28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur með glöggum og greinargóðum hætti gert grein fyrir sjónarmiðum okkar Alþb.-manna í því máli sem hér liggur fyrir. Í rauninni hef ég engu efnislega þar við að bæta. En ein ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var hin almenna meðferð þessa máls og sá lærdómur sem hugsanlega er hægt að draga af henni frá síðustu 20 árum, en núna eru bráðum tveir áratugir síðan ákveðnir menn fundu það upp að það væri brýnasta verkefni þjóðarinnar að koma orku fallvatnanna í lóg vegna þess að sú auðlind yrði ónýt og óseljanleg innan mjög skamms tíma.

Leiðtogar þjóðarinnar í því máli — að selja orkulindirnar fyrir lítið fé — voru forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl. á þeim tíma. Það voru miklir endemissamningar sem voru gerðir 1966 og það voru ítarlegar umr. sem fram fóru þá hér á hv. Alþingi. M.a. var flutt um það till. af stjórnarandstöðunni að þessi samningur yrði ekki að lögum nema fram færi fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla og hann samþykktur þar. Svo mikið töldu menn þá liggja við í Framsfl. og Alþb. að þeir töldu óhjákvæmilegt að spyrja þjóðina í heild: Hver er afstaðan til þessa samnings?

Í umr. um þetta mál var á það bent að veruleg hætta væri á því að álhringnum tækist að kljúfa þjóðina í fylkingar, að reka fleyga í íslensku þjóðina. Talsmenn Framsfl. á þeim tíma, eins og hæstv. núv. forseti Nd. og hv. þáv. formaður Framsfl. o.fl., bentu á þessa stórfelldu hættu, — að hringurinn mundi eignast menn og eignast blöð og eignast stjórnmálaflokka.

Það, sem núna liggur fyrir, er að hringnum hefur tekist þetta. Að vísu leggst Alþfl., sem í upphafi studdi þetta mál, nú gegn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. En Framsfl. hefur snúið við blaðinu svo gjörsamlega að það eru fá dæmi annars eins í stjórnmálasögu síðustu ára, jafnvel þó menn fari í saumana á sögu Framsfl., sem er litskrúðugri um margvíslegar skoðanir á sömu hlutunum en saga nokkurs annars stjórnmálaafls á Íslandi fyrr og síðar.

Það plagg sem þeir hv. þm. Ingvar Gíslason og Páll Pétursson leggja hér fyrir! — Já, það er margt sem fer í gegnum Gutenberg hér frá hv. Alþingi og Gutenberg er þolinmóð prentsmiðja og tekur við ýmsu, m.a. undarlegum nál. En þetta er algjörlega einstakt plagg. Það er bæði með og á móti, móti og með málinu í öllum greinum hvernig sem það er skoðað. Framsfl. segist vera á móti stækkun álversins í dag. En í fyrra var hann með stækkun álversins. Eða eins og segir hér í till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse, með leyfi forseta: „Alþingi telur að stækkun álversins komi til greina.“ Tillögumenn eru Ólafur Þ. Þórðarson og Halldór Ásgrímsson varaformaður Framsfl.

Núna, þegar saumað er að framsókn af stuðningsmönnum Framsfl. um allt land út af aumingjaskap í þessu álmáli, reyna þeir að þvo sér í framan með því að gefa út sérstakt nál. í málinu af því að þeir þora ekki að vera á plaggi með íhaldinu og halda að þeir geti bjargað sér á hundasundi í land með því að gefa út sérstakt álit sem segir svo sem ekki neitt annað en að þeir séu bæði með sjálfum sér og á móti sjálfum sér.

Framsfl. segir í þessu máli núna að hann sé í raun og veru á móti skattabreytingum sem felist í þessu frv., þetta séu svo slæmar skattabreytingar fyrir Íslendinga. En samt er hann með málinu. Þó eru þessar skattabreytingar og reglur, sem þar er verið að breyta, til bölvunar jafnvel á samningnum 1966 eins og hv. 5. þm. Austurl. hefur hér bent á. En samt er framsókn með því að gera samninginn 1966 sem átti að senda í þjóðaratkvæði jafnvel enn þá verri en hann þá var.

