28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 3. minni hl. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá 3. minni hl. iðnn. í þessu máli sem hér er á dagskrá í Nd. í dag. Við höfum hlýtt á langa ræðu hv. 5. þm. Austurl. sem finnur þessum samningi flest til foráttu. Hann hefur greinilega lesið samninginn eins og Biblían var eitt sinn lesin af vissum höfðingja, hann sér ekki neitt nema svartnættið fram undan. Þetta kemur vitanlega heim og saman við málflutning af þessu tagi sem við höfum heyrt hér í þingsölum á liðnum misserum þegar þessi mál hafa verið til umr.

En það sem þm. ættu að reyna, þegar til meðferðar er í þingsölum jafnflókið mál og þetta er með sanni, er að reyna að líta hlutlægt á málið. Meta það og vega á hlutlægan máta og reyna að gera sér grein fyrir kostum þess og göllum án þess að líta stanslaust á hlutina í gegnum flokksgleraugu. Því fer fjarri að ég ætli mér að halda því fram að þetta samkomulag, sem hér liggur fyrir Nd. í dag, sé alfullkomið eða algott. Við vorum ekki að semja við sjálfa okkur. Við vorum að semja við annan og reyndan samningsaðila og það dettur engum manni í hug að í slíkum samningum fái annar samningsaðilinn allt fram sem hann mundi óska til hins fyllsta og til hlítar. Samningar byggjast á því að reynt er að samræma hagsmuni aðila, en vitanlega hlýtur alltaf að koma til þess að menn verða að taka tillit til sjónarmiða hvers annars. Það væri fráleitt ef menn gerðu sér það ekki ljóst, en mér finnst að nokkuð hafi skort á það í umr. um þetta mál hér í þingsölum á undanförnum misserum þegar það hefur verið hér á dagskrá.

Ég held að ekki væri úr vegi að spyrja sjálfan sig þegar þessi samningur er lesinn yfir: Hver er sá hagur sem við Íslendingar höfum haft af þessari samningagjörð? stöndum við verr að vígi eða stöndum við betur að vígi eftir að hann hefur verið gerður? Það er kjarni málsins. Hver er hagurinn, hver er ávinningurinn? Og þá einnig á hinn bóginn: Höfum við einhverju fórnað, sem við höfðum í hendi okkar áður, í þessari samningagerð?

Ég ætla að byrja á því að víkja að nokkrum atriðum sem lúta að breytingunum sem hafa verið gerðar á samningnum frá 1966, sem breytt var 1975 og er nú aftur fyrir framan okkur með nýjum breytingum. Hafa þær breytingar bætt samninginn út frá sjónarmiði Íslendinga? Stöndum við í stað eða höfum við gengið aftur á bak? Það væri kannske ekki úr vegi að líta fyrst á hvaða áhrif meginatriði þessa samnings hefur á orkuverð til almennings í þessu landi. Orkuverðskaflinn í samningnum er nefnilega meginatriði þessa samnings og fram hjá því verður ekki komist.

Við höfum heyrt langt og allflókið mál flutt hér í dag um skattahliðina og skattaþáttinn í þessum efnum. Það er reynt að láta líta svo út að það sé meginatriði þessa máls. Ég vil af því tilefni minna á að á þessu ári verða tekjurnar sem við höfum af sköttum 1.6 millj. dollara, en tekjurnar sem við Íslendingar fáum af raforkusölunni eru 20 millj. dollara. Það er rétt að menn hafi þessar tölur í huga til að þeim séu ljós hlutföllin í þessari mynd — hverjir eru mikilvægustu þættirnir þannig ljóst sé hvað það er sem skiptir mestu máli? Það er salan á raforkunni. Það er einmitt raforkuhliðin sem hefur verið Akkilesarhællinn, hinn veiki hlekkur í samningunum frá 1966 og 1975. Og það er einmitt að því takmarki, leiðréttingunni á raforkuverðinu, sem allt starf manna hefur fyrst og fremst beinst. Ekki aðeins núverandi ríkisstj., heldur ekki síður ríkisstjórnar þeirrar sem hv. 5. þm. Austurl. átti sæti í sem iðnrh. í mörg ár. Hann og hans fylgdarmenn og aðstoðarmenn lögðu þar nótt við nýtan dag til að fá fram endurskoðun á þessum samningi frá 1966. Þeir gerðu það af mikilli atorku og ég efast ekki um að þeir hafi gert það eftir bestu getu.

Fyrsta spurningin sem mætti varpa fram í þessu sambandi er því þessi: Hvaða áhrif hefur þessi nýi samningur, raforkuþáttur hans, á raforkuverð til almennings á Íslandi, vegna þess að það hefur verið gagnrýnt með réttu að raforkuverð hér á Íslandi sé óeðlilega hátt? Til þess liggja ýmsar ástæður. Því hefur einnig verið haldið fram að almenningur á Íslandi sé látinn greiða niður verðið til stóriðjunnar. En hverjar eru staðreyndir málsins? Það var lagt fram á nefndarfundi í iðnn. Nd. skjal með útreikningum í þessu efni frá Landsvirkjun, þann 23. þ.m. Það skjal er undirritað af forstjóra Landsvirkjunar, Halldóri Jónatanssyni. Hann hafði verið inntur eftir því af nm. hvað verðið hefði getað orðið miklu lægra til almenningsrafveitna á árinu 1984, þ.e. í ár, ef verðið til ÍSALs hefði verið 13.8 Bandaríkjamill á kwst. 1984 eins og hefði orðið ef nýi samningurinn við ÍSAL hefði gilt allt árið miðað við óbreyttar heildartekjur Landsvirkjunar. Það liggur ljóst fyrir að ef þessi samningsdrög, sem við erum að fjalla um, hefðu gilt allt þetta ár hefði Landsvirkjun fengið fyrir orkuna 13.8 mill en ekki 12.5 mill eins og menn hafa haldið hér ítrekað fram í þingsölum. Það er rangt. Hvaða áhrif hefði þessi samningur haft á verðið til almennings ef hann hefði gilt allt árið? Það er atriði sem skiptir gífurlega miklu máli. Hvert er svarið? Hver er niðurstaðan? Þá hefði meðalverð til almenningsrafveitna getað orðið 19.8% lægra en ef verðið til ÍSALs hefði verið 6.4 mill eins og það var áður en núverandi ríkisstj. tók við.

Ávinningurinn fyrir almenning í landinu af þessum samningi hefði verið u.þ.b. 20% lægra verð til almennings fyrir raforkuna hefði hann gilt í ár. Svo eru menn enn að halda því fram að þessi samningur sé óhagstæður fyrir almenning í landinu, fyrir sölu raforku til almannanota.

