03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Eiður Guðnason:

Ég verð nú, virðulegi forseti, að lýsa furðu minni á ummælum hæstv. fjmrh., að hann skuli segja við hv. dm. að hér hafi verið sagt að í Reykjavík búi ekkert annað en þjófar og ræningjar. (Gripið fram í.) Þetta eru svigurmæli sem ekki verður við unað og satt best að segja held ég að nærri láti að það varði þingvíti þegar svona orðbragð er viðhaft úr þessum ræðustól.

Ef hæstv. fjmrh. veit ekki hvað er að gerast í landinu, þá skal hann spyrja landsbyggðarþm. Sjálfstfl. t.d. það er ekki langt að fara hjá honum, hann getur bara hallað sér til í stólnum — hvort verslun og þjónusta og atvinnustarfsemi yfirleitt úti á landi dafni með sama hætti og hún gerir nú hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd að fjármagn hefur sogast inn á þetta svæði í mjög óeðlilegum mæli. Það er komin skekkja í þjóðfélagið. Þetta getur hæstv. fjmrh. kynnt sér allt saman ef hann kærir sig um.

En að hér búi þjófar og ræningjar — hver hefur sagt það og hver mundi voga sér að kalla samborgara sína þjófa og ræningja? Það hefur enginn maður viðhaft þau orð hér úr þessum ræðustóli og það er fyrir neðan virðingu hæstv. ráðh. að tala svona. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hér hafa þjónustugreinarnar dafnað mjög vel. Auðvitað eiga fyrirtæki að bera sig, auðvitað eiga fyrirtæki að skila arði. En fyrirtæki eiga líka að borga skatta, hæstv. fjmrh. Hér hefur verið létt skattbyrði af fyrirtækjum á sama tíma og skattbyrði einstaklinga hefur verið aukin og hert. Þetta vita allir. Það var létt sköttum af bankakerfinu og það hefur verið létt margvíslegum gjöldum af atvinnurekstrinum. En auðvitað verður atvinnureksturinn að bera sig til þess að fólk hafi atvinnu, það eru hreinar línur.

En hér hefur orðið misvægi eins og öllum er ljóst sem vilja horfa á þessi mál. Ég veit að landsbyggðarþingmönnum úr báðum ríkisstjórnarflokkunum væri ljúft að votta þetta. Ég hugsa að hæstv. fjmrh. hafi fylgst með því alveg eins og ég hvernig stöðutáknum forstjóranna rignir inn á Reykjavíkursvæðið, bílum sem kosta 1700– 1800 þús. kr. Hverjir eru vextirnir af fjármagni sem er bundið í einni svona blikkbelju, hæstv. fjmrh.? Ætli það séu ekki u.þ.b. þreföld mánaðarlaun verkamanns, 35–40 þús. kr.? Þetta sjá allir sem vilja sjá og hafa augun opin. Ég tek bara þetta eina dæmi af handahófi.

En þetta misvægi, sem hér hefur orðið, er hættulegt. Og þó svo að ég hafi sagt að ég telji verslun og þjónustu - sérstaklega hér á Reykjavíkursvæðinu — þannig í stakk búna að hún geti tekið á sig nokkuð auknar byrðar — það er bjargföst skoðun mín — þá mótmæli ég því nú enn í þriðja sinn að hér hafi verið látið að því liggja eða með nokkrum hætti sagt að í Reykjavík, þar sem við erum báðir fæddir og uppaldir, hæstv. fjmrh. og sá sem þetta mælir, búi eingöngu þjófar og ræningjar. Þetta eru ummæli sem eru fyrir neðan virðingu hæstv. fjmrh. og ég skora á hann að koma hér í ræðustól og taka þau aftur. Hann væri meiri maður af.