29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta. Þó þetta mál sé búið að vera lengi á dagskrá hafði ég ekki reiknað með því að það kæmi til umr. í dag. Vissulega mætti fara um þetta einstaka mál mjög mörgum orðum, rekja sögu Síldarverksmiðja ríkisins frá upphafi, rekja það hvernig þær hafa staðið að atvinnulegri uppbyggingu og skipt öllum sköpum fyrir atvinnusögu margra byggðarlaga. Ég held að ef sú saga væri rakin af fyllsta hlutleysi yrði hlutur Síldarverksmiðja ríkisins góður svo ekki sé meira sagt. Ég hygg að þó að ýmsir aðilar hafi gagnrýnt þennan rekstur, jafnvel á heimastöðum, þá hafi það þó komið í ljós að þegar þeir hafa ætlað að breyta til hafi menn hætt við og fundist meira öryggi í því einmitt að geta haft jafntraust fyrirtæki og Síldarverksmiðjur ríkisins hafa þó verið á hverjum stað til staðar.

Ég ætlaði ekki að fara ofan í þessa till. mjög náið og hef ekki til þess aðstöðu. En hér var minnst á minn heimastað áðan og það minnir mig á ákveðna sögu frá þeim stað. Menn fengu glýju í augun af gróða síldaráranna og tveir einkaaðilar á staðnum hugsuðu sér til hreyfings og ætluðu hvor um sig að fara að byggja á þessum litla stað sína verksmiðju og það munaði ekki miklu að báðir fengju leyfi. Það var þó sem betur fer sú fjármálastjórn að það var ekki leyft. En það munaði litlu að við hefðum setið uppi með tvær litlar bræðslur sem þá væru nú trúlega báðar, miðað við þá aðila sem ætluðu að takast á við það verkefni, komnar á hausinn og til lítils gagns fyrir heimamenn.

Niðurstaðan varð hins vegar sú að Síldarverksmiðjur ríkisins byggðu þar sína bræðslu og vissulega hefur komið fram margs konar gagnrýni á þá starfsemi. Stundum hefur mönnum þótt að verksmiðjustjórinn þar hefði ekki nægileg völd eða tök á því að stýra sínu fyrirtæki jafnsjálfstætt og hann kannske hefði viljað en í stað þess væri um of stýrt héðan að sunnan. En fyrir þetta byggðarlag stendur þó atvinnusköpunin og öryggið ofar öðru. Ég þarf ekki að fara langt yfir á norðausturhornið, þ.e. til Raufarhafnar, til þess að benda á annað dæmi sem kannske er enn þá gleggra.

Ég held að það liggi ekki mjög mikil hugsun á bak við þessa till., enda er hún mjög fortakslaus og grg. stutt. Það er aðeins vegna þess að það er skoðun BJ að leggja beri niður starfsemi á vegum ríkisins í ljósi breyttra atvinnuhátta, tækni og annarra atvinnuhátta sem hægt er að sinna með hagkvæmari hætti. Mig vantar alveg rök fyrir því að þetta mundi gerast með hagkvæmari hætti hjá einkaaðilum.

Ég veit um dæmi frá Austurlandi af bræðslu sem átti bærilega að græða á og hefur orðið einhver þyngsti baggi þess fyrirtækis. Ég gæti best trúað því að sá ágæti einkaaðili, sem þar er í forsvari, mundi gjarnan vilja losna við þessa verksmiðju sína í dag, jafnvel þó að loðnan sé komin aftur. (Gripið fram í: Það vil ég efa. Það er vafasamt í dag.) Það gæti verið að hann væri farinn að hugsa örlítið öðruvísi já. Ég heyri það að hv. 4. þm. Austurl. þekkir jafnvel og ég dæmið sem vonlegt er. Fortaksleysið í tillögugerðinni, að annast framkvæmd þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að leggja niður þessa starfsemi, er algert. Mér sýnist nefnilega tillögugerðin vera þannig að ef svona till. verði samþykkt hér eigi ekki að athuga neina hagkvæmni, hv. þm. Stefán Benediktsson. Þó að í ágætri ræðu fyrir öðru máli hér um daginn hafi verið rætt um ýmsa hagkvæmni í þessu efni stendur ekkert um það í þessu þskj. að nokkurrar hagkvæmni skuli gætt.

Það er rétt, sem kom fram hjá Birni Dagbjartssyni hv. 5. þm. Norðurl. e. áðan, að heimamenn á Reyðarfirði ræddu um það sín á milli í fyrra þegar kom hálfgert tilboð að nú væri hægt að kaupa ríkisfyrirtæki á slikk því mönnum skildist að svo væri, menn gætu gengið að þessu. Þá hugsuðu heimamenn sér gott til glóðarinnar og fóru að athuga þessi mál. Við könnun á þessu máli kom glögglega í ljós að menn réðu hreinlega ekkert við þetta. Það er útilokað að menn ráði við þær tölur sem hv. þm. fór með áðan og þýða nánast 60 milljónir.

Það var hins vegar ósköp eðlilegt í ljósi þess hvernig þessi útsala var sett upp af hæstv. fjmrh. að menn tryðu því að nú væri hægt að komast yfir miklar eignir fyrir lítið. Ég spyr þess vegna af því að ég sé að hv. 8. þm. Reykv. er búinn að biðja um orðið aftur: Er það útsöluhugmyndin sem liggur að baki þessum tillöguflutningi? Er það útsöluhugmyndin um það að ríkið afsali sér dýrum eignum á slikk til einkaaðila? Er skoðun BJ í raun og veru sú að öll starfsemi, hverju nafni sem hún nefnist, eigi að vera í höndum einkaaðila nema þá með þeim formerkjum, sem maður hefur heyrt hjá öðrum þeim sem halda fram þeirri stefnu, að ekki sé gróðavon? Við heyrum það nefnilega frá þeim postulum, sem tala fyrir þessari einkaforsjá, að sjálfsagt sé að setja alla starfsemi sem einhver gróðavon sé í, í hendur einkaaðila, en ef það kynni að þýða kostnað, ef það kynni að þýða tap, þá eigi ríkið skilyrðislaust að taka það á sig. Ég trúi því ekki að BJ sé með þessar íhaldsskoðanir á hraðbergi og það sé grundvöllurinn að þessum tillöguflutningi, en um það væri gott að fá skýr svör.