 1983 þar sem skattinneign ÍSALs var tæmd og meira en það með skuldajöfnun vegna endurákvarðaðra skatta. Jafnframt er þessi skattinneign, sem lögð var til Alusuisse gegn ráðum lögmanna íslensku ríkisstjórnarinnar við endurskoðun samninga 1975, látin bera hæstu dollaravexti til þessa dags, þannig að hún er nú komin í um 7 millj. dollara. Sáttargreiðslan upp á 3 millj. dollara jafngildir þannig aðeins vöxtunum sem bæst hafa ofan á þessa innstæðu Alusuisse hjá ríkissjóði frá árinu 1975 að telja, eins og framkvæmdastjóri ÍSALs var raunar að hælast um í ræðu sinni í Straumsvík þann 7. nóv. s.l.

Öll þau dæmi, sem hér hafa verið rakin, sýna hversu hrapallega hefur til tekist um skattaákvæði í þessari samningsgerð, þar sem Ísland hopar í öllum greinum fyrir kröfum auðhringsins. Þó er ósamið með öllu um breytingar á skattkerfi þannig að Alusuisse fær hér viðurkennd stórfelld hagsmunaatriði í forgjöf.

Þá er ég kominn, herra forseti, að rafmagnssamningnum sem er stór þáttur þessa máls. Honum eru gerð ítarleg skil í nál. Skúla Alexanderssonar í Ed. Ég ætla hér fyrst og fremst að varpa ljósi á nokkra nýja þætti þessa máls sem varða raforkusamninginn vegna þess að það er nauðsynlegt að hv. alþm. fái vitneskju um þau atriði sem fram komu á fundi iðnn. þessarar deildar. (Forseti: Ég vil spyrja hv. 5. þm. Austurl. hvort hann gæti nú gert hlé á ræðu sinni. Það er búið að boða þingflokksfundi, reyndar eftir kortér, en forseti hefur öðrum störfum að sinna núna næstu 15 mínúturnar. Síðan mundi verða tekið til aftur við fundarhöld kl. 17.30.) Já, virðulegi forseti, það er sjálfsagt af minni hálfu að verða við þeirri beiðni og ég met forseta fyrir það að hann vill gefa þd. kaffihlé og þeim sem hér stendur. — [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Ég var þar kominn í mínu máli að ræða um rafmagnssamninginn milli Landsvirkjunar og ÍSALs og þætti sem honum tengjast. Ég gat þess að í nál. Skúla Alexanderssonar í Ed. var ítarlega um þetta mál fjallað. Ég hef í minni álitsgerð dregið saman helstu atriði sem ég tel máli skipta við skoðun þessa samnings og mun þar við bæta nokkrum ábendingum vegna upplýsinga sem fengust frá Landsvirkjun í hv. iðnn. Breytingarnar í rafmagnssamningnum er að finna á fskj. með frv. og þær fela í sér eftirfarandi m.a.:

1. Rafmagnssamningurinn gildir í 20 ár eða til haustsins 2004. Endurskoðunarákvæði samningsins, sem gera ráð fyrir að báðir aðilar, Landsvirkjun og ÍSAL, geti óskað endurskoðunar á fimm ára fresti eru mjög veik fyrir Landsvirkjun og háð afar mikilli óvissu. Er álitamál hvort þau eru betri en engin, eins og um hnútana er búið að þessu leyti. Ákvæðin er að finna í rafmagnssamningnum og varða 28. gr. og ég tel rétt að vitna í hana um þetta efni, með leyfi forseta, endurskoðun skilmála:

