29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það gerðist um 1960 að þota á leið milli heimsálfa flaug yfir Ísland. Meðal farþega voru tveir virðulegir forstjórar Alusuisse, doktorarnir Müller og Meyer, þá nálægt miðjum aldri. Flugið yfir heimskautið var tilbreytingarlaust út að líta, en allt í einu rofaði til og langt fyrir neðan sást fjöllótt land, snævi þakið og það glitti í freyðandi brim við strendur. Meyer varð litið niður og hann hnippti í Müller: „Það hlýtur að vera hægt að reisa raforkuver í landi sem er þakið svona miklum snjó og ís“, sagði hann. Þannig fundu þeir Ísland að sögn dr. Cecilo, eins af stjórnarmönnum í Alusuisse, sem átti viðtal við Morgunblaðið 29. maí 1983, þremur dögum eftir síðustu ríkisstjórnarskipti á Íslandi.

„Orkan, hún var kveikjan að hugmyndinni,“ segir þessi svissneski auðkýfingur, og hann bætti því við að nú borgaði sig ekki lengur að reisa smærri álverksmiðjur en með 100–150 þús. tonna framleiðslu á ári. Ísalverksmiðjan væri að vísu lítil, en það væri í lagi því að hún hefði þegar borgað sig.

Þegar þeir Müller og Meyer komu heim úr hnattfluginu fyrir 25 árum tók við hefðbundinn undirbúningur að landnámi í höfuðstöðvum fjölþjóðafyrirtækisins, söfnun upplýsinga um Íslands, land og þjóð, stjórnarfar, svonefnda áhrifamenn, áform í atvinnumálum hjá innfæddum, svo og þýðing á lögum og reglum yfir á skiljanleg tungumál.

Árið var ekki liðið frá uppgötvun þeirra Müllers og Meyers þegar þessir oddvitar hluthafanna í Alusuisse stigu hér á land í fyrsta en ekki síðasta sinn. Á móti þeim tóku íslenskir ráðherrar og þeir voru m.a. kynntir fyrir nýskipuðum seðlabankastjóra landsins, dr. Jóhannesi Nordal, sem bráðlega varð tengiliður númer eitt við Alusuisse sem formaður fyrstu stóriðjunefndar á vegum íslenskra stjórnvalda.

Stjórnmálaástandið hérlendis reyndist Alusuisse vissulega afar hagstætt. Að völdum sat viðreisnarstjórn sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, alltraust í sessi í rúman áratug, og hún hafði það m.a. á stefnuskrá sinni að tengja Ísland við markaðsbandalög og fríverslun í Evrópu og að festa herstöð Bandaríkjanna á Miðnesheiði í sessi.

Álsamningarnir upphaflegu gengu hins vegar ekki hljóðalaust í gegn hér á Alþingi. Á árunum 1965 og 1966 og löngum síðar var tekist afar hart á um þetta mál og fátt annað en herstöðin og landhelgismálið skipti þingi og þjóð í fylkingar með svipuðum hætti og álmálið á sjöunda áratugnum.

Stjórnarandstaða Alþb. og Framsfl. var einbeitt í þá tíð og samhent í þessu stórmáli og tefldi fram efnahagslegum og stjórnmálalegum rökum gegn erlendum stóriðjudraumum viðreisnarflokkanna. Forustumenn Framsfl. á þessum tíma, eins og Eysteinn Jónsson og Ólafur Jóhannesson, voru ekki myrkir í máli fremur en talsmenn Alþýðubandalagsins hér á Alþingi í andstöðu sinni við kjarna álsamninganna þar sem hinum erlenda auðhring voru búin sérstök vildarkjör umfram innienda atvinnuvegi varðandi raforkuverð, tolla og skatta. Væntanlegt álver í Straumsvík var þannig gert að eins konar Hong Kong eða Singapore og sett utan við íslenska skattalögsögu.

