29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í þrjár vikur samfellt hafa þm. þæft mál þetta og umr. verið langar og strangar. Allan tímann hef ég beðið þess með mikilli óþreyju að fá að heyra skýrslu þeirra Alþb.-manna um afreksverk þeirra í nærfellt fimm ár sem þeir stjórnuðu þessum málum. Alveg sérstaklega hef ég beðið eftir vænni skýrslu frá fyrirrennara mínum, Hjörleifi Guttormssyni, um mikinn árangur hans eftir fimm ára álbaráttu, t.d. að fá frá honum að heyra hvað orkuverðið til álversins var þegar hann tók við 1978 og í hvaða hæðum það var þegar Alþb. hrökklaðist frá völdum í maílok í fyrra.

Eftir öllum bægslaganginum að dæma hlýtur eftirtekjan að hafa verið ólítil. En engar tölur hafa þm. fengið um afreksverkin. Engar skýrslur hafa þeir fengið að sjá um sigra Hjörleifs og Alþb. í álstríðinu. Og nú þegar Hjörleifur talaði hér áðan í áheyrn alþjóðar skyldi maður hafa haldið að hann tíundaði afreksverkin stór og smá. En ekkert slíkt heyrðist. Hann á eftir að tala aftur í kvöld í þessum umr. Ég skora á hlustendur að leggja vandlega við hlustir ef þar skyldi Hjörleifi um munn líða eitt einasta orð sem benti til að hann hefði náð hinum minnsta árangri í fimm ára hernaði sínum.

Auðvitað fá hlustendur ekkert slíkt að heyra. Allir vita að sú fimm ára saga er einn samfelldur hrakfallabálkur. Þegar Alþb. tók við stjórn orku- og iðnaðarmála 1978 var orkuverðið 6.4 mill. Þegar Hjörleifur skilaði af sér eftir fimm ára nær samfelldan stríðsrekstur var orkuverðið það sama, nákvæmlega það sama, 6.4 mill. Honum hafði ekki orðið ágengt um eyrisvirði og ekki eitt einasta hagsmunaatriði okkar hafði þokast, nema aftur á bak. Á öll samskipti og samningsgerð höfðu verið hnýttir allir þeir rembihnútar sem kostur var á og lyktirnar þær, rétt fyrir lokasennu Alþb. í ríkisstj., að ríkisstjórn Íslands var stefnt af Alusuisse fyrir alþjóðlegan gerðardóm í New York. Þannig stóðu málin þegar núverandi ríkisstj. kom til skjalanna. Strax var hafist handa, en verkefnið var afar örðugt viðfangs og átaksillt vegna þess sem á undan var gengið. Þó tókst þegar innan fjögurra mánaða að ná mjög verðmætum árangri með 50% hækkun orkuverðsins. Það er vegna þess stóráfanga sem okkur hefur tekist að halda orkuverði óbreyttu til almennings frá 1. ágúst 1983 að telja, sem hefði þýtt um 17% raungildislækkun orkunnar til almenningsnota miðað við vísitöluframfærslu. Og nú með þeim samningi sem hér liggur fyrir til loka umr. og afgreiðslu á hinu háa Alþingi hefur tekist að hækka orkuverðið tvöfali, tvöfalt, frá gjafverði Alþb., en sérfróðir markaðsmenn telja að við megum gera ráð fyrir þreföldun þess innan fárra ára.

Vegna meðferðar málsins hef ég verið gagnrýndur fyrir sambandsleysi við Alþingi á meðan á samningaviðræðum hefur staðið. Það skilja allir sem skilja vilja að samningsgerð af þessu tagi verður ekki unnin fyrir opnum tjöldum. Og nú hafa öll atriði málsins verið lögð fram og nákvæmar upplýsingar gefnar um alla þætti þess. Á þeim forsendum tekur Alþingi nú lokaákvörðun sína um samninginn, sem vera ber. Ég vísa á bug öllum aðdróttunum Alþb.-manna um að niðurstaða þessarar samningsgerðar sé leynimakk milli mín og samninganefndar um stóriðju annars vegar og Alusuisse hins vegar, eins og þeir svo smekklega hafa leyft sér að orða það. Við höfum náð stórkostlegum árangri með hinum nýju samningum sem verða munu mikil lyftistöng íslensku atvinnulífi.

