16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

44. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að fyrirrennari minn í heilbr.- og trmrn. hafi skipað þá nefnd sem samdi þetta frv. Þetta frv. var búið að liggja æði lengi í ráðuneytinu og hvorki gekk né rak vegna þess að ekki var samkomulag á milli heilbrmrn. og menntmrn. um það hvort þessi litli skóli ætti að fara alfarið yfir til menntmrn. og undir stjórn þess eða að vera áfram undir stjórn heilbrmrn.

Ég hófst handa um að leysa það mál og það leystist með þessum hætti, að það varð að samkomulagi að heilbrmrn. hefði skólann undir sinni stjórn, enda er ýmislegt sem mælir með því, en hins vegar er aftur ýmislegt annað sem mælir gegn því.

Menntunarmál hjúkrunarfræðinga heyra alfarið undir menntmrn. og sú breyting sem þar varð gerði það að verkum að þetta frv. varð nokkuð erfitt úrlausnar. Ég lagði mig fram um að koma á og flytja tvö frv. í þágu þessarar stéttar, frv. til ljósmæðralaga, sem náði fram að ganga með nokkrum breytingum, og þetta frv. sem ég lagði mig einnig fram um að fá breytt í Ed. til samkomulags við þá aðila.

Ég segi fyrir mitt leyti að þegar maður veit ekki hvað menn vilja frá degi til dags þá get ég ekki staðið í því að elta menn hingað og þangað út í bæ til að kanna hvað það er sem ber á milli. Þess vegna verður eitthvað að koma fram um að áhugi sé fyrir þessu máli. Þá mun ekki standa á mér. En ég ætlast til þess að þegar samkomulag er gert þá sé við það samkomulag staðið.

Ég ætla ekkert að fara að skattyrðast hér við þessa tvo hv. þm. út af heilbr.- og trn. Nd. Um þetta atriði var ágreiningur og það má auðvitað alveg eins segja að nefndin hefði getað flutt brtt. við frv. Þetta var mér ekkert heilagt mál þá frekar en núna. En það verður fyrst og fremst að sjá hvort þessir aðilar hafa áhuga á því að fá þetta mál fram. Til þess verður þá að nást fyrir fram friður um málið og að flytja það í samráði við viðkomandi nefndir þingsins. En þannig stendur málið að ég hef ekki heyrt í einum einasta manni frá því að málið sofnaði værum svefni rétt fyrir þinglok í vor í örmum þeirra ágætu nefndarmanna sem skipa heilbr.og trn. hv. Nd.