Þessir forustumenn stjórnarandstöðunnar vöruðu einnig við hinum stjórnmálalegu hættum fyrir lítið samfélag að gefa slíkum risa í efnahagslegu tilliti fótfestu í landinu. Þess yrði ekki langt að bíða að auðhringurinn eignaðist hér sína talsmenn, dagblöð sem flyttu hans mál og stjórnmálamenn og flokka sem Alusuisse gæti vafið um fingur sér.

Til voru þeir menn í þáverandi stjórnarflokkum, Sjálfstfl. og Alþfl., sem voru tortryggnir út í álsamningana eða beinlínis andsnúnir þeim. Þessir menn koma ekki síst úr röðum þeirra sem voru að baksa í hefðbundnum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, við lítinn skilning af stjórnvalda hálfu, þá eins og nú. Á sama hátt fundust þeir menn í Framsfl. á þessum árum sem gerðust talsmenn samninganna við Alusuisse og tóku þátt í undirbúningi þeirra. Þar var fremstur í flokki ungur og vasklegur verkfræðingur Steingrímur Hermannsson, en rödd hans heyrðist ekki þá á Alþingi eins og síðar og hann átti sér fáa jábræður í flokki framsóknarmanna.

Það er fróðlegt að lesa þessar umræður, sem þá fóru fram á Alþingi, fyrir nær tuttugu árum, og skoða þær í ljósi sögunnar nú, þegar enn eru á dagskrá álsamningar, að þessu sinni bornir fram af ríkisstjórn þar sem Steingrímur Hermannsson situr í forsæti. Það hefur mikil breyting orðið á landslagi stjórnmálanna á þessum tveimur áratugum og augljósust og afdrifaríkust hefur hún orðið í Framsfl. Það endurspeglast m.a. í þessu stórmáli sem hér er til umræðu í kvöld. Flokkurinn greiddi óskiptur atkvæði gegn álsamningunum ásamt Alþb. 1966, en stendur nú nær óskiptur að þessu frv. sem hér liggur fyrir með Sjálfstfl. við afgreiðslu málsins, þrátt fyrir þá staðreynd að sum af ákvæðum þessa samnings eru auðsæilega afturför frá hinum gamla samningi. Á það alveg sérstaklega við um breytingar sem hér liggur fyrir með Sjálfstfl. við afgreiðslu málsins þrátt fyrir þá staðreynd að sum af ákvæðum þessa verulegra hagsbóta.

Viðhorfsbreyting framsóknarforustunnar í álmálinu átti sér langan aðdraganda. Hún gróf um sig í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar 1974–1978 þegar flokkurinn samþykkti endurskoðun á álsamningunum sem undirbúin hafði verið af þeim Jóhannesi Nordal og Steingrími Hermannssyni. Þá tókst ekki betur til en svo, að auðhringurinn fékk til baka í lækkuðum sköttum til ríkissjóðs ekki lægri upphæð en hann greiddi í hækkuðu raforkuverði til Landsvirkjunar, þannig að hlutur Íslands vænkaðist ekkert við þá endurskoðun. Í kaupbæti fékk Alusuisse þá nokkra stækkun álversins á hinu lága raforkuverði og var afhent til eignar á silfurfati, þvert ofan í álit lögfræðilegra ráðunauta, svonefnd skattainnistæða sem myndast hafði hjá ríkissjóði samkvæmt upphaflegum samningi. Þessi gjöf til auðhringsins að upphæð rúmar 4 millj. Bandaríkjadala hefur síðan 1975 verið á hæstu vöxtum og bætt þannig við sig 3 millj. dollara. Það er nöturleg staðreynd, að þegar Alusuisse viðurkennir með óbeinum hætti gífurleg skattsvik vegna ÍSALs á undangengnum átta árum lætur ríkisstj. sér nægja að auðhringurinn greiði 3 millj. til baka „vegna lausnar frá kröfum ríkissjóðs“ eins og það er orðað.

