16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

44. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í febrúar s.l. mælti ég fyrir frv. til l. um Ljósmæðraskóla Íslands sem samið var af stjórnskipaðri nefnd sem í áttu sæti m.a. fulltrúar frá Ljósmæðraskóla Íslands og Ljósmæðrafélagi Íslands. Áður en til framlagningar kom var leitað samráðs við menntmrn. um yfirstjórn skólans og varð að samkomulagi að heilbrmrn. annaðist hana áfram.

Í frv. var lagt til að ljósmæðranám yrði framhaldsnám hjúkrunarfræðinga og var því til stuðnings á það bent að ljósmóðurfræði eins og þau fræði eru nefnd á síðari tímum, væri sérgrein innan hjúkrunarfræðinnar og að þróunin væri þessi í þeim nágrannalöndum sem byggju við svipað heilbrigðiskerfi og við Íslendingar. Ég lagði ekki sjálfur efnislegt mat á þessa skipan en lagði á það sérstaklega áherslu að þau atriði sem mestu máli skipta fengju gaumgæfilega umfjöllun í fullu samráði við hagsmunaaðila í nefnd þeirri sem áður er vikið að.

Ég vissi ekki betur en að samstaða ríkti um málið. Annað kom hins vegar á daginn. Þegar frv. var til meðferðar í nefndinni linnti ekki athugasemdum. Um miðjan mars s.l. fór ég því þess á leit við þingnefnd í fyrri deild, í Ed., að gerðar yrðu ákveðnar breytingar á frv. ef það mætti auðvelda lausn málsins. Það bar ekki tilætlaðan árangur og fór svo að málið var afgreitt í fyrri n. og fyrri deild, Ed., og vísað til n. í Nd. sem ekki skilaði áliti.

Hefði mér verið kunnugt um þann hringlanda sem ríkti um nokkur veigamikil atriði frv. hefði ég aldrei lagt það fram á síðasta þingi í þeirri mynd sem það var lagt fyrir. Ég fæ ekki séð að úr þessu hafi ræst þann tíma sem liðið hefur milli þinga og ég kannast ekki við að hafa fengið nein tilmæli um að endurskoða frv. frá þessum aðilum eða frá heilbr.- og trn. Nd. Það er því í fyrsta sinn sem ég heyri það nú hjá hv. fyrirspyrjanda.

Ég fæ því ekki séð að úr þessu hafi ræst þennan tíma sem liðið hefur milli þinga og ég mun ekki að óbreyttu ástandi leggja málið fyrir yfirstandandi þing. Ég hef í engum manni heyrt frá félaginu síðan þetta frv. var hér til meðferðar svo að ekki bendir það til að mikill áhugi sé fyrir að koma þessu máli fram. En mér er það sönn ánægja að flytja frv. að nýju ef þessir aðilar geta náð samkomulagi um þessi efnisatriði frv. Um það reyndi ég að fá samkomulag en tókst ekki betur en þetta. Málið dagaði sem sagt uppi í nefnd í Nd. og aðallega út af einu atriði sem Alþingi hefði þá átt að höggva á. En á meðan ekki heyrist frá þeim sem hér eiga hagsmuna að gæta mun ég ekki flytja frv., a.m.k. ekki fyrr en það kemur frá þessum aðilum og samkomulag næst um þessi tilteknu atriði.