Alþb.-menn og aftaníossar þeirra, eins og Kvennalistinn, sem andar í takt við Alþb. í öllum málum, finna þessum samningi allt til foráttu. M.a.s. Alþfl. er svo heillum horfinn að hann fylkir nú liði með andstæðingum þessa samnings. Öðruvísi mér áður brá þegar Alþfl. samdi um stóriðjuna á sínum tíma og stjórnaði landinu með Sjálfstfl. Að vísu tók hinn nýi formaður Alþfl. það til bragðs rétt fyrir formannskosningar í Alþfl. að lýsa yfir því að hann teldi gott verk hafa verið unnið af minni hálfu með þeirri nýju samningsgerð og hann endurtók þá skoðun sína í umr. um stefnuræðu forsrh. á dögunum. Nú er að sjá hvort þessi skoðun hans endist honum fram að atkvæðagreiðslunni hér á eftir. Hann var áberandi fjarverandi í dag við atkvæðagreiðslu um málið í Nd. eftir 2. umr. Kannske er þetta upphafið að stefnufestu hans sem hann af hógværð sinni álítur að muni fleyta Alþfl. úr 4% fylgi upp í 40% fylgi með þjóðinni.

Það er öllu öfugt snúið í málflutningi stjórnarandstöðunnar. En á því er þó ein gleðileg undantekning, sem taka ber fram, þar sem BJ ljær samningi þessum atkvæði sitt.

Orkusölufyrirtækið Landsvirkjun segir að hið nýja orkuverð sé til mikilla hagsbóta fyrir fyrirtækið og þar með þjóðina. Það er helst að skilja á talsmönnum Alþb. að með þessari skoðun sinni, sem Landsvirkjunarmenn styðja óyggjandi rökum, gerist þessir virtu embættismenn brotlegir í starfi. Slík er heiftin og hamagangurinn í máli þessu að tekur út yfir allan þjófabálk.

Talsmenn Alþb. hafa í umr. um málið seilst svo rækilega um hurð til lokunnar að þeir hafa orðið berir að því æ ofan í æ að reyna til við mannorð mitt og starfsmanna minna í málinu. Mér hefur verið borið á brýn að hafa borið ósannindi á borð fyrir hið háa Alþingi og að hafa svikið hagsmuni landsins í máli þessu. Ég læt mér slíkar ásakanir í léttu rúmi liggja. Verði ég sannur að þessum sökum hef ég úr öngvum söðli að detta. Ef ekki, þá falla þau dauð og ómerk ómagaorðin.

En lítum aðeins á nokkur atriði í umsögn Landsvirkjunar sem sýnir hagkvæmni fyrirtækisins af hinum nýju samningum við ÍSAL.

1. Viðbótartekjur Landsvirkjunar á tímabilinu 1985 — 1989, eða á næstu fimm árum, áætlast um 2550 millj. kr. eða hærri, eða u.þ.b. 511 millj. kr. á ári að jafnaði.

2. Viðbótartekjur Landsvirkjunar samkvæmt nýja samningnum og bráðabirgðasamkomulaginu frá í september 1983 áætlast 2750 millj. kr. fram til ársloka 1989.

3. Hefði nýi samningurinn gilt frá 1979 til og með 1984 hefði hann aukið tekjur Landsvirkjunar frá ÍSAL um 3200 millj. kr. að meðtöldum vöxtum. Þannig stendur skuld Alþb. við þjóðarbúið. Í 3.2 milljörðum kr.

Hin samningsbundnu verð í nýja samningnum, 12.5 — 18.5 mill á kwst., eru til endurskoðunar á fimm ára fresti og gefa hlutaðeigandi samningsákvæði Landsvirkjun möguleika á að ná fram leiðréttingu á verðinu sér í hag. Ákvæði af þessu tagi er ekki í gamla samningnum og er því hér um mikilvæga úrbót að ræða.

Og enn segja þeir Landsvirkjunarmenn: Hinn nýi rafmagnssamningur Landsvirkjunar og ÍSALs mun hafa áhrif til lækkunar á rafmagnsverði til almenningsrafveitna. Besta framtíðartryggingin fyrir lágu rafmagnsverði almenningi til handa er hins vegar fólgin í því að haga verðlagningunni þannig að Landsvirkjun gefist kostur á að fjármagna virkjunarframkvæmdir í vaxandi mæli með eigin fé úr rekstri og stilla lántökum í hóf.