Það má nefna í þessu sambandi annað sem er staðreynd. Það var gerður bráðabirgðasamningur við Alusuisse fyrir rúmu ári, 23. sept. 1983, og það var örskömmu eftir að núverandi ríkisstj. tók við völdum, tveimur eða þremur mánuðum síðar. Áhrif hans voru þau að með þeim samningi hækkaði raforkuverðið hvorki meira né minna en um rétt tæp 50%.

Og hverjar hafa afleiðingarnar verið fyrir raforkuverðið í landinu til almennings? Það liggur fyrir að rafmagnsverðið frá Landsvirkjun hefur ekki hækkað frá 1. maí 1983. (Gripið fram í: Nú?) Það hefur ekki gert það, nei. Það hefur þess vegna lækkað að raunvirði um 15% frá 1. ágúst 1983. Ástæðan er einföld. Það er fyrst og fremst vegna þess að það fékkst fram nær 50% hækkun á kaupum þessa stóra notanda, þ.e. ÍSALs. Þetta eru dæmi um það hvað felst í þessum samningi og hvaða hagur fólst í bráðabirgðasamkomulaginu, hagur sem færir okkur um 170 millj. kr. á ársgrundvelli, en sem nú verður vitanlega leyst af hólmi með hinum nýja orkusölusamningi.

Það er ekki aðeins þetta atriði, sem snýr beint að almenningi, sem skiptir máli. Við skulum líta á annan átt þessa sama máls, þ.e. hver er hagur okkar Íslendinga af þessum nýja samningi. Það er einfalt reikningsdæmi í sjálfu sér. Ef þessi samningur hefði gilt frá árinu 1979 til þessa dags þá hefði orkuverðið verið á bilinu 12.5–16.5 mill. Viðbótartekjur Landsvirkjunar frá ÍSAL á þessum sex árum hefðu numið 55 millj. dollara eða 3 milljörðum og 200 millj. kr. með vöxtum talið á þessu tímabili eða alls 530 millj. kr. á ári. Auknar tekjur Landsvirkjunar hefði numið meira en hálfum milljarði á ári á þessu tímabili, ef við hefðum borið gæfu til að gera samninginn fyrir sex árum. Hér erum við að tala um gífurlega mikið fé. Við erum að tala um upphæð sem nálgast það að vera jafngildi að verðmæti nýrrar virkjunar. Við erum að tala um upphæð sem mundi duga meira en tvisvar til að setja varanlegt slitlag á hringveginn. Við hefðum getað sett slitlag á tvo hringvegi og meira en það fyrir þessa upphæð, sem því miður kom aldrei í sjóði íslenska ríkisins. (Gripið fram í: Hafa bara fjórar akreinar.) Já, það hefði auðvitað verið snjallast að hafa fjórar akreinar og eitthvað hefði þar að auki orðið eftir til að malbika eða setja slitlag á innansveitarvegi í Austurlandskjördæmi. Þessi upphæð jafngildir andvirði 2000 íbúða, hvorki meira né minna. Hvað var byggt hér í Reykjavík árin 1981 og 1982? Á hverju ári 460–470–480 íbúðir. 2000 íbúðir hefðu fengist fyrir þetta verð.

Hér eru aðeins tekin nokkur dæmi um hvern hag við hefðum haft af þessum samningi ef við hefðum borið gæfu til að gera hann fyrr. Þetta er einfalt reikningsdæmi vegna þess við vitum hvert verðið hefði verið á rafmagninu af því að það er bundið áli og það liggur fyrir hvað álverðið var á þessu árabili.

Það er á sama hátt fróðlegt að líta á hverjar viðbótartekjur Landsvirkjunar af þessu nýja samkomulagi gætu orðið á næstu fimm árum, til 1989, skv. fyrrgreindum spám um þróun álverðs. Þær viðbótartekjur vegna hins nýja samnings eru áætlaðar af Landsvirkjun því það vill svo til að við höfum ekki betri heimild í þessum efnum en Landsvirkjun. Áætlað er að þær viðbótartekjur vegna nýja samningsins muni verða 2 milljarðar og 750 millj. kr. eða 550 millj. á ári. Hér er m.ö.o. um þann aukalega hagnað að ræða sem hinn nýi samningur getur fært íslensku þjóðinni á þessum árum og líklegt er að hann geri. Í þessu sambandi má minna á að verðið samkvæmt þessum nýja samningi liggur á bilinu 12.5 mill til 18.5 mill. Hann hefði gefið okkur 13.8 mill hefði hann gilt á þessu ári. En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvort samningurinn er slæmur miðað við orkuverðið annars staðar í veröldinni, eða Evrópu og Ameríku. Er þetta sæmilegur samningur eða góður samningur?

Mjög miklum tíma og orku var eytt af hálfu íslenskra sérfræðinga og sérfræðinga Alusuisse í að kanna hvað álbræðslur greiddu fyrir orku bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það var þáttur í því verki að kanna samkeppnisaðstöðu álbræðslu á Íslandi. Gerð var mjög ítarleg skýrsla, vönduð og nákvæm þar sem fram kemur hvaða orkuverð álbræðslur greiða í Evrópu og í Bandaríkjunum og lágu þær upplýsingar þó ekki alltaf á lausu. Niðurstaðan var óumdeilanleg, bæði hvað álit íslensku sérfræðinganna varðaði og þeirra svissnesku. Hún er sú að meðalverð sem álbræðslur greiða í Evrópu fyrir orkuna í dag er 14.6 mill og það sem þær greiða í Bandaríkjunum er rúmlega 20 mill. Þetta eru sem sagt staðreyndir sem ekki verður vikið til hliðar. Verðið er hæst á Spáni, 19 mill, en lægst í Noregi, 8.7 mill. Viljum við þó gjarnan bera okkur saman við Noreg í þessum efnum sem hefur verið okkar helsta samkeppnisland.

Nýlega gekk gerðardómur í Grikklandi um orkuverð til álversins þar. Sú orka sem kemur frá vatnsorkuveri er aðeins seld á 10 mill í Grikklandi. Hins vegar fékkst hækkun á orkunni frá brúnkolaveri upp í 19.5 mill. Meðalverðið í Grikklandi er því aðeins 15 mill. Við höfum þessar tölur alveg svart á hvítu og það þýðir ekkert að reyna að vefengja þær eða gera þær tortryggilegar, nema þá að koma með betri tölur og betri rök en hér hafa sést í því efni.

