29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 4. minni hl. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það hafa lengi verið uppi skiptar skoðanir meðal Íslendinga um virkjun fallvatna, ekki bara hvort ætti að beisla þau heldur líka hvernig og hver þeirra ætti að virkja. Hafa löngum orðið miklar deilur um þessi mál vegna sterkra skoðana. Má í því sambandi nefna Sigríði Tómasdóttur frá Brattholti í Biskupstungum, en sagan segir að hún hótaði að fleygja sér í Gullfoss ef faðir hennar seldi erlendum manni fossinn til virkjunar sem var ætlun hans. Faðirinn mat dóttur sína og virti eindregna skoðun hennar og sterkar tilfinningar svo mikils að hann hvarf frá þessu ráði sínu. Nú hefur þessari konu verið reist minnismerki við fossinn í þakkarskyni fyrir að hafa varðveitt hann til yndis fyrir komandi kynslóðir.

Í Noregi er talað um lifandi vatn. Það skildi ekki íslensk stúlka sem þar dvaldi þar til henni var sýndur foss, sem féll fram af fjallsbrún óskertur og frjáls og hafði aldrei í pípu, stokk eða skurð komið. Ísland er auðugt af lifandi vatni og við skulum ekki gleyma því að það er dýrmæt eign þótt ekki sé það beislað.

Ekki hafa minni deilur staðið um það hvernig væri skynsamlegast og hagkvæmast að nýta þá orku sem beislanleg er, hvernig bæri að koma henni í verð, og menn hafa ekki verið á eitt sáttir um það hvort veita ætti erlendum aðilum aðgang að náttúruauðlindum og efnahagslífi Íslendinga eða hvort Íslendingar hefðu sjálfir bolmagn til að reka orkufrekan iðnað eða stóriðju til að nýta sér raforku í stórum stíl. Þó að stjórnmálaflokkar hafi sumir tekið afdráttarlausa stefnu í þessum efnum fer því fjarri að skoðanir almennings á þessum málum fari endilega eftir öðrum stjórnmálskoðunum manna. Meginröksemd þeirra sem helst vilja virkja hefur verið sú að við yrðum að koma orku landsins í verð. Okkur sé nauðsynlegt að nýta alla þá orku sem sífellt streymir óbeisluð til sjávar í fallvötnum landsins. Þá megum við ekki gleyma því, þegar mönnum svíður svo orkusóun, að vindurinn æðir óbeislaður um loftið og sólin hellir taumlaust yfir okkur orku sinni. En það gilda sömu lögmál um allar þessar orkulindir, að það er dýrt að virkja þær. Því megum við ekki gleyma. Þess vegna getur það verið matsatriði hvort það borgar sig fyrir okkur Íslendinga að nýta fallvötnin á þann hátt að selja frá þeim raforku til stóriðju. Það er ekkert sjálfgefið að það sé hagkvæmt og það er undarlegt að þegar Íslendingar hafa beislað vatnsorkuna og bjóða hana til sölu, þá skuli þeir fá fyrir hana verð sem er talsvert undir því verði sem kostar að framleiða hana. Það virðast mér ekki hagkvæm viðskipti.