Framsfl. segir: Það var vondur samningurinn 1966. En staðreyndin er sú að Framsfl. hefur nú með afstöðu sinni til þessa samnings hér í dag samþykkt öll meginskref í stefnu hinnar erlendu stóriðju á Íslandi á undanförnum árum, orkusölustefnunni, Grundartangaverksmiðjuna og þá tvo viðauka við álsamninginn sem hafa verið gerðir. Framsfl. hefur m.ö.o. breyst í þann flokk sem hæstv. forseti Nd. og formaður Framsfl. á sínum tíma vöruðu við að yrði til í landinu, að álverið eignaðist menn, það eignaðist blöð, að það eignaðist flokka.

Mikið hlýtur nú gleði þeirra í Zürich að hafa verið mikil á árinu 1983 þegar lögð var fram till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse. Ætli að hún sé ekki bara römmuð inn á kontórunum? Kannske að hv. þm. Gunnar G. Schram viti um það hvaða myndir eru þar á veggjum? (GGS: Það er ekki mynd af Karli Marx.) — Nei, það er ekki mynd af Karli Marx, nei. Það var nú ekki það sem mér datt í hug, hv. þm. En það gætu verið einhverjir aðrir þar. Ætli það sé mynd af viðræðunefndinni? Ekki enn þá? En það gæti verið innrammaður texti af þessari till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse, sem var flutt hér af þremur þingflokkum á árinu 1983, vegna þess að þetta var sigurplagg fyrir Alusuisse. Með þessu plaggi var það staðfest að Alusuisse hafði tekist að kljúfa þjóðina, að kljúfa þá þjóðarsamstöðu sem mögulegt var að byggja upp í þessu máli. Það er kjarni málsins. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við erum að eiga hér við óprúttinn erlendan auðhring sem svífst einskis og það er ekkert betra í hans augum en að andstæðingur hans sé klofinn í margar fylkingar.

Síðan hefur það verið að þróast með ýmsum hætti að Framsfl. hefur gengið lengra og lengra á þessari braut. En á sama tíma hefur það að vísu gerst að Alþfl. hefur tekið afstöðu á móti þeim drögum sem hér liggja fyrir, þó að formaður Alþfl. sem nú er hafi aldrei þessu vant ekki, svo mér sé kunnugt um, látið skrá sig á mælendaskrá í þessu máli. Er það nýlunda hér í þinginu að hann skuli ekki skrifa sig á þau blöð. Það verður fróðlegt að sjá hver verður afstaða hans þegar þetta mál kemur hér til atkvæða hvenær sem það nú verður.

En þó að iðnrh. hæstv. takist að knýja mál þetta áleiðis, eins og hér liggur fyrir, er það engu að síður athyglisverð staðreynd að þessi ósköp skuli reyna svo á þingið og þjóðina að iðnn. Nd. er klofin í fjóra hluta. Það er enginn meiri hluti til sem þorir að gefa sig upp í málinu. Það eru fjögur minnihlutaálit og hygg ég að langt sé síðan jafnmörg minnihlutaálit hafa komið úr nefnd hér á hv. Alþingi. Fróðlegt væri að rannsaka hvaða dæmi eru til um fjögur minnihlutaálit úr einni fastanefnd deildar. Þau dæmi eru fá.

En tvískinnungur Framsfl. er í rauninni það athyglisverðasta pólitískt í þessu máli og það hvernig Alusuisse hefur tekist að reka fleyg í þjóðina. Það er ekki Páli Péturssyni til framdráttar og hv. þm. í þessu máli að ætla sér með gassa og fúkyrðum um hv. 5. þm. Austurl. að leysa sig frá því að flytja rök fyrir afstöðu sinni. Hann gæti sakað mig um fúkyrði, vafalaust kemur það fyrir mig að ég segi ýmis stór orð þegar mér er heitt í hamsi, en að „orðhákar“ eins og, með leyfi hæstv. forseta, hv. þm. Páll Pétursson og hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson skuli vera að vanda hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni kveðjurnar í þessum efnum, það er nokkuð athyglisvert og hygg ég að þar kasti sá steini sem í glerhúsi býr.

