29.11.1984
Neðri deild: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á fundi þingflokks Alþb. í gær var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing: „Vegna fyrirliggjandi frv. um samninga ríkisstj. og Alusuisse um álverið í Straumsvík samþykkir þingflokkur Alþb. eftirfarandi:

1. Alþb. lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna fyrirliggjandi samninga við Alusuisse og mun beita sér fyrir breytingum á öllum samningum og samskiptum við auðhringinn þegar Alþb. fær til þess aðstöðu.

2. Þingflokkur Alþb. mótmælir því að haldið verði áfram samningaviðræðum við Alusuisse með þeim hætti sem verið hefur í tíð núv. ríkisstj. Gerir Alþb. kröfu um að stjórnarandstaðan fái að þeim viðræðum óskoraða aðild.

3. Þingflokkur Alþb. telur brýnt að Alþingi kjósi nú þegar sérstaka nefnd með aðild allra þingflokka sem geri alhliða úttekt á samskiptum íslenskra stjórnvalda og Alusuisse frá upphafi og þætti álversins í efnahagslífi hérlendis, þannig að læra megi af dýrkeyptri reynslu í samskiptum við þennan auðhring.“

Með tilliti til þessa, herra forseti, segi ég nei.