29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég get verið samþykkur mörgu af því sem stendur í þessum bálki eða bandormi, þ.e. málum 1425, að því er mig minnir, þeim þáltill. sem hv. þm. Stefán Benediktsson hefur flutt. Ég veit þó ekki hvort þessar tillögur þjóna allar miklum tilgangi um framkvæmd þessara mála. Það hefði kannske verið nær að spyrja hvað hafi orðið um vilja hæstv. fjmrh. frá því í fyrra þegar hann lagði til að ríkið hætti afskiptum af eða selji þau fyrirtæki sem hv. þm. leggur nú til að verði seld. Að vísu hefur hæstv. iðnrh. framkvæmt sumt af því sem að hans rn. snýr.

Það er svo sem ekkert nýtt í þessari till. um að leggja niður starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins umfram það sem sagt var í fyrra. Mér finnst þó fremur lítið í grg. sem till. fylgir og mig langaði til að bæta þar nokkuð úr svo að menn vissu e.t.v. um hvað þeir væru í rauninni að selja eða gefa, ef menn vilja, því að þarna er um þó nokkuð miklar eignir að ræða, í lóðum, fasteignum, vélum og byggingum.

Skömmu eftir að fjmrh. lét þessi orð falla í fyrravor bárust virkilega fyrirspurnir til Síldarverksmiðja ríkisins um hugsanleg kaup á tveimur þessara fyrirtækja, þ.e. Síldarverksmiðjunni á Húsavík og Síldarverksmiðjunni á Reyðarfirði, auk lauslegra umr. um eignirnar á Skagaströnd. Fiskiðjusamlag Húsavíkur, sem leitaði eftir þessum kaupum, óskaði eftir að mat færi fram á þessum eignum og það var framkvæmt í febrúar 1984. Skv. afskriftareglum Ríkisábyrgðasjóðs er þetta mat um 10.6 millj. kr. á þávirði. Nývirði var aftur á móti talið rúmar 20 millj. kr.

Nú er bókfært verð á þessum eignum 4.5 millj. Það er því ekki óeðlilegt að ef maður hefur bókfært verð á öðrum eignum Síldarverksmiðja ríkisins gæti maður hugsanlega leyft sér — þó að það sé ekki að öllu leyti rétt — að margfalda það bókfærða verð með því verði sem hugsanlega fengist fyrir verksmiðjuna á Húsavík. Talið var að ef eitthvert vit ætti að vera í sölu á þessum eignum hlyti það að vera einhvers staðar á milli þeirrar matsgerðar skv. afskriftareglum og nývirðis. Tölur voru nefndar án þess þó að nokkur tilboð færu fram eða umr. um tilboð, u.þ.b. 13 millj. kr. eða nálægt þreföldu bókfærðu verði. Til er matsgjörð frá Sjóvá fyrir nokkuð mörgum árum og þar voru menn nokkuð sammála um að það mundi styðja þessa reikningsaðferð.

Bókfært verð Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði var 65.4 millj. sem ætti þá að söluverðmæti að vera nálægt 200 millj. Á Seyðisfirði eru það 44.6 eða 150 millj. kr. söluverð. Á Raufarhöfn eru eignirnar 31.3 sem mundu gera nánast 100 millj. kr. á söluverði. Reyðarfjörður er aftur með 18.9 millj. bókfært verð eða nálægt 60 millj. kr. hugsanlegt söluverð. Síðan á Skagaströnd 17 millj. kr. bókfært verð eða 50 millj. kr. hugsanlegt söluverð. Þetta gerir samtals um 560 millj. kr.

Nú er það svo að skv. afskriftareglum, sem reiknað er með í verðákvörðun fyrir loðnu, er nánast útilokað fyrir aðila, sem kaupir nýja eign til að bræða loðnu í, að standa undir nokkrum fjármagnskostnaði miðað við það verð sem reiknað er út. Þar af leiðandi mundi nýr kaupandi á þessum verksmiðjum fara beinustu leið á höfuðið skv. þeim verðákvörðunum sem viðhafðar eru í dag nema til komi verulega breyttar aðferðir við þá verðákvörðun. Þá er viss ókostur að brytja niður þessar einingar þar sem verkstæði, lager og varahlutir, stjórn sölumála o.fl., er á sömu hendi. En það er vel til í því, eins og hv. flm. tók fram, og raunar líklegt að einstaklingar gætu rekið ýmsar þessar einingar betur eða ekkert verr en nú er gert og jafnvel gætt meiri hagsýni en nú er.

Það vill svo til að nú stendur yfir deila austur á Seyðisfirði við Síldarverksmiðjur ríkisins. Starfsmenn verksmiðjunnar fóru í setuverkfall eina nóttina og drógu mjög úr framleiðslu. Verksmiðjan hélt þá að sér höndum með að taka við hráefni og hefur gert síðan þessi deila hófst. Deilan stendur um það að þvinga á verksmiðjustjórnina til að fjölga aftur á vöktum í verksmiðjunni umfram það sem búið var að fækka til sparnaðar þar sem tekin höfðu verið upp aukin vélræn vinnubrögð. Þetta ásamt fleiru mundi að mínu viti síður koma til í verksmiðju í einkarekstri. Ég vil samt alls ekki fortaka það að þetta gæti gerst í einkarekstri. En Síldarverksmiðjur ríkisins gætu farið betur í einkarekstri og raunar tel ég að þær ættu þar heima. En menn verða að vita hvað þeir eru í raun og veru að tala um að selja í þessum efnum.

Það er ýmislegt fleira í þessum tillögubálki sem hér liggur fyrir sem ég hefði gjarnan viljað taka undir þó að ég endurtaki það að ég veit ekki hvort það hefur í sjálfu sér mikla þýðingu um framgang málsins, en það mun þá gert þegar hvert og eitt þeirra mála kemur fyrir.