Þessi vitnisburður mun almenningi sýnast trúverðugri en málþófssamir Alþb.-menn sem endalaust leika sér að tölum sem ekkert mark er á takandi. Og mátti heyra það hjá Steingrími Sigfússyni hér áðan.

En það er til skýr og ótvíræður vitnisburður um afstöðu Alþb. til orkuverðs meðan svo átti að heita að þeir stjórnuðu þessum málum og landinu öllu. Í marsmánuði 1983, fyrir aðeins 20 mánuðum síðan, báru allir þm. Alþb. í Nd. fram frv. til l. um leiðréttingu orkuverðs til Íslenska álfélagsins hf. með Hjörleif Guttormsson í broddi fylkingar. Þar segir svo, með leyfi forseta, í 1. gr., að verð á raforku frá Landsvirkjun til Íslenska álfélagsins hf. skuli vera 12.5 mill á klukkustund. Kannast einhver við þessa tölu? Síðan segir, með leyfi forseta, í 3. gr.:

„Lög þessi falla úr gildi, þegar samningar hafa tekist milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um endurskoðun raforkuverðsákvæðis rafmagnssamningsins, sem að framan greinir.

Sú endurskoðun skal byggjast á eftirfarandi:

a) Þeirri grundvallarstefnu, sem lögfest er í 11. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun, að raforkuverð í samningum til langs tíma við stóriðjufyrirtæki megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið“.

Nýi samningurinn nú mun orsaka stórlækkað verð til almennings.

„b) Raforkuverði því, sem álver annars staðar í heiminum greiða“.

Við erum aðrir í röðinni í Evrópu á eftir Spáni og langt á undan nágrönnum okkar, Norðmönnum, samkvæmt nýja samningnum.

c) Framleiðslukostnaði raforku hér á landi“. Landsvirkjunarmenn kunna að reikna út framleiðslukostnað raforku. Það kann steingrímur Sigfússon ekki og því síður Hjörleifur Guttormsson og þessa hefur verið gætt, að framleiðslukostnaður á raforku, t. a. m. frá Búrfellsvirkjun, sem sinnir ÍSAL, er langt, langt undir því verði sem við höfum samið um. — Og svo kemur d-liður, að það skuli byggjast á heimsmarkaðsverði á áli. Þessu aðalgagnrýnisatriði frá Alþb.mönnum, sem þeir hafa teflt fram gegn þeim samningi sem nú liggur hér fyrir, að skuli tekið í honum tillit til heimsmarkaðsverðs á áli eða álverðs eins og það gerist á fjórum stöðum í heiminum, sem er öllu tryggara.

En þessum upplýsingum er ekki lokið. Því að hér segir svo:

„Fari svo, að ekki náist samningar um endurskoðun raforkuverðsákvæðis skv. 3. gr. fyrir árslok 1983“,— ef engir samningar takast, — „skal stjórn Landsvirkjunar með stoð í þessum lögum ákvarða með gjaldskrá raforkuverðið til álversins í Straumsvík á bilinu 15–20 mill á kwst. frá og með 1. janúar 1984 og breytist verðið eftir það í samræmi við breytingar á skráðu heimsmarkaðsverði á áli.“

Auðvitað. 15–20 mills ætluðu þeir að ákveða, ef þeir væru einir um hituna, með lagasetningu. En nú höfum við samið um grunnverðið 15 mill og standa vonir til þess að ná upp undir 18.5.

Af þessu, sem ég nú hef lesið, sér allur landslýður í réttu ljósi forustu þessa þjóðmálaflokks sem kennir sig við bandalag alþýðunnar. Ég er lýstur landsölumaður fyrir það að hafa náð betri samningum við Alusuisse um álverið í Straumsvík en Alþb.-mennirnir ætluðu einhliða að ákveða orku til handa með lagasetningu á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum síðan.

Þá var það annað aðalárásarefnið af hálfu Alþb. að samið væri um sættir í hinum gömlu illvígu deilumálum milli okkar og auðhringsins. Um þetta efni get ég verið fáorður. Engir samningar um hækkað orkuverð hefðu tekist ef sættir hefðu ekki tekist í þeim þrætum. Dómstólaleiðin eða dómnefndaleiðin, hvor sem farin hefði verið til að ljúka málinu, hefðu staðið yfir nú og enn um langan tíma. Auðvitað eru sættir í deilum ávallt ákjósanlegasti kosturinn, ef báðir deiluaðilar geta sæmilega við unað, sem við getum vel í þessu falli.