„Með skriflegri tilkynningu, er gefin sé eigi minna en sex mánuðum fyrir hvern þeirra daga, sem tilgreindir eru hér að neðan (eða alla þá daga), skal hvort heldur Landsvirkjun eða ÍSAL heimilt að tilkynna hinum aðilanum, að orðið hafi teljandi og ófyrirsjáanleg breyting til hins verra á aðstæðum, að frátöldum breytingum á valdi Landsvirkjunar eða ÍSALs, er hafi haft í för með sér alvarleg áhrif á efnahagsstöðu Landsvirkjunar eða ÍSALs, hvors sem í hlut á, þannig að hún raski bæði jafnvæginu í samningi þessum og valdi óeðlilegu harðrétti fyrir þann aðila sem í hlut á.“

Þetta er 28. gr., 1. liður. Í síðari greinum, 28.02 og 28.03, er að því vikið hvernig á málinu skuli haldið ef ekki takist greiðir samningar milli aðila og ég vísa til þessara greina.

2. Raforkuverðið verður á bilinu 12.5–18.5 mill á kwst. að nafnvirði á samningstímanum í samræmi við tiltekna vísitölu fyrir heimsmarkaðsverð á áli. Svarar verðtrygging innan rammans til um 65–75% af verðhækkunum álverðs, en fari vísitalan út fyrir viðmiðunarmörkin 0.75–1.55, þar sem vísitalan 1.00 svarar til meðalverðs á árinu 1983 og fyrri árshelmingi 1984, er ekki um neina verðtryggingu rafmagnsverðsins að ræða. Hámarks- og lágmarksákvæðin, 12.5 mill og 18.5, eru algjörlega óverðtryggð. Miðað við alþjóðlega verðbólguþróun, sem sérfræðingar Landsvirkjunar gera ráð fyrir, verður hámarksverðið komið niður í um 6 mill við lok samningstímans og lágmarksákvæðið í um 4 mill.

3. Að mati Landsvirkjunar, sem byggir á spám ráðgjafa um líklega þróun álverðs, er gert ráð fyrir að samningurinn geti gefið meðalverðið 13.7 mill á kwst. á næstu fimm árum á verðlagi ársins 1984. Allt tal um 15 mill sem eitthvert grunnverð í þessum samningi er gersamlega út í hött.

Varðandi þróun álverðs er til þess að vísa að þar er miðað við ferns konar viðmiðun og samninganefndin hafði fyrir sér spádóma þriggja sérfræðiaðila um þessi efni og bar mikið á milli. Og því má og bæta við að t.d. Chase Econometrics breytti stórlega spásögn sinni um þróun álverðs frá því í febrúar til ágústmánaðar á þessu ári. Þannig lækkaði það verð, sem þeir sáu fyrir á árinu 1984 og höfðu miðað við, úr að mig minnir 76 centum á pund niður í tæp 60 eða 59 komma eitthvað cent. Þannig að menn sjá hversu gífurlega þarna munar og færðu einnig til lækkunar líklega verðþróun á ári 1985 og 1986.

4. Rafmagnssamningurinn er langt frá því að skila meðalframleiðslukostnaðarverði eins og það hefur verið í kerfi Landsvirkjunar undanfarin ár, þ.e. nálægt 20 mill á kwst., og áætluðum meðalframleiðslukostnaði á næstu árum, sem að teknu tilliti til allra þátta, svo sem vaxta af eigin fé og 6% raunávöxtunarkröfu, gæti numið um 23 mill á kwst.

Sé slegið af raforkuverði til stóriðju þannig að það nemi um 67% af verði til almenningsveitna þyrfti orkuverðið að nema um 19 millum á kwst. að lágmarki.

Svipuðu máli gegnir ef miðað er við endurnýjunarverð raforku frá nýjum virkjunum: 18–20 mill er það raforkuverð sem þyrfti að fást að lágmarki frá ÍSAL miðað við núgildandi verðlag. — Og ég legg áherslu á að 20 mill er í rauninni þarna sú tala sem menn hefðu þurft að sækja í þessum samningum.

5. Með sérstöku bréfi um samkomulag dags. 5. nóv. 1984 á fskj. VI með frv. er sérstök ótímasett bókun þar sem Alusuisse er veittur forgangsréttur að frekari orku til stóriðju hérlendis í sambandi við ráðgerða stækkun álversins.

Fulltrúi Alþb. í stjórn Landsvirkjunar, Ólafur Ragnar Grímsson, greiddi atkvæði gegn þessum rafmagnssamningi í stjórn Landsvirkjunar 1. nóv. s.l. og lét sérstaka bókun fylgja um afstöðu sína. Hún kom fram á fskj. með nál. Skúla Alexanderssonar í Ed.

Á heildina litið er rafmagnssamningurinn algjörlega ófullnægjandi fyrir Landsvirkjun. Þeim mun undarlegri er sú umsögn frá forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaða breytingu á rafmagnssamningnum sem fylgir með frv. Þessir starfsmenn Landsvirkjunar virðast ekkert sjá aðfinnsluvert við rafmagnssamninginn, en aðstoðarforstjórinn var einn þeirra sérfræðinga sem fjölluðu um málið á vegum samninganefndar ríkisstj. og starfaði í sérstakri undirnefnd við skoðun á orkuverði ásamt Alusuisse.

Um þetta þarf ég að fara nokkrum fleiri orðum, en þess er að geta að af fram komnum gögnum um viðmiðunarverð raforku, sem fram voru lögð í iðnn. Nd., kemur í ljós að meðalverð á raforku til áliðnaðar, sem kynnt hefur verið og rætt er um í greinargerðum og umsögn Landsvirkjunar með frv., þ.e. 14.6 mill í Evrópu og 24 mill í Norður-Ameríku, er samsett úr verði til skyldra sem óskyldra aðila. Væri miðað við orkuverð milli óskyldra aðila, svokallaða óbundna orku, svo sem eðlilegt verður að teljast, samkv. framlögðum gögnum í n., er þar um að ræða raforkuverð nálægt 26 millum í Norður-Ameríku og 16–17 millum í Evrópu. Ég tek það fram að á gagni frá Landsvirkjun er talað um 15 komma líklega 5 eða 6 mill óbundna orku í Evrópu, en miðað við þau undirgögn sem fylgja og umreikning út frá þeim kemst ég að þeirri niðurstöðu að verð til óskyldra aðila í Evrópu, eins og tölur liggja fyrir frá Landsvirkjun og undirnefnd um skoðun orkuverðsins, sé á bilinu 16–17 mill, en ýmislegt í tölum varðandi álverð í Evrópu er afar ófullkomið í þessum gögnum og vægast sagt mjög tortryggilegt.

Ég tel að þetta sé í rauninni stórmál út af fyrir sig, að samninganefnd ríkisins skuli lenda í þeirri stöðu að telja að hún þurfi að standa í þeim sporum, út frá ákvæðum bráðabirgðasamnings, að taka tillit til verðs milli skyldra aðila að fullu hlutfallslega eins og milli óskyldra aðila til áliðnaðar. Er vægast sagt hneyksli að þannig skuli málum komið fyrir Íslendingum. þegar tekist er á um slíkt stórmál sem raforkuverðið, að samninganefnd haldi þannig á máli og ríkisstj. skrifi upp á það.

Það sýnir vel hversu afdrifarík ákvæði bráðabirgðasamningsins frá 23. sept. 1983 eru varðandi viðmiðun á orkuverði að íslenska samninganefndin skuli hafa séð sig tilknúða að taka með bundna orku milli skyldra aðila inn í þennan samanburð á raforkuverði til álvera.

Á svipaðan hátt liggur fyrir að sjónarmið Alusuisse varðandi óhagræði þess að starfrækja álbræðslu á Íslandi í samanburði við álver á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku hafa orðið algjörlega ofan á. Þetta svokallaða óhagræði er metið skv. frv. á 4 mill umreiknað í raforkuverð miðað við Evrópu og 5 mill gagnvart Norður-Ameríku. Sjónarmið íslenskra sérfræðinga voru að þessu leyti 1.7 mill gagnvart Evrópu og 3.1 mill gagnvart Norður-Ameríku, en þau voru kveðin í kútinn af Alusuisse sem sýndi tölurnar 5.8 og 6.8 mill í þessu sambandi. Þar á meðal taldi Alusuisse vægi launakostnaðar í álbræðslu á Íslandi íþyngjandi miðað við Evrópu sem nemur 30 dollurum á tonn.