Upp úr 1960 þótti ýmsum að nú lægi Íslendingum mikið við og þyrfti að hafa hraðan á ef tryggja ætti sölu á raforku úr fallvötnum Íslands, þar sem kjarnorkan yrði lausnarorð framtíðarinnar og mun ódýrari en vatnsorka. Því var, þrátt fyrir skiptar skoðanir manna, hrapað að því að gera orkusölusamning við fjölþjóðafyrirtækið Alusuisse árið 1966 til að missa nú ekki af lestinni. Þetta óðagot, þótt e.t.v. skiljanlegt sé í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu, hefur síðan leitt til þess að við erum enn að súpa seyðið af þeim samningum og er svo komið að rúmur helmingur allra erlendra skulda okkar stafar af stórvirkjanaframkvæmdum vegna stóriðju. Í þessar framkvæmdir höfum við ráðist af metnaði til að uppfylla kröfur stóriðjunnar og byggt bæði mun stærra og hraðara en hefði þurft til eigin þarfa og ráðist þannig í gríðarlegar fjárfestingar. Auk þess höfum við ratað á viðskiptaaðila, þar sem Alusuisse er, sem virðist hafa bæði töglin og hagldirnar í öllum samningagerðum og knýr fram vilja sinn af ófyrirleitni. Er fyrirtækinu þetta þeim mun auðveldara því að Íslendingar hafa staðið klofnir og tvístraðir í þessu máli frá byrjun og gildir þá einu hvaða stjórnmálaflokkar hafa haldið um stjórnartaumana. Er það Íslendingum til mikils tjóns að hafa ekki borið gæfu til að standa saman um þessi mál en leyfa erlendum aðilum að deila og drottna því að hér er um mikilvæga sameiginlega hagsmuni allra landsmanna að ræða. Sá skoðanaágreiningur í stóriðjumálum sem ríkir meðal þjóðarinnar á sér fulltrúa á Alþingi, en þar má segja að finnist þrjár meginstefnur.

Í fyrsta lagi er sú stefna sem hæstv. iðnrh. túlkar og felst í því að byggja hér upp stóriðju með meirihluta eignaraðild erlendra aðila. sú stefna hefur leitt til þess að íslenskt vatns- og vinnuafl er selt lágu verði, nánast útsöluverði úr landi og má segja að þar fari sjálfstæði þjóðarinnar fyrir lítið. En dæmi um slíkan rekstur er einmitt álbræðslan í Straumsvík.

Í öðru lagi er sú stefna sem hv. þm. Alþb. túlka og felur í sér að hér skuli reka stóriðju en með meirihluta eignaraðild Íslendinga. Það hefur sýnt sig að Íslendingar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa að slíkum fyrirtækjum sjálfir né fáum við nokkru ráðið á þeim markaði þar sem stóriðjuframleiðsla er seld, og er saga járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga þar ágætt dæmi.

Í þriðja lagi er svo sú stefna sem Samtök um kvennalista fylgja og felur í sér virkjanastefnu sem miðar að eigin þörfum Íslendinga en hafnar frekari stóriðju, bæði innlendri og erlendri. Ástæðurnar fyrir því að við höfnum stóriðju eru eftirfarandi:

1. Við viljum ekki frekari stóriðju hér á landi vegna þess að það þýðir í reynd aukin fjárhagsleg ítök erlendra aðila hér á landi, en það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

2. Stóriðja hefur alla tíð verið rekin hér með bókfærðu tapi, þannig að erfitt er að sjá fjárhagslegan ávinning af slíkum atvinnurekstri.

3. Stóriðja getur verið mengandi og náttúruspillandi og henni fylgir byggðaleg og félagsleg röskun. Þessar ástæður eru þeim mun alvarlegri þar sem Íslendingar eru fámenn þjóð sem býr í viðkvæmu landi.

4. Aukinni stóriðju fylgja auknar virkjunarframkvæmdir, en eins og menn vita hefur vegna stóriðjusjónarmiða verið farið of hratt í slíkar framkvæmdir á undanförnum árum eins og erlendar skuldir okkar sanna.

5. Sérhvert atvinnutækifæri í stóriðju er margfalt dýrara en á öðrum atvinnusviðum og auk þess eru störf þar mjög fá og þeim fækkar sífellt vegna nýrrar tækni. Fram til aldamóta er búist við því að a.m.k. 25 þús. manns komi út á vinnumarkaðinn, en stóriðjuuppbygging í samræmi við áætlanir um stórvirkjanir til sama tíma veita aðeins litlum hluta eða 6% þess fólks atvinnu.