Gerð var rannsókn á samkeppnisstöðu álvers á Íslandi. Þar var litið á marga þætti eins og flutningskostnað, vinnulaun, orkuverðið o.fl. Sérfræðingar Íslands og Alusuisse gerðu könnun á þessari samkeppnisaðstöðu, hver hún væri á Íslandi miðað við keppinautana í Evrópu og Bandaríkjunum, þau álver sem álver á Íslandi hlýtur óhjákvæmilega að keppa við. Niðurstaðan varð sú, að vegna fjarlægðar og annarra atriða væri samkeppnisstaðan á Íslandi gagnvart álverum í Evrópu lakari sem nemur allt að 4 millum og sem nemur 5 millum gagnvart álverum í Bandaríkjunum. Þetta þýðir í raun að miðað við að meðalverðið í Evrópu er 14.5 mill ætti raunverðið að vera á Íslandi 10.5 mill. Það er það ekki því eins og fram hefur komið hafa náðst samningar um miklu hærra raforkuverð, að lágmarki 12.5 mill, að hámarki 18.5 mill næstu fimm árin. Hér hefur náðst miklu hærra orkuverð en þessi rannsókn leiddi í ljós.

Þá kem ég enn að öðrum þætti þessa máls. Við höfum hér bil, orkuverðið hleypur á 12.5 til 18.5 mill. Ég held það hafi komið mjög glögglega í ljós í samningaviðræðunum við Alusuisse að um tvær leiðir var að fara. Annaðhvort að hafa slíkt bil í verðmynduninni eða semja um eitt ákveðið verð með einhvers konar verðtryggingu. Það lá ljóst fyrir að sú tala hefði verið við neðri mörkin, nálægt 12.5. Það hefði verið mjög ólíklegt ef öllu hærri tala en 12.5–13 mill hefði út úr því fengist. Sá kostur var þess vegna tekinn að hafa bil hvað verðið snertir allt upp í 18.5 mill og verðtryggja það með tengslum við álverð.

Þar af leiðandi er mjög eðlilegt að menn spyrji: Hvað er líklegt að orkuverðið verði þá á komandi árum? 13.8 í dag hefði samningurinn gilt. En hvað verður það á næstu fimm árum þar til má taka orkuverðið aftur upp til endurskoðunar eins og samninginn allan?

Það er ákaflega erfitt að spá um framtíðina. Engu að síður hafa menn gert tilraunir til, og Landsvirkjun hefur haft samband við þrjú mjög virt ráðgjafarfyrirtæki sem Íslendingar þekkja vel til að gefa álit sitt og gera sérstakar tölvuspár um hver verði þróun álverðs næstu fimm árin. Það er nauðsynlegur grundvöllur þess að unnt sé að gera sér grein fyrir hvert orkuverðið verður næstu fimm árin vegna þess að orkuverðið er tengt álverði. Þeir eru sammála um að líkur séu til að jafnvægi náist á álmarkaðinum, en álverðið hefur verið í lágmarki að undanförnu, og að verðið hækki.

Ein ástæðan til þess að ætla að álverðið muni hækka í framtíðinni að mati þessara sérfræðinga er staða Bandaríkjadollars á gjaldeyrismörkuðunum, en dollarinn er eins og stendur mjög hátt skráður og flestir spá því að hann geti ekki haldið þessari styrku stöðu mjög lengi enn. Þessi staða dollarans veldur því að framleiðslukostnaður áls í Bandaríkjunum er mun hærri en t.d. í Evrópu, en við núverandi ástand á álmörkuðunum virðist framleiðslukostnaður í álverum á síðarnefnda svæðinu vera ráðandi um verðið á meðan álver í Bandaríkjunum tapa.

Þetta veldur því að ef dollarinn fellur hækkar álverðið í dollurum, en stendur í stað mælt í öðrum myntum. Þær spár um álverðið, sem Landsvirkjun hefur fengið, endurspegla þessi sjónarmið í mismunandi mæli. Ráðgjafarfyrirtæki sem breskur sérfræðingur að nafni J.F. King rekur tekur t.d. ekki tillit til áhrifa af gengisbreytingu dollarans og reiknar með að álverðið 1988 fari upp í 72 cent á pund á verðlagi 1984. Hin fyrirtækin, Chase Econometrics og Resource Strategies Co., styðjast við hagræn reiknilíkön við gerð spánna og reikna með að dollarinn veikist og verðið fari 1988 upp í 77 cent annað fyrirtækið og hitt upp í 90 cent pundið. Þetta eru spár sem ganga í sömu átt.

Almennt séð og til að gera langa sögu stutta er það niðurstaða Landsvirkjunar í ljósi þessara sérfræðiálita, að álverðið geti sveiflast milli 54 centa og 93 centa á pundið á tímabilinu 1985-1989. En það meðalverð sem orkuverð til ÍSALs miðast við skv. nýjum samningum sveiflast að líkindum minna. Áætlunin í samræmi við spár ofannefndra sérfræðinga er þá sú, að mati Landsvirkjunar, að álverð muni sveiflast um 76 cent á pundið, og verður þá orkuverð á þessu tímabili 15 mill á verðlagi ársins 1984, þegar gjaldeyrismarkaðir hafa náð því jafnvægi sem spáð er. Verði sú tala, burtséð frá allra næstu mánuðum, að teljast langlíklegust sem langtímameðalverð á áli að mati Landsvirkjunar og þeirra ráðgjafarfyrirtækja sem hér eiga hlut að máli.

Nú geta menn auðvitað sagt: Þetta er allt saman hugarburður og á þessu er ekkert að byggja. Vel má vera að eitt og annað sé til í slíku tali. Hins vegar hafa menn þó, þegar þeir eru að reyna að gera sér grein fyrir framtíðarþróun í þessum málum, bæði hvað álverðið í heiminum snertir og orkuverðið, ekki annað við að styðjast en ráð hæfustu og færustu manna sem hafa af því langa reynslu að fást við þessi málefni, reka sérstök ráðgjafarfyrirtæki, gefa út tímarit og bækur þar sem um þessi mál er fjallað. — Nóg um það. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að verðið verði almennt á tímabilinu um 15 mill.

Þá langar mig til að víkja nokkrum orðum að öðru atriði sem vitanlega skiptir miklu máli þegar við erum að tala um hvað þessi nýi samningur muni gefa okkur í aðra hönd í milljörðum á næstu fimm árum og hvað hann hefði gefið okkur í milljörðum, rúma 3 milljarða, á síðustu sex árum. Það atriði sem skiptir mjög miklu máli í þessu efni er framleiðslukostnaður raforkunnar. Og hver er hann? Það ætti í sjálfu sér ekki að vera ákaflega erfitt að komast að hinu sanna í því máli og ætti að vera fullkomlega ástæðulaust að deila um hver er framleiðslukostnaður rafmagns á Íslandi. Menn þurfa ekki annað en líta í bækur Landsvirkjunar þar sem það stendur svart á hvítu. Menn geta síðan reynt með alls konar reikningskúnstum að koma með nýjar tölur, sem að vísu eru byggðar á þeim grunni sem er að finna um framleiðslukostnaðinn í bókum Landsvirkjunar, en með því að taka inn nýtingarhlutfallið. Það er vitanlega mjög mismunandi frá ári til árs. Það er allt annað stuttu eftir að ný virkjun er komin í gagnið heldur en löngu eftir að ný virkjun hefur verið byggð. Þá er nýtingin miklum mun betri og hlutfallið að því leyti til hagstæðara. En það sem stuðst er við hér á landi sem annars staðar, þegar framleiðslukostnaður raforku í raforkuverum er reiknaður út, er hvað kostar að framleiða hverja kwst. Það er kostnaðurinn miðað við heildarorkumagnið.

