03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skildi hv. 3. þm. Reykv. ekki þannig að hann væri að beina þessari fsp. til mín. Ég leit ekki svo á að hann væri með almennar hugleiðingar um þessi mál því það liggur mjög skýrt fyrir af hálfu ríkisstj., eftir yfirlýsingu hennar, að ég held ég muni rétt, frá því í sumar, að hún telur að ekki eigi að taka upp vísitölubætur á laun. Það þarf að sjálfsögðu að gera viðeigandi ráðstafanir og breyta lögum til að þessi vilji ríkisstj. komist til framkvæmda. Ég hélt að þetta mál lægi alveg skýrt fyrir og ég leit ekki á þetta sem fsp. af hálfu hv. þm.

Að því er varðar fiskverðshækkun almennt, þá er það að sjálfsögðu mál sem þarf að meta með hliðsjón af afkomu sjávarútvegsins, markaðsmálum og samanburði við aðrar stéttir. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að heppilegt sé að taka upp þá siði að fiskverð breytist ávallt nákvæmlega eins og önnur laun í landinu. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvort menn trúa því, eins og mér heyrðist að hv. þm. væri hér að halda fram, að kjör fólksins í landinu yrðu almennt tryggð með vísitölum og ákvæðum í lögum. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það er afkoma þjóðarbúsins og aðstaða okkar inn á við og út á við sem hefur þar meginþýðingu. Ef aðstæður okkar á mörkuðum lagast, þá vænti ég þess að það verði til þess að hlutur sjávarútvegsins og þar með talið sjómanna verði nokkuð réttur frá því sem verið hefur. Ég tel því alls ekki að það eigi að gefa það fyrir fram að þetta skuli breytast alveg eins. Ég er almennt þeirrar skoðunar að vísitölubinding á launum, þegar hún var tekin upp, hafi skaðað sjómannastéttina og ég á von á því að margir sjómenn séu mér sammála um það að vísitölubindingin og vísitölukerfið hafi unnið gegn þeim en ekki með þeim, enda kemur það skýrt fram í lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins að þar skuli fyrst og fremst tekið tillit til markaðsaðstæðna á hverjum tíma.

Fiskverð er að sjálfsögðu mál sem þarf að semja um. Hér er aðeins verið að skapa skilyrði til þess að taka fiskverð upp um leið og mjög verulegar breytingar urðu á kjörum annarra og breytingar í þjóðfélaginu með gengisbreytingunni. En síðan þarf að fjalla um það á þeim vettvangi sem til þess er kjörinn og til þess er settur, þannig að fyrir fram er sjálfsagt ekkert hægt að segja um það hvernig þeim samningum lýkur. En ég vænti þess að allir geti verið sammála um að það er nauðsynlegt að skapa skilyrði til þess að slíkir samninga.r geti farið fram.