6. Allar líkur eru á því að aukin stóriðjuuppbygging leiði það af sér að önnur atvinnuuppbygging á Íslandi verði látin sitja á hakanum og það mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir framtíðina. Auk þess er stóriðja af mörgum álitin gamaldags og úreltur atvinnukostur og öll framsæknustu iðnaðarríki heims eru nú að flytja þungaiðnað sinn úr landi. Og þau flytja hann til þróunarlandanna, þar sem þeim býðst ódýrt vinnuafl og ódýr raforka.

Góðir áheyrendur. Ég hef hér reynt að gera nokkra grein fyrir afstöðu okkar þm. Kvennalistans til stóriðju, en mun nú fjalla um það frv. till. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík sem hér er til umr. og atkvgr.

Það var í sjálfu sér athygli vert að eftir umfjöllun málsins í iðnn. Nd. skiluðu öll stjórnmálasamtök sem eiga fulltrúa í nefndinni séráliti. Það undirstrikar að sínum augum lítur hver á silfrið, eða ætti ég kannske heldur að segja álið? Hér er um að ræða áfanga í samningagerð núv. ríkisstj. við fjölþjóðafyrirtækið Swiss Aluminium Ltd., Alusuisse. Samningum er alls ekki lokið og mikilvægur þáttur þeirra bíður enn umfjöllunar, þar sem eru skattamálin. Sú leynd sem hvílt hefur yfir samningagerð þessari og sá skortur á upplýsingum til stjórnarandstöðu sem hefur ríkt allan samningstímann er mjög gagnrýniverð. Við undirbúning þessa samnings hefði verið eðlilegt og réttlátt að fulltrúar allra stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi hefðu verið hafðir með í ráðum, ekki síst þar sem hér er um að ræða mál sem snertir svo mjög hag allra landsmanna. Þess í stað er samningurinn fyrst sýndur Alþingi þegar hann er fullfrágenginn og undirritaður og engin leið til að hafa þar áhrif til breytinga.

Það er ekki auðvelt að hafa svo stuttan tíma til að kynna sér svo flókið og margslungið mál eins og þetta álmál Íslendinga er. Ekki er það gert auðveldara ef litið er til þess hve alvarlegt og afdrifaríkt þetta mál er fyrir efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar í nútíð og um ófyrirséða framtíð. Það verð ég að segja að því þykir mér allt álmálið ógeðfelldara og óhugnanlegra eftir því sem ég kynnist því meir og óttast ég um hinn íslenska Davíð gagnvart hinum ófyrirleitna Golíat fjölþjóðanna. Og það leika menn ekki lengur að draga útlenda menn út í íslenskt rökkur og selja þeim norðurljós.

Það hefur löngum þótt vera aðalsmerki á Íslendingum að vera göfuglyndir og leysa gesti sína út með gjöfum. En fyrr má nú rota en dauðrota því að undirtónninn við alla samningagerðina finnst mér hafa verið, þó orðin væru ósögð: Aumingja Alusuisse, aumingja Alusuisse. Og ég segi: Ja, sér er nú hver auminginn, því að það sem hefur einkennt alla samningagerð milli Íslendinga og Alusuisse á liðnum árum setur einnig sterkan og afgerandi svip á þennan síðasta samningsáfanga sem nú bíður samþykkis Alþingis. Enn sem fyrr hefur Alusuisse tekist að ná þeim undirtökum sem það virðist hafa í hverri samningalotu og hefur sveigt samningagerðina í þá átt að tryggja hagsmuni sína langt umfram hagsmuni Íslendinga. Það er ekki ofsögum sagt að Alusuisse sé erfiður samningsaðili og er með ólíkindum að ríkisstj. skuli hafa skrifað undir það að taka þátt í samningaviðræðum við fyrirtækið í framtíðinni „í góðri trú“ eins og segir í samningnum.

