03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það að hér er vissulega um nokkuð langan tíma að ræða varðandi bindingu á fiskverði. Það má auðvitað segja að ýmislegt mæli með því að fiskverðsákvörðun verði nú gerð, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, frá 21. nóv. miðað við það sem gerst hefur á hinum almenna vinnumarkaði. Ég dreg þó mjög í efa að breyting í þessa átt verði sjómönnum almennt til hagsbóta það tímabil sem hér um ræðir.

Nú er vitað mál að sjómenn undirbúa sig til kjarabaráttu um áramót. Æði mörg, kannske velflest sjómannafélög í landinu hafa sagt upp sínum kjarasamningum miðað við þann tíma og hyggja á miklar aðgerðir til að endurheimta þá gífurlegu kjaraskerðingu sem sjómenn hafa orðið fyrir, talsvert umfram aðrar launastéttir í landinu, vegna ýmissa atriða sem margoft hafa komið hér fram á Alþingi. Með því að binda fiskverð frá 21. nóv. og allt fram í júní eða jafnvel september sýnist mér að verið sé að leggja stein í götu þeirrar kjarabaráttu sem sjómenn undirbúa sig nú til að heyja á næstu mánuðum.

Ég held að enginn mæli á móti því að sjómenn hafa tekið á sig miklu meiri kjaraskerðingu en almennt hefur gerst í landinu hjá launafólki og hefur skerðingin hjá almennum launamanni þó verið ærin. Þetta stafar auðvitað af margvíslegum ástæðum. Þar kemur kvótinn inn í, þar koma markaðsmál að sjálfsögðu inn í líka, sem erfitt er við að eiga, en eigi að síður er staðreyndin sú að sjómenn hafa tekið á sig mun meiri kjaraskerðingu en aðrir.

Ég er ekkert viss um að þetta frv. sé endilega flutt með það í huga að standa að raunverulegum kjarabótum til handa sjómönnum þetta umrædda tímabil. Ég held, eins og ég sagði áðan, að þessi breyting á fiskverðsákvörðun geti alveg eins orðið til þess að leggja stein í götu þess að sjómannasamtökin geti með eðlilegum hætti háð sína kjarabaráttu sem þau hafa nú boðað frá áramótum og binding með þessum hætti gæti orðið til þess að sjómenn ættu erfiðara um vik að sækja auknar kjarabætur á þessu tímabili. Nú er það líka ljóst að mikið af hinum verðmætari afla er svo að segja uppurið og þegar veitt þann 21. nóv. Það sem eftir er ársins eru afskaplega lítil verðmæti víðast hvar í þeim afla sem fiskast. Það styður enn þær hugmyndir mínar að það sé ekki fyrst og fremst góðvild í garð sjómannastéttarinnar sem ræður flutningi þessa frv. heldur sé hér allt eins verið að leggja stein í götu eðlilegrar kjarabaráttu af hennar hálfu. Að sjálfsögðu verður þetta allt saman kannað frekar í n. Ég tel víst að sjútvn., sem ég geri ráð fyrir að fái þetta mál til meðferðar, leiti álits t.d. Sjómannasambands Íslands og spyrjist fyrir um viðhorf þeirra samtaka til þessarar breytingar á lögunum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Liggi það fyrir að þau telji brýna þörf á að breyta á þann veg sem frv. gerir ráð fyrir og að baki liggi sú hugsjón að bæta kjör og stöðu sjómannastéttarinnar, þá er auðvitað sjálfsagt að verða við því. En ég dreg mjög í efa að málið liggi eins og það nú blasir við mér og hef því allan fyrirvara á um stuðning eða afstöðu til málsins þar til ýmsar mikilvægar upplýsingar liggja fyrir eftir að n. hefur fjallað um málið.