Ég held að menn ættu að líta á þessar tölur. Og ég veit ekki hvort menn trúa áfram yfirlýsingum hæstv. iðnrh. um Singapore norðursins, sem sé að skapast hér á Íslandi, ef þeir fara að taka mark á þessum upplýsingum frá Alusuisse um hinn íþyngjandi launakostnað í álverinu í Straumsvík miðað við það sem gerist í álverum í Evrópu.

Forsendurnar og átökin um raforkuverðið sýna ljóslega hver hefur sett leikreglurnar í þeim viðræðum sem leitt hafa til þeirrar endurskoðunar á rafmagnssamningi sem hér liggur fyrir. Og það verður að segjast eins og er að stuðningur aðalorkuframleiðslufyrirtækisins og hlutur í þessu máli, Landsvirkjunar, er ekki með þeim hætti sem ákjósanlegur væri. Eitt af þeim verkefnum sem lá fyrir iðnn. Nd. var að kanna hvað lægi á bak við þær tölur og upplýsingar sem Landsvirkjun hafði framreitt til samninganefndar ríkisins og fram koma að sumu leyti í umsögn forstjóra og aðalforstjóra Landsvirkjunar. Það verður að segja að sú umsögn, sem er hér prentuð sem fskj. með frv., er nánast eins og verið sé að senda skjal til sjálfs páfans, eins og sannkristnir menn væru að senda skjal til sjálfs páfans, svo glæsilegan telja starfsmenn Landsvirkjunar þennan raforkusamning. Og geta menn kynnt sér það orðalag sjálfir sem þar er á ferðinni.

Þá er þess að geta að fyrir iðnn. Nd. komu þrír starfsmenn frá Landsvirkjun, Halldór Jónatansson forstjóri, Jóhann Már Maríusson aðstoðarforstjóri og Elías Elíasson verkfræðingur. Það voru bornar fram við þá fsp. og þeir svöruðu þeim eftir bestu getu á fundum og sendu síðan inn skrifleg svör, auk þess sem munnlega kom fram í n. Það er sannarlega margt fróðlegt sem þar kom fram og hefði verið ástæða fyrir þm. að kynna sér þau gögn alveg sérstaklega. Landsvirkjun stendur að þessum orkusölusamningi, eins og kunnugt er, við ÍSAL og lagði til sérfræðinga á móti Alusuisse í undirnefnd um raforkuverðið. Þannig er augljóst að sjónarmið og tölur, sem Landsvirkjun er að bera hér fram, hafa að sjálfsögðu komið inn í þessi átök um raforkuverð milli aðila.

Ég vil nefna það hér að vandi Landsvirkjunar í þessu máli, þegar á það er litið, er margs konar. Hann er þó einkum því tengdur að Landsvirkjun býður hér upp á, og alveg sérstaklega almenningi og atvinnurekstri í landinu, óhóflega dýra raforku. Til almenningsveitna er þessi raforka þremur komma þrisvar sinnum hærri. Þó að raforkuverðið hækki að lágmarki í 12.5 mill til álversins í Straumsvík er verðið til almenningsveitna meira en þrisvar sinnum hærra eftir sem áður og þegar það er komið í smásölu til atvinnufyrirtækja í landinu greiða innlend iðnfyrirtæki, fiskiðnaður meðtalinn, sex til tífalt hærra raforkuverð en álverinu í Straumsvík er ætlað að gera með þeirri lágmarksleiðréttingu sem tryggð á að vera samkv. þessum samningi.

Annað atriði sem snýr að Landsvirkjun eru óhóflegar fjárfestingar fyrirtækisins á undanförnum árum miðað við markaðshorfur. Fyrir þessu er ástæða að færa rök. Inn í þessa mynd koma framkvæmdir á árunum 1983 og 1984 og sem fyrirhugað er að halda áfram með, eins og Sultartangastífla sem reist var 1983 og Kvíslaveitur sem nú er að unnið, hvort tveggja á Þjórsár/Tungnár svæðinu.

Þriðji þáttur þessa máls sem snýr að Landsvirkjun er að fyrirtækið og baknefnd þess eru að leita réttlætingar á framhaldi þeirrar virkjanastefnu og offramleiðslustefnu á raforku sem endurspeglast í núverandi stöðu hjá Landsvirkjun og þeir sjá útleiðina fyrst og fremst með því að selja til erlendrar stóriðju samkv. forskrift ríkisstj. Og þeir eru að stritast við það þarna uppi við Háaleitisbraut, á skrifstofunum, að reikna niður framleiðslukostnað raforku úr núverandi kerfi og samkvæmt áætlunum varðandi nýjar virkjanir til þess að hafa beitu fram að leggja fyrir þau auðfélög sem hæstv. iðnrh. er að reyna að lokka hingað til viðbótar við stækkun álversins í Straumsvík. Inn í þetta samhengi kemur að sjálfsögðu væntanlegt bréf sem ríkisstj. er að skuldbinda sig til að senda Alusuisse með tilboði um þau kjör sem hún ætlar að bjóða í sambandi við stækkun álversins.

Blekkingar sem fram koma í upplýsingum Landsvirkjunar eru þess efnis að ég bið hv. þdm. að leggja við hlustir og það er ástæða til þess að þeir fái aðgang að þeim gögnum sem fram voru lögð í iðnn. Nd. á mánudaginn var frá Landsvirkjun til þess að skoða þessi gögn með hliðsjón af þeim ábendingum sem ég hér gef. Þau tengjast tölum og tveimur hugtökum, annars vegar svokallaðri forgangsorkugetu Landsvirkjunarkerfisins í sölupunkti, eins og það er kallað á tæknimáli, en það er sú orka sem unnt er að selja úr Landsvirkjunarkerfinu þegar það er fullnýtt að teknu tilliti til flutningstapa, svo notuð sé skilgreining Landsvirkjunar, og hins vegar forgangsorkuþörf í sölupunkti, þ.e. raunverulegan markað fyrir raforkuna plús það sem Landsvirkjun vill smyrja ofan á raunverulegan markað, en það er ekkert smáræði sem þar kemur til. Þar er um að ræða 250 gígawattstundir af öryggisástæðum og með tilliti til afhendingarstöðu Landsvirkjunar gagnvart Íslenska járnblendifélaginu.

Tölurnar sem um er að ræða, svo ég taki bara árið 1983, eru þessar: Forgangsorkugeta Landsvirkjunarkerfisins í sölupunkti á síðasta ári er 3570 gígawattstundir. Samkv. þeim tölum, sem hafa komið fram munnlega í iðnn. Nd., er raunveruleg sala út úr kerfinu á árinu 1983 undir 2900 gígawattstundum þegar tekin er inn í myndina orkan sem Landsvirkjun kaupir frá Kröflu og Svartsengi. Það eru nákvæmlega 2859, gæti ég trúað, eða 2860 gígawattstundir sem þeir selja út úr sínu kerfi á árinu 1983. En til þess að fela þessa umframorkuframleiðslu og geta lækkað hinn reiknaða framleiðslukostnað hentar þeim að draga frá orkukaupin frá Kröflu og Svartsengi, 151 gígawattstund 1983, og halda inni í þessari orkusölu og orkuþörf 250 gígawattstundum. Því dreg ég hér frá þeirri tölu sem þeir gefa upp sem forgangsorkuþörf 1983. Það er talan 3570 sem kemur þarna annars vegar, hins vegar 3260. En til frádráttar þeirri tölu á forgangsorkuþörf hef ég 250 gígawattstundir, sem þeir hafa sem öryggismörk, og þá orku sem þeir kaupa samningsbundið frá Kröflu og Svartsengi, 151 gígawattstund 1983. Og þá erum við komin með þá stöðu að Landsvirkjun er með, nærri mun það láta, 700 gígawattstundir umfram þá orku sem hún selur út úr sínu kerfi, og vel að merkja: þetta er forgangsorka. Þetta eru rétt röskar 700 gígawattstundir, 710 gígawattsstundir þegar allt er talið, miðað við þær forsendur sem ég hef hér rakið, sem þarna er forgangsorkuframleiðslugeta í kerfinu umfram þann markað sem þeir hafa.