Mamma, hverjir tala þetta álmál? spurði lítill drengur móður sína. Það virðist augljóst af allri viðskiptasögu Íslendinga og Alusuisse að Íslendingar hafa aldrei almennilega kunnað að tala álmál. Ýmis ákvæði samningsins lúta fyrst og fremst að því að treysta stöðu Alusuisse og greiða götu þess án þess að tekist hafi að gæta íslenskra hagsmuna í sama mæli. Má þar t.d. nefna ákvæði um breyttar afskriftareglur svo og rýmkun á rétti ÍSALs til að leggja fé í varasjóð til að sleppa við skattlagningu. Sömuleiðis gefst mjög lítið svigrúm til endurskoðunar á reikningum ÍSALs og engin ákvæði eru í samningnum sem veita aðgang að bókhaldi Alusuisse eins og nauðsynlegt gæti orðið vegna tengsla þessara tveggja fyrirtækja. Auk þessara ívilnana hefur Alusuisse tekist að ná þeirri stöðu í samningsmálunum sem kann að verða Íslendingum einna afdrifaríkust.

Fyrirtækinu hefur tekist að kljúfa tvö nátengd atriði þessa máls í aðskilda þætti, sem samið verði um hvorn í sínu lagi, og er hér átt við megintekjustofna Íslendinga í viðskiptum við fyrirtækið, þ.e. raforkuverð annars vegar og skattlagningu hins vegar. Þó eru þessir þættir í órjúfanlegum tengslum hvor við annan og virðist ótækt að semja um annan án tillits til hins.

Með því að fallast á hækkun á raforkuverði hafa Alusuisse og ÍSAL fengið uppgefnar sakir og hreint siðgæðisvottorð þar sem ríkisstj. „leysir þau hér með frá öllum kröfum hverju nafni sem nefnast“. Syndakvittun þessari fylgir svo greiðsla frá Alusuisse upp á 3 millj. dollara.

Það ber að fagna því að einhver árangur hefur náðst í því að leiðrétta hið allt of lága raforkuverð sem viðgengist hefur í viðskiptum við Alusuisse hingað til. Þó er því ekki að heilsa að meðalsöluverð orkunnar til Alusuisse muni fyrirsjáanlega ná kostnaðarverði hennar í núverandi virkjanakerfi landsins. Jafnframt er þessi hækkun of dýru verði keypt þar sem fórnað hefur verið einni sterkustu málsástæðu okkar til leiðréttingar á skattamálum. Þau mál lágu fyrir gerðardómi og var staða okkar þar talin sigurstrangleg en málflutningi að mestu lokið og stutt í dómsúrskurð. Nú stöndum við mun verr að vígi hvað snertir skattamálin. Þeim þætti, sem hefði getað knúið Alusuisse til að virða hagsmuni Íslendinga, hefur verið afsalað og samið hefur verið um raforkuverðið án tillits til skattamála.

Í ofanálag hefur svo verið fellt niður ákvæði í aðstoðarsamningi milli Alusuisse og ÍSALs um að Alusuisse eigi að leitast við að „tryggja ÍSAL áframhaldandi og jafnt framboð af hráefnum með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru“. Er Alusuisse þarna gert einrátt um verð á aðföngum til ÍSALs og tekið upp í staðinn ákvæði „um hlutlægan mælikvarða á viðskiptaháttum milli ólíkra aðila“.

Þarna er gengið þvert á hagsmuni Íslendinga. Við ákvörðun söluverðs raforkunnar er miðað við meðalverð í heiminum, bæði milli skyldra og óskyldra aðila. Sú ráðstöfun verður að teljast í ósamræmi við það ákvæði sem gildir um kaup á aðföngum, en þar gildir nú ákvæði um viðskipti milli óskyldra aðila eins og áður segir. Þykir eðlilegt að sami háttur sé hafður á um kaup á aðföngum og sölu á raforku.