Hver er þá framleiðslukostnaðurinn hjá Landsvirkjun? Það vill svo til að um það fékk iðnn. Nd. ákaflega ítarlegar og greinargóðar upplýsingar frá forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Satt að segja tel ég ákaflega hæpið fyrir hv. þm. að rengja þær því að ég tel að þeir hafi ekki betri upplýsingar í sínum fórum en þessir ágætu starfsmenn þessa fyrirtækis. Mig langar til þess, svo að það komist þó allavega í Alþingistíðindi, að nefna örfáar tölur, án þess að þreyta þingheim á löngum talnalestri. Þær tölur eru teknar úr bókum Landsvirkjunar um framleiðslukostnaðarverðið.

Þá tek ég fyrst orkukostnaðinn frá Búrfellsvirkjun skv. bókum Landsvirkjunar, en þaðan fær ÍSAL sína orku og þess vegna er eðlilegt að á það sé fyrst litið. Skv. bókum Landsvirkjunar er framleiðslukostnaður orkunnar frá Búrfelli fyrir stóriðju í dag 5.3 mill við stöðvarvegg. Ef við tökum allt flutningskerfið með, en inni í þeirri tölu er kostnaður við allar byggðalínurnar og þess vegna talið óeðlilegt að sumu leyti að sú tala sé tekin í heild, er framleiðslukostnaðurinn á orkunni frá Búrfelli með flutningi 8.6 mill. Ef vaxtagreiðslum á árinu er hins vegar skipt á milli rekstrareininga í kerfi Landsvirkjunar í hlutfalli við endurmetinn stofnkostnað kemur í ljós að kostnaðarverð orkunnar frá Búrfellsvirkjun á þennan máta til stóriðju er við stöðvarvegg 8.4 mill. Það er raunverulega sú tala sem við höfum til viðmiðunar. Ef við bætum flutningnum við fáum við 11.9 mill. Það liggur sem sagt í augum uppi að frá Búrfelli kemur orka sem í framleiðslu er langt fyrir neðan það verð sem við fáum fyrir hana skv. nýja samningnum frá ÍSAL. Það liggur ljóst fyrir.

Nú munu sumir segja að það sé óeðlilegt að miða einungis við Búrfeil í þessu sambandi. Líta verði á allt landið sem heild. Það er ósköp auðvelt. Ef meðaltal kostnaðarverðs frá öllum virkjunum er tekið, hvað kostar þá orkan til stóriðju? Það er einfalt. Hún kostar 9.7 mill til stóriðju við stöðvarvegg. Bætum flutningskostnaðinum við frá öllum virkjunum, sem er vitanlega ekki rétt að gera í þessu tilviki (við erum að tala um ÍSAL og Búrfell), þá er það rúmlega 12 mill og er það meðaltalið af öllum virkjunum. Síðan hefur það gerst í umræðum um þetta samkomulag í blöðum og fjölmiðlum og einnig hér í þingsölum að varpað er fram tölum sem liggja nærri 20 millum og sagt: Það er kostnaðarverð orkunnar. Það er það verð sem við hefðum átt að semja um.

Það er ákaflega erfitt að semja við aðra þegar menn eru alltaf að semja í huganum við sjálfa sig. Það hefði verið ákaflega æskilegt ef við hefðum getað samið um 30 eða 40 mill fyrir þessa orku, en það var vitanlega aldrei inni í myndinni vegna þess að meðan orkan er 14.5 mill í Evrópu að meðaltali semur enginn um 2530 mill á Íslandi þar sem er 4 millum óhagstæðara að reka álver en í Evrópu þar að auki.

Það sem þeir sem tala um 20 millin hafa lagt til grundvallar, en dregið fjöður yfir, er að þeir fjalla um orkuverðið frá nýjum virkjunum. Ég tek undir það, að mjög æskilegt væri að frá nýjum virkjunum á Íslandi fengjum við greitt fyrir orkuna sem næmi um 18–20 millum eða jafnvel meira miðað við verðið í dag. Ég hygg að mikið lægra sé ekki farandi vegna þess að vitanlega förum við ekki að gefa með orku sem við seljum frá raforkuvirkjunum okkar. En það er í þessu sem misvísunin felst, svo að maður noti nú kurteislegt orðalag. Þegar við erum að tala um álver frá 1966, gamla álbræðslu sem fær orku sína frá gamalli virkjun, Búrfelli, verðum við að líta á það orkuverð. En því er gleymt og í staðinn jafnan einblínt á orkuverðið frá nýjum virkjunum og sagt: Það er lélegt að fá 13, 14 eða 15 mill fyrir orkuna skv. nýja samningnum þegar framleiðslukostnaðurinn er 20 mill. Þá er undan dregið og gleymt að skýra frá því að þar er ekki um orkuverðið, framleiðslukostnaðinn að ræða frá þeirri virkjun sem orkuna skapar, heldur miðað við nýjar virkjanir. Þetta er vægast sagt heldur ódýrt bragð í málflutningi sem þessum þegar jafnmikilvægt mál fyrir land og þjóð er hér á dagskrá.

Þetta var um orkuverðið og það ætti að duga, alla vega í bili. En það mætti bæta því við, þegar við erum að ræða þessi mál, að ekki eru nema tvö ár þar til orkusalan til ÍSALs frá Búrfelli hefur greitt upp að fullu þann hluta Búrfellsvirkjunar sem þarna er um að ræða. Það er eftir tvö ár sem Íslendingar eignast meginhlutann í þeirri virkjun fyrir tilstuðlan orkusölusamningsins til ÍSALs, svo lágur sem hann var þó allt fram í september á síðasta ári eða 6.4 mill. Það atriði á ekki og má ekki gleymast í þessu sambandi.

Mér hefur orðið hér tíðrætt um orkuna því að ég minnti á að hún gaf okkur 20 millj. dollara á síðasta ári, en skattarnir aðeins 1.6 millj. Orkan er meginatriðið. En við skulum samt ekki líta fram hjá því, þegar við erum að tala um hvort æskilegt er að gera samning um orkusölu til stóriðju á Íslandi eða stækka núverandi orkuver, hver er sá hagur sem íslenska þjóðin hefur haft af álverinu í Straumsvík. Ef við lítum á þær tölur kemur í ljós að miðað við gjaldeyristekjurnar, sem við höfum haft frá Íslenska álfélaginu frá því að það var stofnað og tók til starfa, eru tekjurnar af orkunni aðeins 20% af heildarmyndinni. Það er nokkuð athyglisvert. Það sýnir sig nefnilega að orkan er aðeins lítill þáttur í þeim hag sem Íslenska þjóðin hefur haft af rekstri þessa stóriðjuvers. Það er einnig vísbending til framtíðarinnar um að unnt væri að hafa sambærilegar hagsbætur af rekstri annarra stóriðjufyrirtækja ef skynsamlega er á málum haldið af hálfu stjórnvalda.

