03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það voru tvær spurningar sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín. Í fyrsta lagi hver væri afkoma sérstaklega í útgerðinni og væntanlega þá í fiskvinnslunni líka. Síðustu tölur sem liggja fyrir um það mál eru frá því í sumar. Ég afhenti þau gögn á þeim tíma fulltrúum allra flokka í sjútvn. þingsins og ég vænti þess að þau hafi borist áfram til manna í viðkomandi þingflokkum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að rifja þær tölur upp, enda þær orðnar nokkuð gamlar. Hins vegar er Þjóðhagsstofnun að vinna að nýjum upplýsingum um þessi mál, m.a. vegna ákvörðunar um fiskverð. Ég hef ekki enn fengið þau gögn í hendur, þau eru ekki tilbúin, en það er stefnt að því að einhver gögn geti legið fyrir seinni hluta þessarar viku. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að rifja hér upp gamlar upplýsingar um þessi mál en mun að sjálfsögðu koma þessum upplýsingum á framfæri við hv. þm. um leið og þær liggja fyrir og ég hef fengið þær í hendur.

Önnur spurningin var hvort hér væri ekki um óvenjulangan tíma að ræða. Ég tel svo ekki vera og minni á að um almennt fiskverð var samið síðast frá og með 1. júní á s.l. vori. Þá var gengið frá fiskverði með samkomulagi milli oddamanns og seljanda, þ.e. fulltrúa útvegsmanna og sjómanna. Það er að mínu mati eðlilegt að fiskverð gildi fram yfir lok vetrarvertíðar. Það er að vísu alveg rétt hjá hv. þm. að það hefur komið fyrir að verðið hafi aðeins verið ákveðið til 1. mars. Þá voru hins vegar nokkuð aðrar aðstæður, m.a. voru þá greiddar verðbætur á laun með þriggja mánaða millibili. Ég tel því óeðlilegt að ákveða ekki fiskverð fram yfir lok vertíðar og raunar sjálfsagt að láta það gilda fram til 1. júní 1985, almennt fiskverð. Hins vegar er mjög óheppilegt að ákveða allt of langt fram í tímann um ýmsar aðrar tegundir þar sem sveiflur á mörkuðum eru oft á tíðum mun meiri. En það sem Verðlagsráðið á ekki síst að hafa hliðsjón af eru aðstæður á okkar mörkuðum. Markaðssveiflur verða yfirleitt ekki mjög snöggar að því er varðar almennt fiskverð. Nú er svo komið að allir verðjöfnunarsjóðir eru nánast tómir og ef aftur yrði markaðssveifla upp á við um einhvern tíma væri að sjálfsögðu mikilvægt að geta lagt eitthvað fyrir í Verðjöfnunarsjóðinn. Við sjáum að vísu ekki fram á það að svo stöddu.

Ég get því ekki annað en svarað spurningu hv. þm. þannig að ég telji þetta á allan hátt eðlilegt. Hér er miðað við sama gildistíma og kjarasamningarnir, en þó er sú mikilvæga undantekning að hér er heimild til uppsagnar frá 1. júní að því er varðar almennt fiskverð og á öllum öðrum tegundum hvenær sem er.