Enn fremur verður að teljast furðulegt að það raforkuverð, sem um er samið, skuli vera óverðtryggt. Þó er fyrirsjáanleg verðbólga í alþjóðlegu efnahagslífi áætluð um 5% á ári. Því má búast við að raungildi Bandaríkjadollars minnki um 5% á ári. Það leiðir síðan aftur til þess að raungildi umsamins raforkuverðs til ÍSALs nær efri mörkum sínum, eða 18.5 millum á kwst., eftir um það bil fimm ár og fer síðan lækkandi. Trygging raforkuverðsins er því engin þegar til lengri tíma er litið.

Jafnframt er söluverð raforkunnar tengt heimsmarkaðsverði á áli sem gerir það enn ótryggara og háðara sveiflum.

Með því að sækja svo ákaft eftir hækkuðu raforkuverði sem meginárangri í samningagerð án nægilegs tillits til annarra þátta þykir Samtökum um kvennalista að sjónarmið stundargróða hafi verið látin ráða fremur en að leitast hafi verið við að styrkja stöðu Íslendinga í viðskiptum við Alusuisse til frambúðar.

Nú hefur málið verið klofið og við sitjum eftir með skattamálin óleyst og nánast enga viðspyrnu. Þau endurskoðunarákvæði, sem í samningnum eru, telja sumir verri en engin þar sem þau leyfa einungis endurskoðun á fimm ára fresti og einungis ef um er að ræða „ófyrirsjáanlega breytingu til hins verra á aðstæðum, að frátöldum breytingum á valdi Landsvirkjunar eða ÍSALs, er hafi haft í för með sér alvarleg áhrif á efnahagsstöðu Landsvirkjunar eða ÍSALs, hvors sem í hlut á, þannig að hún raski bæði jafnvæginu í samningi þessum og valdi óeðlilegu harðrétti fyrir þann aðila sem í hlut á,“ eins og segir í samningnum með leyfi forseta.

Ef endurskoðun fæst skulu aðilar „eiga með sér samningaviðræður í góðri trú og reyna að ná samkomulagi um breytingu á samningi þessum.“ Ef það næst ekki er heimilt að vísa málinu til gerðardóms, en þess er skemmst að minnast að núv. ríkisstj. þótti slíkt ekki fýsilegur kostur á s.l. hausti.

Samtökum um kvennalista þykja þessi endurskoðunarákvæði óljós, einkum hvað varðar efnisástæður sem leiða mættu til endurskoðunar. Enn fremur að ótryggt og langsótt gæti orðið fyrir Íslendinga að leita réttar síns eftir þessum ákvæðum.

Fyrirætlanir um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík með forkaupsrétti Alusuisse að orku úr nýjum virkjunum eru ekki vænlegar þegar litið er til fyrri viðskipta okkar við þetta fyrirtæki. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé æskilegt fyrir Íslendinga að verða enn þá háðari fyrirtækinu um orkunýtingu hér á landi en þegar er orðið, né að takast muni að semja um að það kaupi orkuna á því verði sem kostar að framleiða hana. Enn fremur hafa Samtök um kvennalista frá upphafi bent á að stóriðja er ekki fýsilegur atvinnukostur fyrir Íslendinga og stækkun álbræðslunnar í Straumsvík þá ekki heldur.

Hvað varðar aðdróttanir hæstv. iðnrh. um afstöðu Kvennalista til þessa máls hef ég lítið að segja eftir þá ádrepu sem ég gaf honum í gærkvöldi. Þó verð ég að segja það að ég undrast úrræðaleysi hans og annarra þeirra sem haldnir eru slíkum kosningaskjálfta að þeir reyna að gera Kvennalistakonur að ómerkingum í stað þess að líta í eigin barm, endurmeta ástandið og gera sinn eiginn flokk meira aðlaðandi fyrir konur.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það virðist þurfa mikið af „góðri trú“ til að samþykkja þennan samning því að í heildina tekið er þessi samningur ríkisstj. við Alusuisse óviðunandi. Því leggja Samtök um kvennalista til að frv. þetta verði fellt. — Ég þakka áheyrnina.