Ef við lítum á hreinar gjaldeyristekjur nemur orkusalan aðeins 20%. Gjaldeyristekjurnar vegna orkusölunnar 1967–1983 hafa verið alls 2.5 milljarðar kr. Heildargjaldeyristekjurnar á þessu tímabili, sem runnu í íslenskt þjóðarbú, voru hins vegar tæpir 12 milljarðar kr. Skattar, vinnulaun, þjónusta og ýmislegt annað eru miklu stærri þáttur í þeim gjaldeyristekjum sem þjóðin hefur fengið frá álverinu en orkan, og hefur hún þó verið ærin tekjulind. Það er rétt að minna á þessa staðreynd vegna þess hve mönnum hættir oft og tíðum til að einblína á orkuþáttinn sem mikilvægasta atriðið í þessu efni. Orkusalan er vitanlega mikilvæg, en aðrir þættir færa þjóðarbúinu miklu meiri fjármuni í gjaldeyri en orkan. Þá eru það ekki síst vinnulaunin sem er rétt að staldra við. Vinnulaunin frá álverinu í Straumsvík námu 4.5 milljörðum kr. á þessu tímabili. Þegar rætt er um þjóðhagslegt gildi stóriðju í heild á Íslandi eru þetta tölur sem tala sínu máli og staðreyndir sem ástæðulaust er að draga fjöður yfir, en er þó af einhverjum ástæðum stundum gert.

Ég hef vikið hér að þáttum sem varða orkuverðið, framleiðslukostnaðinn og samanburðinn við orkuverð sem álbræðslur greiða í Evrópu og í Ameríku. En rétt er að víkja að fleiri atriðum sem lúta að þessu samkomulagi. Þá er ekki úr vegi að minna á að nú er í fyrsta skipti komið inn í slíka samninga endurskoðunarákvæði. Það hefur aldrei verið í álsamningnum áður. Að auki er hér einnig um verðtryggingu að ræða. Þó svo menn hafi sumir haldið því fram að svo sé ekki, þá er það rangt.

Verðtryggingin felst í því að orkuverðið er miðað við álverð í heiminum, það er tengt álverði. Í samningaviðræðunum var á það litið hvort ekki væri æskilegt fyrir Íslendinga að finna aðra verðtryggingarformúlu en tengslin við álverðið í heiminum. Ekki var óeðlilegt að menn veltu þessu fyrir sér vegna þess einfaldlega að á síðustu mánuðum hefur álverðið í heiminum verið óvanalega lágt. Það voru ýmsar verðtryggingarleiðir kannaðar og útreiknaðar. Það bar allt að sama brunni. Engin sú verðtryggingarleið sem til greina hefði komið hefði hækkað verðið frá 1966 jafnvel upp í það verð sem náðist með bráðabirgðasamkomulaginu í fyrra þegar var samið um 9.5 mill. Engin verðtryggingarformúla í samningnum 1966 hefði árið 1983 gefið okkur 9.5 mill, heldur mun lægra. Það sýnir svart á hvítu hvert gagn er í þessum algengu verðtryggingarformúlum. Ég tek aðeins eitt dæmi: Ef orkuverðið til ÍSALs hefði verið vertryggt 1966 með íslensku byggingarvísitölunni væri það nú í námunda við 7 mill. Lengra hefði það ekki farið. (Gripið fram í: En olíuverðið?) Já, ég reikna með að olíuverðið hefði eftir olíukreppuna, sem sumir nefna svo, gefið mun meiri hækkun. Það er tvímælalaust alveg rétt.

Þess vegna var gripið til þess ráðs, sem ýmsum kann að þykja misjafnlega snjallt, að tengja orkuna álverði. Það vildi svo til að þar höfðu menn ágæta fyrirmynd. Í frv. sem nokkrir Alþb.-menn lögðu fram hér á Alþingi snemma árs 1983 um einhliða ráðstafanir gagnvart ÍSAL var gengið út frá því að í upphafi yrði orkuverðið 12.5 mill eins og nú hefur verið samið um. Það má segja að við séum raunverulega að feta í fótspor þess frv. Þar af leiðandi er hv. 5. þm. Austurl. að þessu leyti brautryðjandinn. Síðan, ef ekki næðust samningar, var meiningin að stjórn Landsvirkjunar gæti hækkað orkuverðið, þar til samningar næðust, upp í 15–20. Það er í stórum dráttum eins og nú er búið að semja um.

En aðalatriðið, sem ég vildi undirstrika hér, var að í þessu ágæta frv. Alþb.-manna, sem mjög fróðlegt er að fletta og skoða, er gengið út frá því að orkuverðið verði tengt álverði. Það er það sem nú hefur gerst. (Gripið fram í: Með hvaða hætti?) Ég ætla ekki að fara að lesa upp úr frv. sem hv. þm. hefur sjálfur samið. — Það er einmitt það sem hér hefur verið gert. Eftir því sem álið hækkar hækkar orkuverðið. Ég gat áðan um að spár í því efni ganga út á að verðið verði á næstu fimm árum að meðaltali 15 mill og undir lok tímabilsins sennilega komið upp í 18.5. Ég endurtek að þetta eru spádómar. Það væri hvorki rétt né heiðarlegt að fullyrða þetta, þó svo maður hafi heyrt fullyrðingar sem ganga út frá hærra verði en 15 millum.

Endurskoðun er einnig inni í þessum samningsdrögum og það er í fyrsta sinn. Það ákvæði hefur farið fyrir brjóstið á ýmsum og menn talið það ýmist of veikt eða of miklar kröfur gerðar sem erfitt sé að uppfylla og þar af leiðandi erfitt að fá fram endurskoðun á samningnum.

Á það er í fyrsta lagi að benda að þótt ekkert endurskoðunarákvæði hafi verið í samningnum hefur þó tekist að fá fram endurskoðun tvisvar sinnum. Þau atriði ættu því ekki að hræða menn í þeim efnum. Hins vegar eru endurskoðunarákvæði nú skráð í samninginn. Hvor aðilinn um sig getur tilkynnt hinum að átt hafi sér stað teljandi ófyrirsjáanleg breyting til hins verra á aðstæðum, að frátöldum breytingum á valdi Landsvirkjunar og ÍSALs, sem hafi haft, eins og segir í samningnum, í för með sér alvarleg áhrif á fjárhagsstöðu Landsvirkjunar eða ÍSALs þannig að hún raski bæði jafnvæginu í samningnum og valdi óeðlilegu harðrétti fyrir þann aðila sem í hlut á.