Brestirnir í Framsfl. opinberuðust síðan með afar skýrum hætti í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, enda var þá Steingrímur Hermannsson orðinn valdamestur í flokknum og tók við formennsku hans. Flestir landsmenn fylgdust með því í sjónvarpi þegar Guðmundur G. Þórarinsson, þá alþingismaður, sagði sig úr álviðræðunefnd í desember 1982, en þar áttu allir þingflokkar fulltrúa og aðgang að öllum upplýsingum um málið. Með þeim atburði náði Alusuisse því marki, sem auðhringurinn hafði unnið að skipulega frá því að nefndin var skipuð, að sundra formlega þessum sameiginlega vettvangi stjórnar og stjórnarandstöðu. Þingflokkur Framsfl. lagði blessun sína yfir það afdrifaríka skref og á eftir fylgdi samflot þm. flokksins á tillögu með íhaldinu og Jóni Baldvin Hannibalssyni, í febrúar 1983, sem túlkuð var sem vantraust á mig sem iðnrh. um leið og til þess var ætlast að Alþingi skrifaði upp á ýmsar helstu kröfur Alusuisse.

Þannig skapaðist sú samstaða í álmálinu milli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem varð einn af hornsteinum núverandi stjórnarsamstarfs og Alusuisse kunni sannarlega að hagnýta sér þá breyttu stöðu.

Við stjórnarskiptin vorið 1983 stóð á auðhringnum 10 millj. dollara innheimtukrafa frá fjmrn. vegna vantalins hagnaðar á árunum 1978–1980 sem talinn var nema að lágmarki 36 millj. Bandaríkjadala eða um 1400 millj. ísl. kr. að mati alþjóðlegra endurskoðenda. Auðhringurinn átti engra annarra kosta völ en greiða kröfuna og viðurkenna þannig réttmæti hennar eða leita á náðir gerðardóms samkvæmt samningum frá 1966. Alusuisse valdi síðari kostinn, og þá auðvitað í þeirri von að geta samið sig frá dómi, eins og auðhringnum hefur nú tekist, og fengið sérstaka syndakvittun frá Sverri Hermannssyni iðnrh. og ríkisstj. í ábót.

Það er á allra vitorði að Alusuisse stóð á síðasta sumri frammi fyrir gertapaðri stöðu fyrir dómnefndinni í New York vegna „hækkunar í hafi“. Þá tefldi auðhringurinn fram svokölluðu sáttartilboði, gaf í skyn að Alusuisse væri reiðubúið að leita heildarlausnar, m.a. með eitthvað hærra raforkuverði en um hafði verið rætt fram að þeim tíma, og breytingum á skattaákvæðum og skattkerfi, gegn því að fyrirtækið yrði sýknað af öllum kröfum af hendi ríkisstjórnar Íslands vegna skattsvika og annarra atriða á liðnum árum.

Í síðasta lagi á þessari stundu átti ríkisstj. að vera það ljóst að hún var hér með lykilinn að því að knýja fram viðunandi lyktir í endurskoðun álsamninganna. Niðurstaðan af hinum umfangsmiklu athugunum, sem fram fóru á vegum iðnrn. á árunum 1979–1983 og álsamningunum í heild, var það atriði sem Alusuisse óttaðist meira en nokkuð annað, og vildi mikið til vinna til að forða sér undan dómsorði í málinu.

En hæstv. iðnrh. áttaði sig ekki á stöðunni og ekki er víst að samninganefnd hans hafi hjálpað honum til þess. Áhrifamikil pólitísk öfl innan stjórnarflokkanna höfðu ætíð reynt að gera litið úr skattsvikum og bókhaldsbrellum Alusuisse og var fyrirmunað að skilja samhengi skattadeilunnar og aðstöðu Íslands til að ná fram viðunandi heildarendurskoðun á álsamningunum. Sverrir Hermannsson iðnrh. virðist heldur ekki hafa sett sig nema mjög takmarkað inn í málavöxtu á hverjum tíma, ef marka má mótsagnakenndar og sumpart rangar upplýsingar hans í fjölmiðlum og hér á Alþingi, eins og ég hef rakið við fyrri umræður um þetta frv.

