03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Aðdragandi þessa máls kemur fram í fskj. með frv. Bréf var skrifað til Verðlagsráðs sjávarútvegsins þann 13. nóv. 1984. Kemur þar fram að óskað er eftir því í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru upp komnar að nýtt verðtímabil hæfist á næstu vikum í stað áramóta og stæði það eigi skemur en til loka vertíðar og e.t.v. lengur, m.a. með hliðsjón af gildistíma kjarasamninga.

Rn. telur að Verðlagsráð geti tekið slíka ákvörðun ef um það er samkomulag í ráðinu, eins og kemur fram í því bréfi sem fylgir með frv.

Í framhaldi af því skrifaði Verðlagsráð annað bréf þann 16. nóv. 1984 svohljóðandi:

„Á sameiginlegum fundi allra deilda Verðlagsráðs sjávarútvegsins í gær var lagt fram bréf sjútvrn. dags. 13. þ. m., þar sem rn. beinir m.a. því til Verðlagsráðsins hvort ekki sé tilefni til þess að ákveða nýtt fiskverð fyrr en áður var ákveðið o.fl. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:

„Með tilliti til álitsgerðar Sveins Finnssonar, framkvæmdastjóra ráðsins, telur Verðlagsráð sér ekki heimilt, að óbreyttum lögum, að taka upp lágmarksverð á sjávarafla til nýrrar ákvörðunar, sem taki gildi áður en gildandi verðtímabil er útrunnið.“

Meðfylgjandi er ljósrit af tilvitnaðri álitsgerð framkvæmdastjóra ráðsins er lögð var fram á fundinum. Enn fremur fylgja með verðtilkynningar ráðsins um sjávarafla o.s.frv.“

Sem fskj. III fylgir álitsgerð lögfræðings ráðsins, og í framhaldi af þessu svari er þetta frv. flutt, þar sem fram kemur að Verðlagsráð sjávarútvegsins skuli ákveða nýtt lágmarksverð á öllum sjávarafla, eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða:

„Verðlagsráð sjávarútvegsins skal ákveða nýtt lágmarksverð á öllum sjávarafla, er gildi fyrir tímabilið 21. nóv. 1984 til 31. ágúst 1985, með heimild til uppsagnar á verðtímabilinu, þó ekki fyrr en frá 1. júní 1985 varðandi almennt fiskverð.“

Þetta þýðir í stuttu máli að það er heimilt að segja upp öllu fiskverði nema almennu fiskverði, þ.e. loðnuverði, rækjuverði og ýmsum öðrum verðum sem þarf að ákveða oft með tilliti til nýrra aðstæðna á mörkuðum með tiltölulega litlum fyrirvara. Hins vegar er það svo varðandi almennt fiskverð að markaðsaðstæður breytast almennt ekki mjög snögglega og því hefur verið venjan að ákveða það verð til lengri tíma.

Hér er gengið út frá því að verð þetta sé ákveðið til 31. ágúst en þó uppsegjanlegt frá og með 1. júní 1985, þ.e. í lok vertíðar. En það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að slíkt verð gildi út vertíðina og vart hægt að hugsa sér að fara að taka verðið upp nú í byrjun desember og síðan aftur um áramót. Þar að auki mun taka nokkurn tíma að fjalla um nýtt fiskverð. Þær viðræður eru þegar hafnar, en að sjálfsögðu nokkuð í land að þeim ljúki, og nauðsynlegt að frv. þetta geti orðið að lögum sem allra fyrst til að greiða fyrir þeim viðræðum og samningum sem þar eiga sér stað.

Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt með tilliti til kjaramála sjómanna, afkomu útgerðar og tekjuskiptingar innan sjávarútvegsins almennt, en með hliðsjón af þeim atburðum sem þegar hafa orðið er nauðsynlegt að taka upp fiskverð.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. Það hefur því miður fallið niður í frv. að taka fram um gildistöku, eins og stundum hefur komið fyrir áður, og vænti ég þess að hv. sjútvn. taki það mál til athugunar, en að sjálfsögðu er nauðsynlegt að fram komi að lögin öðlist gildi þegar við samþykkt frv.