Þeir sem þekkja til samninga sem eru svipaðir þessum vita að hér er um nokkuð almennt ákvæði að ræða. Það var forðast að hafa ákvæðið mjög nákvæmt, bundið við tiltekin tilvik, vegna þess að þá hefði það útilokað önnur tilvik. Talið var betra að hafa það almenns eðlis þar sem jafnan væri þá hægt að grípa til ýmissa röksemda. Menn hafa spurt: Gerir þetta ákvæði ekki allt of miklar kröfur? Er það ekki of þröngt? Framtíðin leiðir það í ljós. En ég held að ekki sé vafi á að til ýmissa röksemda er nú hægt að grípa til að óska endurskoðunar eftir fimm ár og á fimm ára fresti.

Hvaða atriði eru það þá sem gætu verið grundvöllur óskar um endurskoðun af hálfu Íslendinga?

Það er alveg ljóst að ef hér verður önnur bylting í orkuverðsmálum, eins og þegar olíukreppan skall yfir veröldina hér fyrir um það bil 10 árum, þá væri fullkomin ástæða til að krefjast endurskoðunar.

Veruleg breyting Bandaríkjadollars gagnvart öðrum myntum mundi í öðru lagi vera önnur ástæða vegna þess að hér höfum við miðað við dollar og það gæti gert aðstöðu okkar svo óhagstæða að við gætum krafist endurskoðunar á þeim grundvelli.

Í þriðja lagi: Breyting á samkeppnisstöðu ÍSALs hvað varðar t.d. flutningskostnað á álmarkaði, vinnulaun hjá ÍSAL á Íslandi miðað við vinnulaun í öðrum álbræðslum og þess háttar. Ef þarna er um einhverjar verulegar breytingar að ræða gæti það verið ástæða til endurskoðunar.

Í fjórða lagi: Ef söluverð á áli lækkaði verulega eða hækkaði væru komin fram atriði sem mætti kanna og athuga hvort ekki mætti byggja kröfu um endurskoðun á.

Varðandi verðtrygginguna hefur því verið haldið fram að það sé alveg ljóst að alþjóðleg verðbólga muni þýða að raunverðið hljóti að fara mjög lækkandi, það megi gera ráð fyrir 5% verðbólgu á ári í Bandaríkjunum og það þýði að eftir fimm ára tímabil sé verðið orðið lélegt og eftir 20 ár verði það komið ofan í 5 eða 6 mill. Það er ákaflega merkilegt að það er eins og þeir sem halda þessu fram, og m.a. hefur maður séð það í sumum nál. úr Ed., gleymi öllum öðrum þáttum í þessari mynd en eingöngu verðbólguþættinum. Þeir einblína á verðbólguna, en sleppa öllum öðrum þáttum sem þarna skipta meginmáli ekki síður en verðbólgan. Þannig er hægt að draga upp línurit sem sýna feikilega mikla lækkun raungildis orkuverðsins, en þá gleymist þessum góðu herrum að að það er jafnsennilegt að verðbólgan hafi einnig áhrif á álverðið í þá átt að það hækki. Verði verðbólgan í Bandaríkjunum 5 eða 10% á ári þýðir það sennilegast að dollarinn lækki, en það þýðir hækkandi verð á áli. Það eru þessir þættir sem eru einfaldlega teknir út úr myndinni, þeim er gleymt. Ég veit ekki hvort það er af ásettu ráði. En vitanlega helst þetta í hendur.

Í þessu sambandi má aðeins minna á að reiknað hefur verið út hvert yrði raungildi orkuverðsins að fimm árum liðnum miðað við lágmarks- og hámarksákvæði, ef árleg verðbólga í dollurum verður 5% og álverð þróast með sama hætti. Talan er 16.4 mill 1989. Ef verðbólgan í dollurum verður 5% og álverð þróast eins, en gengi dollarans lækkar á þessum fimm árum um 25%, verður verðið 18.5 mill 1989. Þessar tölur eru allt aðrar en þær sem við heyrðum fram haldið í umr. í Ed.

Ég skal fara að stytta mál mitt, enda er liðið að matmálstíma. Þó er ekki hægt að fara úr þessum ræðustól án þess að minnast á þriðja atriðið í þessum samningum, en það er sáttargerðin sem gerð var.

Það hefur verið mjög deilt á ríkisstj. fyrir að hafa tekið þá stefnu að gera dómsátt í þessu máli, ýta til hliðar þeim deiluefnum sem hafa komið í veg fyrir það sannanlega að unnt hafi verið að semja miklu fyrr, t.d. 1979. Menn hafa heyrt hvað það hefur haft í för með sér í beinu tapi fyrir þjóðina. Þess vegna var brugðið á það ráð nú, þegar ljóst var að mál fyrir dómnefndum mundu mjög dragast á langinn, m.a. vegna veikinda og dauðsfalls íslenska dómarans í New York, að gera sáttargjörð gegn því að Alusuisse greiddi verulegt fé, 3 millj. dollara í sáttafé.

Kannske er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort þetta var skynsamlegt eða ekki. Átti að halda málunum til streitu? Það sem mælir fyrst og fremst gegn því að halda málunum til streitu var að ljóst lá fyrir að það mundi taka ár og kannske tvö að ljúka málunum. Við hefðum setið enn í sömu úlfakreppunni og m.a. ekki fengið neinar auknar tekjur af orkusölunni. Menn gátu auðvitað tekið þá áhættu. Menn gátu eins beðið næstu tvö árin eða hvað það hefði orðið. Úr því varð ekki og væri hægt að tala lengi um það að hér var skynsamlegri kosturinn valinn af tveimur. Ég ætla ekki að fara að orðlengja um það, en vildi einfaldlega minna á að við höfum fyrirliggjandi í skjölum álit tveggja helstu sérfræðinga fyrrverandi iðnrh. og núverandi iðnrh. í þessum efnum.

Við höfum skjalfest álit forstjóra Coopers & Lybrands, hins virta endurskoðunarfirma sem stanslaust var vitnað í fyrr á árum, og við höfum einnig skjalfest álit lögfræðilegs ráðgjafa fyrrverandi iðnrh. sem Lipton heitir og starfar í New York. Hann var helsti ráðgjafi ríkisstj. í þessum efnum og hefur verið enn til þessarar stundar í sambandi við dómsmálið í New York.