Sjálfsagt er að fagna breytingum sem nást fram til bóta á viðskiptum við hina erlendu aðila. Þær leiðréttingar á raforkuverði, sem fram koma samkvæmt rafmagnssamningnum sem fylgja þessu frv., eru vissulega ávinningur sem eins og annað í þessu máli hefur náðst fram og sótt efnisleg rök í málatilbúnað fyrri ríkisstjórnar.

Alusuisse hefur hins vegar náð fram markmiðum sínum gagnvart ríkisstj. með auðveldari hætti en nokkurn gat órað fyrir og ég mun víkja að síðar hér í umr. í kvöld.

En hver er þá staðan hér í þinginu varðandi þá afdrifaríku samninga sem hér liggja fyrir? Það kom skýrt fram í umræðunni hér í gærkvöldi, að Sverrir Hermannsson iðnrh. er ekkert hress með þessar horfur hér í þinginu, þótt meiri hluti sé tryggður fyrir málinu.

Þrír þingflokkar hafa lýst yfir eindreginni andstöðu við málið. Auk Alþb. eru það SK og Alþfl. þótt nokkuð sé á reiki um afstöðu formanns hins síðast talda, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þá liggur það fyrir að hrollur er í mörgum þingmönnum Framsfl., sem m.a. kemur fram í því að þm. flokksins, sem sæti eiga í iðnn. Nd., þorðu ekki að standa með íhaldinu á sameiginlegu nál. og þannig kom ekkert meirihlutaálit fyrir þessa þd., heldur fjögur minnihlutaálit. Niðurstaða þm. Páls Péturssonar og Ingvars Gíslasonar er þó í engu frábrugðin afstöðu sjálfstæðismanna þar sem þeir mæla með samþykkt frumvarpsins. Í Ed. kom stjórnarliðið fram sameinað og framsóknarmenn reyndu þar ekki að skjóta sér undan ábyrgð á málinu. Þá gerðist það við atkvgr. eftir 2. umr. í dag hér í þingdeildinni að varaþingmaður Framsfl., Magdalena M. Sigurðardóttir, sat hjá við afgreiðslu um málið. Það var vel af sér vikið, og kannske skilur hún betur en ýmsir aðrir þá strauma sem eru úti í þjóðlífinu varðandi álmálið, nú nýkomin til þings, auk þess að standa við eigin sannfæringu gegn karlaveldinu í flokknum óskiptu. Það mátti einnig heyra á máli Ellerts Schram hér í gærkvöldi að hann hefði kosið að greiða atkvæði gegn ákvæðum einstakra greina þessa frv. og sitja hjá við aðrar, ef kostur væri að segja annað en já eða nei við málið í heild.

Fátt lýsir betur inn í álit manna á þessum pakka, sem Sverrir Hermannsson iðnrh. reiðir hér fram í skammdeginu, en afstaða þessara liðsmanna úr þingflokkum stjórnarliðsins.

Á sama tíma og framsóknarforustan beygir sig hér formlega fyrir Alusuisse og fylgir íhaldinu eru aðrir sem rísa upp gegn þessum afleita og niðurlægjandi samningi.

Um afstöðu þingflokks BJ ætla ég ekkert að segja. Þeir munu tala sínu máli hér í kvöld.

Samningum hefur áður verið rift af Alþingi Íslendinga þegar illa er til þeirra stofnað og nauðung fylgir samningagerðinni. Um það efni hefur þingflokkur Alþb. gert sérstaka samþykkt sem kynnt var á Alþingi í gær og við atkvgr. í dag. Alþb. hefur beðið um þessa útvarpsumræðu og það er trú mín að hún varpi skýru ljósi á stöðu þessa máls og verði þannig gagnleg fyrir hlustendur.