Ég ætla nú að láta nægja vitnisburð tveggja aðila um sáttargerðina, sem allir sanngjarnir menn geta tekið mark á — og Alþb. líka ef þeir væru ekki gjörsamlega rökheldir í máli þessu. Hið virta breska endurskoðunarfyrirtæki Coopers & Lybrand hefur lengi verið í þjónustu okkar við endurskoðun á rekstri ÍSALs. Sumarið 1983 óskaði formaður samninganefndar um stóriðju, Jóhannes Nordal, eftir áliti forstjóra fyrirtækisins á dómstólaleiðinni. Í svarbréfi forstjóra Coopers & Lybrands segir m.a.:

„Eftir því sem ég hef fylgst með þróun deilunnar virðist mér helst að tillit til stjórnmála hafi að nokkru leyti magnað hana. Skýrslur okkar hafa verið notaðar á þann hátt sem við hefðum ekki búist við og umræður um niðurstöður okkar virðast ekki hafa gengið nógu langt til að skapa fastan grundvöll fyrir röksemdafærslu í málflutningi fyrir gerðardómi.“

Og enn fremur segir hann:

„Fyrir hendi eru fjölmörg vandamál og óvissuþættir sem munu samkvæmt minni reynslu skapa örðugleika í hvers kyns málflutningi fyrir gerðardómi. Mér segir helst hugur um,“ segir aðalforstjórinn, „að það hefði alvarlega ókosti í för með sér fyrir ríkisstj. að halda gerðardómsmeðferðinni áfram og mun æskilegra væri að jafna deiluna með samningsgerð.“

Hinn vitnisburðurinn, sem ég ætlaði að vísa til, var frá Charles Lipton í New York, sem var lögfræðilegur ráðunautur Hjörleifs Guttormssonar og minn í deilumálunum við Alusuisse. Hann segir í bréfi til mín, sem dags. er 4. okt. s.l.:

„Ef ætla má að væntanleg lausn leiði einnig til orkuverðs samkvæmt rafmagnssamningnum milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins hf. sem ríkisstjórnin getur sætt sig við er það því skoðun mín að uppgjör krafnanna um framleiðslugjöld fyrir árin 1976–1980 á þeim grundvelli að Alusuisse greiði ríkisstjórninni 3 millj. Bandaríkjadala muni vera mjög viðunandi lok skattadeilunnar og réttlæting afstöðu ríkisstjórnarinnar frá upphafi.“

Væntanlega draga Alþb.-menn vitnisburð þessa manns ekki í efa.

En það er fleira sem er mikilvægt í sambandi við rekstur álversins en orkusala. Ég vil aðeins nefna það að greiðslur launa, framleiðslugjalds, innlends reksturskostnaðar og fjárfestingarkostnaðar nema frá upphafi 370 millj. Bandaríkjadala eða 14.5 milljarði ísl. kr. og gjaldeyristekjur okkar af álverinu hafa numið yfir 14 millj. kr. á þessum tíma. Það má nefna líka hver hlutur í heildarútflutningi landsmanna álframleiðslan hefur verið, sem var t.a.m. 1983 17.6% af öllum útflutningi og 60% af iðnaðarvöruútflutningi. Okkur hefur tekist að ná mjög góðum niðurstöðum í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar.

Ég sé sérstaka ástæðu til að þakka samninganefndarmönnum um stóriðju, þeim Gunnari G. Schram, Guðmundi Þórarinssyni og Jóhannesi Nordal, fyrir frábær störf og aðstoðarmönnum þeirra öllum. Það er á engan hallað þótt ég nefni Jóhannes Nordal sérstaklega í þessu sambandi og ómetanlega forustu hans.

Þingflokkur Alþb. hefur gert nýja samþykkt í álmálinu, þar sem þeir lýsa því yfir að þeir muni sundra öllum samningum um málið þegar þeir fái tækifæri til. Þetta er þeim auðvitað sjálfrátt, mönnunum. Á hitt ber að líta að á því munu þeir ekki fá færi því að forusta þessa málaflokks verður þeim aldrei framar falin. — Góða nótt.