Það kom hér fram að hv. 5. þm. Austurl. hafði verið neitað um veigamikil gögn í þessu máli vegna þess að hæstv. iðnrh. væri með þau heima hjá sér og hann vildi ekki birta þessi gögn fyrir iðnn. Ég hygg að sjaldan hafi iðnrh. sýnt iðnn. aðra eins lítilsvirðingu og þessa. Það væri fróðlegt, hæstv. iðnrh., að fá að sjá þessi gögn, m.a. vegna þess að maður þarf að finna það út hið fyrsta hvað það er sem Alusuisse fékk ekki af sínum kröfum. Því það er ábyggilega fljóttalið. Þegar farið er yfir liði frv. kemur í ljós að óskir Alusuisse hafa verið uppfylltar ein af annarri og að lokum píndu þeir fram veigamikla breytingu á samningunum á elleftu stundu.

Í þessu sambandi, herra forseti, er sérstaklega nauðsynlegt að víkja aðeins að tölulið 9 í þessum samningi, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta.

„Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans.“

Það er þetta sem á að fara að lögfesta hér á Alþingi. M.ö.o. iðnrn. er bannað að senda út fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu um þessi mál nema Alusuisse leyfi. Ég stórefa að valdaafsal af þessu tagi á grundvallarréttindum skv. stjórnarskrá Íslands standist í raun. Verið er að afhenda Alusuisse ritskoðunarvald á fréttatilkynningar iðnrn. um þessi mál. Í 72. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta: „Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“ Verið er að leggja það til að Alusuisse fái hér ritskoðunarvald í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Ég skora á hæstv. iðnrh. að áður en þessari umr. lýkur í kvöld eða nótt lýsi hann því yfir að hann sé þrátt fyrir þetta staðráðinn í að hafa það að engu. Og það er undarlegt að hlusta á hv. 6. þm. Reykv., sem er ritstjóri dagblaðs sem segist vera frjálst og óháð, lýsa stuðningi við þetta endemis ákvæði því þó ekkert annað kæmi til þá er þetta með þeim hætti að útilokað er fyrir nokkurn mann að skrifa upp á þetta.

Hvert er þá orðið okkar starf á undanförnum árum hér í umr. um ritfrelsi, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi í landinu þegar það er sett í lög að iðnrn. má ekki gefa út fréttatilkynningu nema biðja Alusuisse um leyfi? Ég skora á hæstv. iðnrh. að lýsa því hér yfir á eftir að hann sé staðráðinn í að hafa þetta endemis ákvæði að engu, ég skora á hann að gefa þá yfirlýsingu; — ég tel það ósæmilegt fyrir Alþingi að fallast á þetta ákvæði. Ég vil spyrja 2. þm. Norðurl. v., ég held að hann sé hér á mælendaskrá: Samþykkir Framsfl. þetta ákvæði? Er Framsfl. ánægður með þetta ákvæði eða er hann óánægður með það? Ég skora einnig á hv. 6. þm.

Reykv. að endurskoða afstöðu sína í þessu máli, bara út af þessu atriði þó ekki kæmi annað til. Ætlar hann sem ritstjóri eins af stærstu blöðum landsins að taka þátt í því með lögum að múlbinda íslenska aðila með þeim hætti sem hér er gerð till. um? Það verður fróðlegt að sjá og það verður ekki hægt því miður að taka mikið mark á kröfum hans um tjáningarfrelsi og óháða afstöðu ef hann styður þetta ákvæði.

„Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu.“ — En það er ekki nóg, ... „eða svipaða tilkynningu.“ — Hvað er „svipuð tilkynning“, hv. þm. Gunnar G. Schram? Hv. þm. hefur væntanlega skrifað niður þessa speki. Ég skora á hv. þm. að koma hér upp á eftir og gera grein fyrir því hvað er „svipuð tilkynning“. Er það yfirlýsing eða hvað? „Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans.“ Vita menn hvað þeir eru að gera hér?