Það er þess vegna fróðlegt að heyra hvað þessir háu herrar, sem enginn mundi saka um að væru sérstaklega vilhallir hæstv. iðnrh. sverri Hermannssyni vegna forsögu málsins, segja um það að ákveðið var að ganga til sátta. Ég vitna fyrst í bréf frá forstjóra Coopers & Lybrands sem Donald Chilvers heitir og er skrifað 28. júlí 1983. Þar segir hann:

„Mér segir helst hugur um að það hefði alvarlega óskosti í för með sér fyrir ríkisstj. að halda gerðardómsmeðferðinni áfram og að mun æskilegra væri að jafna deiluna með samningsgerð.“

Ég skýt því hér inn í að þá var enginn hér á landi eða í samninganefndinni farinn að velta sáttum fyrir sér. Hér talar sá maður sem hefur fengist við alþjóðlegar deilur í áratugi og sér málið í þessu ljósi. Kannske var þetta fyrsta frækornið að því að menn fóru að velta samningum og sáttum fyrir sér.

Æskilegra hefði verið að jafna deiluna með samningsgerð, segir forstjóri Coopers & Lybrands.

Síðar segir hann:

„Eftir því sem ég hef fylgst með þróun deilunnar virðist mér helst að tillit til stjórnmála hafi að nokkru leyti magnað hana. Skýrslur okkar, um endurskoðun á afkomu ÍSALs árið 1980, hafa verið notaðar á þann hátt sem við höfðum ekki búist við“ — hér er verið að tala um árabilið áður en þessi ríkisstj. tók við — „og umræður um niðurstöður okkar virðast ekki hafa gengið nógu langt til að skapa fastan grundvöll fyrir röksemdafærslu í málflutningi fyrir gerðardómi.“ Síðan bætir hann við:

„Það er vegna þessara vandamála“ — hann er búinn að rekja mörg vandamálin sem koma upp í málflutningnum fyrir dómnefndunum — „sem við höfum komist að þeirri niðurstöðu að mjög æskilegt væri að semja um reikningsskil,“ þ.e. að gera sátt. „Þá yrði komist hjá óvissu og talsverðum útgjöldum í sambandi við langdregna gerðardómsmeðferð og væntanlega mundi Alusuisse fagna því, en með tilliti til lélegrar afkomu félagsins á undanförnum árum ætti það að gleðjast fyrir því að fækka vandamálum sínum.“ Þetta er raunsær maður.

„Mögulegir skilmálar sáttar kynnu að vera:

1. Ríkisstj. mundi leggja kröfu sína um að endurmeta skattgjöld ÍSALs fyrir tímabilið 1975–1979 til hliðar.“ — Takið eftir: til hliðar. Sá maður sem gerst þekkir til bókhalds og til málsins alls, forstjóri Coopers & Lybrands, segir einfaldlega: Skattakrafan fyrir 1975–1979 er svo vonlaus að þið skuluð leggja hana til hliðar. Það er hans mat.

„2. Ríkisstj. mundi semja um uppgjör viðbótarskatts sem krafist er fyrir árið 1980 að upphæð 2.6 millj. Bandaríkjadala.“ Það er næstum hálfri milljón dollara lægra en Alusuisse varð að greiða samkvæmt kröfu íslenskra stjórnvalda. Eftir að farið var að ráðum þessa merka endurskoðunarforstjóra fékkst þá mun meira sáttafé en hann hafði getað gert sér í hugarlund á miðju síðasta ári.

Hvert er álit lögfræðingsins á sáttargjörð? Ég vitna í bréf hans frá 4. okt. 1984:

„Frá upphafi,“ segir mr. Lipton, „hef ég verið þeirrar skoðunar að það ætti að vera einn helsti tilgangur ríkisstj. í deilunni að ná samningum um réttlátt og rýmilegt orkuverð og að umsamin lausn deilunnar, sem stuðla mundi að því að koma þessu í kring, mundi þjóna hagsmunum ríkisstj. best. Ég hafði vonast til og vænst þess að gerðin og síðari málsmeðferð dómnefnda mundi leiða til þessa árangurs.

Ef ætla má“, heldur mr. Lipton áfram, „að væntanleg lausn leiði einnig til orkuverðs samkv. rafmagnssamningnum milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins sem ríkisstj. getur sætt sig við er það skoðun mín að uppgjör krafna um framleiðslugjöld fyrir árin 1976–1980 á þeim grundvelli að Alusuisse greiði ríkisstj. 3 millj. Bandaríkjadollara mundi vera mjög viðunandi lok skattadeilunnar.“ — Ég endurtek orð mr. Liptons: Mundi vera mjög viðunandi lok skattadeilunnar.

Það er kannske rétt að lesa hér enn einn kafla undir lokin og þá vitna ég aftur í mr. Lipton:

„Það er vafasamt,“ segir hann, „að ríkisstj. geti vænst betri árangurs en þeirra 3 millj. Bandaríkjadala sem Alusuisse býður til uppgjörs ef málarekstri samkvæmt bráðabirgðasamningnum yrði haldið áfram til loka og dómnefnd sérfræðinga í lögum mundi gefa álit sitt eða úrskurð undir þessum kringumstæðum“.

Hér er mjög varkár maður að tala. Hann segir að vafasamt sé að ríkisstj. geti vænst betri árangurs en þarna var samið um.

Miðað við álit þessara merku sérfræðinga og sérstöku ráðunauta fyrrv. ríkisstj. í stóriðjumálum, eindregnar ráðleggingar, þá held ég að ákaflega erfitt sé að áfellast íslensk stjórnvöld í dag fyrir að hafa tekið það ráð að gera dómsátt í málinu. Þvert á móti mundi ég vilja fullyrða að það hefði verið hið mesta glapræði og teflt á tvær hættur og í algera tvísýnu að fara ekki að ráðum þessara mætu manna. Það var sem betur fer gert og fyrir liggur nú niðurstaða og árangur í því efni.

Hér mætti auðvitað tala lengi um sáttargjörðina að öðru leyti. Ýmis atriði hafa þar verið gagnrýnd. Eitt af því er að fallist hafi verið á að leyfa ÍSAL að afskrifa mengunarvarnaútbúnað í skemmri tíma en upphaflega var um talað. Það skiptir náttúrlega litlu máli einfaldlega vegna þess að það er hagstæðara að leyfa afskriftir nokkru hraðar meðan fyrirtækið stendur tiltölulega illa. Það er von til að það standi betur síðar. Þá myndast möguleikar á hærri skattgreiðslum. Hér er því engu tapað. Þvert á móti.

Það hefur og verið gagnrýnt að nú er komið inn í sáttargerðina að endurskoða skuli bækur ÍSALs árlega. Af hverju er það? Það er vegna kröfu Íslendinga. Af hverju var sú krafa sett fram? Af því að fyrrv. ráðh. lét ekki endurskoða 1978 og 1979. Það var vanrækt, sem reyndist ein ástæða þess að talið var ákaflega erfitt að sækja málið fyrir þau ár. Rétturinn var jafnvel glataður því endurskoðun fór ekki fram. Það er okkar krafa nú að endurskoðað verði árlega og það er alveg sjálfsagt því ekki viljum við að menn komist upp með einhvers konar undanbrögð hvort sem fyrirtækið heitir ÍSAL eða eitthvað annað.

