03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil reyna að svara hv. 3. þm. Norðurl. v. um það frv. sem hér er og fjallar um niðurfellingu á tekjuskatti að upphæð 600 millj. kr. Það er rétt að í því fjárlagafrv. sem liggur frammi er gert ráð fyrir tilfærslum frá beinum yfir í óbeina skatta og þar með hefði verið út af fyrir sig staðið við niðurfellingu á tekjuskattinum. En það er líka rétt að það er öðruvísi skilið í fjárlagafrv. en ég vildi túlka það, þannig að þegar kjarasamningar koma út fyrir launafólk eins og raun ber vitni varð ríkisstj. sammála um að reyna að koma því þannig fyrir að hér yrði um tekjuskattslækkun að ræða án innheimtu nýrra skatta á móti. Ég tel að við það sé staðið með þeim frv. sem lögð hafa verið fram.

Hitt er svo annað mál að önnur atriði, aðrar niðurfellingar eða endurgreiðslur á söluskattinum sjálfum, t.d. sem svarar til um 1% af söluskatti, endurgreiðsla milli 400 og 500 millj. til sjávarútvegsins sem fyrirhuguð er á næsta ári, — þann tekjumissi verður að bæta upp að einhverju leyti. Það er gert á ýmsan hátt, en þó ekki með hækkun á áfengi og tóbaki eða á þeim vörum og þjónustu sem ÁTVR veitir, — eða aukasköttunum sem hv. þm. gat um, — heldur er það tekjuöflun til að mæta halla á fjárlögum af öðrum ástæðum. En eftir er að gera grein fyrir 320 millj. og ég verð að segja að ýmsar leiðir hafa verið ræddar, bæði í ríkisstj. og báðum stjórnarflokkunum. Þar á meðal er hugsanleg söluskattshækkun úr 23.5% upp í 24%, um hálft prósentustig, til að mæta niðurfellingu á heilu prósentustigi til sjávarútvegsins eða hér um bil heilu prósentustigi. Þetta er ein af mörgum leiðum sem hafa verið ræddar og það er út af fyrir sig rétt hjá Morgunblaðinu, en það er ekki búið að taka ákvörðun um tekjuöflunarleiðina. En tekjuöflunarleið verðum við að finna og mun sú leið verða kynnt þegar fjárlagafrv. verður rætt.

En að lokum vil ég benda hér á neðstu grein á bls. 3 og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa hana upp og vona að hv. 3. þm. Norðurl. v. heyri, en þar stendur:

„Skv. till. þessari lækka skattar undantekningarlaust hjá öllum að undanskildum rúmum tug framteljenda með mjög lágar tekjur en nokkurn eignarskatt. Geta skattar hækkað hjá þessum mönnum um allt að lækkun persónuafsláttar er nemur 1875 kr.“