Gera menn sér ljóst hvað þeir eru að leggja hér inn á hættulega braut? Mér hefur satt að segja fundist í þessu máli að hæstv. iðnrh. hafi stundum ekki vitað hvað hann væri að gera, a.m.k. ekki hvað hann var að segja. En hann segir stundum svo mikið að það verður kannske að virða honum það til vorkunnar þó maður þurfi að taka eins og 10–15% af því með afföllum. Mér hefur stundum fundist að þær yfirlýsingar, sem hann hefur gefið í þessu máli, bendi ekki til þess að hann hafi fylgst með málinu í einstökum atriðum. Hann kemur af fjöllum í sambandi við þennan aðstoðarsamning, sem er eitt veigamesta breytingarákvæði þessa samnings, og svo kemur í ljós að hann hefur samþykki það um nótt í símtali við Sviss. Ég er alls ekki viss um að hæstv. iðnrh. hafi áttað sig á þessu atriði sem ég er hér að gera að umtalsefni. Það kæmi manni ekki á óvart miðað við annað sem hann hefur sagt. Það er svo margt í þessum samningi sem hann virðist ekkert hafa gert sér grein fyrir að væri skrifað þar niður. Hann yrði maður að meiri ef hann henti þessu ákvæði út. Ég skora á hann að lýsa því yfir að þetta sé ómerkt ákvæði með öllu.

Í dag gerði þingflokkur Alþb. sérstaka samþykkt út af þessu máli. Ég tel ástæðu til að vekja enn frekari athygli á þeirri samþykkt, en þar segir í fyrsta lið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþb. lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna fyrirliggjandi samninga við Alusuisse og mun beita sér fyrir breytingum á öllum samningum og samskiptum við auðhringinn þegar Alþb. fær til þess aðstöðu.“

Þetta þýðir að við munum beita okkur fyrir því að þeim atriðum, sem við höfum gagnrýnt í þeim umr. sem fram hafa farið á Alþingi um þennan samning að undanförnu, verði breytt. Aðrir flokkar hafa ekki gert samþykkt af þessu tagi. Ég tel að hér sé um að ræða mjög veigamikið atriði fyrir alla aðila að gera sér ljóst í þessu efni.

Hæstv. iðnrh. kaus að gera tilraun til að lítilsvirða Alþb. í þessu máli alveg sérstaklega með því að lýsa því yfir að því væri ekki treystandi að koma nálægt þessu máli. Sú lýðræðisást, sem þannig kemur fram hjá hæstv. iðnrh., er að vísu í góðu samræmi við vinnubrögð hans og ríkisstj. í þessu máli í heild frá því hún tók við.

„Álbandalagið“, sem ég kallaði svo í umr. á Alþingi í febrúar 1983, Framsfl. og Sjálfstfl., hefur haldið ólýðræðislega á þessu máli. Það hefur traðkað á rétti stjórnarandstöðunnar til að fylgjast með málinu. Þessi vinnubrögð hafa aftur og aftur haft það í för með sér að fjölmiðlum hefur verið neitað um eðlilegar upplýsingar. Og þau hafa aftur og aftur haft það í för með sér að talsmenn ríkisstj. hafa komið á framfæri við fjölmiðla upplýsingum þar sem hallað er réttu máli. Síðan á að pína málið í gegn um Alþingi á gjaldmæli, eins og það var kallað hér fyrr í kvöld. 400 þús. kr. á sólarhring tapast ef menn drífa sig ekki við þetta. Það er „flottræfilsháttur“, sagði hæstv. iðnrh., að vera að liggja yfir þessu máli vandlega eins og Alþingi hefur þó reynt að gera. Þingræðið er „flottræfilsháttur“ skv. þessum ummælum hæstv. iðnrh. hér í kvöld.

En í rauninni er það ekki. Í rauninni eru menn hér að leggja sig fram við að fara vandlega yfir mál sem skiptir miklu fyrir þjóðina á komandi árum. Það er þess vegna ekki „flottræfilsháttur“ þó að hv. Alþingi vandi sig við að fara yfir mál af þessu tagi.

Herra forseti. Ég hef beint hér nokkrum orðum að þeim framsóknarmönnum. Ég vona að þeir taki þátt í umr. hér á eftir — því nóg er nóttin — þannig að hægt sé að fara yfir þessi mál og skiptast á skoðunum um þau. En ég vona einnig að hæstv. iðnrh. láti svo lítið að sýna prentfrelsinu í landinu þann sóma að lýsa því yfir að hann muni hafa ákvæði nr. 9 í sáttargerðarsamningnum að engu vegna þess að hann vilji ekki afhenda Alusuisse ritskoðunarvald yfir fréttatilkynningum sem fara frá iðnrn. á Íslandi.