Af hverju er ég að rekja þessi atriði hérna? Vegna þess að þessar tölur ganga inn í gögn sem Alþingi er boðið upp á af Landsvirkjun, gögn sem varða framleiðslukostnað á raforkunni. Og þau gögn, og hv. þm. eiga eflaust aðgang að þeim, eru framreidd 3. okt. 1984 af Landsvirkjun undir heitinu: Nokkur minnisatriði varðandi kostnaðarverð raforku úr kerfi Landsvirkjunar. Þar kemur sem niðurstaða um kostnaðarverð orku úr kerfi Landsvirkjunar árið 1983, miðað við orkugetu, eftirfarandi: Þeir miða við forgangsorkugetu í sölupunkti, deila því upp í heildarkostnað í kerfinu, sem er 1432.9 millj. kr., deila upp í það með forgangsorkugetu kerfisins, 3570, og fá út að einingarverð á kwst. sé 40.1 eyrir á kwst., umreiknað í Bandaríkjamill 16.0 Bandaríkjamill. Og það er þessi tala, 16. Þeir voru fyrir þrem árum með töluna 18–22 sem líklegt kostnaðarverð frá nýjum virkjunum, en nú eru þeir að reikna sig niður í 16 mill. En vel að merkja: þeir selja í reynd ekki nema 2860 gígawattstundir sem forgangsorku á sama ári. — Ég hef nú sléttað þetta. -Ef við veitum þeim eitthvert svigrúm, miðað við þessa kröfu um öryggi, miðað við 300 gígawattstundir, hækkar framleiðslukostnaðurinn um 19% og verður ekki 16 mill, heldur 19.1 mill á kwst., og ef við miðum við 2900 hækkar sama tala samkv. mínum útreikningi í 19.7 mill framleiðslukostnaður eða rétt um 20 mill sem er sú tala sem eðlilegt hefði verið að Landsvirkjun héldi fram og berðist fyrir að sínu leyti sem niðurstöðu út úr þessum rafmagnssamningi. En það var nú ekki. Ég tel að þetta séu alvarleg vinnubrögð, sem hér eru á ferðinni, en læt vera tímans vegna að fara ítarlegar út í þau svör og gögn sem komu fram af hálfu Landsvirkjunar inn í iðnn. Nd., m.a. varðandi Sultartangastíflu og skýringar á því að þeir séu hér með nánast heila virkjun aukreitis hvað framleiðslu snertir, virkjun á við Blöndu, fram yfir í sinni forgangsorkugetuframleiðsluþörf, svo ég búi til langt orð. En skýringin er ekki síst sú að aukning stóriðju kynni að bera að garði á næstu árum, eins og það er orðað í þessu bréfi Landsvirkjunar, — kynni að bera að garði á næstu árum. Þó er fyrirtækið með framkvæmdir í gangi, eins og Kvíslaveitur, þar sem hægt er að bæta við með mjög skömmum fyrirvara og auka miðlunargetu og einnig orkuframleiðslugetu kerfisins ef bregðast þyrfti við vegna samninga um orkusölu til stóriðju.

Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að víkja að þessum þætti sérstaklega vegna þess að hann er svo stór í þessu máli þegar litið er á raforkuverðið.

Ég ætla þá að endingu að koma að stækkun álversins sem er síðasti stóri þátturinn í þessu máli. En í bráðabirgðasamningi ríkisstj. og Alusuisse frá 23. sept. 1983, sem samkv. bréfi um samkomulag, sem svo er kallað frá 5. nóv. 1984 og er á fskj. VI, verður áfram í gildi samkv. ákvæðum sínum, segir m.a. undir fyrirsögninni „stækkun á bræðslunni“ í grein 2 í bráðabirgðasamningi, með leyfi forseta:

„Aðilarnir staðfesta hér með gagnkvæman áhuga sinn á því að stækka bræðsluna svo fljótt sem við verður komið um 80 megawatta málraun, sem svarar um það bil 40 þús. tonna afkastagetu, og að fylgja þessu síðar meir með annarri stækkun í sama mæli... Ríkisstjórnin er reiðubúin til þess að afla stuðnings Landsvirkjunar til þess að látið verði í té nægilegt rafmagn fyrir þessar stækkanir og að leita allra heimilda sem við þarf til að gera ÍSAL kleift að byggja og reka stækkunaráfangana.“

Í samkomulagsbréfinu frá 5. nóv. 1984 er sérstaklega fjallað um fyrri stækkunaráfangann. Þar segir „... svo fljótt sem við verður komið“ „..mun ríkisstj. afhenda Alusuisse bréf þar sem tilgreind verði fyrirhuguð kjör og skilmálar varðandi afhendingu á raforku frá Landsvirkjun til þeirrar stækkunar.“ Gert er ráð fyrir skjótu svari Alusuisse og að taka sameiginlegu upp aðgerðir til að leita að þriðja aðila ef saman gengur um skilmála.

Fram hefur komið frá hæstv. iðnrh. í umr. á Alþingi nýlega um þetta mál, að engin marktæk athugun hefur farið fram á,því hvort það sé þjóðhagslega skynsamlegt fyrir Íslendinga að fjárfesta í virkjunum til að selja raforku til stækkunar álversins í Straumsvík og hleypa þeim umsvifum, sem stækkuninni fylgja, inn í íslenskt efnahagslíf. Svo virðist sem hér ráði nær einvörðungu draumar nokkurra aðstandenda Landsvirkjunar um orkusölu til slíkrar stækkunar og að sjálfsögðu ásókn Alusuisse í að tryggja sér meiri hlut í ódýrari raforku og góðu vinnuafli hérlendis.

Með ólíkindum verður að teljast að stjórnvöld vinni að slíku máli án þess að fram fari vandaðar úttektir á gildi slíkra fjárfestinga með fullri hliðsjón af kostum í íslensku atvinnulífi, þ. á m. í orkunýtingu á vegum Íslendinga sjálfra.

Stækkun álversins um 40 þús. tonn mundi kalla á auknar orkuframkvæmdir Landsvirkjunar sem næmi um 600 gígawattstundum, en það svarar nærri því til allrar raforkuframleiðslu frá virkjun á borð við Blönduvirkjun. Hver gígawattstund kostar Landsvirkjun u.þ.b. 200 þús. Bandaríkjadali í stofnkostnað, þá er miðað við 200 mill á kílówattstund á ári. Heildarkostnaður Landsvirkjunar vegna þessarar stækkunar yrði því um 120 millj. Bandaríkjadala eða um 4800 millj. ísl. kr. í virkjun. Þessi fjárfesting mundi einungis gefa um 100 — 150 ný störf í álverinu í Straumsvík.

