28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 4. minni hl. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Má ég biðja forseta að kalla hæstv. iðnrh. í salinn? (Forseti: Já.) Það verður ekki langt, hæstv. ráðh. (lðnrh.: Nei, ég var bara að klára kaffið mitt.) Já, það var gott.

Hæstv. ráðh. sagðist vera nískur á fé, en það er eitt víst að ekki er hann nískur á umhyggju fyrir velferð kvenna. En ósköp fer hún nú að verða sífelld þessi umhyggja og einlægni þeirra sem hafa sjálfstæðari skoðanir á þjóðmálum en aðrir. Það linnir ekki látum þeirra úr ræðustól Alþingis, í dagblöðum og öðrum fjölmiðlum upp á síðkastið og ekki mundi ég segja að þar færu blíðulætin ein. Jafnvel í svo alvarlegu máli þjóðhagslega, eins og þetta álmál er, þá láta menn ekki sitt eftir liggja og bæta við orðaforðann sem nú er orðinn hinn fjölskrúðugasti og þeir velja Kvennalistakonum. Eru þar mikil skáldskaparmál, sumt heiti og annað líklega kenningar, en fæst eru þau virðuleg eða vingjarnleg og ekki í takt við þá einlægni og umhyggju sem menn segjast bera. Þar eru „aftaníossur“ og „fylgikonur“, þar eru „lagskonur“ og „meðreiðarsveinar“. Þar eru „taglhnýtingar, vinnukonur, handlangarar, svuntur á Alþb.“ og „þær sem gegna kalli móðurskipsins“ og svo mætti lengi telja en mig brestur minni. (lðnrh.: Ég á nú fæst af þessu.)

Er þarna ein af fáum frjósömum garðholum á þeim bæ þar sem menn velja þeim nöfn sem þeir segjast bera umhyggju fyrir.. Er hún athyglisverð, hugmyndaauðgin á þessu sviði, og óskandi að henni brygði fyrir á fleiri sviðum en þó varla að vænta því að þetta hreppapólitíska hnútukast er jú sérþekkingarsvið.

Nei, ég held nú ekki að þetta sé eintóm umhyggjan. Hitt þætti mér líklegra að þarna séu hörundssárir menn sem kúra volandi í kulda og trekki, sjá sem í hillingum atkvæði sín fjara frá sér og bregðast til varnar. Og svo mikið er úrræðaleysi þeirra að þeir kunna ekki önnur ráð en að sparka frá sér og berja aðra niður í stað þess að líta í eigin barm, endurmeta ástandið og byggja upp sinn eigin sjálfstæða flokk og gera hann meira aðlaðandi fyrir konur. Ja, miklir menn erum vér, Hrólfur minn.

Eftir öllu þessu tannagnístri og hnéskeljaglamri að dæma hlýtur jafnvel fávísum konum að detta í hug að nú séu kosningar í nánd. Hvað varðar stefnu Samtaka um kvennalista í stóriðjumálum þá hefur hún verið ákveðin og skýr allt frá upphafi og reyndar ólík stefnu annarra flokka og samtaka á þessu Alþingi Íslendinga og því ekki hengd aftan í einn eða neinn. Það væri ómaksins vert fyrir svo umhyggjusaman ráðh. að kynna sér þessa stefnu og því færi ég honum hér með lítið kver með stefnu samtakanna.