03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í þessu svari hæstv. sjútvrh. kom það fram að ríkisstj. hyggst leggja hér fram á Alþingi frv. um bann við vísitölugreiðslum á laun eftir 1. júní 1985. Það eru upplýsingar sem ekki hafa áður komið fram úr þessum ræðustól á því þingi sem nú situr. Mér fannst eðlilegt að knýja á um það hvaða afstöðu ríkisstj. hefði í þeim efnum. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh. hvenær þess sé að vænta að frv. um þetta komi hér fram og hvernig á því standi, úr því að ríkisstj. hefur haft þetta lengi á döfinni, að hún hefur ekki komið þessu máli fyrr frá sér. Vegna þess að það hefði auðvitað verið mjög æskilegt að þetta mál hefði t.d. legið fyrir á hv. Alþingi áður en Alþýðusambandsþing kom saman og sérkennilegt og athyglisvert að ríkisstj. skuli liggja á þessu máli einmitt fram yfir það að þessi stærstu samtök launafólks í landinu héldu sitt fjölmenna þing í síðustu viku.

En það sem mér fannst reyndar einna athyglisverðast í máli hæstv. sjútvrh. var það með hvaða hætti hann fór orðum um þá fiskverðshækkun sem nú er verið að gera ráð fyrir. Hann talaði um að það væri mjög hæpið að afgreiða fiskverð með tilliti til launaþróunar í landi. Það ætti að afgreiða fiskverð með tilliti til markaðsaðstæðna. Hér er bersýnilega verið að gefa því undir fótinn, sem hv. þm. Karvel Pálmason ýjaði að hér áðan, að það sé meiningin að taka tillit til einhverra allt annarra hluta þegar fiskverð verður ákveðið heldur en þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið í landi og jafnvel að nota þann fiskverðsramma sem hér yrði ákveðinn til að halda niðri kjörum og kaupi sjómanna í landinu. Ég get ekki látið þetta tækifæri ónotað til að mótmæla slíkum vinnubrögðum og gera kröfur til þess að sjútvn. Nd. taki alveg sérstaklega á því máli hvort ríkisstj. ætlar sér að nota þetta frv., ef að lögum verður, til þess að skapa sér og útgerðarmönnum lagalega stöðu til að þrengja frekar að kjörum sjómannastéttarinnar í landinu.