Okkur ber að spyrja hvort við Íslendingar höfum efni á því að ráðast í slíka fjárfestingu, m.a. með tilliti til allra aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar um þessar mundir. Væri ekki unnt að nýta þessa fjármuni með skynsamlegri hætti í annarri atvinnuuppbyggingu, sem gæfi okkur meiri arð eða gæfi okkur yfirleitt arð af fjárfestingu og margfalt fleiri störf, auk kosta sem til staðar kunna að vera í innlendri orkunýtingu?

Það hlýtur einnig að vekja nokkra undrun að ríkisstj. sem boðar óhefta markaðsstefnu á flestum sviðum skuli veðja nánast blindandi á einn aðila eins og Alusuisse og gefa honum forgang í orkunýtingu hér á landi á næstu árum. Hér er ekki látið reyna á samkeppni aðila um orkukaup á forsendum orkusölustefnunnar sem Sjálfstfl. mælir svo eindregið með.

Út frá byggðasjónarmiðum verður einnig að teljast fráleitt að láta stóriðjuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu hafa forgang og fjárfesta nær 5 milljarða í því skyni í orkuveri, að líkindum á Suðurlandi.

Einnig er óhjákvæmilegt að spyrja hvort Alusuisse hafi komið þannig fram gagnvart Íslendingum á liðnum árum að sjálfsagt sé að veita auðhringnum forgangsrétt að íslenskum orkuauðlindum. Tæknilega og rekstrarlega virðist Alusuisse standa höllum fæti í samanburði við önnur stórfyrirtæki í áliðnaði.

Brýnt er að víðtæk umræða fari fram um þau áform um stækkun álversins í Straumsvík sem virðast vera á hægra brjósti ríkisstj. varðandi atvinnuþróun á næstu árum.

Af því sem hér hefur verið rakið varðandi efni fyrirliggjandi frv. ætti að vera ljóst að ríkisstj. hefur haldið afar illa á málum í samningaviðræðunum við Alusuisse. Sterkri samningsstöðu hefur verið glutrað niður með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Leiðrétting á raforkuverði er út af fyrir sig jákvæð svo langt sem hún nær, en Alusuisse er þegar á góðri leið með að hafa upp á móti þeim tilslökunum í öðrum þáttum samninganna, og er þó ýmsu ólokið.

Alþm. ættu því að sameinast um að fella þetta frv. og leita samstöðu innan þingsins um þá miklu hagsmuni sem hér eru í húfi.

Herra forseti. Vegna meðferðar þessa máls hér á Alþingi nú hefur þingflokkur Alþb. gert sérstaka samþykki um málið sem ég ætla hér að endingu að kynna. En hún er svohljóðandi, með leyfi:

„Vegna fyrirliggjandi frv. um samninga ríkisstj. og Alusuisse um álverið í Straumsvík samþykkir þingflokkur Alþb. eftirfarandi:

1. Alþb. lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna fyrirliggjandi samninga við Alusuisse og mun beita sér fyrir breytingum á öllum samningum og samskiptum við auðhringinn þegar Alþb. fær til þess aðstöðu.

2. Þingflokkur Alþb. mótmælir því að haldið verði áfram samningaviðræðum við Alusuisse með þeim hætti sem verið hefur í tíð núverandi ríkisstj. Alþb. gerir kröfu um að stjórnarandstaðan fái að þeim samningaviðræðum óskoraða aðild.

3. Þingflokkur Alþb. telur brýnt að Alþingi kjósi nú þegar sérstaka nefnd með aðild allra þingflokka sem geri alhliða úttekt á samskiptum íslenskra stjórnvalda og Alusuisse frá upphafi og þætti álversins í efnahagslífi hérlendis, þannig að læra megi af dýrkeyptri reynslu í samskiptum við þennan auðhring.“

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu ekki víkja að efni þeirra nál. sem hér á eftir að kynna og þó að ég eigi margt vantalað við Framsfl. í þessu máli um þann rökstuðning sem hér var fram borinn við upphaf þessarar 2. umr. um málið ætla ég að geyma mér það til betri tíma.