Það er verið að gagnrýna hvernig farið hefur verið með varasjóðinn hér og gengismuninn. ef ég man rétt.

Hvað ætlast menn fyrir í þeim efnum? Það sem um er samið í þessu samkomulagi er ekkert annað en það hvað varasjóðinn og gengismuninn snertir að hér er farið að reglum íslenskra skattalaga. Eru menn á móti því að fara að reglum íslenskra skattalaga? Telja menn þau lög gölluð eða ranglát? Þá ættu menn, frekar en að vera að gagnrýna þessa meðferð, að bera fram frv. um breytingu á þeim ákvæðum skattalaganna sem um þessi atriði gilda. Það er sjálfsagt og eðlilegt að reglur íslenskra skattalaga gildi um meðferð gengismunar og varasjóðs ÍSALs sem annarra félaga sem hér á landi starfa.

Óskaplega miklu púðri og miklu máli hefur verið eytt í umræður um ákvæði í aðstoðarsamningum eða tæknisamningi, rekstrarsamningi, ákvæði 2.03 (e), þar sem rætt er um bestu kjör og er til skýringar og útlistunar á ákvæðum aðalsamningsins í þessum efnum. Þetta ákvæði hefur verið deiluefni allt frá byrjun. Það er lögfræðilegur ráðgjafi, Firma Freeman í London, sem hefur haldið því fram að þetta ákvæði ætti tvímælalaust að gilda alfarið við túlkun á ákvæðum aðalsamningsins. Í aðalsamningnum segir að Alusuisse beri að eiga viðskipti við ÍSAL hvað aðföng varðar á því verði sem tíðkast í viðskiptum óháðra aðila. Það er til að tryggja að ekki sé um „hækkun í hafi“ að ræða, að verðið sé ekki falsað. Ákvæðið í aðalsamningnum er vitanlega meginvörnin gegn óheiðarlegum viðskiptaháttum. Þetta ákvæði 27.03 er óbreytt. Hér eftir sem hingað til verður verðið á aðföngunum eins og í viðskiptum óháðra aðila, þ.e. seilingarfjarlægðarverð eins og það stundum hefur verið þýtt. Nú er það fram tekið, svo að það valdi ekki frekari deilum í framtíðinni, að þetta „bestuskilmálaákvæði“ eigi aðeins við þegar um er að ræða viðskipti við aðila utan samsteypunnar, en ekki þegar um er að ræða viðskipti innan samsteypunnar. Þá gildir meginreglan sem á að hindra að menn geti breytt verðum óeðlilega. Með það á að fara eins og um viðskipti óháðra aðila væri að ræða og það er venjulegt ákvæði í slíkum samningum. Í því felst sú vörn sem verður að telja nægilega í þessu efni.

Því hefur verið haldið fram í deilunni við Alusuisse og því var auðvitað haldið fram allt þar til sáttargerðin var gerð, að þetta ákvæði í aðstoðarsamningnum væri til eðlilegrar túlkunar og skýringar á ákvæðum aðalsamningsins, en nú hafa verið settar um það skýrar reglur sem ekki eiga að leiða til deilna í framtíðinni. Vera má þó að allt þetta mál verði úrelt ef samið verður um nýtt skattafyrirkomulag við ÍSAL og Alusuisse frábrugðið því sem nú gerist, þannig að ekki verði tekið mið af hagnaðarsjónarmiðinu. Að mínu mati væri það mjög æskilegt. Þá þurfa menn ekki að deila um verð á aðföngum. Þá þurfa menn ekki lengur að della um „hækkun í hafi“. Þá væri einfaldlega um að ræða að aðföngin væru ákveðin prósenta af heildarframleiðslukostnaði áls eða að ákveðinn skattur væri lagður á hvert tonn, eins konar veltuskattur, og þá mundu engar slíkar deilur um þetta geta risið í framtíðinni. Það væri einfaldasta, hagkvæmasta og besta fyrirkomulagið í þessum efnum. Umræðum um það og samningaumleitunum á að ljúka fyrir 1. júní á næsta ári. Skattamálin eru þess vegna enn óuppgerð og það er ástæða til að undirstrika það. Umræður eiga eftir að fara fram um nýtt kerfi. Að því miða báðir aðilar.

Annað atriði er enn ósamið um. Það er stækkunin sem sumir hafa mjög miklað fyrir sér. Ummæli hvað hana varðar er að finna í bréfi um samkomulag sem iðnrh. undirritaði 5. nóv.. 1984 um leið og þetta samkomulag. Þar er fjallað um stækkun bræðslunnar, 40 þús. tonna afkastagetu. Menn hafa viljað, sennilega, af misskilningi, túlka þennan stutta texta sem svo, að með því væri verið að veita einu fyrirtæki einokun, með því væri verið að veita einu erlendu fyrirtæki einokunaraðstöðu á íslenska orkumarkaðinum. Hér væri verið að binda það fastmælum að álverið skyldi stækkað um 50% og í öðru lagi yrði það Alusuisse sem að því mundi standa og þá væntanlega með orkuverði sem það sjálft mundi ákveða.

Hér er um hinn mesta misskilning að ræða. Hér höfum við ekki undirgengist nemar skuldbindingar, og ég endurtek: ekki neinar skuldbindingar, heldur lýsum við aðeins vilja okkar til að skýra Alusuisse frá því hvaða kjör og skilmála við mundum telja æskilegt að setja fram varðandi verð á raforku til hugsanlegrar — og ég undirstrika: hugsanlegrar stækkunar — ef til þeirrar stækkunar mundi koma. Hér er ekki um neinar skuldbindingar að ræða. Það er þess vegna ekkert í þessum texta sem bindur okkur í fyrsta lagi við að stækka bræðsluna né heldur að selja orku á öðru verði en því sem við sjálfir teljum nægilega hátt. Í þessu efni er því ekki hin minnsta hætta fólgin. En af einhverjum ástæðum hefur verið reynt að teygja þetta atriði og toga, eins og svo mörg önnur atriði í þessu máli öllu.

Það er alveg ljóst að stóriðja er ekki nein allsherjarlausn á efnahagsvanda þjóðarinnar sem er svo mjög til umræðu í dag. Hér verður að ganga fram með fullri gát og varkárni og gæta þess að leggja ekki of mikið undir í einu. Hinu verður þó varla með rökum á móti mælt að það er skynsamlegt fyrir þjóðina að nýta þá miklu orku sem enn er óbeisluð í fallvötnum landsins og þá ekki síður til stóriðju en annarra hluta. Skynsamlegir samningar við erlenda aðila er grundvallarforsenda í þessu efni-samningar sem bæði tryggja arðgjöf og atvinnu á komandi árum. Á þann hátt getur stóriðja orðið sú lyftistöng sem íslenskur þjóðarbúskapur þarf á að halda.