03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Frv. um breytingar á tekjuskattslögum, sem hæstv. fjmrh. hefur hér lagt fram, verður væntanlega sent til hv. fjh.- og viðskn. Ed. þar sem betra tækifæri gefst til að skoða efni þess en hefur gefist. Ég get vissulega sagt að ekki er ástæða til annars en að taka þetta mál til vinsamlegrar athugunar og óneitanlega hefur það vissa kosti í för með sér. Ég vil leggja áherslu á að um er að ræða skattaskipti en ekki skattalækkun til almennings, eins og mönnum hættir til að leggja áherslu á þegar málið er til umr. Það er verið að framkvæma þá stefnu fjárlagafrv. að lækka tekjuskattinn, en jafnframt er bersýnilega að því stefnt að afla annarra tekna á móti frá almenningi sem ekki mun nema lægri upphæðum en nemur þessari tekjuskattslækkun.

Í fjárlögunum var gert ráð fyrir að um yrði að ræða hækkun á söluskatti. En eftir að samningaþófi lauk og samningar höfðu verið gerðir á hinum almenna vinnumarkaði lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að hann hygðist standa við þessa tekjuskattslækkun upp á 600 millj. kr. án þess að nokkrar aðrar tekjur kæmu á móti. Nú er hins vegar allt útlit fyrir að þessar hugleiðingar hæstv. fjmrh. reynist lítið annað en góður vilji. Hann hefur annaðhvort skipt um skoðun eða verið borinn ráðum því bersýnilega er að því stefnt að afla tekna á móti sem munu nema mjög hliðstæðum upphæðum og hér er um að ræða í sambandi við lækkun tekjuskattsins.

Í yfirlitsskjali, sem hæstv. ráðh. afhenti okkur fulltrúum stjórnarandstæðinga þegar skammt var til 1. umr. fjárlaga, var gerð grein fyrir endurskoðuðum tekjum ríkissjóðs. Þar var í fyrsta lagi gert ráð fyrir að aflað yrði viðbótartekna af sölu áfengis og tóbaks með sérstakri aukahækkun tóbaks og áfengis upp á 10% umfram almennar verðlagsbreytingar, en gert var ráð fyrir að þessi breyting mundi afla ríkissjóði um 150 millj. kr. tekna. Auk þess var gert ráð fyrir að ýmsir aukaskattar ríkissjóðs yrðu hækkaðir. Er þá átt við ýmiss konar gjöld sem lögð eru á almenning sem skiptir við ríkisstofnanir, leyfisgjöld ýmiss konar og annað þess háttar. Samanlagt námu þessar viðbótartekjur ríkissjóðs 620 millj. kr. eða nokkurn veginn sömu upphæð og nemur lækkun tekjuskattsins, þ.e. annars vegar 300 millj. kr. vegna hækkunar á ýmsum aukagjöldum ríkissjóðs og hækkunar á áfengi og tóbaki og svo hins vegar 320 millj. vegna annarra viðbótartekna.

Því miður hefur ekki enn fengist upplýst hvaða tekjur eða skattar það eru sem ríkisstj. hyggst nú afla og nefndar hafa verið viðbótartekjur fram að þessu. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstj. sé búin að taka ákvörðun um það því hún hefur haft allmargar vikur til umþenkingar um það mál og nú á að fara að afgreiða tekjuskattslækkun. Auðvitað vilja menn vita hvað á að koma í staðinn og hvernig að þessu verður staðið. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh. hvort ekki sé ljóst hvernig þessara tekna verði aflað eða hvaða skattur verði fyrir valinu. Ég vænti að hann svari mér því sem hann veit um það mál.

Ég get upplýst hér að í Morgunblaðinu fyrir helgina var greint frá því að til stæði að hækka söluskatt. Reyndar var því bætt við að þingflokkur Framsfl. væri búinn að samþykkja þessa söluskattshækkun, en þingflokkur Sjálfstfl. væri ekki búinn að fallast á hækkunina og því væri málið enn óafgreitt. Þó ég sé ekki í hópi þeirra manna sem trúa öllu sem stendur í Morgunblaðinu, þá tryði ég ekki að þessi frétt væri í Morgunblaðinu ef hún hefði ekki við veruleg rök að styðjast. Hún er þess eðlis. Ég vil því eindregið skora á hæstv. fjmrh. að gera þm. grein fyrir hvernig þessi mál standa og hvort ekki sé um rétta fréttafrásögn Morgunblaðsins að ræða.

Um málið að öðru leyti vil ég segja að eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. er ekki um eintóma tekjuskattslækkun að ræða í þessu frv. Ég vona að öllum sé það ljóst. Hérna er ekki aðeins verið að skipta á tekjuskattslækkun á móti öðrum hækkunum á sköttum. Það er einnig verið að hreyfa til innbyrðis álagningu skatta innan tekjuskattskerfisins, sem m.a. kemur fram í því að persónuafsláttur er alls ekki hækkaður til fulls í samræmi við hækkun skattvísitölu um 25% sem auðvitað veldur tekjuskattshækkun hjá öllum skattgreiðendum. Þá er spurningin hvort þeir hafa þann hag af tekjuskattslækkunum skv. lið 1 og 2 að það geri meira en að jafna tekjuskattshækkunina skv. lið nr. 3. Ekki hef ég haft aðstöðu til að kynna mér þessa hlið málsins, en vænti þess að við meðferð málsins í nefnd verði okkur gerð grein fyrir hvaða áhrif þessi minni hækkun persónuafsláttarins hefur og hvort þetta kynni að valda tekjuskattshækkun í einstökum tilvikum. Ekki er hægt að útiloka það með öllu þó það megi vel vera að svo sé ekki.

Það eru sem sagt margar hliðar á þessu máli. Ljóst er að það eru fyrst og fremst hjón, þar sem annar maki hefur verulega miklar tekjur en hinn makinn tiltölulega litlar tekjur, sem njóta liðarins nr. 2. Það gefur mönnum heimild til að flytja ónýttan hluta neðsta skattþreps frá hinu tekjulægra hjóna og millifæra það til hins makans, þó ekki hærri upphæð en 100 þús. kr., og þannig að lengja neðsta skattþrep hans sem þessu nemur, en á kostnað miðþrepsins. Það er ljóst að þetta ákvæði, sem ég hef vitnað til, kemur fyrst og fremst takmörkuðum þjóðfélagshópi til góða. Ég er alls ekki viss um að það sé endilega tekjulægsta fólkið sem hér á í hlut. Í mörgum tilvikum mundi vera um að ræða að maður með mjög miklar tekjur og heimavinnandi eiginkonu hlýtur í auknum mæli að geta dregið ónýttan hluta skattþreps hjá makanum frá sínum tekjum, eða þannig skil ég þetta ákvæði.

En ég ætla ekki að orðlengja þetta, enda gefst betra tækifæri til að ræða þetta á síðara stigi, en ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðh.